Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Útþensla Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO) til austurs var hvorki fyrirsjáanleg né sérstaklega tekin til umræðu þegar samið var um sameiningu Þýskalands árið 1990. Það varð hins vegar fljótlega ljóst, eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur og Rússland tók við hlutverki þeirra og skuldbindingum á alþjóðlegum vettvangi, að mörg þeirra ríkja sem áður höfðu tilheyrt Sovétríkjunum eða verið innan hins sovéska áhrifasvæðis teldu öryggi sínu best borgið með aðild að NATO. Inn í þetta spilaði einnig vilji flestra ríkjanna til að fá aðild að Evrópusambandinu – í flestum tilfellum fór aðild að NATO á undan Evrópusambandsaðild.
Þegar Atlantshafsbandalagið mótaði þá stefnu að stækka bandalagið til austurs var þó ekki tekin nein afstaða til þess hver mörk stækkunarinnar væru. Strax 1994 varð ljóst að þrjú fyrrverandi austantjaldsríki gætu á skömmum tíma fullgilt aðild að bandalaginu. Á þeim tíma snerust umræður fyrst og fremst um með hvaða hætti mætti semja við Úkraínu um að afsala sér öllu tilkalli til kjarnorkuvopna. Einnig voru vonir um að svokallað „samstarf í þágu friðar“ (e. Partnership for Peace) gæti dregið úr þrýstingi Austur-Evrópuríkja að fá aðild að NATO. Þannig mætti einnig stofna til samstarfs við Úkraínu án þess að Rússar teldu sér ögrað með því. Með Búdapest-samkomulaginu svokallaða árið 1994 fékk Úkraína skriflegar tryggingar kjarnorkuveldanna, Rússlands, Bandaríkjanna og Bretlands, fyrir því að landamæri ríkisins væru virt eftir að stjórnvöld þar féllust á að eiga hvorki né framleiða kjarnorkuvopn.
Mynd frá undirritun Búdapest-samkomulagsins árið 1994. Með því fékk Úkraína skriflegar tryggingar kjarnorkuveldanna, Rússlands, Bandaríkjanna og Bretlands, fyrir því að landamæri ríkisins væru virt eftir að stjórnvöld þar féllust á að eiga hvorki né framleiða kjarnorkuvopn.
Rússar létu í ljós óánægju yfir stækkun Atlantshafsbandalagsins strax og fyrstu þreifingar í þá átt hófust með viðræðum við Tékkland, Ungverjaland og Pólland, en Jeltsín-stjórnin í Rússlandi mótmælti þó fyrst kröftuglega þegar byrjað var að ræða aðild Eystrasaltsríkjanna að bandalaginu. Rússar vildu frá upphafi gera greinarmun á þeim ríkjum sem urðu sjálfstæð við fall Sovétríkjanna og hinum sem aðeins voru hluti Sovétblokkarinnar svokölluðu með aðild að Varsjárbandalaginu.
Tékkland, Pólland og Ungverjaland fengu fulla aðild að Atlantshafsbandalaginu 1999, en Eystrasaltslöndin fylgdu í kjölfarið fimm árum seinna – og urðu aðilar að Evrópusambandinu sama ár. Sex önnur Austur-Evrópuríki fengu aðild að NATO það ár.
Rússnesk stjórnvöld héldu ekki aftur af sér við fordæmingu á þessari síðari stækkun bandalagsins, en Vladimír Pútín forseti Rússlands sló þó enn harðari tón í frægri ræðu sem hann hélt á hinni alþjóðlegu öryggisráðstefnu í München árið 2007. Þar sagði hann að Rússar hygðust beita sér af hörku gegn frekari stækkun til austurs. En þessi harða afstaða Rússa hafði þó ekki áhrif á stefnuna nema síður væri. Strax ári síðar, í apríl 2008, var ályktað á fundi NATO í Búkarest að Úkraína og Georgía myndu fá aðild að bandalaginu í fyllingu tímans. Þótt hvorki væru hafnar aðildarviðræður né settur tímarammi utan um mögulega inngöngu, tóku rússnesk stjórnvöld yfirlýsingunni sem beinni ógnun við sig.
Þegar spurt er hvers vegna Úkraína hafi ekki fengið aðild að Atlantshafsbandalaginu fyrir löngu þarf að hafa tvennt í huga. Annars vegar hvernig aðildarþjóðir bandalagsins vildu framan af forðast að ögra Rússum um of, en þó tryggja stöðu NATO í Evrópu ásamt því að gefa þeim löndum sem eftir því óskuðu kost á inngöngu, og hvernig þetta breyttist eftir 2008 þegar það markmið að koma til móts við óskir og kröfur Rússa var ekki lengur í forgangi. Hins vegar hvernig samskipti Rússlands og NATO eftir 2008 hafa einkennst af andstæðum markmiðum: Á meðan Rússar hafa lagt sig fram um að koma í veg fyrir frekari stækkun NATO með hótunum, hefur Atlantshafsbandalagið reynt að draga úr áhrifum Rússa og grafa undan tökum þeirra á fyrrverandi sovétlýðveldum. En á sama tíma hefur verið ljóst að hvorki Úkraína né Georgía kæmust enn nálægt því að uppfylla mörg skilyrði aðildar, þannig að þótt vilji fyrir inngöngu þeirra hafi legið fyrir lengi hefur raunveruleg aðild verið fjarlæg og því hefur ekki einu sinni innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022 breytt.
Nokkur gagnleg rit og greinar:
Zięba, Ryszard. “EU and NATO Eastern Policy.” In Politics and Security of Central and Eastern Europe, edited by Ryszard Zięba, 119–36. Contributions to Political Science. Cham: Springer International Publishing, 2023.
Upprunalega spurningin hljóðaði svona: Af hverju gekk Úkraína ekki í NATO á sama tíma og önnur fyrrum Sovétríki eins og t.d. Eistland, Lettland, Litháen og Pólland árið 1999 og 2004.
Jón Ólafsson. „Af hverju gekk Úkraína ekki í NATO fyrir löngu?“ Vísindavefurinn, 22. febrúar 2023, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83322.
Jón Ólafsson. (2023, 22. febrúar). Af hverju gekk Úkraína ekki í NATO fyrir löngu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83322
Jón Ólafsson. „Af hverju gekk Úkraína ekki í NATO fyrir löngu?“ Vísindavefurinn. 22. feb. 2023. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83322>.