Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif út um allan heim og þrátt fyrir að við séum öll að berjast við sömu veiruna hafa viðbrögð stjórnvalda verið ólík. Hér á Íslandi hafa aðgerðirnar verið vægar í samanburði við önnur lönd, eins og til dæmis Danmörku og Bretland þar sem útgöngubann var sett á íbúa. Eftir kórónuveirulaust sumar voru möguleikar fólks á því að heimsækja Ísland auknir og fljótlega eftir það komu aftur upp smit á Íslandi. Í kjölfarið voru aðgerðir á landamærunum hertar, á þann hátt að farþegar voru skimaðir við komuna til landsins, fóru síðan í 4-5 daga sóttkví og aðra skimum. Eðlilega vekja slíkar aðgerðir umræðu og ýmsir hafa lýst skoðunum sínum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Sumt stjórnmálafólk telur að þessar aðgerðir séu of harðar og þeirra á meðal er fólk sem er á þingi fyrir stjórnarflokkana sem ábyrgð bera á þessum aðgerðum. Þær skoðanir sem fram koma í fjölmiðlum endurspegla viðhorf þeirra sem setja þær fram, en til að skoða eitthvað sem kalla mætti „viðhorf þjóðarinnar“ þarf að nota aðferðir félagsvísindanna.
Eina leiðin til þess að kanna raunverulegar skoðanir almennings er að velja úrtak með slembiaðferð. Þegar það er gert er mögulegt að heimfæra niðurstöðuna á þýðið (þjóðina) í heild, auk þess sem hægt er að bera saman mismunandi hópa og í þessu tilfelli að greina hvernig afstaðan þróast yfir tíma. Hér er byggt á niðurstöðum slíkrar könnunar. Könnunin var lögð fyrir netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands[1] dagana 13. ágúst til 30. ágúst. Við sendum út spurningalista á 500 einstaklinga á hverjum degi og nú getum við því séð hvort að það sé munur á svörum, til dæmis milli þeirra sem svara 13. ágúst eða 23. ágúst. Við spurðum þátttakendur annars vegar um viðhorf til þeirra sóttvarnaraðgerða sem í gildi eru innanlands og hins vegar um viðhorf til sóttvarnaraðgerða sem í gildi eru á landamærum Íslands. Þátttakendur gátu svarað á þá leið að þeir vildu hertar aðgerðir, óbreyttar eða vægari aðgerðar.
Almenningur ánægður með aðgerðir á landamærum og innanlands
Mikilvægasta niðurstaða okkar er, að þrátt fyrir háar raddir í fjölmiðlum um brot á frelsi okkar, þá er almenningur á Íslandi ánægður með þær aðgerðir sem settar voru um miðjan ágúst. Ef tímabilið í heild er skoðað kemur í ljós að um 13% vilja vægari aðgerðir innanlands, 24% harðari en meirihlutinn, tæp 63% vill óbreyttar aðgerðir. Varðandi landamæri Íslands þá vilja um 13% vægari aðgerðir á landamærunum, en hærra hlutfall eða 34% vill harðari aðgerðir og rúmlega 50% vilja óbreyttar aðgerðir. Þegar við biðjum almenning um að velja á milli harðarði aðgerða á landamærum eða innanlands, þá vill langhæsta hlutfallið, eða tæp 67% harðari aðgerðir á landamærunum, í samanburði við tæp 18% sem kjósa slíkt innanlands og tæp 16% sem vilja ekki að aðgerðir séu hertar, hvorki á landamærum né innanlands. Sama myndin birtist ef við skoðum nýjustu niðurstöður sérstaklega en þær gefa til kynna að mikill meirihluti svarenda, eða tveir af hverjum þremur, kjósi óbreyttar aðgerðir, hvort sem er á landamærum eða innanlands. Það er því augljóst að mikill minnihluti Íslendinga er sammála þeim röddum sem hafa heyrst í fjölmiðlum undanfarið sem tala fyrir vægari aðgerðum.
Þær myndir sem sjást hér sýna þróun viðhorfa yfir tíma. Mynd 1 sýnir afstöðu til aðgerða innanlands eftir dögum, og sjá má að viðhorfin hafa ekki breyst mikið yfir tímabilið. Þeir sem vilja vægari aðgerðir eru á bilinu 7-19%, harðari aðgerðir vilja 18-35% en stærsti hlutinn er sáttur við aðgerðir, eða frá 49 til 71%. Það er því alltaf um eða vel yfir helmingur landsmanna sem eru sáttir við aðgerðir innanlands. Mynd 2 sýnir afstöðu til aðgerða á landamærunum eftir dögum, en þar má sjá að á bilinu 7-21% vilja vægari aðgerðir á landamærunum, 37-68% vilja óbreyttar aðgerðir, en 19-61% vilja hertari aðgerðir.
Mynd 1. Viðhorf Íslendinga til aðgerða innanlands.
Mynd 2. Viðhorf Íslendinga til aðgerða á landamærum.
Þarna má sjá verulegan mun eftir dögum, sem væntanlega skýrist að því að svarendur um miðjan ágúst eru líklegir til að hafa í huga vægari aðgerðir sem voru í sumar og vildu sjá aðgerðir hertar. Þegar aðgerðir eru svo hertar 19. ágúst þá er meirihlutinn sáttur við þær aðgerðir. Þrátt fyrir að sóttvarnalæknir og fleiri hafi oft sagt að þetta sé ekki val á milli aðgerða á landamærum eða innanlands, þá er það eflaust þannig í huga margra. Líklega líta margir svo á að við getum lifað tiltölulega frjáls innanlands með því að hafa strangari reglur á landamærum, eða við getum opnað landamærin meira og tekið þá áhættu á verri faraldri. Því var í könnuninni einnig spurning þar sem þátttakendur voru beðnir að velja á milli þessara aðgerða. Og í ljós kemur að Íslendingar velja flestir frekar að hafa frelsið innanlands. Mynd 3 sýnir að á bilinu 56-78% Íslendinga vilja frekar herða aðgerðir á landamærunum, á meðan einungis 14-21% vilja frekar herða aðgerðir innanlands. Á bilinu 7-26% vilja ekki hertar aðgerðir. Af þessu má draga þá ályktun að tiltölulega mikil sátt hafi ríkt á meðal Íslendinga varðandi hertar aðgerðir, að minnsta kosti fram til 30. ágúst.
Mynd 3. Val Íslendinga ef einungis er í boði að herða sóttvarnaraðgerðir á annað hvort landamærum eða innanlands.
Greining á viðhorfi mismunandi hópa gefur ekki til kynna að um áberandi mun sé að ræða milli hópa í viðhorfi til aðgerðanna. Þó vilja konur og eldra fólk almennt frekar herða aðgerðir en karlar og yngra fólk. Einnig vilja þeir sem hafa meiri áhyggjur af faraldrinum harðari aðgerðir. Hins vegar kemur fram að þeir sem eru með meiri menntun vilja almennt vægari aðgerðir, þeir sem eru á vinnumarkaði sem og þeir sem styðja ríkisstjórnina. Það kemur kannski nokkuð á óvart, þar sem aðgerðirnar eru settar af ríkisstjórninni, en vissulega hafa verið nokkuð háværar raddir nýlega, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins, að aðgerðir séu of harðar. Viðhorf er svipað á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu, eins og sjá má af mynd 4, sem sýnir meðalafstöðu fyrir þessa hópa (þar sem hærra gildi lýsir meiri stuðningi við hertar aðgerðir). Þó sést að fólk utan höfuðborgarsvæðis kýs að meðaltali harðari aðgerðir en fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu og er sá munur tölfræðilega marktækur fyrir sóttvarnaraðgerðir á landamærunum.
Mynd 4. Samanburður á afstöðu þeirra sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Þessar niðurstöður benda til þess að Íslendingar séu almennt frekar sáttir við aðgerðir stjórnvalda og má setja þá niðurstöðu í samhengi við aðrar niðurstöður okkar sem sýna síst minni áhyggjur fólks af faraldrinum nú en í vor og að trú almennings á sóttvörnum hefur minnkað. Á tímum slíkrar óvissu leitum við oft eftir skilaboðum og jafnvel lögum og reglum frá aðilum sem við treystum, og í þessu tilfelli virðast margir líta til stjórnvalda til að beita tiltölulega hörðum aðgerðum til að minnka líkurnar á alvarlegum faraldri.
Tilvísun:
^ Netpanell Félagsvísindastofnunar samanstendur af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu sem hefur samþykkt að taka þátt í netkönnunum á vegum stofnunarinnar. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Söfnun í netpanel á sér stað jafnt og þétt og fylgst er vel með samsetningu hans. Meðal annars er þess gætt að dreifing kyns, aldurs, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem hún er meðal allra landsmanna, 18 ára og eldri. Með því að tryggja gæði netpanelsins með framangreindum hætti er möguleiki á að alhæfa um niðurstöður rannsókna sem byggjast á svörum úr honum.
Sigrún Ólafsdóttir, Magnús Þór Torfason, Jón Gunnar Bernburg og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir. „Hvað finnst almenningi um sóttvarnaraðgerðir?“ Vísindavefurinn, 2. september 2020, sótt 16. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80004.
Sigrún Ólafsdóttir, Magnús Þór Torfason, Jón Gunnar Bernburg og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir. (2020, 2. september). Hvað finnst almenningi um sóttvarnaraðgerðir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80004
Sigrún Ólafsdóttir, Magnús Þór Torfason, Jón Gunnar Bernburg og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir. „Hvað finnst almenningi um sóttvarnaraðgerðir?“ Vísindavefurinn. 2. sep. 2020. Vefsíða. 16. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80004>.