Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvenær varð jóladagatal algengt á heimilum fólks?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hver er uppruni jóladagatalanna (þessara hefðbundnu með 24 gluggum sem opnaðir frá 1. - 24. desember) og hvenær bárust þau fyrst til Íslands?

Eins og svo margir aðrir jólasiðir á jóladagatalið uppruna sinn í Þýskalandi en hefur væntanlega borist til Íslands frá Danmörku. Eftir miðja 19. öld þekktist það á sumum þýskum heimilum að telja niður dagana til jóla, ýmist frá 1. desember eða upphafi aðventu til 24. desember. Hjá sumum fjölskyldum voru krítuð strik á hurð eða vegg og eitt þeirra síðan þurrkað út á hverjum degi, annars staðar voru daglega hengdar upp trúarlegar myndir, eitt strá á dag sett í jötu eða kveikt á einu kerti.

Oft er talið að fyrsta fjöldaframleidda prentaða jóladagatalið hafi verið gefið út árið 1908 af manni að nafni Gerhard Lang. Sagan segir að þegar hann var lítill drengur og beið óþolinmóður eftir jólunum hafi móðir hans gripið til þess ráðs að festa 24 lítil sætindi á spjald sem sonurinn mátti svo fá, eitt á dag. Á fullorðinsárum útfærði hann hugmyndina með prentuðu dagatali sem samanstóð af örk með númeruðum reitum og annarri með myndum sem klippa mátti út eina á dag og líma í reitina. Nokkru seinna var farið að framleiða dagatöl með gluggum eins og við þekkjum enn í dag. Bak við lokuðu gluggana var ýmist að finna myndir eða trúarlegan texta.

Fyrstu prentuðu dagatölin voru þannig að myndir voru klipptar út og límdar í þar til gerða reiti á öðru spjaldi.

Þessi prentuðu jóladagatöl urðu smám saman útbreidd, hægt í fyrstu, en eftir 1920 fóru vinsældir þeirra vaxandi og siðurinn barst til annarra landa. Fyrsta danska jóladagatalið var til að mynda prentað 1932 eða 1933. Nokkuð bakslag kom í þýska dagatalahefð á valdatíma nasista sem létu skipta trúarlegum myndum og textum út fyrir myndefni úr eigin hugmyndafræði. Á þessum árum setti pappírsskortur einnig framleiðslunni skorður.

Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk tók útgáfa dagatala aftur við sér. Fyrstu jóladagatölin í Bretlandi á eftirstríðsárunum voru gjafir eða komu með innflytjendum frá Þýskalandi eða Skandinavíu en um miðjan 6. áratuginn var farið að framleiða bresk dagatöl. Ekki er fullvíst hvenær fyrsta jóladagatalið kom til Íslands en í stuttri klausu í Fréttablaðinu frá 2016 segir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur, sem er manna fróðastur um íslenska jólasiði, að hann muni fyrst eftir jóladagatali eftir stríð. Líklega hefur útbreiðsla þeirra þó ekki verið mjög mikil í fyrstu. Ef marka má stutta klausu í Vísi frá 1962 hafa jóladagatöl þótt nokkuð nýstárleg þá:

Vísir, 30. nóvember 1962.

Smám saman litu ýmsar nýjar útfærslur jóladagatala dagsins ljós. Gerðar voru tilraunir með framleiðslu súkkulaðidagatala en hægt gekk að festa þau í sessi. Til dæmis setti breski súkkulaðiframleiðandinn Cadbury's sitt fyrsta súkkulaðidagatal á markaðinn 1971 en vinsældir slíkra dagatala urðu ekki verulegar fyrr en kom fram á 9. áratug 20. aldar. Seinna komu fram dagatöl þar sem dót var að finna á bak við gluggana. Síðustu ár hafa líka komið á markað alls konar dagatöl fyrir fullorðna með vörum frá hinum ýmsu fyrirtækjum.

Heimatilbúin pakkadagatöl í einhverri mynd hafa einnig þekkst lengi. Í blöðum frá byrjun 7. áratugar 20. aldar eru til að mynda birt munstur og leiðbeiningar um hvernig hægt er að útbúa slík dagatöl. Algengt var að þessi dagatöl væru saumuð út og þau er örugglega enn víða að finna á heimilum, sértaklega hjá fólki sem komið er um og yfir miðjan aldur. Í dag má hins vegar sjá pakkadagatöl í alls konar útfærslum.

Útsaumað pakkadagatal.

Jóladagatöl í sjónvarpi eiga rætur að rekja til Skandinavíu. Í upphafi 7. áratugar seinustu aldar fóru ríkissjónvarpstöðvarnar í Svíþjóð og Danmörku að framleiða þætti fyrir börn sem sýndir voru daglega frá 1. til 24. desember. Norska sjónvarpið bættist síðan fljótlega við. Sú hefð hefur vaxið og dafnað allar götur síðan og aðrar stöðvar en ríkisstöðvarnar komið með sín jóladagatöl. Sem dæmi má nefna að árið 2020 gátu danskir áhorfendur valið um að minnsta kosti sex dagatöl til að fylgjast með. Fyrsta íslenska jóladagatal í sjónvarpi, Jólin nálgast í Kærabæ, var frumsýnt hjá RÚV árið 1988. Til að byrja með var nýtt íslenskt jóladagatal frumsýnt á hverju ári og þau voru síðan endursýnd reglulega. Frá árinu 2010 hefur RÚV hins vegar yfirleitt sýnt norræn jóladagatöl.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

20.12.2021

Spyrjandi

Elsa Guðný Björgvinsdóttir

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær varð jóladagatal algengt á heimilum fólks? “ Vísindavefurinn, 20. desember 2021. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76774.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2021, 20. desember). Hvenær varð jóladagatal algengt á heimilum fólks? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76774

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær varð jóladagatal algengt á heimilum fólks? “ Vísindavefurinn. 20. des. 2021. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76774>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær varð jóladagatal algengt á heimilum fólks?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hver er uppruni jóladagatalanna (þessara hefðbundnu með 24 gluggum sem opnaðir frá 1. - 24. desember) og hvenær bárust þau fyrst til Íslands?

Eins og svo margir aðrir jólasiðir á jóladagatalið uppruna sinn í Þýskalandi en hefur væntanlega borist til Íslands frá Danmörku. Eftir miðja 19. öld þekktist það á sumum þýskum heimilum að telja niður dagana til jóla, ýmist frá 1. desember eða upphafi aðventu til 24. desember. Hjá sumum fjölskyldum voru krítuð strik á hurð eða vegg og eitt þeirra síðan þurrkað út á hverjum degi, annars staðar voru daglega hengdar upp trúarlegar myndir, eitt strá á dag sett í jötu eða kveikt á einu kerti.

Oft er talið að fyrsta fjöldaframleidda prentaða jóladagatalið hafi verið gefið út árið 1908 af manni að nafni Gerhard Lang. Sagan segir að þegar hann var lítill drengur og beið óþolinmóður eftir jólunum hafi móðir hans gripið til þess ráðs að festa 24 lítil sætindi á spjald sem sonurinn mátti svo fá, eitt á dag. Á fullorðinsárum útfærði hann hugmyndina með prentuðu dagatali sem samanstóð af örk með númeruðum reitum og annarri með myndum sem klippa mátti út eina á dag og líma í reitina. Nokkru seinna var farið að framleiða dagatöl með gluggum eins og við þekkjum enn í dag. Bak við lokuðu gluggana var ýmist að finna myndir eða trúarlegan texta.

Fyrstu prentuðu dagatölin voru þannig að myndir voru klipptar út og límdar í þar til gerða reiti á öðru spjaldi.

Þessi prentuðu jóladagatöl urðu smám saman útbreidd, hægt í fyrstu, en eftir 1920 fóru vinsældir þeirra vaxandi og siðurinn barst til annarra landa. Fyrsta danska jóladagatalið var til að mynda prentað 1932 eða 1933. Nokkuð bakslag kom í þýska dagatalahefð á valdatíma nasista sem létu skipta trúarlegum myndum og textum út fyrir myndefni úr eigin hugmyndafræði. Á þessum árum setti pappírsskortur einnig framleiðslunni skorður.

Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk tók útgáfa dagatala aftur við sér. Fyrstu jóladagatölin í Bretlandi á eftirstríðsárunum voru gjafir eða komu með innflytjendum frá Þýskalandi eða Skandinavíu en um miðjan 6. áratuginn var farið að framleiða bresk dagatöl. Ekki er fullvíst hvenær fyrsta jóladagatalið kom til Íslands en í stuttri klausu í Fréttablaðinu frá 2016 segir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur, sem er manna fróðastur um íslenska jólasiði, að hann muni fyrst eftir jóladagatali eftir stríð. Líklega hefur útbreiðsla þeirra þó ekki verið mjög mikil í fyrstu. Ef marka má stutta klausu í Vísi frá 1962 hafa jóladagatöl þótt nokkuð nýstárleg þá:

Vísir, 30. nóvember 1962.

Smám saman litu ýmsar nýjar útfærslur jóladagatala dagsins ljós. Gerðar voru tilraunir með framleiðslu súkkulaðidagatala en hægt gekk að festa þau í sessi. Til dæmis setti breski súkkulaðiframleiðandinn Cadbury's sitt fyrsta súkkulaðidagatal á markaðinn 1971 en vinsældir slíkra dagatala urðu ekki verulegar fyrr en kom fram á 9. áratug 20. aldar. Seinna komu fram dagatöl þar sem dót var að finna á bak við gluggana. Síðustu ár hafa líka komið á markað alls konar dagatöl fyrir fullorðna með vörum frá hinum ýmsu fyrirtækjum.

Heimatilbúin pakkadagatöl í einhverri mynd hafa einnig þekkst lengi. Í blöðum frá byrjun 7. áratugar 20. aldar eru til að mynda birt munstur og leiðbeiningar um hvernig hægt er að útbúa slík dagatöl. Algengt var að þessi dagatöl væru saumuð út og þau er örugglega enn víða að finna á heimilum, sértaklega hjá fólki sem komið er um og yfir miðjan aldur. Í dag má hins vegar sjá pakkadagatöl í alls konar útfærslum.

Útsaumað pakkadagatal.

Jóladagatöl í sjónvarpi eiga rætur að rekja til Skandinavíu. Í upphafi 7. áratugar seinustu aldar fóru ríkissjónvarpstöðvarnar í Svíþjóð og Danmörku að framleiða þætti fyrir börn sem sýndir voru daglega frá 1. til 24. desember. Norska sjónvarpið bættist síðan fljótlega við. Sú hefð hefur vaxið og dafnað allar götur síðan og aðrar stöðvar en ríkisstöðvarnar komið með sín jóladagatöl. Sem dæmi má nefna að árið 2020 gátu danskir áhorfendur valið um að minnsta kosti sex dagatöl til að fylgjast með. Fyrsta íslenska jóladagatal í sjónvarpi, Jólin nálgast í Kærabæ, var frumsýnt hjá RÚV árið 1988. Til að byrja með var nýtt íslenskt jóladagatal frumsýnt á hverju ári og þau voru síðan endursýnd reglulega. Frá árinu 2010 hefur RÚV hins vegar yfirleitt sýnt norræn jóladagatöl.

Heimildir og myndir:

...