Samkvæmt svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Hver eru helstu frumefni líkamans? eru 26 frumefni í líkama okkar. Fjögur þeirra, súrefni, kolefni, vetni og nitur eru langalgengust því samtals eru þau um 96% af líkamsmassa okkar.
Önnur níu eru samtals 3,9% af líkamsmassanum. Það eru kalk, fosfór, kalín, brennisteinn, natrín, klór, magnesín, joð og járn.
Þrettán önnur frumefni koma fyrir í snefilmagni og mynda samtals það 0,1% af heildarmassa líkamans sem á vantar. Þau eru ál, bór, króm, kóbalt, kopar, flúor, mangan, mólybden, selen, kísill, tin, vanadín og sink.
Þessi frumefni raðast svo saman á ýmsan hátt og mynda þannig ótal efnasambönd í líkamanum.
Á Vísindavefnum eru mörg svör sem fjalla um eintök efni eða efnasambönd í mannslíkamanum, til dæmis:- Hvaða ólífrænu efni eru í mannslíkamanum?
- Getur kopar haft skaðleg áhrif á líkamsstarfsemi okkar?
- Hver eru helstu áhrif flúors á manninn?
- Hver eru einkenni járnskorts?
- Hvað er selen og til hvers þurfum við það?
- Hvaða efni eru snefilefni?
- Hvernig er uppbygging prótína?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.