Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða munur er á eddukvæðum og dróttkvæðum?

Ármann Jakobsson

Elstu varðveittu eddukvæði eru væntanlega frá sama tíma og elstu varðveittu dróttkvæðin þar sem segir frá bardögum konunga sem seðja hræfuglana með bardagafýsn sinni og hugdirfsku. Eins og eddukvæðin eru dróttkvæðin einungis varðveitt í ungum handritum, þeim elstu frá 13. öld, en fræðimenn hafa talið að þau séu mörg miklu eldri og þau elstu jafnvel frá 9. öld. Ólíkt eddukvæðum eru dróttkvæði eignuð tilteknum skáldum á miðöldum og meðal elstu dróttkvæðaskálda er Bragi Boddason sem orti Ragnarsdrápu sem að hluta er varðveitt í Snorra-Eddu. Norræni skáldskaparguðinn er einnig nefndur Bragi i Eddu Snorra Sturlusonar og má leiða líkum að því að þessir tveir holdgervingar skáldskaparlistarinnar eða bragsins séu skyldir, guðinn skapaður úr skáldinu eða öfugt eða báðir úr bragnum.

Meðal annarra 9. aldar dróttkvæðaskálda eru Þjóðólfur úr Hvini og Þorbjörn hornklofi en þeir eru báðir sagðir hirðskáld Haralds hárfagra sem átti að hafa ríkt yfir Noregi á seinni hluta 9. aldar og fyrri hluta 10. aldar. Hann var sagður hafa sameinað Noreg fyrstur manna og enn síðar sagður hafa orsakað landnám Íslands með ofríki sínu. Á hinn bóginn er þessi mikli konungur algjörlega óþekktur í samtímaheimildum og hans er fyrst getið í íslenskum heimildum tveimur öldum eftir lát sitt. Þannig virðist ósennilegt að þessar ungu lýsingar á honum séu réttar og raunar getur varla talist fullsannað að hann hafi yfirleitt verið til. Það merkir þó ekki að kvæðin sem eignuð eru Þorbirni og Þjóðólfi eigi sér ekki fornar rætur og jafnvel séu elstu vísurnar frá 9. öld. Mikilvægt er þó að hafa í huga að kvæði þeirra og annarra dróttkvæðaskálda eru nánast aldrei varðveitt í einu lagi heldur hafa fræðimenn 19. og 20. aldar endurgert þau eftir líkum og sum þeirra hafa væntanlega aldrei verið til í þeirri mynd sem þau birtast í dróttkvæðaútgáfum nútímans.

Dróttkvæðaskáldin Þjóðólfur úr Hvini og Þorbjörn hornklofi eru sögð hafa verið hirðskáld Haralds hárfagra sem hér sést til hægri á myndlýsingu úr Flateyjarbók. Ekki er þó víst að þessi mikli konungur hafi verið til en kvæði skáldanna geta engu að síður átt sér fornar rætur.

Eftir stendur þó að dróttkvæðaskáldskapur var eflaust orðinn til á 9. öld og landnámsmenn fluttu hann með sér til Íslands þar sem hann dafnaði áfram og raunar lengur meðal Íslendinga en meðal Norðmanna sem virðast að mestu hafa hætt skáldskap af þessu tagi undir lok 10. aldar.

Ýmis dróttkvæði fjalla um goðsöguleg efni, meðal annars kvæðið Haustlöng eftir Þjóðólf úr Hvini. Hvers vegna eru þau eigi að síður kölluð dróttkvæði en ekki eddukvæði? Ein ástæðan er sú að venjan er að eddukvæðin séu álitin nafnlaus kveðskapur og kvæði nafngreindra skálda eru því öll flokkuð sem dróttkvæði. Þá skiptir engu máli þótt þau séu undir fornyrðislagi eða fjalli um hin norrænu goð. Enn fremur eru öll kvæði sem talin eru hafa verið flutt við hirðir konunga flokkuð sem dróttkvæði. Einnig kvæði sem ort eru undir dróttkvæðum hætti, sama hvert umfjöllunarefnið er. Eftir standa sárafá kvæði sem talin eru til eddukvæða og langflest þeirra eru kvæðin í Konungsbók eddukvæða.

Almennt eru eddukvæði álitin einfaldari og auðskiljanlegri en dróttkvæði þó að skáldamálið sé að einhverju leyti hið sama. Það sem einkum gerir túlkun eddukvæða flókna er hið glataða samhengi sem iðulega er vísað til. Hið sama á raunar við um dróttkvæði undir einföldum háttum. Í sjálfu sér eru þau ekki flókin en þar sem þau vísa til samhengis sem nútímafólk þekkir takmarkað geta þau verið ansi torskiljanleg.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Ármann Jakobsson

prófessor við íslensku- og menningardeild HÍ

Útgáfudagur

10.5.2023

Spyrjandi

Helga Rún

Tilvísun

Ármann Jakobsson. „Hvaða munur er á eddukvæðum og dróttkvæðum?“ Vísindavefurinn, 10. maí 2023, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84985.

Ármann Jakobsson. (2023, 10. maí). Hvaða munur er á eddukvæðum og dróttkvæðum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84985

Ármann Jakobsson. „Hvaða munur er á eddukvæðum og dróttkvæðum?“ Vísindavefurinn. 10. maí. 2023. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84985>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða munur er á eddukvæðum og dróttkvæðum?
Elstu varðveittu eddukvæði eru væntanlega frá sama tíma og elstu varðveittu dróttkvæðin þar sem segir frá bardögum konunga sem seðja hræfuglana með bardagafýsn sinni og hugdirfsku. Eins og eddukvæðin eru dróttkvæðin einungis varðveitt í ungum handritum, þeim elstu frá 13. öld, en fræðimenn hafa talið að þau séu mörg miklu eldri og þau elstu jafnvel frá 9. öld. Ólíkt eddukvæðum eru dróttkvæði eignuð tilteknum skáldum á miðöldum og meðal elstu dróttkvæðaskálda er Bragi Boddason sem orti Ragnarsdrápu sem að hluta er varðveitt í Snorra-Eddu. Norræni skáldskaparguðinn er einnig nefndur Bragi i Eddu Snorra Sturlusonar og má leiða líkum að því að þessir tveir holdgervingar skáldskaparlistarinnar eða bragsins séu skyldir, guðinn skapaður úr skáldinu eða öfugt eða báðir úr bragnum.

Meðal annarra 9. aldar dróttkvæðaskálda eru Þjóðólfur úr Hvini og Þorbjörn hornklofi en þeir eru báðir sagðir hirðskáld Haralds hárfagra sem átti að hafa ríkt yfir Noregi á seinni hluta 9. aldar og fyrri hluta 10. aldar. Hann var sagður hafa sameinað Noreg fyrstur manna og enn síðar sagður hafa orsakað landnám Íslands með ofríki sínu. Á hinn bóginn er þessi mikli konungur algjörlega óþekktur í samtímaheimildum og hans er fyrst getið í íslenskum heimildum tveimur öldum eftir lát sitt. Þannig virðist ósennilegt að þessar ungu lýsingar á honum séu réttar og raunar getur varla talist fullsannað að hann hafi yfirleitt verið til. Það merkir þó ekki að kvæðin sem eignuð eru Þorbirni og Þjóðólfi eigi sér ekki fornar rætur og jafnvel séu elstu vísurnar frá 9. öld. Mikilvægt er þó að hafa í huga að kvæði þeirra og annarra dróttkvæðaskálda eru nánast aldrei varðveitt í einu lagi heldur hafa fræðimenn 19. og 20. aldar endurgert þau eftir líkum og sum þeirra hafa væntanlega aldrei verið til í þeirri mynd sem þau birtast í dróttkvæðaútgáfum nútímans.

Dróttkvæðaskáldin Þjóðólfur úr Hvini og Þorbjörn hornklofi eru sögð hafa verið hirðskáld Haralds hárfagra sem hér sést til hægri á myndlýsingu úr Flateyjarbók. Ekki er þó víst að þessi mikli konungur hafi verið til en kvæði skáldanna geta engu að síður átt sér fornar rætur.

Eftir stendur þó að dróttkvæðaskáldskapur var eflaust orðinn til á 9. öld og landnámsmenn fluttu hann með sér til Íslands þar sem hann dafnaði áfram og raunar lengur meðal Íslendinga en meðal Norðmanna sem virðast að mestu hafa hætt skáldskap af þessu tagi undir lok 10. aldar.

Ýmis dróttkvæði fjalla um goðsöguleg efni, meðal annars kvæðið Haustlöng eftir Þjóðólf úr Hvini. Hvers vegna eru þau eigi að síður kölluð dróttkvæði en ekki eddukvæði? Ein ástæðan er sú að venjan er að eddukvæðin séu álitin nafnlaus kveðskapur og kvæði nafngreindra skálda eru því öll flokkuð sem dróttkvæði. Þá skiptir engu máli þótt þau séu undir fornyrðislagi eða fjalli um hin norrænu goð. Enn fremur eru öll kvæði sem talin eru hafa verið flutt við hirðir konunga flokkuð sem dróttkvæði. Einnig kvæði sem ort eru undir dróttkvæðum hætti, sama hvert umfjöllunarefnið er. Eftir standa sárafá kvæði sem talin eru til eddukvæða og langflest þeirra eru kvæðin í Konungsbók eddukvæða.

Almennt eru eddukvæði álitin einfaldari og auðskiljanlegri en dróttkvæði þó að skáldamálið sé að einhverju leyti hið sama. Það sem einkum gerir túlkun eddukvæða flókna er hið glataða samhengi sem iðulega er vísað til. Hið sama á raunar við um dróttkvæði undir einföldum háttum. Í sjálfu sér eru þau ekki flókin en þar sem þau vísa til samhengis sem nútímafólk þekkir takmarkað geta þau verið ansi torskiljanleg.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

...