
Goshverinn Geysir er líklegast þekktasta jarðfræðifyrirbæri Íslands. Um aldir var hann nánast eini þekkti goshverinn í hinum vestræna heimi og hefur nafn hans ratað inn í flest erlend mál sem almennt heiti á goshverum.

Mynd af Geysisgosi í tímaritinu Sunnanfara árið 1900. Í Sunnanfara segir þetta um myndina: "Sá er munur á þessari mynd [...] og öðrum vanalegum myndum af geysisgosum, að þær eru gerðar eftir uppdráttum, en hún eftir ljósmynd (Sigf. Eym.), sem engu getur skeikað frá því sem rétt er og hefir því það fram yfir, að hún er trúrri en þær allar, en auðvitað um leið heldur óskýr eins og hlýtur að vera um hlut, sem er á hviki." (Bls. 40)

Gosvirkni á Geysissvæðinu er ákaflega sveiflukennd og liggur Geysir sjálfur núna að mestu í dvala en Strokkur gýs hins vegar án afláts og líða yfirleitt ekki nema nokkrar mínútur á milli gosa.
- Helgi Torfason. 1984. Geysir vakinn upp. Náttúrufræðingurinn 53 (1-2), 5-6.
- Helgi Torfason. 2010. The great Geysir. Geysisnefnd, Reykjavík.
- Jones, B., Renaut, R. W., Helgi Torfason og Owen, R. B. 2007. The geological history of Geysir, Iceland: a tephrochronological approach to the dating of sinter. Journal of the Geological Society 164, 1241-1252.
- Sigurður Þórarinsson. 1949. Um aldur Geysis. Náttúrufræðingurinn 19 (1), 34-41.
- Trausti Einarsson. 1949. Gos Geysis í Haukadal. Náttúrufræðingurinn 19 (1), 20-26.
- Þorbjörn Sigurgeirsson. 1949. Hitamælingar í Geysi. Náttúrufræðingurinn 19 (1), 27-33.
- Sunnanfari, 8. árgangur 1900, 5. tölublað - Timarit.is. (Sótt 27.04.2017).
- Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sóttar 27.04.2017).
Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.