Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Laufskógar eru ríkjandi á tempruðum og frjósömum svæðum jarðar þar sem sumrin eru venjulega hlý og rök og vetur mildir. Helstu einkenni þeirra eru sumargræn tré sem fella lauf á haustin eftir að hafa skartað fallegum haustlitum. Helstu trjátegundir laufskóganna eru eik, askur, beyki og hlynur.
Laufskógabeltið er með bestu landbúnaðarsvæðum jarðar. Af þeim sökum hefur mikið verið gengið á laufskóga til þess að auka ræktarland og því eru stórir samfelldir laufskógar að miklu leyti horfnir. Enn má þó finna víðáttumikil skógarsvæði sem minna á hina miklu skóga Evrópu og vestanverðrar Asíu eins og þeir voru fyrr á öldum. Í Evrópu eru mestu laufskógarnir í austanverðri álfunni, meðal annars í Póllandi og í ríkjum fyrrum Sovétríkjanna. Einnig eru nokkuð víðáttumiklir laufskógar í austurhluta Bandaríkjanna, Austur-Asíu og á afmörkuðum svæðum í Suður-Ameríku og Eyjaálfu.
Lífbelti jarðar.
Laufskógar eru heimkynni fjölmargra dýrategunda en samsetning dýralífs er nokkuð breytileg á milli svæða og heimsálfa. Hér verða tekin dæmi um dýralíf í nokkrum laufskógum, hver í sinni heimsálfunni. Rétt er að taka fram að heimildum um fjölda dýrategunda sem finnast í þessum skógum ber ekki endilega saman og því eru þær tölur sem hér eru gefnar upp frekar hugsaðar til þess að gefa grófa mynd af stöðunni heldur en að vera endanlegur sannleikur.
Magellan-skógarnir syðst í Argentínu og Síle eru syðsta skóglendi jarðar. Þetta er svokallað kaldtemprað laufskógasvæði og er meðalárshitinn í kringum 4,5°C. Hluti þessa skóglendis er laufskógur. Dýralífið á þessu svæði er allsérstakt. Hér má finna púdú (Pudu puda) sem er smávaxnasta dádýr heims, aðeins rétt rúmir 35 cm á hæð miðað við herðakamb. Meðal annarra dýra á þessum slóðum eru fjallaljón (Puma concolor), suðræni fljótaoturinn (Lontra provocax), lamadýr (Lama guanicoe) og viscacha, smávaxið nagdýr sem minnir mjög á kanínu. Af fuglum má nefna magellanspætuna (Campephilus magellanicus), patagóníuhermifuglinn (Mimus patagonicus) og andeskondórinn (Vultur gryphus). Við sjávarsíðuna finnast meðal annars albatrossar, álkur, þernur og jafnvel mörgæsir.
Púdú (Pudu puda) er smávaxnasta dádýr heims.
Austurskógarnir í Kanada og Bandaríkjunum eru tiltölulega afskekkt svæði fyrir norðan og norðaustan vötnin miklu í Bandaríkjunum. Þeir teygja sig alla leið inn í Labador í Kanada. Í þessum skógum finnast tæplega 60 tegundir spendýra. Þar má nefna úlfa (Canis lupus), fjallaljón (Puma concolor), elgi (Alces alces), svartbirni (Ursus americanus), snjóþrúguhéra (Lepus americanus) og virginíuhjört (Odocoileus virginianus). Rétt um 200 tegundir fugla verpa að staðaldri á þessu skógsvæði, til dæmis ameríska svartöndin (Anas rubripes), trjáönd (Aix sponsa) og spæta (Dryocopus pileatus).
Bialowieza-skógur er laufskógur syðst í Póllandi. Hann teygir sig inn fyrir landamæri Hvíta-Rússlands. Um hann er fjallað sérstaklega í svari við spurningunni Hvar eru helstu frumskógar Evrópu? Bialowieza eru stærstu samfelldu leifar „frumskógarins“ sem eitt sinn þakti stóran hluta Evrópu og því um margt merkilegur. Dýralíf er í miklum blóma í Bialowieza. Í skóginum finnast tæplega 60 spendýrategundir. Meðal annars er hann helstu heimkynni evrópskra vísunda (Bison bonasus) en dæmi um önnur stór spendýr þar eru villihestar og úlfar. Yfir 250 fuglategundir hafa fundist í skóginum, þar af um 170 varpfuglar. Froskdýrategundirnar eru taldar vera 13 en þar finnast einnig 7 tegundir skriðdýra og yfir 12.000 tegundir hryggleysingja. Á vef Bialowieza-þjóðgarðsins er að finna nokkur rit á ensku sem fjalla um helstu dýrategundir í skóginum.
Helstu heimkynni evrópskra vísunda (Bison bonasus) eru í Bialowieza-skógi.
Við austurhlíðar hinna miklu Himalajafjalla má finna óvenjutegundaauðugt svæði. Þetta eru hinir svokölluðu Austur-Himalajaskógar sem þekja um 83 þúsund ferkílómetra á svæði sem tilheyrir Indlandi, Bútan og Nepal. Talið er að í þessum skógum sé að finna 183 tegundir spendýra, þar af fjórar einlendar, og 490 tegundir fugla, þar af 12 einlendar. Meðal einlendra spendýrategunda er api sem á ensku kallast Gee's golden langur (Trachypithecus geei), hodgsons-flugíkorninn (Petaurista magnificus) og brahma-hvítrottan (Niviventer brahma). Af öðrum tegundum spendýra má nefna bengal-tígrisdýrið (Panthera tigris tigris) en þetta er eitt mikilvægasta svæði þeirra, apategundina assamlubba (Macaca assamensis), skuggahléðbarða (Neofelis nebulosa) og asíska villihundinn (Cuon Alpinus). Á svæðinu er líka að finna þinskóga með bambustrjám inn á milli og þar er kjörlendi rauðpöndunnar (Ailurus fulgens).
Dýralíf í Richmond-skógunum á Suðurey á Nýja-Sjálandi er lýsandi fyrir hið sérstaka dýralíf Nýja-Sjálands. Meðal einlendra tegunda svæðisins er svartglyrna gekkó (Mokopirirakau kahutarae) og scree-skinka (Oligosoma waimatense). Einnig finnast þar fjórar tegundir risa-wetu en wetur eru náskyldar engissprettum og lifa aðeins á Nýja-Sjálandi. Þessi skordýr geta orðið allt að 10 cm á lengd og vegið rúmlega 35 grömm. Wetur eru meðal alstærstu skordýra í heimi.
Weta er með stærstu skordýrum heims og finnst aðeins á Nýja-Sjálandi.
Svona stuttur pistill getur aðeins gefið örlitla innsýn inn í hið fjölbreytta dýralíf laufskóganna. Kjarni málsins er ef til vill sá að fánan er alls ekki eins frá einu svæði til annars og í raun væri hægt að skrifa heilt svar um hvert skógsvæði fyrir sig.
Heimildir og myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr lifa í laufskógum?“ Vísindavefurinn, 3. febrúar 2017, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73062.
Jón Már Halldórsson. (2017, 3. febrúar). Hvaða dýr lifa í laufskógum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73062
Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr lifa í laufskógum?“ Vísindavefurinn. 3. feb. 2017. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73062>.