Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er heimspeki tilgangslaus?

Geir Þ. Þórarinsson

Stutta svarið við spurningunni er: Nei, en það veltur samt eiginlega á þér.

Þegar maður veltir spurningunni fyrir sér vakna fleiri spurningar: Hvað er tilgangur? Hvaðan kemur tilgangur? Hvers konar hlutir geta haft tilgang? Það virðist vera grundvallarmunur á að spyrja um tilgang til dæmis smíðisgripa annars vegar og náttúrufyrirbæra hins vegar.

Hlutir sem fólk býr til, eins og húsögn eða verkfæri og tæki af öllu mögulegu tagi, fá tilgang sinn frá okkur sem búum þau til og notum þau. Tilgangur hlutanna er að gagnast okkur við að gera það sem við ætlum okkur að gera með þeim. Ef við virðum fyrir okkur einfalt verkfæri eins og hamar, þá blasir við að hann er gerður úr einhverju efni, er oftast þungur, hefur lögun sem er þannig að hann fellur vel í hendi og svo framvegis. Af hverju er hann þannig? Væntanlega er hann þannig af því að hann var gerður þannig til þess að hægt sé að negla nagla með honum. Sá sem fær sér hamar ætlar að negla nagla með honum en ætlar væntanlega ekki að smyrja brauð með hamrinum. Ef einhver smíðar sér eða verður sér úti um verkfæri sem hann ætlar sér að nota til að að smyrja brauð myndi verkfærið væntalega vera öðruvísi í laginu en hamar, talsvert léttara og þar fram eftir götunum. Það myndi líkjast smjörhníf (og væri smjörhnífur). Þannig að ef við spyrjum hvort hamar sé tilgangslaus er svarið í stuttu máli: Nei, hann hefur þann tilgang að negla nagla. Og ef spurt er áfram: Hvaðan kemur sá tilgangur? Þá er svarið: Við gáfum honum þann tilgang af því það er það sem við ætlum okkur að gera með honum.

Sá sem fær sér hamar ætlar að negla nagla með honum en ætlar væntanlega ekki að smyrja brauð með hamrinum.

Sömu sögu er að segja um hvaðeina sem fólk tekur sér fyrir hendur; ekki bara tæki og tól heldur alls kyns athafnir, svo sem að stunda íþróttir, læra á gítar og iðka heimspeki. Eru íþróttir tilgangslausar? Þær hafa þann tilgang sem við gefum þeim. Sumir stunda íþróttir til þess að skemmta sér, aðrir til heilsueflingar. Skemmtun og heilsuefling eru því dæmi um tilgang íþrótta en það fer eftir iðkandanum hver tilgangurinn er. Heimspekin hefur einnig þann tilgang sem iðkandinn gefur henni. Sumir iðka heimspeki til þess að svala forvitni sinni; með iðkun heimspekinnar leita þeir svara við spurningum sem leita á þá. Aðrir stunda heimspeki af því að þeim þykir hún skemmtileg. Ef þú finnur alls enga ástæðu til þess að iðka heimspeki, þá er hún tilgangslaus fyrir þig. En hún er ekki þar með tilgangslaus fyrir alla aðra líka. Heimspekin er einfaldlega jafn tilgangsrík eða tilgangslaus eins og að leggja stund á íþróttir eða myndlist eða að ferðast.

Annað er uppi á teningnum ef við spyrjum um tilgang náttúrufyrirbæra. Eru fjöll tilgangslaus? Er sólin tilgangslaus? Fjöllin og sólin urðu ekki til svo að þau gætu þjónað fyrirætlunum okkar. Fólk getur auðvitað nýtt sér náttúrufyrirbæri. Það er hægt að nýta sólargeisla til þess að hlaða sólarrafhlöður og nýta svo þá orku með ýmsum hætti. Sólin nýtist raunar lífinu á jörðinni með svo víðtækum og djúptækum hætti að án hennar væri alls ekkert líf á jörðinni. En möguleg nýting sólarinnar er ekki það sama og tilgangur hennar. Þannig verður að gera greinarmun á tilgangi og gagnsemi. Náttúrufyrirbæri eru stundum gagnleg og stundum ógagnleg fyrir okkur en út af fyrir sig tilgangslaus –– nema ef við föllumst á annaðhvort svokallaða sköpunarhyggju eða vithönnun annars vegar eða markhyggju hins vegar.

Eru fjöll tilgangslaus? Teikning af Öræfajökli úr Ferðabók Skotans Ebenezer Henderson sem kom fyrst út 1818.

Sköpunarhyggja er í grófum dráttum sú hugmynd að heimurinn hafi verið skapaður af vitrænni veru. Ef svo er, þá mætti hugsa sér að heimurinn sjálfur og allt sem í honum er (þar með talin sólin, jörðin og við sjálf) hafi þann tilgang sem skaparinn hefur ljáð honum, rétt eins og hver annar smíðishlutur. Sköpunarhyggja af þessu tagi á frekar fylgi að fagna innan trúarbragða en innan vísinda. Á hinn bóginn er markhyggja sú kenning að jafnvel án skapara sé heimurinn gæddur tilgangi og hvers kyns náttúrufyrirbæri séu stefnumiðuð í eðli sínu (stefni frá náttúrunnar hendi að einhverju marki); þannig búi tilgangur og stefna fyrirbæranna í þeim sjálfum rétt eins og þyngdarkrafturinn eða aðrir náttúrulegir eiginleika. Markhyggja hefur ekki átt miklu fylgi að fagna í vísindum eða heimspeki undanfarnar aldir en var vinsæl í fornöld og gegnir til dæmis mikilvægu hlutverki hjá Aristótelesi.

Í stuttu máli er svarið því á þá leið að annaðhvort er náttúran sem slík gædd tilgangi (eins og markhyggjumaður myndi halda fram) eða ekki en þá fá hlutir (smíðisgripir og athafnir) eigi að síður tilgang sinn frá þeim sem býr þá til eða tekur sér þá fyrir hendur. Heimspekin er ekki undanskilin því hún fær tilgang sinn frá iðkendum sínum og er tilgangslaus einungis því fólki sem finnur alls enga ástæðu til þess að leggja stund á hana.

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

3.9.2020

Spyrjandi

Ágúst Þorsteinsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Er heimspeki tilgangslaus?“ Vísindavefurinn, 3. september 2020, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79941.

Geir Þ. Þórarinsson. (2020, 3. september). Er heimspeki tilgangslaus? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79941

Geir Þ. Þórarinsson. „Er heimspeki tilgangslaus?“ Vísindavefurinn. 3. sep. 2020. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79941>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er heimspeki tilgangslaus?
Stutta svarið við spurningunni er: Nei, en það veltur samt eiginlega á þér.

Þegar maður veltir spurningunni fyrir sér vakna fleiri spurningar: Hvað er tilgangur? Hvaðan kemur tilgangur? Hvers konar hlutir geta haft tilgang? Það virðist vera grundvallarmunur á að spyrja um tilgang til dæmis smíðisgripa annars vegar og náttúrufyrirbæra hins vegar.

Hlutir sem fólk býr til, eins og húsögn eða verkfæri og tæki af öllu mögulegu tagi, fá tilgang sinn frá okkur sem búum þau til og notum þau. Tilgangur hlutanna er að gagnast okkur við að gera það sem við ætlum okkur að gera með þeim. Ef við virðum fyrir okkur einfalt verkfæri eins og hamar, þá blasir við að hann er gerður úr einhverju efni, er oftast þungur, hefur lögun sem er þannig að hann fellur vel í hendi og svo framvegis. Af hverju er hann þannig? Væntanlega er hann þannig af því að hann var gerður þannig til þess að hægt sé að negla nagla með honum. Sá sem fær sér hamar ætlar að negla nagla með honum en ætlar væntanlega ekki að smyrja brauð með hamrinum. Ef einhver smíðar sér eða verður sér úti um verkfæri sem hann ætlar sér að nota til að að smyrja brauð myndi verkfærið væntalega vera öðruvísi í laginu en hamar, talsvert léttara og þar fram eftir götunum. Það myndi líkjast smjörhníf (og væri smjörhnífur). Þannig að ef við spyrjum hvort hamar sé tilgangslaus er svarið í stuttu máli: Nei, hann hefur þann tilgang að negla nagla. Og ef spurt er áfram: Hvaðan kemur sá tilgangur? Þá er svarið: Við gáfum honum þann tilgang af því það er það sem við ætlum okkur að gera með honum.

Sá sem fær sér hamar ætlar að negla nagla með honum en ætlar væntanlega ekki að smyrja brauð með hamrinum.

Sömu sögu er að segja um hvaðeina sem fólk tekur sér fyrir hendur; ekki bara tæki og tól heldur alls kyns athafnir, svo sem að stunda íþróttir, læra á gítar og iðka heimspeki. Eru íþróttir tilgangslausar? Þær hafa þann tilgang sem við gefum þeim. Sumir stunda íþróttir til þess að skemmta sér, aðrir til heilsueflingar. Skemmtun og heilsuefling eru því dæmi um tilgang íþrótta en það fer eftir iðkandanum hver tilgangurinn er. Heimspekin hefur einnig þann tilgang sem iðkandinn gefur henni. Sumir iðka heimspeki til þess að svala forvitni sinni; með iðkun heimspekinnar leita þeir svara við spurningum sem leita á þá. Aðrir stunda heimspeki af því að þeim þykir hún skemmtileg. Ef þú finnur alls enga ástæðu til þess að iðka heimspeki, þá er hún tilgangslaus fyrir þig. En hún er ekki þar með tilgangslaus fyrir alla aðra líka. Heimspekin er einfaldlega jafn tilgangsrík eða tilgangslaus eins og að leggja stund á íþróttir eða myndlist eða að ferðast.

Annað er uppi á teningnum ef við spyrjum um tilgang náttúrufyrirbæra. Eru fjöll tilgangslaus? Er sólin tilgangslaus? Fjöllin og sólin urðu ekki til svo að þau gætu þjónað fyrirætlunum okkar. Fólk getur auðvitað nýtt sér náttúrufyrirbæri. Það er hægt að nýta sólargeisla til þess að hlaða sólarrafhlöður og nýta svo þá orku með ýmsum hætti. Sólin nýtist raunar lífinu á jörðinni með svo víðtækum og djúptækum hætti að án hennar væri alls ekkert líf á jörðinni. En möguleg nýting sólarinnar er ekki það sama og tilgangur hennar. Þannig verður að gera greinarmun á tilgangi og gagnsemi. Náttúrufyrirbæri eru stundum gagnleg og stundum ógagnleg fyrir okkur en út af fyrir sig tilgangslaus –– nema ef við föllumst á annaðhvort svokallaða sköpunarhyggju eða vithönnun annars vegar eða markhyggju hins vegar.

Eru fjöll tilgangslaus? Teikning af Öræfajökli úr Ferðabók Skotans Ebenezer Henderson sem kom fyrst út 1818.

Sköpunarhyggja er í grófum dráttum sú hugmynd að heimurinn hafi verið skapaður af vitrænni veru. Ef svo er, þá mætti hugsa sér að heimurinn sjálfur og allt sem í honum er (þar með talin sólin, jörðin og við sjálf) hafi þann tilgang sem skaparinn hefur ljáð honum, rétt eins og hver annar smíðishlutur. Sköpunarhyggja af þessu tagi á frekar fylgi að fagna innan trúarbragða en innan vísinda. Á hinn bóginn er markhyggja sú kenning að jafnvel án skapara sé heimurinn gæddur tilgangi og hvers kyns náttúrufyrirbæri séu stefnumiðuð í eðli sínu (stefni frá náttúrunnar hendi að einhverju marki); þannig búi tilgangur og stefna fyrirbæranna í þeim sjálfum rétt eins og þyngdarkrafturinn eða aðrir náttúrulegir eiginleika. Markhyggja hefur ekki átt miklu fylgi að fagna í vísindum eða heimspeki undanfarnar aldir en var vinsæl í fornöld og gegnir til dæmis mikilvægu hlutverki hjá Aristótelesi.

Í stuttu máli er svarið því á þá leið að annaðhvort er náttúran sem slík gædd tilgangi (eins og markhyggjumaður myndi halda fram) eða ekki en þá fá hlutir (smíðisgripir og athafnir) eigi að síður tilgang sinn frá þeim sem býr þá til eða tekur sér þá fyrir hendur. Heimspekin er ekki undanskilin því hún fær tilgang sinn frá iðkendum sínum og er tilgangslaus einungis því fólki sem finnur alls enga ástæðu til þess að leggja stund á hana.

Mynd:...