Sólin Sólin Rís 03:00 • sest 24:01 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:05 • Síðdegis: 18:22 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:03 • Síðdegis: 12:08 í Reykjavík

Hvað eru kirkjugrið og hafa þau eitthvað gildi á Íslandi nú á dögum?

Hjalti Hugason

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:
Nákvæmlega hvað eru "kirkjugrið" og hafa þau eitthvað gildi á Íslandi nú á dögum?

Á miðöldum var miðstjórnarvald veikt í öllum ríkjum Evrópu, löggæslu var heldur ekki fyrir að fara og ekki var búið að framselja ríkisvaldinu einu umboð til að beita líkamlegu valdi eins og tíðkast í réttarríkjum nútímans. Menn urðu því að verja hendur sínar þætti þeim ástæða til og sækja rétt sinn með vopnavaldi ef því var að skipta. Miklu skipti og að búa yfir traustu tengslaneti frænda og mága sem veitt gætu mönnum liðsinni þegar eigið vald og styrkur hrökk ekki til. Þá voru átök tíð milli smárra og stórra grannríkja í álfunni. Evrópa var með öðrum orðum ekki friðað svæði hvorki í samskiptum milli ríkja né nágranna. Hætta á að vopnavaldi væri beitt var því stöðugt til staðar. Þetta er ástand sem líkja má við hryðjuverkaógn nútímans.

Hér á landi komu þessar aðstæður fram í að engin trygging var fyrir að dómar næðu fram að ganga þar sem þeir er sök áttu á hendur öðrum urðu sjálfir að annast fullnustu dómsins. Þegar menn voru dæmdir í útlegð (dæmir fjörbaugsmenn eða skógarmenn) var til dæmis haldinn svonefndur féránsdómur til að gera upp skuldir þeirra og skipta eignunum milli þeirra sem heimtingu áttu á þeim. Vegna alls þessa þurfti oft að beita vopnavaldi og afla sér liðstyrks höfðingja. Þá voru átök milli ætta og einstakra höfðingja (goða) tíðum hörð eins og best kemur fram á Sturlungaöld.

Á miðöldum urðu menn að verja hendur sínar þætti þeim ástæða til og sækja rétt sinn með vopnavaldi ef því var að skipta. Á myndinni sjást menn í átökum á Bayeuxreflinum, veggtjaldi frá síðari hluta 11. aldar.

Kirkjan leitaðist við að bregðast við þessum aðstæðum með svokölluðum guðsfriði (pax Dei og treuga Dei) sem fólst í að ákveðnar persónur, tími og staðir voru lýstir friðhelgir. Guðsfriðurinn náði einkum til vígðra manna, kvenna og karla, það er nunna, munka og klerka. Allt þetta fólk skyldi njóta friðhelgi. Á móti átti það að vera vopnlaust og sneyða hjá veraldlegum deilum. Það var því mikilvægt að það þekktist á búningi sínum og ytra útliti. Þetta er einnig ein af skýringunum á einlífiskröfum kirkjunnar. Með því að meina þjónum sínum að ganga í hjónaband skyldi halda þeim utan við ættarhagsmuni og átök. Þá náði guðsfriðurinn að einhverju leyti til þeirra sem ekki gátu varið sig sjálf, varnarlaustra kvenna, barna, og óvopnfærra karla en sérstakt níðingsverk þótti að beita slíkt fólk ofbeldi. Um helgar og á hátíðum kirkjunnar var bannað að beita vopnavaldi og þegar á leið var það bann einnig látið ná til föstutímabila árið um kring. Vildu menn virða kröfur kirkjunnar var svigrúm til að standa í vopnuðum átökum því takmarkað. Ekki var þó alltaf tekið mark á þessu fremur en í öðrum tilvikum þegar reynt er að beita agavaldi. Hvað rými varðar náði guðsfriðurinn til klaustra, kirkna og kirkjugarða. Þannig mátti til að mynda ekki bera vopn í kirkjum og sums staðar bera forkirkjur heiti sem minna á að þar skyldu menn leggja frá sér vopn sín (t.d. vapenhus í sænsku). Þá máttu ekki allir ganga í kirkju til dæmis þeir sem bannfærðir höfðu verið eða fallið í bann af sjálfu verkinu, þ.e. með því að drýgja sérstök afbrot sem ekki kröfðust þess að banni væri formlega lýst yfir gerandanum. Er þá komið að kirkjugriðum í þröngri merkingu.

Kirkjugrið fólust í að sá sem sóttur var með vopnavaldi mátti leita sér skjóls í kirkju eða kirkjugarði og naut friðhelgi meðan hann dvaldi þar. Í kristinrétti Árna Þorlákssonar (1237–1298) eða svokölluðum kristinrétti nýja sem lögfestur var hér 1275 er að finna nákvæm fyrirmæli um kirkjugrið. Þar segir að óháð því hvaða brot menn kynnu að hafa framið skyldu þeir njóta friðhelgi meðan þeir dveldu í kirkju eða kirkjugarði nema þeir sem framið hefðu ránmorð eða sært eða drepið mann á helgum stað. Gætu bandamenn ekki veitt þeim sem dvaldi í kirkjugriðum aðstoð átti presturinn sem þjónaði kirkjunni að sjá til þess að hann dæi ekki af þorsta, hungri eða kulda. Hindraði einhver prestinn eða aðra í þessu miskunnarverki, sækti flóttamanninn í kirkjuna eða vélaði hann úr henni eða dræpi hann þar eða í kirkjugarðinum skyldi hann falla í bann uns biskup veitti honum aflausn af ódæðinu. Sá sem leitaði kirkjugriða skyldi svo njóta þess réttar að komast fyrir dóm og bæta samkvæmt honum fyrir brot þau sem hann kynni að hafa framið.[1]

Mörg dæmi eru um að menn hafi leitað kirkjugriða hér á landi en líka um að grið hafi verið rofin á þeim og kirkjur jafnvel brotnar upp til að ná til þeirra. Nægir þar að vísa til frásagna af því er Jón Arason (1484–1550) síðasti kaþólski biskupinn á landinu og raunar á Norðurlöndum var tekinn til fanga ásamt sonum sínu, Ara lögmanni og Birni presti á Melstað, í kirkjunni á Sauðafelli í Dölum haustið 1550 skömmu fyrir aftöku þeirra.[2]

Eitt af þekktum verkum Bretans Richards Burchett (1815–1875) ber stutta titilinn Kirkjugrið. Það er frá árinu 1867.

Þau lög sem hér hefur verið vísað til og önnur hliðstæð gilda ekki nú á dögum. Um kirkjugrið hefur auðvitað líka margt breyst með auknum friði og allsherjarreglu í samfélögum hins kristna heims. Enn er þó litið á kirkjurýmið sem helgan stað og hegðun fólks í því lýtur margháttuðum reglum sem að mestu eru óskráðar. Lesendur kunna til dæmis að minnast senu úr Efstu dögum eftir Pétur Gunnarsson þar sem hljóðmaður við sjónvarpsupptöku utan messutíma opnar kókdós svo undir tók í kirkjunni með þeim afleiðingum að presturinn „(k)eyrði hann orðalaust út kirkjugólfið“.[3] Ýmsar svipaðar sögur sannar og lognar má oft heyra.

Þrátt fyrir allt hefur þó reynt á kirkjugrið jafnvel í lútherskum kirkjum og í nálægum löndum á okkar dögum. Þetta á einkum við þegar hælisleitendur stundum í hópum leita kirkjugriða og starfsfólk kirknanna kýs að fara að fyrrgreindum fyrirmælum, það er að veita húsaskjól og aðra nauðsynlega þjónustu þar til mál flóttafólksins hafa verið tekin fyrir. Stundum hafa yfirvöld virt kirkjugriðin að minnsta kosti tímabundið en einnig hefur verið ráðist til inngöngu og griðin þar með rofin.

Með hliðsjón af aðgerðum lögreglu og yfirvalda í málefnum flóttafólks og hælisleitenda sem og gagnvart aðgerðasinnum á ýmsum sviðum er svaranda mjög til efs að það muni hafa minnstu þýðingu að leita kirkjugriða hér á landi nú á dögum. Mörgum kann líka að virðast fráleitt að mögulegt sé að leita sér griða á friðhelgu svæði í nútíma lýðræðis- og réttarríkjum. Á það skal þó bent að slík svæði eru eigi að síður til nú á dögum þótt þau séu veraldleg en ekki kirkjuleg. Er þar átt við sendiráð erlendra ríkja. Svarandi lítur svo á að vel geti þær aðstæður komið upp í náinni framtíð á sviði innflytjendamála að forráðamönnum kirkna beri siðferðisleg skylda til að veita flóttamönnum húsaskjól og láta reyna á hvort fornar venjur um kirkjugrið geti reynst tæki til að knýja yfirvöld til að taka ábyrga, efnislega afstöðu til málefna einstakra hælisleitenda.

Myndir:

Tilvísanir:
  1. ^ „Kristinréttur Árna Þorlákssonar“, Járnsíða og Kristinréttur Árna Þorlákssonar, Smárit Sögufélags, útg. Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon og Már Jónsson, Reykjavík: Sögufélag, 2005, bls. 143–190, hér bls. 151–152.
  2. ^ Jón Egilsson, „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar, með formála, athugagreinum og fylgiskjölum eptir Jón Sigurðsson“, Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju I, Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag, 1856, bls. 15–136, hér bls. 93–94.
  3. ^ Pétur Gunnarsson, Efstu dagar, Reykjavík: Mál og menning, 1994, bls. 175.

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

20.11.2015

Spyrjandi

Davíð Þór Jónsson

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvað eru kirkjugrið og hafa þau eitthvað gildi á Íslandi nú á dögum?“ Vísindavefurinn, 20. nóvember 2015. Sótt 28. júní 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=71089.

Hjalti Hugason. (2015, 20. nóvember). Hvað eru kirkjugrið og hafa þau eitthvað gildi á Íslandi nú á dögum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71089

Hjalti Hugason. „Hvað eru kirkjugrið og hafa þau eitthvað gildi á Íslandi nú á dögum?“ Vísindavefurinn. 20. nóv. 2015. Vefsíða. 28. jún. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71089>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru kirkjugrið og hafa þau eitthvað gildi á Íslandi nú á dögum?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Nákvæmlega hvað eru "kirkjugrið" og hafa þau eitthvað gildi á Íslandi nú á dögum?

Á miðöldum var miðstjórnarvald veikt í öllum ríkjum Evrópu, löggæslu var heldur ekki fyrir að fara og ekki var búið að framselja ríkisvaldinu einu umboð til að beita líkamlegu valdi eins og tíðkast í réttarríkjum nútímans. Menn urðu því að verja hendur sínar þætti þeim ástæða til og sækja rétt sinn með vopnavaldi ef því var að skipta. Miklu skipti og að búa yfir traustu tengslaneti frænda og mága sem veitt gætu mönnum liðsinni þegar eigið vald og styrkur hrökk ekki til. Þá voru átök tíð milli smárra og stórra grannríkja í álfunni. Evrópa var með öðrum orðum ekki friðað svæði hvorki í samskiptum milli ríkja né nágranna. Hætta á að vopnavaldi væri beitt var því stöðugt til staðar. Þetta er ástand sem líkja má við hryðjuverkaógn nútímans.

Hér á landi komu þessar aðstæður fram í að engin trygging var fyrir að dómar næðu fram að ganga þar sem þeir er sök áttu á hendur öðrum urðu sjálfir að annast fullnustu dómsins. Þegar menn voru dæmdir í útlegð (dæmir fjörbaugsmenn eða skógarmenn) var til dæmis haldinn svonefndur féránsdómur til að gera upp skuldir þeirra og skipta eignunum milli þeirra sem heimtingu áttu á þeim. Vegna alls þessa þurfti oft að beita vopnavaldi og afla sér liðstyrks höfðingja. Þá voru átök milli ætta og einstakra höfðingja (goða) tíðum hörð eins og best kemur fram á Sturlungaöld.

Á miðöldum urðu menn að verja hendur sínar þætti þeim ástæða til og sækja rétt sinn með vopnavaldi ef því var að skipta. Á myndinni sjást menn í átökum á Bayeuxreflinum, veggtjaldi frá síðari hluta 11. aldar.

Kirkjan leitaðist við að bregðast við þessum aðstæðum með svokölluðum guðsfriði (pax Dei og treuga Dei) sem fólst í að ákveðnar persónur, tími og staðir voru lýstir friðhelgir. Guðsfriðurinn náði einkum til vígðra manna, kvenna og karla, það er nunna, munka og klerka. Allt þetta fólk skyldi njóta friðhelgi. Á móti átti það að vera vopnlaust og sneyða hjá veraldlegum deilum. Það var því mikilvægt að það þekktist á búningi sínum og ytra útliti. Þetta er einnig ein af skýringunum á einlífiskröfum kirkjunnar. Með því að meina þjónum sínum að ganga í hjónaband skyldi halda þeim utan við ættarhagsmuni og átök. Þá náði guðsfriðurinn að einhverju leyti til þeirra sem ekki gátu varið sig sjálf, varnarlaustra kvenna, barna, og óvopnfærra karla en sérstakt níðingsverk þótti að beita slíkt fólk ofbeldi. Um helgar og á hátíðum kirkjunnar var bannað að beita vopnavaldi og þegar á leið var það bann einnig látið ná til föstutímabila árið um kring. Vildu menn virða kröfur kirkjunnar var svigrúm til að standa í vopnuðum átökum því takmarkað. Ekki var þó alltaf tekið mark á þessu fremur en í öðrum tilvikum þegar reynt er að beita agavaldi. Hvað rými varðar náði guðsfriðurinn til klaustra, kirkna og kirkjugarða. Þannig mátti til að mynda ekki bera vopn í kirkjum og sums staðar bera forkirkjur heiti sem minna á að þar skyldu menn leggja frá sér vopn sín (t.d. vapenhus í sænsku). Þá máttu ekki allir ganga í kirkju til dæmis þeir sem bannfærðir höfðu verið eða fallið í bann af sjálfu verkinu, þ.e. með því að drýgja sérstök afbrot sem ekki kröfðust þess að banni væri formlega lýst yfir gerandanum. Er þá komið að kirkjugriðum í þröngri merkingu.

Kirkjugrið fólust í að sá sem sóttur var með vopnavaldi mátti leita sér skjóls í kirkju eða kirkjugarði og naut friðhelgi meðan hann dvaldi þar. Í kristinrétti Árna Þorlákssonar (1237–1298) eða svokölluðum kristinrétti nýja sem lögfestur var hér 1275 er að finna nákvæm fyrirmæli um kirkjugrið. Þar segir að óháð því hvaða brot menn kynnu að hafa framið skyldu þeir njóta friðhelgi meðan þeir dveldu í kirkju eða kirkjugarði nema þeir sem framið hefðu ránmorð eða sært eða drepið mann á helgum stað. Gætu bandamenn ekki veitt þeim sem dvaldi í kirkjugriðum aðstoð átti presturinn sem þjónaði kirkjunni að sjá til þess að hann dæi ekki af þorsta, hungri eða kulda. Hindraði einhver prestinn eða aðra í þessu miskunnarverki, sækti flóttamanninn í kirkjuna eða vélaði hann úr henni eða dræpi hann þar eða í kirkjugarðinum skyldi hann falla í bann uns biskup veitti honum aflausn af ódæðinu. Sá sem leitaði kirkjugriða skyldi svo njóta þess réttar að komast fyrir dóm og bæta samkvæmt honum fyrir brot þau sem hann kynni að hafa framið.[1]

Mörg dæmi eru um að menn hafi leitað kirkjugriða hér á landi en líka um að grið hafi verið rofin á þeim og kirkjur jafnvel brotnar upp til að ná til þeirra. Nægir þar að vísa til frásagna af því er Jón Arason (1484–1550) síðasti kaþólski biskupinn á landinu og raunar á Norðurlöndum var tekinn til fanga ásamt sonum sínu, Ara lögmanni og Birni presti á Melstað, í kirkjunni á Sauðafelli í Dölum haustið 1550 skömmu fyrir aftöku þeirra.[2]

Eitt af þekktum verkum Bretans Richards Burchett (1815–1875) ber stutta titilinn Kirkjugrið. Það er frá árinu 1867.

Þau lög sem hér hefur verið vísað til og önnur hliðstæð gilda ekki nú á dögum. Um kirkjugrið hefur auðvitað líka margt breyst með auknum friði og allsherjarreglu í samfélögum hins kristna heims. Enn er þó litið á kirkjurýmið sem helgan stað og hegðun fólks í því lýtur margháttuðum reglum sem að mestu eru óskráðar. Lesendur kunna til dæmis að minnast senu úr Efstu dögum eftir Pétur Gunnarsson þar sem hljóðmaður við sjónvarpsupptöku utan messutíma opnar kókdós svo undir tók í kirkjunni með þeim afleiðingum að presturinn „(k)eyrði hann orðalaust út kirkjugólfið“.[3] Ýmsar svipaðar sögur sannar og lognar má oft heyra.

Þrátt fyrir allt hefur þó reynt á kirkjugrið jafnvel í lútherskum kirkjum og í nálægum löndum á okkar dögum. Þetta á einkum við þegar hælisleitendur stundum í hópum leita kirkjugriða og starfsfólk kirknanna kýs að fara að fyrrgreindum fyrirmælum, það er að veita húsaskjól og aðra nauðsynlega þjónustu þar til mál flóttafólksins hafa verið tekin fyrir. Stundum hafa yfirvöld virt kirkjugriðin að minnsta kosti tímabundið en einnig hefur verið ráðist til inngöngu og griðin þar með rofin.

Með hliðsjón af aðgerðum lögreglu og yfirvalda í málefnum flóttafólks og hælisleitenda sem og gagnvart aðgerðasinnum á ýmsum sviðum er svaranda mjög til efs að það muni hafa minnstu þýðingu að leita kirkjugriða hér á landi nú á dögum. Mörgum kann líka að virðast fráleitt að mögulegt sé að leita sér griða á friðhelgu svæði í nútíma lýðræðis- og réttarríkjum. Á það skal þó bent að slík svæði eru eigi að síður til nú á dögum þótt þau séu veraldleg en ekki kirkjuleg. Er þar átt við sendiráð erlendra ríkja. Svarandi lítur svo á að vel geti þær aðstæður komið upp í náinni framtíð á sviði innflytjendamála að forráðamönnum kirkna beri siðferðisleg skylda til að veita flóttamönnum húsaskjól og láta reyna á hvort fornar venjur um kirkjugrið geti reynst tæki til að knýja yfirvöld til að taka ábyrga, efnislega afstöðu til málefna einstakra hælisleitenda.

Myndir:

Tilvísanir:
  1. ^ „Kristinréttur Árna Þorlákssonar“, Járnsíða og Kristinréttur Árna Þorlákssonar, Smárit Sögufélags, útg. Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon og Már Jónsson, Reykjavík: Sögufélag, 2005, bls. 143–190, hér bls. 151–152.
  2. ^ Jón Egilsson, „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar, með formála, athugagreinum og fylgiskjölum eptir Jón Sigurðsson“, Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju I, Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag, 1856, bls. 15–136, hér bls. 93–94.
  3. ^ Pétur Gunnarsson, Efstu dagar, Reykjavík: Mál og menning, 1994, bls. 175.

...