Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir er nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands og lektor við Listaháskóla Íslands. Samband manns og náttúru/umhverfis hefur verið helsta viðfangsefni hennar innan heimspekinnar, en það hefur leitt hana á fjölbreyttar slóðir siðfræði, fagurfræði, þekkingarfræði og verufræði.
Doktorsritgerð Guðbjargar, Icelandic Landscapes: Beauty and the Aesthetic in Environmental Decision-Making (Íslenskt landslag: Fegurð og fagurfræði í ákvarðanatöku um náttúruvernd og –nýtingu) fjallar um merkingu og gildi landslags og stöðu slíkra gilda í ákvarðanatöku um náttúruvernd og –nýtingu á Íslandi. Í ritgerðinni greinir Guðbjörg landslagshugtakið og fegurðarhugtakið út frá sjónarhorni fyrirbærafræðinnar, auk þess sem hún nýtir fyrirbærafræðilegar og eigindlegar rannsóknaraðferðir til að rýna í gildi og merkingu fagurferðilegra upplifana fólks af íslensku landslagi, og leitast við að finna leiðir til þess að taka megi tillit til slíkrar merkingar og gilda í ákvarðanatöku.
Samband manns og náttúru/umhverfis hefur verið helsta viðfangsefni Guðbjargar innan heimspekinnar.
Markmið nýdoktorsrannsókna Guðbjargar er að auka fræðilegan og almennan skilning á þeim gildum sem eiga rætur sínar í margvíslegum tengslum manns og náttúru. Ein af grundvallarforsendum þess að auka slíkan skilning felst í að auka veg skynjaðrar þekkingar á tengslum manns og náttúru til jafns við þá röklegu og vísindalegu þekkingu sem hefur hingað til leikið aðalhlutverkið í glímu mannkyns við loftslags- og umhverfisvandann sem blasir við. Þær vísindalegu og vitsmunamiðuðu nálganir sem hafa verið í forgrunni í viðleitni til þess að breyta viðhorfum almennings til umhverfisins þannig að breytinga verði vart í hegðun, duga ekki til þess að auðga og dýpka skilning okkar á náttúrunni og stað okkar innan hennar. Því er brýnt að leita annarra leiða, og þar leika rannsóknir á sviði umhverfishugvísinda og lista, sem varpa ljósi á gildi og hlutverk skynjaðrar þekkingar, lykilhlutverk.
Í verkefnum sínum hefur Guðbjörg leitast við að skapa grundvöll til samstarfs á milli rannsakenda á sviði umhverfishugvísinda og lista með því markmiði að efla hlut skynjaðrar þekkingar í fræðslu og umræðu um umhverfismál. Hún hafði meðal annars frumkvæði að tilurð þverfaglega verkefnisins Landslag og þátttaka, en í verkefninu koma saman rannsakendur af sviðum landfræði, hönnunar, myndlistar, fornleifafræði og mannfræði. Verkefnið hefur það markmið að efla þátttöku almennings í ákvarðanatöku er varðar gildi landslags, og byggir bæði á doktorsrannsókn Guðbjargar og á forrannsókn á fagurferðilegu gildi landslags sem hún vann á vegum faghóps 1 innan 3. áfanga Rammaáætlunar ásamt Eddu R.H. Waage landfræðingi.
Í doktorsritgerð sinni nýtir Guðbjörg sér fyrirbærafræðilegar og eigindlegar rannsóknaraðferðir til að rýna í gildi og merkingu fagurferðilegra upplifana fólks af íslensku landslagi, og leitast við að finna leiðir til þess að taka megi tillit til slíkrar merkingar og gilda í ákvarðanatöku.
Fyrirbærafræði, fagurfræði og feminísk heimspeki eru þau svið sem Guðbjörg hefur nálgast rannsóknarviðfangsefni sín út frá á undanförnum árum. Hún hefur birt greinar og bókarkafla í viðurkenndum innlendum og alþjóðlegum útgáfum og kynnt rannsóknarniðurstöður sínar á innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum. Guðbjörg ritstýrði einnig Hug, tímariti um heimspeki á árunum 2015-17 og er einn af gestaritstjórum Ritsins árið 2019.
Guðbjörg er fædd í Keflavík árið 1980. Hún lauk BA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2003 með áherslu á náttúrusiðfræði og MA-prófi í umhverfisheimspeki (M.A. in Values and the Environment) frá Lancaster-háskóla í Englandi árið 2006. Hún lauk doktorsprófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2015.
Myndir:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir stundað?“ Vísindavefurinn, 17. september 2018, sótt 14. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76284.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 17. september). Hvaða rannsóknir hefur Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir stundað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76284
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir stundað?“ Vísindavefurinn. 17. sep. 2018. Vefsíða. 14. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76284>.