Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Helga Rut Guðmundsdóttir er dósent í tónlist/tónmennt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa aðallega verið á sviði tónskynjunar og tónlistarþroska barna. Helga Rut er menntuð sem tónmenntakennari en lauk síðar meistara- og doktorsprófi í tónlistarmenntunarfræðum frá McGill-háskóla í Kanada.
Hluti af rannsóknum Helgu Rutar lúta að tónmenntakennslu í íslenskum grunnskólum. Þá hefur hún skoðað inntak og starfshætti í tónmenntakennslu en einnig viðhorf til námsgreinarinnar sem hluta af skyldunámi. Þessar rannsóknir eru birtar í íslenskum menntatímaritum. Á þessu ári kemur út bókarkafli eftir hana í erlendri bók um norrænt samstarf um menntun tónlistarkennara og fjallar sá kafli um tónlistarmenntun á Íslandi og hlut Íslands í þessu norræna samstarfi síðastliðna tvo áratugi.
Rannsóknir Helgu Rutar tengjast meðal annars tónlistarþroska barna og söngtöku á fyrstu mánuðum og árum ævinnar.
Rannsóknir Helgu Rutar hafa meðal annars fjallað um þroskatengda þætti í tengslum við getu barna til að heyra fleira en eina laglínu í einu þegar þau hlusta á tónlist en einnig þroskatengda færni við að lesa nótur. Þessar rannsóknir hafa birst í virtum erlendum tímaritum á sviði tónlistarmenntunarrannsókna, svo sem Psychology of Music, Journal of Research in Music Education, International Journal of Research in Music Education og Music Education Research. Einnig skrifaði hún kafla í bókina The Oxford Handbook of Singing.
Í tæpan áratug hefur Helga Rut tekið þátt í stóru erlendu rannsóknarverkefni (AIRS: Advancing Interdisciplinary Research in Singing) og hefur setið í stjórn þess frá 2012. Verkefnið felst í því að samhæfa söngrannsóknir fjölda fræðimanna frá 15 löndum, þvert á rannsóknarsvið. Tengt þessu verkefni hefur hún rannsakað söngtöku barna á fyrstu mánuðum og árum ævinnar. Töluvert er vitað um máltöku barna en minna um söngtöku og áhrif hennar á máltökuferlið. Helstu niðurstöður þessara rannsókna benda til þess að náin tengsl séu milli tals og söngs. Einnig hefur komið í ljós að söngfærni ungra barna virðist almennt hafa verið vanmetin í niðurstöðum eldri rannsókna.
Um þessar mundir ritstýrir Helga Rut fræðiriti sem byggir á niðurstöðum frá þeim hluta AIRS-rannsóknarhópsins sem rannsakað hafa hvernig manneskjan lærir að syngja í ólíkum menningarheimum frá vöggu til grafar. Þetta fræðirit mun koma út hjá Routledge-útgáfunni.
Helga Rut fæddist 3. mars 1970. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands með tónmennt sem kjörsvið. Hún lagði stund á framhaldsnám við McGill-háskóla í Montreal, Kanada og lauk þaðan M.A.-gráðu 1997 og Ph.D.-gráðu 2003. Árið 2000 var hún ráðin lektor í tónmennt við Kennaraháskóla Íslands og hefur síðan þá starfað við menntun kennaraefna. Nú gegnir hún stöðu dósents við Menntavísindasvið Háskóla Íslands þar sem hún kennir leikskólakennurum, grunnskólakennurum og tómstundafræðingum um mikilvægi tónlistar í lífi og námi barna.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Helga Rut Guðmundsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn, 4. maí 2018, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75789.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 4. maí). Hvaða rannsóknir hefur Helga Rut Guðmundsdóttir stundað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75789
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Helga Rut Guðmundsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn. 4. maí. 2018. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75789>.