Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig líta regnskógar út?

Jón Már Halldórsson

Regnskógar myndast á stöðum þar sem úrkoma er mikil og stöðug (1700 - 4000 mm á ári) og meðalárshiti venjulega í kringum 24°C. Þar er loftraki mjög mikill eða um 80% að meðaltali, loftslagssveiflur afar litlar og hiti og úrkoma jöfn yfir árið.

Helstu regnskógasvæði heims er að finna í hitabeltinu. Þau eru:

  • Amasonlægðin umhverfis Amasonfljótið í Suður-Ameríku.
  • Stór svæði frá suðurhluta Yucatan-skaga í Mexíkó suður til El Peten og Belís í Mið-Ameríku.
  • Í Níkaragva og yfir landamæri nærliggjandi ríkja.
  • Stór svæði við miðbaug í Afríku, einkum í Kongó og Kamerún.
  • Í Suðaustur-Asíu frá Búrma, Tælandi, Víetnam, Laos og suður um eyjar Indónesíu.
  • Austurhluti Queensland í Ástralíu.

Aðstæður utan hitabeltisins geta einnig skapað góð vaxtaskilyrði fyrir regnskóga og finnast þeir á nokkrum svæðum í tempraða beltinu. Þessi svæði má finna í Bresku-Kólumbíu í Kanada, suðausturhluta Alaska, vesturhluta Oregon og Washington í Bandaríkjunum, á tveimur stöðum í gömlu Sovétríkjunum og á Nýja-Sjálandi og í Tasmaníu.

Á kortinu sést hvar hitabeltisregnskóga jarðar er að finna.

Óhætt er að segja að helsta einkenni regnskóga sé mikill líffræðilegur fjölbreytileiki. Ólíkt öðrum skógum er sjaldan ein eða fáar tegundir ríkjandi í regnskógum, heldur finnst þar geysilegur fjöldi tegunda á tiltölulega litlu svæði. Vaxtarhraði gróðurs er óvenju mikill og einnig á ótrúlegur fjöldi dýrategunda þar heimkynni sín.

Vísindamenn hafa lengi áætlað að um 50% af öllum jurta- og dýrategundum jarðar sé að finna í regnskógunum, sem þó þekja aðeins um 6% af þurrlendi jarðar. Lífmassi á hverja flatarmálseiningu í regnskógum er því sá mesti sem þekkist á jörðinni. Sem dæmi má taka að í regnskógum Borneó er talið að lífmassinn sé um 100 kg/m2 og er framleiðnin þar talin vera þrisvar til fimm sinnum meiri en í skógum tempraða beltisins.

Í regnskógum Borneó er talið að lífmassinn sé um það bil 100 kg á hvern fermetra.

Tré regnskógarins eru einnig töluvert hærri en tré laufskóganna. Laufþak regnskóganna er yfirleitt í 45-60 metra hæð, en laufþak dæmigerðs laufskógar er í um 40 metra hæð.

Það er einkennileg þversögn að þrátt fyrir hinn mikla lífmassa er jarðvegur í láglendisregnskógum afar rýr, en stærstur hluti næringarefnanna finnst í efstu 5 cm. Þetta skýrist einkum af því að í regnskógum brotna lífrænar leifar mjög hratt niður. Þegar lífvera deyr eða jurtaleifar falla til jarðar taka örverur og aðrar rotverur strax til við að brjóta þær niður. Af þessu leiðir að rótakerfi trjáa regnskóganna liggja afar grunnt í jarðveginum, en þar geta þau tekið upp nauðsynleg næringarefni um leið og rotverurnar hafa brotið þau niður á aðgengilegt form. Sveppir lifa einnig í nánu samlífi við trén og hjálpa rótunum við að taka upp vatn og næringarefni.

Í vistkerfum skóga sem liggja á norðlægari slóðum er niðurbrot lífrænna leifa og öll veðrun hins vegar mun hægari. Mikill lífrænn massi safnast því oft fyrir sem hálfrotnaðar plöntuleifar sem með tímanum verða að mó. Trén geta hins vegar ekki nýtt sér næringarefni úr lífmassanum á þessu formi. Rætur þeirra liggja því venjulega djúpt í jörðu þar sem lífræni massinn er meira niðurbrotinn og næringarefnin komin á það form sem þau geta nýtt.

Regnskógar finnast á nokkrum stöðum utan hitabeltisins. Mynd frá Daintree regnskóginum í Queensland í Ástralíu.

Stærsti hluti næringarefna í skógum á norðlægum slóðum er því oftast bundinn í hálfrotnuðum lífrænum leifum jarðvegsins. Þessu er hins vegar þveröfugt farið í regnskógum þar sem langstærstur hluti næringarefnanna er á hverjum tíma bundinn í gróðrinum sjálfum. Þetta skýrir að mestu leyti þá staðreynd að regnskógarsvæði sem hafa verið rudd og nýtt fyrir ræktað land hafa ekki reynst gjöful, ólíkt því sem gerist með skógarsvæði á norðlægum slóðum sem tekin eru undir ræktun.

Heimur regnskógarins er í raun þrískiptur; skógarbotn, undirgróður og laufþekja. Aðeins lítið brot af sólarljósinu ratar niður á skógarbotninn og þar er því venjulega mikil gróska burkna og mosa sem hafa aðlagast hinni skuggsýnu veröld. Trjábolir standa beinir og greinalausir upp í um 40 metra hæð en greinast þá allt í einu í breiða laufkrónu. Klifurjurtir eru áberandi í þessari veröld þar sem hver lífvera og jafnvel tegund þarf að berjast fyrir sinni litlu vist. Hátt uppi í trjánum sjást kannski apar og einstaka fuglar láta vel í sér heyra eða skjótast milli greina laufþykknisins. Svo má ekki gleyma þeim ótrúlega fjölda skordýra og örvera sem er að finna á þessum slóðum.

Heimildir:
  • Myers, N. 1986. The Primary Source. Tropical Forests and Our Future. W.W. Norton & Co, New York.
  • Þóra Ellen Þórhallsdóttir. 1989. "Regnskógar hitabeltisins". Náttúrufræðingurinn, 59 (1), bls. 9-37.

Myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

23.1.2008

Síðast uppfært

29.5.2024

Spyrjandi

Gyða Jóhannesdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig líta regnskógar út?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2008, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7023.

Jón Már Halldórsson. (2008, 23. janúar). Hvernig líta regnskógar út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7023

Jón Már Halldórsson. „Hvernig líta regnskógar út?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2008. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7023>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig líta regnskógar út?
Regnskógar myndast á stöðum þar sem úrkoma er mikil og stöðug (1700 - 4000 mm á ári) og meðalárshiti venjulega í kringum 24°C. Þar er loftraki mjög mikill eða um 80% að meðaltali, loftslagssveiflur afar litlar og hiti og úrkoma jöfn yfir árið.

Helstu regnskógasvæði heims er að finna í hitabeltinu. Þau eru:

  • Amasonlægðin umhverfis Amasonfljótið í Suður-Ameríku.
  • Stór svæði frá suðurhluta Yucatan-skaga í Mexíkó suður til El Peten og Belís í Mið-Ameríku.
  • Í Níkaragva og yfir landamæri nærliggjandi ríkja.
  • Stór svæði við miðbaug í Afríku, einkum í Kongó og Kamerún.
  • Í Suðaustur-Asíu frá Búrma, Tælandi, Víetnam, Laos og suður um eyjar Indónesíu.
  • Austurhluti Queensland í Ástralíu.

Aðstæður utan hitabeltisins geta einnig skapað góð vaxtaskilyrði fyrir regnskóga og finnast þeir á nokkrum svæðum í tempraða beltinu. Þessi svæði má finna í Bresku-Kólumbíu í Kanada, suðausturhluta Alaska, vesturhluta Oregon og Washington í Bandaríkjunum, á tveimur stöðum í gömlu Sovétríkjunum og á Nýja-Sjálandi og í Tasmaníu.

Á kortinu sést hvar hitabeltisregnskóga jarðar er að finna.

Óhætt er að segja að helsta einkenni regnskóga sé mikill líffræðilegur fjölbreytileiki. Ólíkt öðrum skógum er sjaldan ein eða fáar tegundir ríkjandi í regnskógum, heldur finnst þar geysilegur fjöldi tegunda á tiltölulega litlu svæði. Vaxtarhraði gróðurs er óvenju mikill og einnig á ótrúlegur fjöldi dýrategunda þar heimkynni sín.

Vísindamenn hafa lengi áætlað að um 50% af öllum jurta- og dýrategundum jarðar sé að finna í regnskógunum, sem þó þekja aðeins um 6% af þurrlendi jarðar. Lífmassi á hverja flatarmálseiningu í regnskógum er því sá mesti sem þekkist á jörðinni. Sem dæmi má taka að í regnskógum Borneó er talið að lífmassinn sé um 100 kg/m2 og er framleiðnin þar talin vera þrisvar til fimm sinnum meiri en í skógum tempraða beltisins.

Í regnskógum Borneó er talið að lífmassinn sé um það bil 100 kg á hvern fermetra.

Tré regnskógarins eru einnig töluvert hærri en tré laufskóganna. Laufþak regnskóganna er yfirleitt í 45-60 metra hæð, en laufþak dæmigerðs laufskógar er í um 40 metra hæð.

Það er einkennileg þversögn að þrátt fyrir hinn mikla lífmassa er jarðvegur í láglendisregnskógum afar rýr, en stærstur hluti næringarefnanna finnst í efstu 5 cm. Þetta skýrist einkum af því að í regnskógum brotna lífrænar leifar mjög hratt niður. Þegar lífvera deyr eða jurtaleifar falla til jarðar taka örverur og aðrar rotverur strax til við að brjóta þær niður. Af þessu leiðir að rótakerfi trjáa regnskóganna liggja afar grunnt í jarðveginum, en þar geta þau tekið upp nauðsynleg næringarefni um leið og rotverurnar hafa brotið þau niður á aðgengilegt form. Sveppir lifa einnig í nánu samlífi við trén og hjálpa rótunum við að taka upp vatn og næringarefni.

Í vistkerfum skóga sem liggja á norðlægari slóðum er niðurbrot lífrænna leifa og öll veðrun hins vegar mun hægari. Mikill lífrænn massi safnast því oft fyrir sem hálfrotnaðar plöntuleifar sem með tímanum verða að mó. Trén geta hins vegar ekki nýtt sér næringarefni úr lífmassanum á þessu formi. Rætur þeirra liggja því venjulega djúpt í jörðu þar sem lífræni massinn er meira niðurbrotinn og næringarefnin komin á það form sem þau geta nýtt.

Regnskógar finnast á nokkrum stöðum utan hitabeltisins. Mynd frá Daintree regnskóginum í Queensland í Ástralíu.

Stærsti hluti næringarefna í skógum á norðlægum slóðum er því oftast bundinn í hálfrotnuðum lífrænum leifum jarðvegsins. Þessu er hins vegar þveröfugt farið í regnskógum þar sem langstærstur hluti næringarefnanna er á hverjum tíma bundinn í gróðrinum sjálfum. Þetta skýrir að mestu leyti þá staðreynd að regnskógarsvæði sem hafa verið rudd og nýtt fyrir ræktað land hafa ekki reynst gjöful, ólíkt því sem gerist með skógarsvæði á norðlægum slóðum sem tekin eru undir ræktun.

Heimur regnskógarins er í raun þrískiptur; skógarbotn, undirgróður og laufþekja. Aðeins lítið brot af sólarljósinu ratar niður á skógarbotninn og þar er því venjulega mikil gróska burkna og mosa sem hafa aðlagast hinni skuggsýnu veröld. Trjábolir standa beinir og greinalausir upp í um 40 metra hæð en greinast þá allt í einu í breiða laufkrónu. Klifurjurtir eru áberandi í þessari veröld þar sem hver lífvera og jafnvel tegund þarf að berjast fyrir sinni litlu vist. Hátt uppi í trjánum sjást kannski apar og einstaka fuglar láta vel í sér heyra eða skjótast milli greina laufþykknisins. Svo má ekki gleyma þeim ótrúlega fjölda skordýra og örvera sem er að finna á þessum slóðum.

Heimildir:
  • Myers, N. 1986. The Primary Source. Tropical Forests and Our Future. W.W. Norton & Co, New York.
  • Þóra Ellen Þórhallsdóttir. 1989. "Regnskógar hitabeltisins". Náttúrufræðingurinn, 59 (1), bls. 9-37.

Myndir:...