Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Flóabardagi er eina sjóorrustan sem háð hefur verið við Íslandsstrendur þar sem Íslendingar skipuðu bæði lið. Orrustan fór fram á Húnaflóa 25. júní árið 1244 og þar mættust lið Þórðar kakala Sighvatssonar og Kolbeins unga Arnórssonar. Þórður kakali var af ættum Sturlunga, sonur Sighvats Sturlusonar og því bróðursonur Snorra Sturlusonar og sonarsonur Sturlu Þórðarsonar. Kolbeinn ungi var af ættum Ásbirninga og bróðursonur Kolbeins Tumasonar, sem var mikill höfðingi og skáld, og samdi meðal annars sálminn „Heyr himna smiður.“ Þórður og Kolbeinn voru jafnframt náfrændur, en móðir Þórðar, Halldóra Tumadóttir, var systir Arnórs Tumasonar, sem var faðir Kolbeins. Þegar Kolbeinn ungi var erlendis 1235-1236 lét hann Þórð kakala fara með ríki sitt í Skagafirði.
Flóabardagi var hluti af átökum hinnar svokölluðu Sturlungaaldar (um 1200 til 1264) sem var sérstaklega blóðugt tímabil í sögu Íslands. Í Þórðar sögu kakala er að finna bestu lýsinguna á atburðum Flóabardaga, en hún er sögð vera rituð af sjónarvotti skömmu eftir að orrustan fór fram. Líklega er um að ræða annan Dufgussona, Svarthöfða eða Bjarna, en þeir voru frændur Þórðar og nánir bandamenn, þess vegna er vert að meta frásögnina með það til hliðsjónar.
Áætluð staðsetning Flóabardaga sýnd með rauðum punkti.
Forsögu orrustunnar má rekja til Örlygsstaðabardaga sem háður var 21. ágúst 1238 í austanverðum Skagafirði. Þar mættust lið Sturlunga, en höfðingi þeirra var Sturla Sighvatsson, bróðir Þórðar kakala, og lið Ásbirninga og Haukdæla, undir stjórn Kolbeins unga og Gissurar Þorvaldssonar. Sturlungar guldu afhroð í bardaganum; Þórður kakali missti þar Sighvat föður sinn og fjóra bræður, þar á meðal Sturlu, höfðingja Sturlunga. Kolbeinn ungi lagði undir sig allt ríki Sturlunga á Norðulandi, fé þeirra og vopn. Þórður var í Noregi þegar þessir atburðir áttu sér stað, en þegar hann sneri aftur til Íslands árið 1242 var hann staðráðinn í að ná aftur landssvæðum Sturlunga og hefna fjölskyldu sinnar. Kolbeinn hafði náð undir sig stóru landsvæði, var orðinn eiginlegur alvaldur á Vestfjörðum og Norðurlandi, og bjó því yfir miklum mannafla. Hann var þó víða illa liðinn, þar sem menn höfðu fengið sig fullsadda af ofríki hans og stjórnarháttum; hann hikaði ekki við að láta drepa saklausa menn og rændi og ruplaði. Þórður var á hinn bóginn fáliðaður, en elskaður af fylgismönnum sínum og talinn mikill heiðursmaður. Samkvæmt Þórðar sögu kakala var hann sannkristinn, hlífði konum og börnum og neitaði að vega menn sem leituðu sér skjóls í kirkju. Þórður birtist lesandanum sem góðmenni, á meðan mikið er gert úr illverkum Kolbeins og honum greinilega ætlað hlutverk hins vonda í frásögninni. Gera má ráð fyrir að raunveruleikinn hafi ekki verið svo einfaldur, og ljóst að menn Þórðar frömdu mörg voðaverk.
Frændur Þórðar höfðu svikið hann um stuðning í aðdraganda bardagans, og Vestfirðingar voru þeir einu sem Þórður gat treyst á. Þar fór fremstur Hrafn Oddsson, goðorðsmaður af ætt Seldæla. Eyfirðingar höfðu einnig lýst því yfir að þeir myndu standa með Þórði andspænis Kolbeini, ef Þórður sendi lið sitt til Norðurlands. Þórður hélt því af stað með lið sitt, og lenti í Trékyllisvík tveim nóttum fyrir Jónsmessu 1244. Þar barst honum sú fregn að Kolbeinn safnaði saman gríðarmiklu liði og ætlaði sér að sigla til móts við Þórð. Hann tók þessum viðvörunum ekki alvarlega, og taldi að sögur af liðsafla Kolbeins væru stórlega ýktar. Ef til vill hélt hann því fram til þess að menn hans myndu ekki missa kjarkinn. Hann hélt ræðu yfir mönnum sínum, hvatti þá til að berjast hraustlega, og minnti þá á þann skaða sem þeir hefðu orðið fyrir í Örlygsstaðabardaga.
Endurgerð af teinæringi, til sýnis á Víkingaskipasafninu í Hróarskeldu í Danmörku.
Þórður hafði öll stærri skip sem til voru á Vestfjörðum, öll fullskipuð vönum sjómönnum. Í Þórðar sögu kakala eru talin upp 12 skip, þar af fjórir teinæringar, tvær skútur og ein ferja. Eitt þessara skipa hét Trékyllir, og er Trékyllisvík nefnd eftir því. Þórður sjálfur stýrði mikilli skútu fullri af sínum nánustu og traustustu heimamönnum. Alls voru um 210 menn í liði Þórðar kakala. Kolbeinn hafði smalað saman öllum stórskipum Norðlendingafjórðungs, alls tuttugu, og um 470 mönnum. Skip hans voru sérútbúin til orrustu, og segir að „engir menn hérlendis [höfðu] séð á voru landi þvílíkan herbúnað á skipum.“ Menn Kolbeins voru hins vegar ekki jafnvanir sjómenn og menn Þórðar, og urðu margir þeirra sjóveikir.
Menn Þórðar urðu varir við hreyfingu á sjóndeildarhringnum og töldu í fyrstu að um væri að ræða seli á hafís. Fljótt áttuðu menn sig þó á því að þar væri á ferð Kolbeinn ungi með allt sitt lið, og að orrusta væri í nánd. Áður en bardaginn hófst bauð Þórður mönnum Kolbeins grið, í von um að einhverjir heltust úr lestinni. Honum var hins vegar svarað fullum hálsi með hótunum og svívirðingum, og þá braust út harður bardagi. Helstu vopn bardagans voru grjót og eldibrandur, lurkar eða spýtur sem kveikt hafði verið í. Auk þess reyndu hinar stríðandi fylkingar að sigla skipum sínum á skip óvinar síns og skadda þau þannig.
Svona sáu menn fyrir sér að skipum Þórðar og Kolbeins hafi verið stillt upp í Flóabardaga. Teikningin er fengin úr Sjómannadagsblaðinu frá 1944
Kolbeinn ungi hafði slasast illa við leika eftir Örlygsstaðabardaga, og það mein var nærri búið að draga hann til dauða fyrr um árið. Hann tók því takmarkaðan þátt í bardaganum og kom sér fyrir á öruggum stað þar sem hann hafði yfirsýn með atburðunum. Þórður tók á hinn bóginn virkan þátt í bardaganum og vegnaði liði hans töluvert betur, enda voru þar reyndari menn á ferðinni og höfðu hlaðið skip sín með grjóti sem hægt var að kasta í óvininn. Alls stóð Flóabardagi yfir í 6-7 klukkutíma og lauk þegar menn Þórðar hörfuðu, þar sem margir þeirra voru sárir. Þó má segja að lið Þórðar hafi haft betur, þar sem aðeins féllu 3-4 úr þeirra röðum en Kolbeinn missti rúmlega 70 menn. Kolbeinn taldi sjálfur að þar hefðu átt sér stað þáttaskil í valdabaráttu þeirra frænda, og sagði að „á þessum fundi muni hamingjuskipti orðið hafa með okkur Þórði.“ Ekki er vitað til þess að nokkur skip hafi farist í bardaganum.
Þórður og Kolbeinn gerðu upp ósætti sitt vorið 1245, og Þórður fékk afhenta alla sína föðurleifð á Norðurlandi á ný. Kolbeinn ungi lést 25. júlí 1245, og var mönnum sínum mikill harmdauði. Kom þá upp ósætti milli Þórðar og Brands Kolbeinssonar sem tekið hafði við völdum í Skagafirði. Lið þeirra tókust á í Hauganesbardaga árið eftir, sem er mannskæðasti bardagi Íslandssögunnar. Þórður bar sigur úr býtum, og í kjölfarið fól Noregskonungur honum erindrekstur fyrir sig á Íslandi og Þórður varð því valdamesti maðurinn á Íslandi. Þar urðu þáttaskil, þar sem konungur var nú í gegnum Þórð orðinn áhrifamestur í íslenskum stjórnmálum. Þórður kakali lést árið 1256 í Noregi.
Heimildir:
Einar Laxness. Íslandssaga a-ö. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1995.
Gunnar Karlsson. Saga Íslands 2. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag & Sögufélagið, 1975, 1-54.
Henry Hálfdánarson. „Bardaginn á Húnaflóa 25. júní 1244.“ Sjómannadagsblaðið, 4. júní 1944, 20-29.
Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. Reykjavík: Sturlunguútgáfan, 1946.
Sverrir Jakobsson. „1277: Um sjónarhorn í veraldlegri sagnaritun á 13. öld.“ Nýtt Helgakver. Rit til heiðurs Helga Skúla Kjartanssyni, 1-13. Reykjavík: Sögufélag, 2019.
Sverrir Jakobsson. Auðnaróðal. Baráttan um Ísland 1096-1281. Reykjavík: Sögufélag, 2016.
Myndir:
Henry Hálfdánarson. „Bardaginn á Húnaflóa 25. júní 1244.“ Sjómannadagsblaðið, 4. júní 1944, 27.
The Oxonian in Iceland. Myndin er eign The British Library og fengin af Picryl.com. (Sótt 12. ágúst 2021.)
Werner Karrasch. Teinæringur. Myndin er í eigu Vikingeskibsmuseet i Roskilde og birt með góðfúslegu leyfi. (Sótt 16. ágúst 2021.)
Hér er einnig svarað eftirfarandi spurningum:
Mig langar að vita allt um Flóabardagann.
Hvað geturðu sagt mér um íslenska Flóabardagann?
Hvað fórust mörg skip í Flóabardaga árið 1244?
Mig langar að vita allt um Flóabardagann.
Höfundur þakkar Sverri Jakobssyni prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands fyrir yfirlestur og ábendingar.
Nanna Kristjánsdóttir. „Getið þið sagt mér allt um Flóabardaga?“ Vísindavefurinn, 28. september 2021, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77252.
Nanna Kristjánsdóttir. (2021, 28. september). Getið þið sagt mér allt um Flóabardaga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77252
Nanna Kristjánsdóttir. „Getið þið sagt mér allt um Flóabardaga?“ Vísindavefurinn. 28. sep. 2021. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77252>.