Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaHugvísindiTrúarbrögðHverjar voru meginuppsprettur þekkingar um kristna trú á fyrstu öldum kristni á Íslandi?
Hverjar voru meginuppsprettur þekkingar um kristna trú á fyrstu öldum kristni á Íslandi? Þ.e.a.s. hvernig lærði fólk um inntak trúarbragðanna? Hver kenndi þeim það? Á grundvelli hvaða rita? Á hvaða tungumáli? Og hver kenndi „kennurunum“?
Gyðingdómur, kristni og íslam eiga sammerkt í því að vera trúarbrögð bókarinnar með ríkan sagnheim og þróað kenningakerfi. Í öllum þessum trúarbrögðum hefur uppfræðsla því skipt höfuðmáli og er menntakerfi Vesturlanda sprottið af þessum rótum. Í umhverfi okkar munar auðvitað mest um áhrif kristninnar. Spurningin fjallar því í raun um frumrætur afstæðrar og síðar bóklegrar fræðslu í landinu.
Í öndverðri kristni hér fór öll uppfræðsla fram munnlega. Bókmenning hófst ekki í landinu fyrr en kristni hafði skotið þar rótum og kirkja komist á laggirnar. Síðar leið langur tími uns læsi breiddist út.[1] Fyrst í stað hefur almenningur því kynnst inntaki trúarinnar af boðun og helgihaldi annað tveggja utan landsteinanna eða hér á landi og þá í langflestum tilvikum hjá erlendum trúboðum. Lítið er vitað um trúboðssöguna hér fyrir kristnitöku en í landinu störfuðu þó nokkrir erlendir trúboðsbiskupar um lengri eða skemmri tíma og eru nöfn sumra jafnvel þekkt. Sumir höfðu komið við sögu á meginlandinu og/eða á Bretlandseyjum sem og annars staðar á Norðurlöndum. Einhverjir hurfu svo úr landi og gegndu jafnvel mikilvægum kirkjulegum embættum eftir dvöl hér.[2] Smám saman tóku Íslendingar þetta útbreiðslu- og fræðsluhlutverk svo yfir.
Hóladómkirkja eins og hún birtist í Ferðabók Skotans Ebenezers Hendersons. Hún kom fyrst út 1818.
Framan af hefur helgihald kristinna manna gegnt lykilhlutverki í boðun og uppfræðslu.[3] Það orkaði sterkt á fólk og hafði öflug skynræn, tilfinningaleg og andleg áhrif og vakti ýmsar spurningar sem leiddu síðar til dýpkaðrar þekkingar. Skírnin var skilyrði fyrir fullri þátttöku í helgihaldinu og áður en hægt var að skírast þurfti að fara í gegnum skírnarfræðslu sem staðið gat í eitt eða fleiri ár. Í Grágás, elstu lögbók Íslendinga, er að finna lágmarkskröfur um þekkingu í kristnum fræðum sem giltu snemma á 12. öld. Þar var krafist að fulltíða fólk kynni Pater noster (Faðir vor) og Credo (trúarjátninguna). Þá átti það og að kunna orð þau og atferli sem viðhafa skyldi við skemmri- eða neyðarskírn.[4] Um 150 árum síðar hafði Ave Maria bæst við þessar námskröfur.[5] Allt eru þetta textar sem voru hluti af helgihaldinu en miðla um leið inntaki trúarinnar eins og best kemur fram í trúarjátningunni.
Þar sem heiti helgitextanna eru tilgreind á latínu verður að gera ráð fyrir að fólk hafi átt að kunna þá á þessu alþjóðamáli kirkjunnar.[6] Þannig gat það líka tekið undir flutninginn við helgiathafnir. Þó má gera ráð fyrir að metnaðarfullir kirkjumenn hafi ekki látið nægja að fólk kynni textana utan að á máli sem það skildi ekki. Því má ætla að inntaki þeirra hafi líka verið miðlað á móðurmáli. Útleggingar á þeim og skýringar eru til á íslensku í bókum frá því um 1200. Hafa þær verið ætlaðar prestum til að styðjast við í fræðslustarfi sínu.
Þegar kirkjan hafði komist á í landinu hafa innlendir prestar í auknum mæli tekið við fræðslunni hver í sínum söfnuði. Þeir lærðu aftur á móti á biskupsstólunum, í klaustrum eða hjá vel lærðum prestum víðs vegar um landið. Heimilin tóku síðan við því að viðhalda og styðja við þá fræðslu sem prestarnir veittu og hefur hlutverk þeirra vaxið með tímanum. Eftir siðaskipti á 16. öld fóru fræðslukröfurnar í vöxt og fór hlutverk heimilanna þá líka vaxandi. Þá tóku fræðslukverin einnig að skipta æ meira máli einkum á 18. öld.
Tilvísanir:
^ Hjalti Hugason, „Kristnir trúarhættir“, Íslensk þjóðmenning V, ritstj. Frosti F. Jóhannsson, Reykjavík: Þjóðsaga, 1988, bls. 75–339, hér 282–283.
^ Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, Kristni á Íslandi I, Reykjavík: Alþingi, 2000, bls. 143–147.
^ Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, bls. 147–151.
^ „Kristinna laga þáttur“, Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins, Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útg., Reykjavík: Mál og menning, 1992, bls. 1–45, hér 4–5.
^ „Kristinréttur Árna Þorlákssonar“, Járnsíða og Kristinréttur Árna Þorlákssonar, útg. Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon, Már Jónsson, Reykjavík: Sögufélag, 2005, bls. 143–190, hér 147.
^ Á 8. áratug 20. aldar deildu Halldór Laxness og Bolli Gústavsson síðar vígslubiskup um hvort textarnir hafi verið kenndir á latínu eða móðurmáli. Sjá m.a. Bolli Gústavsson, „Faðir vor í forneskjutauti“, Mbl. 25. janúar 1975, 17. Halldór Laxness, „Pater noster á miðöldum“, Mbl. 8. febrúar 1975, bls. 19.
Hjalti Hugason. „Hverjar voru meginuppsprettur þekkingar um kristna trú á fyrstu öldum kristni á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 12. apríl 2023, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84816.
Hjalti Hugason. (2023, 12. apríl). Hverjar voru meginuppsprettur þekkingar um kristna trú á fyrstu öldum kristni á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84816
Hjalti Hugason. „Hverjar voru meginuppsprettur þekkingar um kristna trú á fyrstu öldum kristni á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 12. apr. 2023. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84816>.