Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir loftmengun sem eitt helsta umhverfisvandamál nútímans. Samkvæmt mati stofnunarinnar er hægt að rekja allt að sjö milljón dauðsföll á ári til loftmengunar og talið er að flest þeirra orsakist af fínu svifryki (IARC, 2013; WHO, 2016, 2017; HEI, 2017).
Svifryk, sem eru litlar agnir í lofti, er yfirleitt mælt í míkró-grömmum á rúmmetra (µg/m3). Algengast er að talað sé um PM10, sem eru agnir með þvermál minna en 10 µm (10×10-6 m), eða fínt svifryk, PM2,5 (þvermál minna en 2,5 µm). Þannig er PM2,5 hluti af PM10. Svifryk sem er 0,1 µm til 1 µm í þvermál getur svifið um í loftinu í marga daga, jafnvel vikur, og því borist langar leiðir frá uppsprettunum.
Skýringarmynd sem sýnir þvermál svifryksagna í samanburði við þvermál mannshárs og fjörusands. Lengdareiningin míkron er einn milljónasti úr metra. PM er skammstöfun á ensku orðunum particulate matter.
Svifryk, PM10 og minna, kemst inn í öndunarfæri manna. Stærri agnir en PM10 eru síaðar út í nefi og nefholi, en PM10 ná niður í lungnaberkjurnar og allra smæstu agnirnar komast niður í lungnablöðrur og þaðan í blóðrásarkerfið. Magn agna í öndunarfærum barna getur verið 2-4 sinnum meira en hjá fullorðnum einstaklingum (Ginsberg o.fl., 2005) og börn eru einnig sérlega útsett fyrir neikvæðum heilsufarsáhrifum loftmengunar (Knibbs o.fl., 2011). Áhrif PM2,5 eru talin meiri en stærri agnanna þegar kemur að langtíma útsetningu. Til að mynda hafa rannsóknir sýnt að dánartíðni vegna allra orsaka eykst um 6-13% fyrir hverja 10 µg/m3 aukningu í PM2,5 en um 0,2-0,6% fyrir hver 10 µg/m3 vegna PM10 (WHO, 2007). Hins vegar hafa rannsóknir einnig sýnt að gróft svifryk (milli PM2,5 og PM10) getur haft jafn mikil áhrif á dánartíðni og fínt svifryk (Meister o.fl., 2011, 2012). Talið er að svifryksmengun stytti ævina að meðaltali um 9 mánuði í Evrópu (WHO, 2013).
Áhrif svifryks á heilsu eru margvísleg og vel staðfest. Áhrifanna gætir bæði vegna skammtíma útsetningar (klukkustundir, dagar) og langtíma mengunar (mánuðir, ár) (Madsen o.fl., 2012). Helstu sjúkdómarnir sem svifryksmengun hefur verið tengd við eru öndunarfærasjúkdómar og hjarta- og æðasjúkdómar. Heilsufarsbrestir koma fram sem versnandi einkenni sjúkdómanna, sem sjá má í aukningu í innlögnum á spítala vegna þeirra auk hærri dánartíðni af sömu sökum (Krzyzanowski o.fl., 2005; Pope III & Dockery, 2006). Til viðbótar geta atburðir með háum styrk svifryksmengunar valdið heilablóðföllum, hjartaáföllum, hjartsláttartruflunum, hærri blóðþrýstingi jafnvel hjá yngri einstaklingum (undir 55 ára) og skyndidauða (Mossman o.fl., 2007; Madsen o.fl., 2012, Dvonch o.fl., 2009). Einnig hefur verið sýnt fram á að svifryksmengun getur dregið úr lungnaþroska barna (WHO, 2003; Madsen o.fl., 2012). Loftmengun hefur einnig verið tengd við hærri dánartíðni vegna lungnakrabbameins (Künzli o.fl., 2011; WHO, 2013) og nýleg rannsókn á áhrifum fíns svifryks (PM2,5) á fjölda dauðsfalla eldri borgara sýndi að aukning um 10 µg/m3 olli 1,42 fleiri dauðsföllum fyrir hverja milljón sem varð fyrir mengun samanborið við þá sem ekki urðu fyrir henni (Di o.fl., 2017).
Loftmengun í London í apríl 2014.
Smæstu agnirnar sem ná niður í lungnablöðrur og í blóðið eru taldar geta borist til heilans og valdið þar bólgum sem tengdar eru við elliglöp og Alzheimerssjúkdóm (Cacciottolo o.fl., 2017). Örfínar agnir (<0,1 µm) eru taldar geta komist í gegnum frumuveggi (Donaldson o.fl., 2004; Knibbs o.fl., 2011), safnast fyrir í heila og haft áhrif á þroska barna (Calderon-Garciduenas o.fl., 2004; Rees, 2017) og farið gegnum fylgjuna til fósturs (Wick o.fl., 2010). Einnig aukast líkurnar á því að börn fæðist of snemma eða séu léttari séu mæður þeirra útsettar fyrir loftmengun á meðgöngunni (Lamichhane o.fl., 2015; Imperal, 2017). Til viðbótar hefur útsetning fyrir fínu svifryki verið tengd við slæm áhrif á gæði sáðfrumna (Lao o.fl., 2017; Wu o.fl., 2017).
Svifryk vegna bruna virðist meira heilsuspillandi en svifryksagnir frá náttúrulegum uppsprettum (WHO, 2003), en efni á borð við PAH eða þungmálma geta verið áföst við svifryksagnirnar frá bruna. Engu að síður hefur fundist samband milli svifryks frá náttúrulegum uppsprettum og neikvæðra heilsufarsáhrifa (Brunekreef & Forsberg, 2009), svo sem aukinni dánartíðni (Perez o.fl., 2008; Meister o.fl., 2012) og aukinni tíðni öndunarfærasjúkdóma (Meister & Forsberg, 2009).
Svifryk af mannavöldum kemur frá svo að segja allri starfsemi, en mest frá bruna eldsneytis, umferð og iðnaði.
Rannsóknir á áhrifum svifryks á heilsu á Íslandi eru enn sem komið er fáar en benda til sambærilegra heilsufarsáhrifa (Carlsen o.fl., 2015) og engin ástæða er til að ætla að áhrifin séu minni hérlendis. Í rannsókn frá árinu 2012 mátti sjá samband milli svifryksmengunar í Reykjavík og aukinnar úttektar á astmalyfjum. Í kjölfar 10 µg/m3 hækkunar í þriggja daga meðaltalsstyrkleika svifryks í Reykjavík jukust astmalyfjaúttektir um 1% þremur til fimm dögum seinna (Carlsen o.fl., 2012).
Heilsuverndar- eða viðmiðunarmörk eru sett til að reyna að vernda viðkvæmustu einstaklingana og draga úr áhrifum mengunar á heilsu (WHO, 2007). Minna er vitað um áhrif svifryks í lágum styrk heldur en áhrif þess í háum styrk en talið er að það séu engin neðri mörk þar sem svifryksmengun hefur engin áhrif (Huttunen o.fl., 2012; Makar o.fl., 2017).
Heimildir:
Brunekreef B, Forsberg B. 2005. Epidemiological evidence of effects of coarse airborne particles on health. Eur Respir J., 26: 309–318.
Calderon-Garciduenas, L., W. Reed, R. R. Maronpot, C. Henriquez-Roldan, R. Delgado-Chavez, A. Calderon-Garciduenas and et al. 2004. Brain inflammation and alzheimer's like pathology in individuals exposed to severe air pollution. Toxicol Pathol., 32: 650-658.
Ginsberg, G. L., B. P. Foos & M. P. Firestone. 2005. Review and Analysis of Inhalation Dosimetry Methods for Application to Children’s Risk Assessment. Journal of Toxicology and Environmental Health, Part A Vol. 68(8).
Health Effects Institute (HEI). 2017. State of Global Air 2017. Special Report. Boston, MA, Health Effects Institute.
Huttunen K, Siponen T, Salonen I, Yli-Tuomi T, Aurela M, Dufva H, Hillamo R, Linkola E, Pekkanen J, Pennanen A, Peters A, Salonen RO, Schneider A, Tiittanen P, Hirvonen MR, Lanki T. 2012. Low-level exposure to ambient particulate matter is associated with systemic inflammation in ischemic heart disease patients. Environmental Research, 116: 44-51.
Knibbs, L. D., T. Cole-Hunter and L. Morawska. 2011. A review of commuter exposure to ultrafine particles and its health effects. Atmospheric Environment, 45: 2611-2622.
Krzyzanowski, M., Kuna-Dibbert, B., Schneider, J. (Eds.). 2005. Health Effects of Transport-related Air Pollution. WHO Press.
Künzli N, Perez L, von Klot S, Baldassarre D, Bauer M, Basagana X, et al. 2011. Investigating air pollution and atherosclerosis in humans: concepts and outlook. Prog Cardiovasc Dis., 53(5): 334-43.
Meister, K., Johansson, C., Forsberg, B., 2012. Estimated Short-Term Effects of Coarse Particles on Daily Mortality in Stockholm, Sweden. Environ Health Persp., 120: 431-436.
Mossman, B. T., P. J. Borm, V. Castranova, D. L. Costa, K. Donaldson and S. R. Kleeberger. 2007. Mechanisms of action of inhaled fibers, particles and nanoparticles in lung and cardiovascular diseases (commentary). Particle and Fibre Toxicology, 4(4): 1-10.
Pérez, N., Pey, J., Querol, X., Alastuey, A., Lopez, J.M., Viana, M., 2008. Partitioning of major and trace components in PM10–PM2.5–PM1 at an urban site in Southern Europe. Atmospheric Environment, 42: 1677–1691.
Pope, C. A. and Dockery, D. W. 2006. Health effects of fine particulate air pollution: Lines that connect. J. Air Waste Manage., 56: 709 - 742.
Rees, N. 2017. Danger in the air: How air pollution may be affecting the brain development of young children around the world. UNICEF Working Paper.
Wick, P., A. Malek, P. Manser, D. Meili, X. Maeder-Althaus, L. Diener and et al. 2010. Barrier capacity of human placenta for nanosized materials. Environ Health Perspect, 118: 432-436.
Þröstur Þorsteinsson og Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir . „Hvaða áhrif hefur svifryk á heilsu fólks?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2018, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75137.
Þröstur Þorsteinsson og Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir . (2018, 23. janúar). Hvaða áhrif hefur svifryk á heilsu fólks? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75137
Þröstur Þorsteinsson og Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir . „Hvaða áhrif hefur svifryk á heilsu fólks?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2018. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75137>.