Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað verður um frumur sem deyja?

Margrét Helga Ögmundsdóttir

Upprunalega var spurningin svona:
  • Ég er leikskólakennari og fékk þessa spurningu frá einum 5 ára "Hvað verður um frumur sem deyja?"
Hér er einnig svarað spurningunni:
  • Hvað er frumudauði?

Stöðug endurnýjun á sér stað á frumum í mannslíkamanum; frumur skipta sér til þess að viðhalda starfsemi í vefjum á meðan aðrar deyja. Líkaminn þarf þannig að losa sig við milljónir dauðra fruma á hverri mínútu, á meðan aðrar frumur skipta sér og endurnýja vefi. Frumudauði er einnig mikilvægur í þroskun lífvera þar sem því er vandlega stýrt hvaða frumur lifa og hverjar deyja.

Í stýrðum frumudauða brotnar innihald frumunnar niður, frumubólur myndast úr frumuhimnunni sem síðan eru gleyptar af átfrumum. Þannig getur dauða fruman nýst til orkumyndunar og uppbygginar.

Meginleið frumudauða er ferli sem nefnist „stýrður frumudauði“ (e. apoptosis). Þegar fruma fer í stýrðan frumudauða skreppur hún saman og erfðaefnið í kjarna hennar byrjar að brotna niður. Allt innihald frumunnar brotnar síðan niður með hjálp ensíma, einkum kaspasa (e. caspase).

Yfirborð fruma er gert úr tvöföldu himnulagi og verður ekki niðurbrot á frumuhimnunni, heldur getur fruma í stýrðum frumudauða skipst í margar bólur (e. apoptotic bodies), sérstaklega ef um stórar frumur er að ræða. Slíkar dauðar frumur eða frumubólur hafa á yfirborði sínu sérstök prótín til merkingar. Hlutfall lípíða í innra og ytra frumuhimnulaginu er einnig mikilvægt fyrir merkingu. Fosfólípíð í frumuhimnunni (e. phosphatidylserine), sem er sértækt fyrir innra byrði himnunnar, flyst á ytra byrði dauðra fruma. Nálægar frumur, einkum svokallaðar átfrumur (e. macrophages), þekkja þessi merki og gleypa dauðu frumurnar. Þetta gerist með innfrumun átfrumanna á dauðu frumunni og er innihaldið melt í leysikornum (e. lysosome) átfrumanna. Þannig er dauðum frumum sópað upp á snyrtilegan hátt og byggingarefnið brotið niður í öðrum frumum þar sem það getur nýst áfram til orkumyndunar og uppbyggingar.

Frumudauði verður einnig ef fruma verður fyrir hnjaski, til dæmis vegna utanfrumuaðstæðna sem eru ekki hagstæðar eins og næringarskorts eða sýkingar. Þá verður frumudauði oft án stýringar og kallast það drep (e. necrosis). Frumurnar bólgna og springa að lokum og getur innihald þeirra valdið skaða í nærliggjandi frumum. Bólguviðbragð verður í vefnum, sem dregur að frumur ónæmiskerfisins og innbyrða þær dauðu frumurnar. Vegna skaðlegra áhrifa á vef er mikilvægt fyrir heilbrigða vefjastarfsemi að lágmarka slíkan frumudauða.

Mynd:

Höfundur

Margrét Helga Ögmundsdóttir

prófessor við læknadeild Háskóla Íslands

Útgáfudagur

8.1.2018

Spyrjandi

Guðlaug Ásgeirsdóttir, Súsanna Katarína Guðmundsdóttir, Arnór Gauti Haraldsson

Tilvísun

Margrét Helga Ögmundsdóttir. „Hvað verður um frumur sem deyja?“ Vísindavefurinn, 8. janúar 2018. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=71711.

Margrét Helga Ögmundsdóttir. (2018, 8. janúar). Hvað verður um frumur sem deyja? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71711

Margrét Helga Ögmundsdóttir. „Hvað verður um frumur sem deyja?“ Vísindavefurinn. 8. jan. 2018. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71711>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað verður um frumur sem deyja?
Upprunalega var spurningin svona:

  • Ég er leikskólakennari og fékk þessa spurningu frá einum 5 ára "Hvað verður um frumur sem deyja?"
Hér er einnig svarað spurningunni:
  • Hvað er frumudauði?

Stöðug endurnýjun á sér stað á frumum í mannslíkamanum; frumur skipta sér til þess að viðhalda starfsemi í vefjum á meðan aðrar deyja. Líkaminn þarf þannig að losa sig við milljónir dauðra fruma á hverri mínútu, á meðan aðrar frumur skipta sér og endurnýja vefi. Frumudauði er einnig mikilvægur í þroskun lífvera þar sem því er vandlega stýrt hvaða frumur lifa og hverjar deyja.

Í stýrðum frumudauða brotnar innihald frumunnar niður, frumubólur myndast úr frumuhimnunni sem síðan eru gleyptar af átfrumum. Þannig getur dauða fruman nýst til orkumyndunar og uppbygginar.

Meginleið frumudauða er ferli sem nefnist „stýrður frumudauði“ (e. apoptosis). Þegar fruma fer í stýrðan frumudauða skreppur hún saman og erfðaefnið í kjarna hennar byrjar að brotna niður. Allt innihald frumunnar brotnar síðan niður með hjálp ensíma, einkum kaspasa (e. caspase).

Yfirborð fruma er gert úr tvöföldu himnulagi og verður ekki niðurbrot á frumuhimnunni, heldur getur fruma í stýrðum frumudauða skipst í margar bólur (e. apoptotic bodies), sérstaklega ef um stórar frumur er að ræða. Slíkar dauðar frumur eða frumubólur hafa á yfirborði sínu sérstök prótín til merkingar. Hlutfall lípíða í innra og ytra frumuhimnulaginu er einnig mikilvægt fyrir merkingu. Fosfólípíð í frumuhimnunni (e. phosphatidylserine), sem er sértækt fyrir innra byrði himnunnar, flyst á ytra byrði dauðra fruma. Nálægar frumur, einkum svokallaðar átfrumur (e. macrophages), þekkja þessi merki og gleypa dauðu frumurnar. Þetta gerist með innfrumun átfrumanna á dauðu frumunni og er innihaldið melt í leysikornum (e. lysosome) átfrumanna. Þannig er dauðum frumum sópað upp á snyrtilegan hátt og byggingarefnið brotið niður í öðrum frumum þar sem það getur nýst áfram til orkumyndunar og uppbyggingar.

Frumudauði verður einnig ef fruma verður fyrir hnjaski, til dæmis vegna utanfrumuaðstæðna sem eru ekki hagstæðar eins og næringarskorts eða sýkingar. Þá verður frumudauði oft án stýringar og kallast það drep (e. necrosis). Frumurnar bólgna og springa að lokum og getur innihald þeirra valdið skaða í nærliggjandi frumum. Bólguviðbragð verður í vefnum, sem dregur að frumur ónæmiskerfisins og innbyrða þær dauðu frumurnar. Vegna skaðlegra áhrifa á vef er mikilvægt fyrir heilbrigða vefjastarfsemi að lágmarka slíkan frumudauða.

Mynd:

...