Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Jóna Freysdóttir er prófessor í ónæmisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands (HÍ) og sérfræðingur við Ónæmisfræðideild Landspítala. Rannsóknir Jónu hafa einkum snúist um bólgu og bólguhjöðnun. Bólga er mikilvægt svar líkamans við áreiti, svo sem sýkingum og ýmsum frumuskemmdum. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að bólgan hjaðni eftir að hún hefur náð hámarki því annars er hætta á að hún verði langvarandi (krónísk) en það er einmitt langvarandi bólga sem er talin eiga þátt í meingerð ýmissa bólgu- og hrörnunarsjúkdóma. Tíðni slíkra sjúkdóma hefur farið vaxandi í Vestrænum löndum og má þar nefna sjálfsofnæmissjúkdóma, hjarta- og æðasjúkdóma, Alzheimerssjúkdóm og krabbamein. Þess vegna er mikilvægt að auka þekkingu á bólguhjöðnunarferlinu og hvernig hægt er að ýta undir hjöðnun bólgu.
Rannsóknir Jónu hafa meðal annars sýnt að ómega-3 fitusýrur, sem er helst að finna í fiski og sjávarfangi, ýta undir hjöðnun bólgu. Þær hafa einnig sýnt að náttúrulegar drápsfrumur eru mikilvægar fyrir hjöðnun bólgu, þar sem fækkun þeirra á bólgustað hamlar bólguhjöðnun. Rannsóknir hennar í dag beinast einkum að því að rannsaka með hvaða hætti bólguhjöðnun á sér stað og hvaða hlutverki náttúrulegar drápsfrumur og daufkyrningar spila í hjöðnun bólgu.
Rannsóknir Jónu hafa einkum snúist um bólgu og bólguhjöðnun.
Jóna vinnur í nánu samstarfi við Ingibjörgu Harðardóttur prófessor í lífefna- og sameindalíffræði. Auk þess er Jóna í samstarfi við Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlækni og prófessor í ónæmisfræði. Jóna og Ingibjörg eru í virku samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknahópa og má þar helst telja Sesselju Ómarsdóttur og Elínu Soffíu Ólafsdóttur, prófessora við Lyfjafræðideild HÍ, Martin Giera, dósent við Leiden-háskóla í Hollandi og Benedict Chambers, dósent við Karolinska Institutet í Stokkhólmi.
Jóna er höfundur fjölda alþjóðlegra ritrýndra vísindagreina og hefur hlotið viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar, meðal annars Hvatningarstyrk Landspítala árið 2015 og árið 2016 fengu hún og samstarfsmenn hennar Hagnýtingarverðlaun HÍ fyrir nýtt bólguhemjandi efni. Jóna hefur setið í ýmsum nefndum og ráðum og situr núna í vísindaráði og stjórn lífsýnasafns Landspítala og í rannsóknanámsnefnd Læknadeildar HÍ.
Jóna er fædd árið 1959. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1979, BS-prófi í meinatækni frá Tækniskóla Íslands árið 1985 og fjórða árs rannsóknaverkefni í ónæmisfræði við líffræðiskor Háskóla Íslands árið 1988. Hún var síðan við nám við Royal Postgraduate Medical School (sem nú er hluti af Imperial College) við Hammersmith-sjúkrahúsið í London, þaðan sem hún lauk doktorsprófi árið 1996. Jóna gegndi síðan starfi nýdoktors við Guy's-sjúkrahúsið í London í tvö ár og við Háskólann í Leeds í tvö ár. Þá flutti Jóna aftur til Íslands og vann sem sérfræðingur hjá líftæknifyrirtækinu Lyfjaþróun í fjögur ár og hefur síðan þá unnið sem sérfræðingur á ónæmisfræðideild og rannsóknastofu í gigtsjúkdómum Landspítala og síðan 2010 sem dósent og síðar prófessor við Læknadeild HÍ.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Jóna Freysdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn, 1. janúar 2019, sótt 4. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76770.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2019, 1. janúar). Hvað hefur vísindamaðurinn Jóna Freysdóttir rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76770
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Jóna Freysdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn. 1. jan. 2019. Vefsíða. 4. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76770>.