Sólin Sólin Rís 05:54 • sest 21:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:29 • Síðdegis: 24:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:26 í Reykjavík

Geyma einhver stöðuvötn á Íslandi fornminjar?

Birna Lárusdóttir

Kristján spurði bæði um fornleifar í sjó og vötnum. Hér fyrir neðan er að finna svar um fornleifar í stöðuvötnum en um fornleifar í sjó er hægt að lesa í svari Ragnars Edvarssonar við spurningunni Hvar má finna fornleifar í sjó við Ísland?

Á brons- og járnöld tíðkaðist sums staðar í Norður-Evrópu að fórna gripum á borð við axir, sverð og skartgripi í stöðuvötn en einnig ár og mýrar. Slíkar minjar frá víkingaöld hafa til dæmis fundist á botni Tissø í Danmörku og hefur þess verið getið til að það séu fórnir til dýrðar Tý, sem var guð hernaðar. Mun eldra dæmi er frá Duddingston Loch í Skotlandi, en þar fannst fjöldi vopna sem höfðu verið brennd eða beygð áður en þeim var varpað í vatnið. Hugsanlega hefur spyrjandi slíkar minjar í huga.

Í stuttu máli er ekki vitað til þess að þetta hafi verið stundað hér á landi. Að líkindum hafði dregið úr vinsældum þessa siðar þegar komið var fram á víkingaöld og var hann víða aflagður þegar Ísland tók að byggjast. Þótt minjar frá víkingaöld, sem líklega eru oftast úr kumlum, hafi fundist við bakka vatna og vatnsfalla og jafnvel í árfarvegum eftir stórhlaup er það yfirleitt vegna rofs, það er brotnað hefur úr bökkum vegna vatnagangs og gripir eða bein rofnað úr sínu upphaflega samhengi. Þannig var til dæmis með sverð sem gæsaveiðimenn gengu fram á í Skaftártungu eftir Skaftárhlaup haustið 2016.

Á brons- og járnöld tíðkaðist sums staðar í Norður-Evrópu að fórna gripum á borð við axir, sverð og skartgripi í stöðuvötn en einnig ár og mýrar. Slíkar minjar frá víkingaöld hafa til dæmis fundist á botni Tissø í Danmörku. Skartgripir frá Tissø.

Ekki er þó alveg útilokað að einhverjum gripum hafi verið varpað í stöðuvötn eða önnur vatnsföll hér á landi í trúarlegum tilgangi þótt ekki sé vitað um afgerandi fundi af því taginu og sagnir um slíkt séu ekki þekktar úr fornbókmenntum. Ef hér leyndust fornir gripir á botnum stöðuvatna gæti reynst erfitt að staðsetja þá og eins víst að þeir hefðu færst frá upphaflegum stað, brotnað, eyðst eða tærst og jafnvel grafist undir þykku lagi af seti.

Annars konar dæmi eru þó um fornminjar í stöðuvötnum. Til dæmis geta veiðar skilið eftir sig ummerki undir vatnsborði. Til eru heimildir um að árfarvegir hafi verið stíflaðir með grjótgörðum eða vatni veitt af þeim til að hægt væri að tína lax eða silung upp á þurru eða hirða hann úr hyljum. Dæmi um mannvirki sem talið er að tengist veiðum er fornlegur garður við ós Reyðarvatns í Borgarfirði, en hann hefur verið hlaðinn að hluta til yfir ósinn þar sem Grímsá rennur úr vatninu. Hugsanlegt er að þar hafi verið einhverskonar veiðitæki, net eða kró, áfast garðendanum.

Einnig eru til dæmi um hlaðin fylgsni til silungsveiða, eins konar gildrur, til dæmis við Stæðavötn, lítil stöðuvötn í landi Breiðavíkur í Rauðasandshreppi. Þar hafa verið hlaðnir stokkar í lítinn læk sem rann milli vatna, menn hafa svo læðst að og lokað honum með hellum til beggja enda. Lítið er eftir af þessum minjum nú.

Það er án efa algengast að fornleifar séu á botni stöðuvatna eða lóna á Íslandi vegna þess að vatnsstaða hefur breyst. Slíkt getur gerst af náttúrulegum ástæðum til dæmis vegna jarðhræringa eða skriðufalla en stórfelldustu breytingarnar eru án efa af mannavöldum, þá helst vegna virkjanaframkvæmda á 20. öld. Áhrif slíkra framkvæmda á minjar hafa ekki verið kortlögð nákvæmlega en hér skulu nefnd nokkur dæmi.

Skeiðsfossvirkjun í Fljótum í Skagafirði, sem framleiddi rafmagn fyrir Siglufjörð, var tekin í notkun árið 1945. Stífla var reist í gljúfrum neðarlega í hólum (sem hétu reyndar fyrir Stífluhólar) og myndaðist þá stöðuvatn sem notað er sem miðlunarlón. Það sökkti miklu landi, bæði engjum og haglendi margra jarða og náði sums staðar upp á tún. Ekki er vitað nákvæmlega hve mörgum mannvirkjum hefur verið sökkt en að minnsta kosti 13 af þeim 114 örnefnum sem vitað er að fóru undir vatn geta bent til fornleifa. Þar á meðal eru Draugatóft, Lambhúshóll og hóllinn Einbúi þar sem sagt var að einn af þrælum landnámsmannsins Helga nafars hefði verið heygður. Auk þess virðist ein friðlýst fornleif, Goðahússtótt, hafa horfið í lónið.

Hvíta svæðið á myndinni er landið sem fór undir vatn þegar stífla Skeiðsfossvirkjunar var reist 1945. Vötn og ár sem fyrir voru á landsvæðinu eru með ljósgráum lit, en núverandi þurrlendi er dekkra.

Seinni tíma virkjanir eru flestar á hálendi Íslands eða í hálendisjöðrum þar sem ræktunarlönd og heimahagar eru ekki lögð undir. Á síðustu árum og áratugum hafa þó nokkrir minjastaðir horfið undir miðlunarlón, til dæmis Pálstóftir, tóftir sels frá 10. öld sem nú eru á botni Hálslóns, og gangnamannakofi sem áður var á bakka Folavatns en er nú undir Kelduárlóni. Hin síðari ár gerir Minjastofnun Íslands almennt þá kröfu til virkjanaaðila að fornleifarannsókn fari fram á staðnum áður en minjum er sökkt. Það var gert í báðum þessum tilvikum og nú er uppgröfturinn á Pálstóftum raunar eina góða dæmið á Íslandi um seltóftir sem hafa verið rannsakaðar til fullnustu.

Á síðustu árum og áratugum hafa þó nokkrir minjastaðir horfið undir miðlunarlón, til dæmis Pálstóftir, tóftir sels frá 10. öld sem nú eru á botni Hálslóns.

Að lokum má nefna að samkvæmt lögum um menningarminjar teljast staðir sem tengjast þjóðtrú eða þjóðsagnahefð til fornleifa. Því mætti segja að nykurinn væri ef til vill besti fulltrúinn í flokki fornminja í íslenskum stöðuvötnum.

Heimildir:

 • Helgi Þorláksson. 1988. „Mannvirkið í Reyðarvatnsósi.“ *Árbók Hins íslenzka fornleifafélags*, bls. 5-28.
 • ÍSLEIF. Gagnagrunnur um fornleifar. Fornleifastofnun Íslands ses.
 • Lucas, Gavin. 2008. „Pálstóftir: A Viking Age Shieling in Iceland.“ *Norwegian Archaeological Review*, pp. 85-100.
 • Sverðið upp á yfirborðið vegna Skaftárhlaups. 5. september 2016. Sótt af http://www.ruv.is/frett/sverdid-upp-a-yfirbordid-vegna-skaftarhlaups
 • Þóra Pétursdóttir. 2006. Sjónarhólskofi á Múlaafrétti: Rannsókn og uppgröftur 8.-15. ágúst 2006. Skriðuklaustursrannsóknir.
 • „Örnefni landsins, sem fór undir vatn í Stíflu. Uppdráttur Páls Sigurðssonar.“ 1983. *Grímnir. Rit um nafnfræði* 2, bls. 38-47.

Myndir:

Upprunalega spurningin var:
Hvar má finna fornleifar í sjó eða vötnum hérlendis? Geyma einhver stöðuvötn fornminjar?

Höfundur

Birna Lárusdóttir

fornleifafræðingur og sérfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

3.10.2018

Spyrjandi

Kristján Óttar Klausen

Tilvísun

Birna Lárusdóttir. „Geyma einhver stöðuvötn á Íslandi fornminjar?“ Vísindavefurinn, 3. október 2018. Sótt 15. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76310.

Birna Lárusdóttir. (2018, 3. október). Geyma einhver stöðuvötn á Íslandi fornminjar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76310

Birna Lárusdóttir. „Geyma einhver stöðuvötn á Íslandi fornminjar?“ Vísindavefurinn. 3. okt. 2018. Vefsíða. 15. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76310>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Geyma einhver stöðuvötn á Íslandi fornminjar?
Kristján spurði bæði um fornleifar í sjó og vötnum. Hér fyrir neðan er að finna svar um fornleifar í stöðuvötnum en um fornleifar í sjó er hægt að lesa í svari Ragnars Edvarssonar við spurningunni Hvar má finna fornleifar í sjó við Ísland?

Á brons- og járnöld tíðkaðist sums staðar í Norður-Evrópu að fórna gripum á borð við axir, sverð og skartgripi í stöðuvötn en einnig ár og mýrar. Slíkar minjar frá víkingaöld hafa til dæmis fundist á botni Tissø í Danmörku og hefur þess verið getið til að það séu fórnir til dýrðar Tý, sem var guð hernaðar. Mun eldra dæmi er frá Duddingston Loch í Skotlandi, en þar fannst fjöldi vopna sem höfðu verið brennd eða beygð áður en þeim var varpað í vatnið. Hugsanlega hefur spyrjandi slíkar minjar í huga.

Í stuttu máli er ekki vitað til þess að þetta hafi verið stundað hér á landi. Að líkindum hafði dregið úr vinsældum þessa siðar þegar komið var fram á víkingaöld og var hann víða aflagður þegar Ísland tók að byggjast. Þótt minjar frá víkingaöld, sem líklega eru oftast úr kumlum, hafi fundist við bakka vatna og vatnsfalla og jafnvel í árfarvegum eftir stórhlaup er það yfirleitt vegna rofs, það er brotnað hefur úr bökkum vegna vatnagangs og gripir eða bein rofnað úr sínu upphaflega samhengi. Þannig var til dæmis með sverð sem gæsaveiðimenn gengu fram á í Skaftártungu eftir Skaftárhlaup haustið 2016.

Á brons- og járnöld tíðkaðist sums staðar í Norður-Evrópu að fórna gripum á borð við axir, sverð og skartgripi í stöðuvötn en einnig ár og mýrar. Slíkar minjar frá víkingaöld hafa til dæmis fundist á botni Tissø í Danmörku. Skartgripir frá Tissø.

Ekki er þó alveg útilokað að einhverjum gripum hafi verið varpað í stöðuvötn eða önnur vatnsföll hér á landi í trúarlegum tilgangi þótt ekki sé vitað um afgerandi fundi af því taginu og sagnir um slíkt séu ekki þekktar úr fornbókmenntum. Ef hér leyndust fornir gripir á botnum stöðuvatna gæti reynst erfitt að staðsetja þá og eins víst að þeir hefðu færst frá upphaflegum stað, brotnað, eyðst eða tærst og jafnvel grafist undir þykku lagi af seti.

Annars konar dæmi eru þó um fornminjar í stöðuvötnum. Til dæmis geta veiðar skilið eftir sig ummerki undir vatnsborði. Til eru heimildir um að árfarvegir hafi verið stíflaðir með grjótgörðum eða vatni veitt af þeim til að hægt væri að tína lax eða silung upp á þurru eða hirða hann úr hyljum. Dæmi um mannvirki sem talið er að tengist veiðum er fornlegur garður við ós Reyðarvatns í Borgarfirði, en hann hefur verið hlaðinn að hluta til yfir ósinn þar sem Grímsá rennur úr vatninu. Hugsanlegt er að þar hafi verið einhverskonar veiðitæki, net eða kró, áfast garðendanum.

Einnig eru til dæmi um hlaðin fylgsni til silungsveiða, eins konar gildrur, til dæmis við Stæðavötn, lítil stöðuvötn í landi Breiðavíkur í Rauðasandshreppi. Þar hafa verið hlaðnir stokkar í lítinn læk sem rann milli vatna, menn hafa svo læðst að og lokað honum með hellum til beggja enda. Lítið er eftir af þessum minjum nú.

Það er án efa algengast að fornleifar séu á botni stöðuvatna eða lóna á Íslandi vegna þess að vatnsstaða hefur breyst. Slíkt getur gerst af náttúrulegum ástæðum til dæmis vegna jarðhræringa eða skriðufalla en stórfelldustu breytingarnar eru án efa af mannavöldum, þá helst vegna virkjanaframkvæmda á 20. öld. Áhrif slíkra framkvæmda á minjar hafa ekki verið kortlögð nákvæmlega en hér skulu nefnd nokkur dæmi.

Skeiðsfossvirkjun í Fljótum í Skagafirði, sem framleiddi rafmagn fyrir Siglufjörð, var tekin í notkun árið 1945. Stífla var reist í gljúfrum neðarlega í hólum (sem hétu reyndar fyrir Stífluhólar) og myndaðist þá stöðuvatn sem notað er sem miðlunarlón. Það sökkti miklu landi, bæði engjum og haglendi margra jarða og náði sums staðar upp á tún. Ekki er vitað nákvæmlega hve mörgum mannvirkjum hefur verið sökkt en að minnsta kosti 13 af þeim 114 örnefnum sem vitað er að fóru undir vatn geta bent til fornleifa. Þar á meðal eru Draugatóft, Lambhúshóll og hóllinn Einbúi þar sem sagt var að einn af þrælum landnámsmannsins Helga nafars hefði verið heygður. Auk þess virðist ein friðlýst fornleif, Goðahússtótt, hafa horfið í lónið.

Hvíta svæðið á myndinni er landið sem fór undir vatn þegar stífla Skeiðsfossvirkjunar var reist 1945. Vötn og ár sem fyrir voru á landsvæðinu eru með ljósgráum lit, en núverandi þurrlendi er dekkra.

Seinni tíma virkjanir eru flestar á hálendi Íslands eða í hálendisjöðrum þar sem ræktunarlönd og heimahagar eru ekki lögð undir. Á síðustu árum og áratugum hafa þó nokkrir minjastaðir horfið undir miðlunarlón, til dæmis Pálstóftir, tóftir sels frá 10. öld sem nú eru á botni Hálslóns, og gangnamannakofi sem áður var á bakka Folavatns en er nú undir Kelduárlóni. Hin síðari ár gerir Minjastofnun Íslands almennt þá kröfu til virkjanaaðila að fornleifarannsókn fari fram á staðnum áður en minjum er sökkt. Það var gert í báðum þessum tilvikum og nú er uppgröfturinn á Pálstóftum raunar eina góða dæmið á Íslandi um seltóftir sem hafa verið rannsakaðar til fullnustu.

Á síðustu árum og áratugum hafa þó nokkrir minjastaðir horfið undir miðlunarlón, til dæmis Pálstóftir, tóftir sels frá 10. öld sem nú eru á botni Hálslóns.

Að lokum má nefna að samkvæmt lögum um menningarminjar teljast staðir sem tengjast þjóðtrú eða þjóðsagnahefð til fornleifa. Því mætti segja að nykurinn væri ef til vill besti fulltrúinn í flokki fornminja í íslenskum stöðuvötnum.

Heimildir:

 • Helgi Þorláksson. 1988. „Mannvirkið í Reyðarvatnsósi.“ *Árbók Hins íslenzka fornleifafélags*, bls. 5-28.
 • ÍSLEIF. Gagnagrunnur um fornleifar. Fornleifastofnun Íslands ses.
 • Lucas, Gavin. 2008. „Pálstóftir: A Viking Age Shieling in Iceland.“ *Norwegian Archaeological Review*, pp. 85-100.
 • Sverðið upp á yfirborðið vegna Skaftárhlaups. 5. september 2016. Sótt af http://www.ruv.is/frett/sverdid-upp-a-yfirbordid-vegna-skaftarhlaups
 • Þóra Pétursdóttir. 2006. Sjónarhólskofi á Múlaafrétti: Rannsókn og uppgröftur 8.-15. ágúst 2006. Skriðuklaustursrannsóknir.
 • „Örnefni landsins, sem fór undir vatn í Stíflu. Uppdráttur Páls Sigurðssonar.“ 1983. *Grímnir. Rit um nafnfræði* 2, bls. 38-47.

Myndir:

Upprunalega spurningin var:
Hvar má finna fornleifar í sjó eða vötnum hérlendis? Geyma einhver stöðuvötn fornminjar?

...