Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ibn Khaldun hét fullu nafni Abū Zayd 'Abd ar-Raḥmān ibn Muḥammad ibn Khaldūn al-Ḥaḍramī og fæddist árið 1332 í Túnis. Hann var mikill hugsuður og er þekktastur fyrir ritin Muqaddimah (inngangur) og Kitāb al-'Ibar (bók um kennslustundir). Muqaddimah er talið vera fyrsta ritið sem lítur á sagnfræði út frá bæði fræðilegu og vísindalegu sjónarmiði. Ekki var þó einungis um sagnfræðilegt rit að ræða því verkið fjallar einnig um félagsfræði, menningu, líffræði, efnafræði og hagfræði. Aðalefni bókarinnar er þó sagnfræði og styðst höfundurinn við rökfræði og vísindalegar aðferðir í söguskoðun sinni.
Ibn Khaldūn (1332-1406) var sagnfræðingur, félagsfræðingur, hagfræðingur og heimspekingur.
Hugmyndum Ibn Khaldūns um hagfræði var framan af lítill gaumur gefinn, þangað til á 19. öld. Fræðimaðurinn Adam Smith (1723-1790) er af mörgum talinn helsti brautryðjandi hagfræðinnar, og hugmynd hans um virði (e. theory of value) var sú að skiptaverðmæti hluta ætti að endurspegla vinnutímann sem fór í framleiðsluna. Á þeirri hugmynd byggði Karl Marx niðurstöður sínar um að vinnulaun þyrftu að jafngilda vinnuframleiðni. Þessar skoðanir eru að mörgu leyti líkar hugmyndum Ibn Khaldun sem færðar voru í letur um fjórum öldum fyrr.
Samkvæmt fræðum Ibn Khaldūns skiptast tekjur í tvennt; ribh (brúttótekjur) og kasb (framfærslu). Ribh myndast þegar einstaklingur vinnur „hjá sjálfum sér“ og selur afraksturinn til annarra; virði hlutarins verður þá að innihalda kostnað við hráefni og náttúruauðlindir. Það fer svo eftir samhenginu hvort ribh séu hreinar brúttótekjur eða hvort hagnaður myndist líka. Kasb verður til þegar einstaklingur vinnur fyrir sjálfan sig. Allar tekjur, hvort sem um er að ræða ribh eða kasb, myndast í gegnum fyrirhöfn eða viðleitni fólks. Þó virði hluta innihaldi virði hráefnis þá eru það vinnan og fyrirhöfnin sem eykur virði þeirra og þannig byggist upp auðsæld og ríkidæmi, samkvæmt Ibn Khaldun. Sé dregið úr fyrirhöfn manna gæti þróunin farið í gagnstæða átt.
Ein af þekktustu kenningum Ibn Khaldūns tekur á þróun félagshópa og kemur úr Muqaddimah. Hún kallast 'aṣabiyyah, að binda saman, og fjallar um hvernig samstaða og sterkur félagsandi hópa sé lykillinn að skilningi á risi og hnignun stjórnmálaafla í aldanna rás. Fyrst koma flokkar sem sigra þá sem fyrir eru. Fyrrnefndu hóparnir sigra vegna samstöðu og félagsanda innan hópsins en þeir síðarnefndu missa völdin vegna minnkandi samstöðu. Næsta kynslóð einbeitir sér síðan að öðrum málefnum, til dæmis listum og menningu, og við það tekur veldi þeirrar kynslóðir að hnigna. Þá tekur annar hópur yfir sem býr yfir meiri samstöðu. Mikið er til í þessari kenningu og líklega er hægt að yfirfæra hana á marga atburði mannkynssögunnar, til dæmis má nefna yfirráð múslima, á svæði sem kallaðist Al-Andalus og spannaði stóran hluta Íberíuskaga (svæði sem nú tilheyrir Spáni og Portúgal), frá upphafi 8. aldar og fram að lokum þeirrar 15., og síðar undanhaldi þeirra og yfirtöku Spánverja.
Ibn Khaldūn gegndi mikilvægu hlutverki í stjórnmálum á hnignunartímabili hans. Skipta má lífi hans í þrjú tímabil; fyrstu tveir áratugirnir fóru í uppvöxt og grunnmenntun, næstu tveir eða svo fóru í áframhaldandi menntun og ýmis pólitísk ævintýri og síðustu þremur áratugunum varði hann sem fræðimaður, kennari og dómari í Egyptalandi.
Talið er að fjölskylda hans hafi fært sig frá Jemen til Spánar á 8. öld þegar múslimar náðu áhrifum á Íberíuskaga. Fjölskylda hans var áhrifamikil á sviðum stjórnmála og menntunar á Spáni. Í kjölfar þess að Spánverjar endurheimtu land sitt í umsátrinu um Sevilla (sp. La Reconquista de Sevilla) í kringum 1248 færði fjölskyldan sig yfir til Túnis. Þar sem Ibn Khaldūn var af mennta- og áhrifafólki kominn hlaut hann góða menntun undir handleiðslu frægustu kennara Túnis. Hann lærði íslömsk fræði, heimspeki, bókmenntafræði, náttúrufræði og arabísku.
Talið er að Ibn Khaldūn hafi fæðst í þessu húsi í Túnis hinn 27. maí árið 1332.
Ibn Khaldun var afar metnaðarfullur og sóttist eftir mikilvægum pólitískum stöðum. Valdarán leiddi til þess að Ibn Khaldun elti kennara sinn til Fez í Marokkó og þar hóf hann feril sinn sem ritari soldánsins Abu Inan, þá einungis tvítugur. Á þessum tíma ríkti mikill glundroði í Túnis, Marokkó og Al-Andalus og Ibn Khaldun þurfti að þjóna mismunandi herrum með mismunandi málstað á hverjum tíma. Hann vildi þó öðlast veigameiri sess og lagði því á ráðin gegn soldáninum til að koma Abu Abd Allah, fyrrverandi amír af Bougie, aftur til valda. Þetta ráðabrugg varð til þess að Ibn Khaldun var settur í fangelsi árið 1356 og sat þar í 22 mánuði eða þar til Abu Inan lést.
Eftir að hafa komist í vinfengi við hinn fræga vesír Ibn al-Khatib var Ibn Khaldun sendur til Sevilla fyrir hönd Granada til þess að semja við Pedro I „hinn grimma“, konung af Castile og León, sem ríkti yfir næstum öllum Íberíuskaga. Pedro bauð honum stöðu við hirð sína, sem Ibn Khaldun afþakkaði en þáði í staðinn þorp sem soldáninn af Granada bauð honum og þangað flutti hann fjölskyldu sína. En „óvinir og leynimakkarar“ urðu til að skapa honum óvild háttsettra manna og draga hollustu hans í efa svo hann sá sér vænstan kost að flytja sig enn um set. Sú ákvörðun leiddi hann til Bougie (nú Béjaïa), sem er hafnarborg um 200 km austur af Algeirsborg. Næsta áratuginn flakkaði hann bæði milli vinnuveitenda og staða, og fór frá Bougie til Tlemcen (nú Tilimsān) rúmum 600 km vestar, svo til Biskra, Fès og að lokum aftur til Granada.
Á þessum tímapunkti þótti Ibn Khaldun orðið umdeildur og árið 1375 ákvað hann að taka sér frí frá stjórnmálatengdum málefnum og leitaði til Awlād 'Arīf –ættbálksins, sem skaut skjólshúsi yfir hann og fjölskyldu hans í kastalanum Qal'at ibn Salāmah nálægt bænum Frenda í Alsír. Þar dvaldi hann, „laus við daglegt amstur“, um fjögurra ára skeið og skrifaði meistaraverk sitt; Muqaddimah, eða inngang að heildarsögu Araba og Berba, Kitāb al-'Ibar, sem hann byrjaði einnig að skrifa á sama tíma. Inngangurinn skiptist í sex hluta. Í þeim fyrsta skrifar Ibn Khaldun almennt um félagsfræði, í hlutum 2 og 3 um félagsfræði stjórnmála, í hluta 4 um félagsfræði borgarlífernis, í þeim fimmta um félagslega hagfræði og þeim sjötta og síðasta um félagsfræði þekkingar. Rauði þráðurinn er svo áðurnefnd 'aṣabiyyah sem heldur öllu saman. Heimildasöfnun fyrir ritin, og mögulega einhver fortíðarþrá, dró hann svo aftur inn í borgarlífið og hann settist að í Túnis og nokkrum árum síðar í Alexandríu í Egyptalandi.
Ibn Khaldūn er þekktastur fyrir sagnfræðiritið Muqaddimah (Inngangur). Hann nýtti bæði rökfræði og vísindalegar aðferðir í söguskoðun sinni en það hafði ekki verið gert áður. Ibn Khaldūn prýðir peningaseðil í heimalandi sínu, Túnis.
Allt frá því að ritið Muqaddimah var uppgötvað af evrópskum fræðimönnum hefur það verið mikils metið. Hugsun Ibn Khalduns stendur fyrir byltingarkenndri breytingu þess tíma, en því miður var enginn til að taka við keflinu. Áhrifa hans gætti þó í rannsóknarvinnubrögðum nemenda hans í Kaíró, og á 16. og 17. öld tóku ósmanskir fræðimenn að sýna verkum hans áhuga. Hluti Muqaddimah var þýddur yfir á tyrknesku á 18. öld en það var þó ekki fyrr en eftir 1860, þegar hann hafði verið þýddur í heild sinni yfir á frönsku, að snilldarverk Ibn Khaldūns náðu til markhóps á alþjóðavísu.
(Sótt 22.06.2022).
Heimildir:
Issawi, Charles. „Ibn Khaldun.“ Encyclopedia Britannica Online. (Sótt 15.6.2018).
Khalil, Elias L. „Ibn Khaldûn on Property Rights, The Muqaddimah: An Introduction to History.“ Journal of Institutional Economics 3, no. 02 (2007): 227-38. doi:10.1017/s1744137407000677.
Lewis, B., and J. Schacht. Encyclopedia of Islam. Vol. III. H-IRAM. Leiden: E.J. Brill, 1965.
Ibn Khaldun kassus - Stytta af Ibn Khaldoun. Myndrétthafi er AksilTigre. (Sótt 06.04.2017.) Birt undir leyfi Creative Commons CC BY-SA 4.0-leyfi.
Dar Ibn Khaldoun - Hús Ibn Khaldoun í Túnis. Myndrétthafi er م ض. (Sótt 06.04.2017.) Birt undir leyfi Creative Commons CC BY-SA 3.0.
10 TND obverse - Túniskur 10-dínara seðill. Myndrétthafi er banknotes.it. (Sótt 06.04.2017.) Birt undir leyfi Creative Commons CC BY-SA 3.0
Frumgerð þessa svars var upprunalega unnin í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2016. Þórir Jónsson Hraundal hafði umsjón með námskeiðinu.
nemendur í Mið-Austurlandafræði og GrH. „Hvað getið þið sagt mér um Ibn Khaldun?“ Vísindavefurinn, 25. júlí 2022, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73815.
nemendur í Mið-Austurlandafræði og GrH. (2022, 25. júlí). Hvað getið þið sagt mér um Ibn Khaldun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73815
nemendur í Mið-Austurlandafræði og GrH. „Hvað getið þið sagt mér um Ibn Khaldun?“ Vísindavefurinn. 25. júl. 2022. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73815>.