Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er hægt að mjólka hval? Eru einhverjir sem selja hvalamjólk?
Áður en þessari spurningu er svarað er rétt að útskýra fyrst hvalaspenann. Eins og aðrar spendýramæður hafa hvalamæður spena. Speninn er að vísu ekki sýnilegur nema þegar hann er örvaður. Spenarnir eru tveir og staðsettir aftarlega á kviði, rétt framan við stirtlu og sporð. Hvor speni um sig er geymdur inni í rauf á kviðnum. Þegar kálfurinn gerir sig tilbúinn til að sjúga er líklegt að hann örvi spenann með því að ýta trjónunni á spenaraufina. Við þetta ýtist speninn væntanlega út um raufina. Ekki er vitað með vissu hvernig kálfurinn sýgur mjólkina en líklega rúllar kálfurinn tungunni umhverfis spenann og sýgur hann svo. Jafnframt er móðirin fær um að sprauta úr spenanum upp í kálfinn. Þetta er aðlögun að lífinu neðansjávar og minnkar líkur á að kálfurinn sjúgi upp í sig sjó og flýtir brjóstagjöfinni því kálfurinn verður að halda niðri í sér andanum á meðan.
Það er því nokkuð ljóst að það væri afar krefjandi verkefni að mjólka hval en þó kannski mögulegt gegn því að hvalurinn væri mjög samstarfsfús. Afar ólíklegt að hægt sé að mjólka villt dýr í náttúrunni. Aftur á móti hafa höfrungar í haldi, til dæmis stökklar (Tursiops truncates), verið mjólkaðir í þágu vísinda. Þau kvendýr hafa vissulega verið vel þjálfuð og því samstarfsfús ólíkt því sem gerist í náttúrunni.
Hnúfubakur. Ekki er vitað með vissu hvernig kálfurinn sýgur mjólkina en líklega rúllar kálfurinn tungunni umhverfis spenann og sýgur hann svo. Jafnframt er móðirin fær um að sprauta úr spenanum og upp í kálfinn.
Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á mjólk hvala hafa oftast byggt á sýnum úr veiddum kúm, í flestum tilvikum er um að ræða mjólk sem tekin er úr óléttum kvendýrum, en ekki dýrum með kálf á spena. Nokkur dæmi eru þó um það en í dag er óheimilt að veiða hvalkú sem er með kálf og þess vegna er mjólk af því tagi sjaldnast aðgengileg.
Að því sögðu er harla ólíklegt að einhver hafi reynt að koma hvalamjólk á markaðinn. Ekki er aðeins nánast ógerlegt að safna mjólk úr lifandi hvalkúm heldur væri mjólkin líklega sérlega ólystug fyrir mannfólk og alls ekki sniðin að næringarþörf okkar.
Hvalamjólkin er nokkuð ólík spendýramjólk landspendýra og inniheldur aðeins um 50-55% vatn á meðan 45-50% hennar er þurrefni. Það gerir mjólkina verulega þykka, helst væri hægt að líkja henni við tannkrem. Nánar tiltekið inniheldur hvalamjólkin um 22-40% fitu eða um 10 sinnum meiri fitu en mannamjólkin. Mjólkin er feitust meðal skíðishvala sem leggja í árlegt far, líkt og hnúfubakar, steypireyðar og hrefnur. Hún er einnig prótínrík eða um 12-13% af innihaldi, það er um 8 sinnum meira prótín en í mannamjólkinni.
Þykkt hvalamjólkur er slík að hún minnir helst á tannkrem. Vísindafólk um miðbik 20. aldar sem bragðaði á mjólkinni lýsti henni sem afar feitri og með miklum lýsiskeim.
Það sem er jafnframt áhugavert við hvalamjólkina er að hún inniheldur mjög lágt hlutfall mjólkursykurs (kolvetna) ólíkt kúa- og mannamjólkinni og í sumum tilfellum er hún alfarið án laktósa. Mjólkursykurinn er mikilvægur orkugjafi fyrir ungviði spendýra. Aftur á móti er því ekki eins farið hjá kálfum hvala þar sem móðirin þarf að nýta mikið af kolvetnum þegar hún fer í far frá fæðustöðvum og til suðrænna æxlunarstöðva. Einnig þarf hún að fasta á þessum tíma og á því ekki kolvetni á lausu til að veita í mjólkina. Þetta á einna helst við um skíðishvali sem eru mikil fardýr, en á móti er mjólkin verulega feit og gerir kálfinum kleift að fitna og þyngjast hratt. Fitusamsetning mjólkurinnar er sú sama og finnst í spiklagi hvalanna og því líklegt að mjólkin safnist hratt upp sem spikforði í kálfinum.
Vísindafólk sem sinnti rannsóknum á hvalamjólk um miðbik 20. aldar lagði sér mjólkina til munns í þeim tilgangi að bera hana saman við manna- og kúamjólk. Þar er mjólkinni lýst sem afar feitri og með miklum lýsiskeim. Það kemur heim og saman við það að hvalamjólkin er gífurlega fiturík og inniheldur fitusýrur sem byggja upp hvalaspikið.
Heimildir:
Akers, R.M., 2016. Lactation and the mammary gland. John Wiley & Sons.
Johnson, G., Frantzis, A., Johnson, C., Alexiadou, V., Ridgway, S. and Madsen, P.T., 2010. Evidence that sperm whale (Physeter macrocephalus) calves suckle through their mouth. Marine mammal science, 26(4), pp. 990-996.
Lauer, B.H. and Baker, B.E., 1969. Whale milk. I. Fin whale (Balaenoptera physalus) and beluga whale (Delphinapterus leucas) milk: gross composition and fatty acid constitution. Canadian journal of zoology, 47(1), pp. 95-97.
Oftedal, O.T., 1997. Lactation in whales and dolphins: evidence of divergence between baleen- and toothed-species. Journal of mammary gland biology and neoplasia, 2(3), pp. 205-230.
Oftedal, O.T., 2000. Use of maternal reserves as a lactation strategy in large mammals. Proceedings of the Nutrition Society, 59(01), pp. 99-106.
Ridgway, S., Kamolnick, T., Reddy, M., Curry, C. and Tarpley, R.J., 1995. Orphan-induced lactation in Tursiops and analysis of collected milk. Marine Mammal Science, 11(2), pp. 172-182.
Myndir:
Humpback whale - Wikipedia. Myndrétthafi er U.S. National Oceanic and Atmospheric Administration. (Sótt 04.06.2017).
Edda Elísabet Magnúsdóttir. „Er hægt að mjólka hvali og selja úr þeim mjólkina?“ Vísindavefurinn, 2. júní 2017, sótt 10. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74086.
Edda Elísabet Magnúsdóttir. (2017, 2. júní). Er hægt að mjólka hvali og selja úr þeim mjólkina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74086
Edda Elísabet Magnúsdóttir. „Er hægt að mjólka hvali og selja úr þeim mjólkina?“ Vísindavefurinn. 2. jún. 2017. Vefsíða. 10. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74086>.