Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hvað er markhyggja?

Geir Þ. Þórarinsson

Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:
Hvað er markhyggja? Hvenær og af hverju varð hún til og hvaða áhrif hefur hún haft?

Markhyggja er í grófum dráttum hver sú kenning sem beitir tilgangsskýringum. Tilgangsskýringar eru útskýringarnar sem vísa til tilgangs eða ætlunar sem þáttar í orsakasamhengi. Þá er það sem á að útskýra skýrt með tilvísun til markmiðs sem það stefnir að. Hugmyndin er sú að með því að bera kennsl á markmiðið varpi maður ljósi á hvers vegna eitthvað gerist eða af hverju það er eins og það er. Markhyggja er kenning eða kenningakerfi sem gerir ráð fyrir skýringum af þessu tagi og beitir þeim. Á grísku er orðið telos notað um slíkt mark og á erlendum málum kallast þessi tegund útskýringa þess vegna teleology, téléologie og svo framvegis.

Skoðum nánar hvernig þetta virkar. Ef einhver spyrði til dæmis „Hvers vegna eru ljósin kveikt í þessu herbergi?“ þá væri svarið „Til þess að ég sjái betur“ dæmi um tilgangsskýringu. Svarið gerir ráð fyrir að þörf mín og ætlun að sjá betur sé það sem olli því að ljósin eru kveikt; eða sé að minnsta kosti liður í skýringunni. Það væri hægt að gefa annars konar skýringu: Ljósin eru kveikt af því að rafmagn berst í lampann. Rafmagn berst í lampann af því að þrýstingur frá þumalfingri mínum ýtti takkanum niður. Þrýstingurinn frá þumlinum á takkann var vegna samdráttar ýmissa vöðva í líkama mínum sem urðu þess valdandi að höndin réttist út í áttina að takkanum og þvingaði hann niður. Og svo framvegis. Svona skýringar má kalla vélrænar (eða „mekanískar“) orsakaskýringar. Sumir heimspekingar hafa raunar talið að tilgangsskýringar séu á endanum bara dulbúnar orsakaskýringar.

Ef einhver spyrði til dæmis „Hvers vegna eru ljósin kveikt í þessu herbergi?“ þá væri svarið „Til þess að ég sjái betur“ dæmi um tilgangsskýringu.

Í samræðunni Fædoni lýsir forngríski heimspekingurinn Platon sams konar mun á skýringum við spurningunni hvers vegna Sókrates sitji í fangelsinu.[1] Þar lýsir Sókrates því hvernig hann kynntist náttúrufræðiriti Anaxagórasar og brann af áhuga að kynna sér þau fræði en varð fyrir vonbrigðum með eintómar vélrænar skýringar. Anaxagóras gerði ráð fyrir óteljandi frumefnum í heiminum auk hugar (nous) en fékk þessum hug ekkert viðeigandi fræðilegt hlutverk ef marka má endursögn Platons. Sókrates vildi hins vegar að hann hefði sagt að hugurinn stýrði heiminum.

Sköpunarhyggja er annað dæmi um markhyggju. Hún gerir ráð fyrir að tilgangurinn sé áskapaður af skapara eða hönnuði heimsins, líkt og við ljáum tækjum og tólum sem við búum okkur til tilgang. Það er tilgangur sjónvarps að birta myndir og tilgangur hnífs að skera vegna þess að við höfum búið þessi tæki og tól til og hannað þau til þess að þau geri einmitt þetta. Sjónvarp sem ekki kviknar á (ef það er rétt tengt og svo framvegis) er bilað og uppfyllir ekki eiginlegt hlutverk sitt; það virkar ekki eins og því var ætlað að gera. Sköpunarhyggja reynir að skýra lífið og náttúruna með sams konar hætti: Ef spurt er hvers vegna gíraffar hafa langan háls myndi sá sem leitar tilgangsskýringar svara „Til þess að geta teygt sig í laufin í hæstu trjánum“ eða eitthvað á þá leið og sköpunarhyggja myndi bæta því við að sá tilgangur kæmi einmitt frá skapara tegundarinnar. Sköpunarhyggja gengur út frá því að heimurinn einkennist af vitrænni hönnun og tilgangsskýringarnar vísa þá til ætlunar hönnuðarins eða skaparans.

Sköpunarhyggja er annað dæmi um markhyggju. Hún gerir ráð fyrir að tilgangurinn sé áskapaður af skapara eða hönnuði heimsins, líkt og við ljáum tækjum og tólum sem við búum okkur til tilgang.

Markhyggja um náttúruna þarf samt alls ekki að vera sköpunarhyggja eða vithönnun. Til dæmis var forngríski heimspekingurinn Aristóteles markhyggjumaður og beitti iðulega tilgangsskýringum auk annarra skýringa,[2] til að mynda í jafnólíkum fræðum og náttúrufræði og bókmenntafræði en umfram allt í líffræðinni. En hann gerði samt ekki ráð fyrir skapara eða að gangverk náttúrunnar væri hannað af neinum. Hann taldi að náttúran væri sjálf stefnumiðuð í eðli sínu. Uppsprettan er þá innan náttúrunnar en ekki utan hennar. Rétt eins og það tilheyrir efnislegum hlutum að hafa rúmtak tilheyrir það náttúrunni að vera stefnumiðuð; hún stefnir í einhverja átt. Til dæmis vaxa börn og þroskast – nema eitthvað komi í veg fyrir það – sjálfkrafa og alveg óháð því hvort þeim er sagt að gera það. Þau stefna náttúrulega að því að fullorðnast. Ef til vill má greina vott um þennan hugsunarhátt í sjálfu orðinu „fullorðinn“.

Ýmsir hafa gert uppreisn gegn þessum hugsunarhætti. Til dæmis eindahyggjumennirnir grísku, sem héldu því fram að í raun væri ekkert til með agnarsmá ódeili og tómarúm. Ódeilin rekast svo hvert á annað og loða saman, mynda hluti (stóla og borð, steina, tré) og tvístrast svo á ný. En í þessu er enginn tilgangur. Í kjölfar endurreisnarinnar fóru heimspekingar að líta svo á að tilgangsskýringar hefðu engan skýringarmátt. Þannig hélt til dæmis Francis Bacon fram á 17. öld að tilgangsskýringar skýrðu í raun ekkert og heimspekingar eins og Baruch Spinoza og aðrir héldu því fram að tilgangsskýringar sneru öllu á hvolf því þær létu afleiðinguna skýra orsökina; það væri í andstæða átt við náttúruna sjálfa.

Í stað þess að grípa til tilgangsskýringa sem horfa fram á við reiddi Charles Darwin sig á orsakaskýringar sem leita aftur á bak.

Mikilvægasta uppreisnin og sú sem olli mestum usla kom frá enska líffræðingnum Charles Darwin um miðbik 19. aldar.[3] Hann skýrði þróun lífsins á jörðinni að því er virtist án þess að vísa til tilgangs og án þess að þurfa að vísa nokkurn tímann til hönnunar.[4] Í stað þess að grípa til tilgangsskýringa sem horfa fram á við reiddi hann sig á orsakaskýringar sem leita aftur á bak. Í stað þess að segja, til dæmis, að gíraffi hafi langan háls til að hann geti teygt sig upp í laufin segir þróunarkenning Darwins að hann hafi langan háls af því að hann er afkomandi einstaklinga með langan háls. Meira og minna allir gíraffar eru með langan háls af því að þeir eru allir afkomendur síðustu kynslóðar gíraffa þar sem flestir höfðu langan háls og þeir sem höfðu lengri hálsa áttu bestu möguleikana á að geta afkvæmi. Þess vegna átti sú kynslóð fleiri afkvæmi með lengri hálsa og færri afkvæmi með styttri hálsa. Og þannig koll af kolli, kynslóð fram af kynslóð í milljónir ára. Þannig þróast tegundir á grundvelli náttúruvals. Í stað þess að leita tilgangs fyrir langan háls gíraffans leitar kenningin þess vegna meira og minna vélrænna orsaka fyrir lengd hans hjá kynslóðinni á undan.

Tilgangsskýringar hafa líklega fylgt manninum frá upphafi enda virðist ætlun manna vera viðeigandi útskýring á margvíslegri hegðun þeirra, í það minnsta í daglegu lífi okkar. Að bera kennsl á ætlun og markmið manna virðist varpa raunverulega ljósi á af hverju menn gera hitt og þetta. Sem tegund skýringa í heimspeki og vísindum var markhyggja að minnsta kosti til frá upphafi grískrar heimspeki. Tilgangsskýringar eru afar fyrirferðamiklar í trúarbrögðum og guðfræði í formi sköpunarhyggju af ýmsu tagi en eru auk þess enn þá til í heimspeki og vísindum í formi annars konar markhyggju, til dæmis í líffræði og félagsvísindum en eru umdeildar eins og gefur að skilja. Áhrifin hafa því verið töluverð því auk þess sem markhyggja skýtur víða upp kollinum í vísindasögunni og er enn þá til má segja að talsmáti okkar og þankagangur sé þessu marki brenndur að einhverju leyti; enda var stundum erfitt fyrir náttúruvísindin að brjótast undan áhrifunum.

Tilvísanir:
  1. ^ Fæd. 96A-100A. Fædon er til í íslenskri þýðingu Sigurðar Nordal og Þorsteins Gylfasonar og er að finna í ritinu Síðustu dagar Sókratesar eftir Platon (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2. útg. 1983).
  2. ^ Aristóteles hafði kenningu um fjórar tegundir orsaka, sem voru: efni, form, gerandi og tilgangur. Um kenninguna má lesa hjá Andrea Falcon, „Aristotle on Causality“, The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Haust 2015), Edward N. Zalta (ritstj.). (Skoðað 05.07.2017). Sígild grein um markhyggju Aristótelesar er John M. Cooper, „Aristotle on Natural Teleology“, Knowledge, Nature, and the Good: Essays on Ancient Philosophy (Princeton: Princeton University Press, 2004), 107-29. Ítarlegri umfjöllun er að finna hjá Monte Ransome Johnson, Aristotle on Teleology (Oxford: Clarendon Press, 2005).
  3. ^ Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin kom fyrst út 1859 og er til í íslenskri þýðingu Guðmundar Guðmundssonar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2004).
  4. ^ Þróunarkenning Darwins styðst ekki við hugmyndir um vithönnun en það er enn umdeilt hvort kenningin er alveg laus við tilgangsskýringar. Um það má lesa hjá James Lennox, „Darwinism“, The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vor 2017), Edward N. Zalta (ritstj.) og Colin Allen, „Teleological Notions in Biology“, The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vetur 2009), Edward N. Zalta (ritstj.). (Skoðað 05.07.2017).

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

28.11.2017

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað er markhyggja?“ Vísindavefurinn, 28. nóvember 2017. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=74249.

Geir Þ. Þórarinsson. (2017, 28. nóvember). Hvað er markhyggja? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=74249

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað er markhyggja?“ Vísindavefurinn. 28. nóv. 2017. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=74249>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er markhyggja?
Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:

Hvað er markhyggja? Hvenær og af hverju varð hún til og hvaða áhrif hefur hún haft?

Markhyggja er í grófum dráttum hver sú kenning sem beitir tilgangsskýringum. Tilgangsskýringar eru útskýringarnar sem vísa til tilgangs eða ætlunar sem þáttar í orsakasamhengi. Þá er það sem á að útskýra skýrt með tilvísun til markmiðs sem það stefnir að. Hugmyndin er sú að með því að bera kennsl á markmiðið varpi maður ljósi á hvers vegna eitthvað gerist eða af hverju það er eins og það er. Markhyggja er kenning eða kenningakerfi sem gerir ráð fyrir skýringum af þessu tagi og beitir þeim. Á grísku er orðið telos notað um slíkt mark og á erlendum málum kallast þessi tegund útskýringa þess vegna teleology, téléologie og svo framvegis.

Skoðum nánar hvernig þetta virkar. Ef einhver spyrði til dæmis „Hvers vegna eru ljósin kveikt í þessu herbergi?“ þá væri svarið „Til þess að ég sjái betur“ dæmi um tilgangsskýringu. Svarið gerir ráð fyrir að þörf mín og ætlun að sjá betur sé það sem olli því að ljósin eru kveikt; eða sé að minnsta kosti liður í skýringunni. Það væri hægt að gefa annars konar skýringu: Ljósin eru kveikt af því að rafmagn berst í lampann. Rafmagn berst í lampann af því að þrýstingur frá þumalfingri mínum ýtti takkanum niður. Þrýstingurinn frá þumlinum á takkann var vegna samdráttar ýmissa vöðva í líkama mínum sem urðu þess valdandi að höndin réttist út í áttina að takkanum og þvingaði hann niður. Og svo framvegis. Svona skýringar má kalla vélrænar (eða „mekanískar“) orsakaskýringar. Sumir heimspekingar hafa raunar talið að tilgangsskýringar séu á endanum bara dulbúnar orsakaskýringar.

Ef einhver spyrði til dæmis „Hvers vegna eru ljósin kveikt í þessu herbergi?“ þá væri svarið „Til þess að ég sjái betur“ dæmi um tilgangsskýringu.

Í samræðunni Fædoni lýsir forngríski heimspekingurinn Platon sams konar mun á skýringum við spurningunni hvers vegna Sókrates sitji í fangelsinu.[1] Þar lýsir Sókrates því hvernig hann kynntist náttúrufræðiriti Anaxagórasar og brann af áhuga að kynna sér þau fræði en varð fyrir vonbrigðum með eintómar vélrænar skýringar. Anaxagóras gerði ráð fyrir óteljandi frumefnum í heiminum auk hugar (nous) en fékk þessum hug ekkert viðeigandi fræðilegt hlutverk ef marka má endursögn Platons. Sókrates vildi hins vegar að hann hefði sagt að hugurinn stýrði heiminum.

Sköpunarhyggja er annað dæmi um markhyggju. Hún gerir ráð fyrir að tilgangurinn sé áskapaður af skapara eða hönnuði heimsins, líkt og við ljáum tækjum og tólum sem við búum okkur til tilgang. Það er tilgangur sjónvarps að birta myndir og tilgangur hnífs að skera vegna þess að við höfum búið þessi tæki og tól til og hannað þau til þess að þau geri einmitt þetta. Sjónvarp sem ekki kviknar á (ef það er rétt tengt og svo framvegis) er bilað og uppfyllir ekki eiginlegt hlutverk sitt; það virkar ekki eins og því var ætlað að gera. Sköpunarhyggja reynir að skýra lífið og náttúruna með sams konar hætti: Ef spurt er hvers vegna gíraffar hafa langan háls myndi sá sem leitar tilgangsskýringar svara „Til þess að geta teygt sig í laufin í hæstu trjánum“ eða eitthvað á þá leið og sköpunarhyggja myndi bæta því við að sá tilgangur kæmi einmitt frá skapara tegundarinnar. Sköpunarhyggja gengur út frá því að heimurinn einkennist af vitrænni hönnun og tilgangsskýringarnar vísa þá til ætlunar hönnuðarins eða skaparans.

Sköpunarhyggja er annað dæmi um markhyggju. Hún gerir ráð fyrir að tilgangurinn sé áskapaður af skapara eða hönnuði heimsins, líkt og við ljáum tækjum og tólum sem við búum okkur til tilgang.

Markhyggja um náttúruna þarf samt alls ekki að vera sköpunarhyggja eða vithönnun. Til dæmis var forngríski heimspekingurinn Aristóteles markhyggjumaður og beitti iðulega tilgangsskýringum auk annarra skýringa,[2] til að mynda í jafnólíkum fræðum og náttúrufræði og bókmenntafræði en umfram allt í líffræðinni. En hann gerði samt ekki ráð fyrir skapara eða að gangverk náttúrunnar væri hannað af neinum. Hann taldi að náttúran væri sjálf stefnumiðuð í eðli sínu. Uppsprettan er þá innan náttúrunnar en ekki utan hennar. Rétt eins og það tilheyrir efnislegum hlutum að hafa rúmtak tilheyrir það náttúrunni að vera stefnumiðuð; hún stefnir í einhverja átt. Til dæmis vaxa börn og þroskast – nema eitthvað komi í veg fyrir það – sjálfkrafa og alveg óháð því hvort þeim er sagt að gera það. Þau stefna náttúrulega að því að fullorðnast. Ef til vill má greina vott um þennan hugsunarhátt í sjálfu orðinu „fullorðinn“.

Ýmsir hafa gert uppreisn gegn þessum hugsunarhætti. Til dæmis eindahyggjumennirnir grísku, sem héldu því fram að í raun væri ekkert til með agnarsmá ódeili og tómarúm. Ódeilin rekast svo hvert á annað og loða saman, mynda hluti (stóla og borð, steina, tré) og tvístrast svo á ný. En í þessu er enginn tilgangur. Í kjölfar endurreisnarinnar fóru heimspekingar að líta svo á að tilgangsskýringar hefðu engan skýringarmátt. Þannig hélt til dæmis Francis Bacon fram á 17. öld að tilgangsskýringar skýrðu í raun ekkert og heimspekingar eins og Baruch Spinoza og aðrir héldu því fram að tilgangsskýringar sneru öllu á hvolf því þær létu afleiðinguna skýra orsökina; það væri í andstæða átt við náttúruna sjálfa.

Í stað þess að grípa til tilgangsskýringa sem horfa fram á við reiddi Charles Darwin sig á orsakaskýringar sem leita aftur á bak.

Mikilvægasta uppreisnin og sú sem olli mestum usla kom frá enska líffræðingnum Charles Darwin um miðbik 19. aldar.[3] Hann skýrði þróun lífsins á jörðinni að því er virtist án þess að vísa til tilgangs og án þess að þurfa að vísa nokkurn tímann til hönnunar.[4] Í stað þess að grípa til tilgangsskýringa sem horfa fram á við reiddi hann sig á orsakaskýringar sem leita aftur á bak. Í stað þess að segja, til dæmis, að gíraffi hafi langan háls til að hann geti teygt sig upp í laufin segir þróunarkenning Darwins að hann hafi langan háls af því að hann er afkomandi einstaklinga með langan háls. Meira og minna allir gíraffar eru með langan háls af því að þeir eru allir afkomendur síðustu kynslóðar gíraffa þar sem flestir höfðu langan háls og þeir sem höfðu lengri hálsa áttu bestu möguleikana á að geta afkvæmi. Þess vegna átti sú kynslóð fleiri afkvæmi með lengri hálsa og færri afkvæmi með styttri hálsa. Og þannig koll af kolli, kynslóð fram af kynslóð í milljónir ára. Þannig þróast tegundir á grundvelli náttúruvals. Í stað þess að leita tilgangs fyrir langan háls gíraffans leitar kenningin þess vegna meira og minna vélrænna orsaka fyrir lengd hans hjá kynslóðinni á undan.

Tilgangsskýringar hafa líklega fylgt manninum frá upphafi enda virðist ætlun manna vera viðeigandi útskýring á margvíslegri hegðun þeirra, í það minnsta í daglegu lífi okkar. Að bera kennsl á ætlun og markmið manna virðist varpa raunverulega ljósi á af hverju menn gera hitt og þetta. Sem tegund skýringa í heimspeki og vísindum var markhyggja að minnsta kosti til frá upphafi grískrar heimspeki. Tilgangsskýringar eru afar fyrirferðamiklar í trúarbrögðum og guðfræði í formi sköpunarhyggju af ýmsu tagi en eru auk þess enn þá til í heimspeki og vísindum í formi annars konar markhyggju, til dæmis í líffræði og félagsvísindum en eru umdeildar eins og gefur að skilja. Áhrifin hafa því verið töluverð því auk þess sem markhyggja skýtur víða upp kollinum í vísindasögunni og er enn þá til má segja að talsmáti okkar og þankagangur sé þessu marki brenndur að einhverju leyti; enda var stundum erfitt fyrir náttúruvísindin að brjótast undan áhrifunum.

Tilvísanir:
  1. ^ Fæd. 96A-100A. Fædon er til í íslenskri þýðingu Sigurðar Nordal og Þorsteins Gylfasonar og er að finna í ritinu Síðustu dagar Sókratesar eftir Platon (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2. útg. 1983).
  2. ^ Aristóteles hafði kenningu um fjórar tegundir orsaka, sem voru: efni, form, gerandi og tilgangur. Um kenninguna má lesa hjá Andrea Falcon, „Aristotle on Causality“, The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Haust 2015), Edward N. Zalta (ritstj.). (Skoðað 05.07.2017). Sígild grein um markhyggju Aristótelesar er John M. Cooper, „Aristotle on Natural Teleology“, Knowledge, Nature, and the Good: Essays on Ancient Philosophy (Princeton: Princeton University Press, 2004), 107-29. Ítarlegri umfjöllun er að finna hjá Monte Ransome Johnson, Aristotle on Teleology (Oxford: Clarendon Press, 2005).
  3. ^ Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin kom fyrst út 1859 og er til í íslenskri þýðingu Guðmundar Guðmundssonar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2004).
  4. ^ Þróunarkenning Darwins styðst ekki við hugmyndir um vithönnun en það er enn umdeilt hvort kenningin er alveg laus við tilgangsskýringar. Um það má lesa hjá James Lennox, „Darwinism“, The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vor 2017), Edward N. Zalta (ritstj.) og Colin Allen, „Teleological Notions in Biology“, The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vetur 2009), Edward N. Zalta (ritstj.). (Skoðað 05.07.2017).

Myndir:

...