Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:12 • Sest 01:42 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:44 • Síðdegis: 15:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:04 • Síðdegis: 21:42 í Reykjavík

Hvaða hvalastofnar eru í mestri útrýmingarhættu?

Jón Már Halldórsson

Af 93 hvalategundum á lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) eru fimm tegundir taldar í bráðri hættu á aldauða (e. critically endangered – CR) en það þýðir að eindregnar líkur eru á að viðkomandi tegundir deyi út í náinni framtíð samkvæmt tilteknum forsendum. Auk þess telja samtökin að tólf hvalategundir til viðbótar séu í hættu (e. endangered – EN). Í þann flokk falla tegundir sem ekki eru í bráðri hættu en mjög miklar líkur á að verði útdauðar í náttúrunni í fyrirsjáanlegri framtíð, samkvæmt tilteknum forsendum.

Af þeim fimm tegundum sem eru taldar í bráðri útrýmingarhættu er staða hvítdólpungsins eða mandarínhöfrungsins[1] (Lipotes vexillifer, e. Baiji) í Yangtze-fljótinu í Kína alvarlegust. Mögulega er hann nú þegar útdauður því síðast sást til hans svo staðfest sé árið 2002. Síðan þá hafa nokkrum sinnum borist óstaðfestar fréttir af tilvist hans en ekki hægt að ganga úr skugga um sannleiksgildi þeirra. Ástæður fyrir hnignun og hugsanlegum aldauða tegundarinnar eru alfarið tengdar athöfnum mannsins, það er fiskveiðum í Yangtze-fljóti, árekstrum vegna gríðarlegrar bátaumferðar og stíflugerð.

Dverghnísan (Phocoena sinus) er ein þeirra fimm hvalategunda sem teljast í mikilli útrýmingarhættu.

Staða hinnar smávöxnu dverghnísu (Phocoena sinus, e. vaquita) sem finnst nyrst við strendur Kaliforníuflóa í Mexíkó er einnig afar alvarleg. Tegundinni hefur hnignað mjög mikið á undanförnum áratugum. Út frá stofnstærðarrannsóknum er metið að árið 1997 hafi tegundin talið um 567 einstaklinga. Tíu árum síðar var heildarstofnstærðin komin niður í 245 einstaklinga og árið 2015 niður í aðeins 59 einstaklinga. Árið 2022 var það mat vísindamanna að aðeins um 10 einstaklingar væru enn eftir af tegundinni og telst hún því vera á barmi aldauða. Meginástæðan fyrir þessari miklu hnignun tegundarinnar er talin vera netaveiðar í Kaliforníuflóa.

„Nýjasta“ tegundin á lista IUCN yfir hvalategundir í mikilli útrýmingarhættu er rice-hvalurinn (Balaenoptera ricei, e. Rice’s Whale). Hann var skilgreindur sem sérstök tegund árið 2021 en hafði áður verið talin deilitegund bryde-hvals. Rice-hvalurinn lifir á mjög takmörkuðu svæði í norðaustanverðum Mexíkóflóa. NOAA (e. National Oceanic and Atmoshperic Administration – Bandaríska sjávar- og andrúmsloftsstofnunin) áætlar að heildarstofnstærðin sé um eða innan við 50 einstaklingar og samkvæmt mati IUCN eru fullorðin dýr innan við 30. Þegar tegund er svona fáliðuð og lifir á mjög takmörkuðu svæði þá er það eitt og sér ógn við framtíð hennar, enda skipta afdrif hvers einasta einstaklings þá mjög miklu máli fyrir afkomu tegundarinnar allrar. Það sem helst er talið ógna tegundinni er ónæði vegna umsvifa sem fylgja olíuvinnslu á svæðinu, olíumengun og önnur mengun, og einnig skipaumferð sem eykur líkur á árekstrum.

Sléttbakur var ofveiddur öldum saman og tegundin hefur ekki náð sér þrátt fyrir að hafa verið friðuð frá 1935.

Sléttbakurinn (Eubalaena glacialis, e. North Atlantic Right Whale), sem áður var útbreiddur um Norður-Atlantshafið og meðal annars algengur við Ísland fyrr á öldum, er nú orðinn afar fágætur og finnst fyrst og fremst við austurströnd Norður-Ameríku og suðurodda Grænlands. NOAA áætlar að heildarstofnstærðin sé innan við 350 einstaklingar og IUCN áætlar að fjöldi fullorðinna dýra sé á bilinu 200-250. Margra alda ofveiði fyrri tíma er ein helsta ástæða þess hve tegundin stendur illa og þar kemur Ísland meðal annars við sögu. Sléttbakurinn er hægsyndur og auðveiddur með þeim veiðiaðferðum sem hvalveiðimenn fyrri alda réðu yfir. Heimildir eru um að Baskar hafi verið farnir að veiða sléttbak í Biskajaflóa strax á 11. öld en færðu sig svo á fjarlægari mið og voru farnir að veiða hann við Íslandsstrendur á 15. öld. Sléttbakurinn hefur verið friðaður frá 4. áratug síðustu aldar en þar sem viðkoma tegundarinnar er hæg og einstaklingarnir fáir, tekur fjölgun langan tíma. Helsta dánarorsök sléttbaka í dag er vegna árekstra við skip eða að þeir festast í veiðarfærum á hafi úti.

Hnúðtanni (Sousa teuszii, e. Atlantic Humpback Dolphin) er fimmta tegundin sem talin er vera í mikilli útrýmingarhættu samkvæmt IUCN, þótt hún standi mun betur en þær fjórar fyrrnefndu. Hvalinn er að finna á afmörkuðum svæðum undan ströndum vesturhluta Afríku. Takmörkuð gögn eru til um tegundina og ekki liggja fyrir ýtarlegar rannsóknir á stofnstærðinni. Út frá fyrirliggjandi þekkingu hafa vísindamenn þó áætlað að heildarstofnstærðin sé innan við 3000 dýr, fullorðin dýr séu um eða innan við 1500 og að búast megi við töluverðri fækkun næstu áratugi. Talið er að hnignun tegundarinnar sé að miklum hluta vegna netaveiða þar sem dýrin flækjast í veiðafæri. Skerðing búsvæða, til dæmis vegna ýmis konar mengunar og athafna við strandsvæði, hafa einnig áhrif.

Hnúðtanni sem finnst á afmörkuðum svæðum undan ströndum vesturhluta Afríku er ein þeirra fimm hvalategunda sem taldar eru í mikilli hættu.

Hér verður ekki fjallað um þær tólf tegundir sem IUCN telur í hættu (en ekki bráðri hættu) en áhugasamir geta flett þeim upp og skoðað stöðu þeirra, til dæmis á válista samtakanna. Þetta eru tegundirnar:
 • Orcaella brevirostris - hnoðdólpungur (e. Irrawaddy Dolphin)
 • Cephalorhynchus hectori - kappaskjöldungur (e. Hector's Dolphin)
 • Sotalia fluviatilis - flóðatanni eða flóðahöfrungur (e. Tucuxi)
 • Balaenoptera borealissandreyður (e. Sei Whale)
 • Platanista gangetica – fljótadólpungur eða gangeshöfrungur (e. Ganges River Dolphin)
 • Balaenoptera musculus – steypireyður (e. Blue Whale)
 • Platanista minor – árdólpungur (e. Indus River Dolphin)
 • Mesoplodon perrini (e. Perrin's Beaked Whale)
 • Inia geoffrensis – gárahöfrungur eða amasón-höfrungur (e. Amazon River Dolphin)
 • Sousa plumbea (e. Indian Ocean Humpback Dolphin)
 • Eubalaena japonica (e. North Pacific Right Whale)
 • Neophocaena asiaeorientalis (e. Narrow-ridged Finless Porpoise)

Þess má að lokum geta að nokkrar deilitegundir hvala eru í mikilli útrýmingarhættu meðal annars deilitegundir sem finnast í stórfljótum Asíu.

Tilvísun:
 1. ^ Íslensk heiti sem notuð eru í þessu svari eru fengin úr Dýra- og plöntuorðabókinni og greininni Íslensk hvalanöfn (sjá heimildaskrá). Þegar ritunum ber ekki saman eru teknar upplýsingar úr þeim báðum. Í sumum tilfellum fundustu ekki íslensk heiti.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

21.6.2023

Spyrjandi

Bjarni Ketilsson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvaða hvalastofnar eru í mestri útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2023. Sótt 17. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=85138.

Jón Már Halldórsson. (2023, 21. júní). Hvaða hvalastofnar eru í mestri útrýmingarhættu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=85138

Jón Már Halldórsson. „Hvaða hvalastofnar eru í mestri útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2023. Vefsíða. 17. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=85138>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða hvalastofnar eru í mestri útrýmingarhættu?
Af 93 hvalategundum á lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) eru fimm tegundir taldar í bráðri hættu á aldauða (e. critically endangered – CR) en það þýðir að eindregnar líkur eru á að viðkomandi tegundir deyi út í náinni framtíð samkvæmt tilteknum forsendum. Auk þess telja samtökin að tólf hvalategundir til viðbótar séu í hættu (e. endangered – EN). Í þann flokk falla tegundir sem ekki eru í bráðri hættu en mjög miklar líkur á að verði útdauðar í náttúrunni í fyrirsjáanlegri framtíð, samkvæmt tilteknum forsendum.

Af þeim fimm tegundum sem eru taldar í bráðri útrýmingarhættu er staða hvítdólpungsins eða mandarínhöfrungsins[1] (Lipotes vexillifer, e. Baiji) í Yangtze-fljótinu í Kína alvarlegust. Mögulega er hann nú þegar útdauður því síðast sást til hans svo staðfest sé árið 2002. Síðan þá hafa nokkrum sinnum borist óstaðfestar fréttir af tilvist hans en ekki hægt að ganga úr skugga um sannleiksgildi þeirra. Ástæður fyrir hnignun og hugsanlegum aldauða tegundarinnar eru alfarið tengdar athöfnum mannsins, það er fiskveiðum í Yangtze-fljóti, árekstrum vegna gríðarlegrar bátaumferðar og stíflugerð.

Dverghnísan (Phocoena sinus) er ein þeirra fimm hvalategunda sem teljast í mikilli útrýmingarhættu.

Staða hinnar smávöxnu dverghnísu (Phocoena sinus, e. vaquita) sem finnst nyrst við strendur Kaliforníuflóa í Mexíkó er einnig afar alvarleg. Tegundinni hefur hnignað mjög mikið á undanförnum áratugum. Út frá stofnstærðarrannsóknum er metið að árið 1997 hafi tegundin talið um 567 einstaklinga. Tíu árum síðar var heildarstofnstærðin komin niður í 245 einstaklinga og árið 2015 niður í aðeins 59 einstaklinga. Árið 2022 var það mat vísindamanna að aðeins um 10 einstaklingar væru enn eftir af tegundinni og telst hún því vera á barmi aldauða. Meginástæðan fyrir þessari miklu hnignun tegundarinnar er talin vera netaveiðar í Kaliforníuflóa.

„Nýjasta“ tegundin á lista IUCN yfir hvalategundir í mikilli útrýmingarhættu er rice-hvalurinn (Balaenoptera ricei, e. Rice’s Whale). Hann var skilgreindur sem sérstök tegund árið 2021 en hafði áður verið talin deilitegund bryde-hvals. Rice-hvalurinn lifir á mjög takmörkuðu svæði í norðaustanverðum Mexíkóflóa. NOAA (e. National Oceanic and Atmoshperic Administration – Bandaríska sjávar- og andrúmsloftsstofnunin) áætlar að heildarstofnstærðin sé um eða innan við 50 einstaklingar og samkvæmt mati IUCN eru fullorðin dýr innan við 30. Þegar tegund er svona fáliðuð og lifir á mjög takmörkuðu svæði þá er það eitt og sér ógn við framtíð hennar, enda skipta afdrif hvers einasta einstaklings þá mjög miklu máli fyrir afkomu tegundarinnar allrar. Það sem helst er talið ógna tegundinni er ónæði vegna umsvifa sem fylgja olíuvinnslu á svæðinu, olíumengun og önnur mengun, og einnig skipaumferð sem eykur líkur á árekstrum.

Sléttbakur var ofveiddur öldum saman og tegundin hefur ekki náð sér þrátt fyrir að hafa verið friðuð frá 1935.

Sléttbakurinn (Eubalaena glacialis, e. North Atlantic Right Whale), sem áður var útbreiddur um Norður-Atlantshafið og meðal annars algengur við Ísland fyrr á öldum, er nú orðinn afar fágætur og finnst fyrst og fremst við austurströnd Norður-Ameríku og suðurodda Grænlands. NOAA áætlar að heildarstofnstærðin sé innan við 350 einstaklingar og IUCN áætlar að fjöldi fullorðinna dýra sé á bilinu 200-250. Margra alda ofveiði fyrri tíma er ein helsta ástæða þess hve tegundin stendur illa og þar kemur Ísland meðal annars við sögu. Sléttbakurinn er hægsyndur og auðveiddur með þeim veiðiaðferðum sem hvalveiðimenn fyrri alda réðu yfir. Heimildir eru um að Baskar hafi verið farnir að veiða sléttbak í Biskajaflóa strax á 11. öld en færðu sig svo á fjarlægari mið og voru farnir að veiða hann við Íslandsstrendur á 15. öld. Sléttbakurinn hefur verið friðaður frá 4. áratug síðustu aldar en þar sem viðkoma tegundarinnar er hæg og einstaklingarnir fáir, tekur fjölgun langan tíma. Helsta dánarorsök sléttbaka í dag er vegna árekstra við skip eða að þeir festast í veiðarfærum á hafi úti.

Hnúðtanni (Sousa teuszii, e. Atlantic Humpback Dolphin) er fimmta tegundin sem talin er vera í mikilli útrýmingarhættu samkvæmt IUCN, þótt hún standi mun betur en þær fjórar fyrrnefndu. Hvalinn er að finna á afmörkuðum svæðum undan ströndum vesturhluta Afríku. Takmörkuð gögn eru til um tegundina og ekki liggja fyrir ýtarlegar rannsóknir á stofnstærðinni. Út frá fyrirliggjandi þekkingu hafa vísindamenn þó áætlað að heildarstofnstærðin sé innan við 3000 dýr, fullorðin dýr séu um eða innan við 1500 og að búast megi við töluverðri fækkun næstu áratugi. Talið er að hnignun tegundarinnar sé að miklum hluta vegna netaveiða þar sem dýrin flækjast í veiðafæri. Skerðing búsvæða, til dæmis vegna ýmis konar mengunar og athafna við strandsvæði, hafa einnig áhrif.

Hnúðtanni sem finnst á afmörkuðum svæðum undan ströndum vesturhluta Afríku er ein þeirra fimm hvalategunda sem taldar eru í mikilli hættu.

Hér verður ekki fjallað um þær tólf tegundir sem IUCN telur í hættu (en ekki bráðri hættu) en áhugasamir geta flett þeim upp og skoðað stöðu þeirra, til dæmis á válista samtakanna. Þetta eru tegundirnar:
 • Orcaella brevirostris - hnoðdólpungur (e. Irrawaddy Dolphin)
 • Cephalorhynchus hectori - kappaskjöldungur (e. Hector's Dolphin)
 • Sotalia fluviatilis - flóðatanni eða flóðahöfrungur (e. Tucuxi)
 • Balaenoptera borealissandreyður (e. Sei Whale)
 • Platanista gangetica – fljótadólpungur eða gangeshöfrungur (e. Ganges River Dolphin)
 • Balaenoptera musculus – steypireyður (e. Blue Whale)
 • Platanista minor – árdólpungur (e. Indus River Dolphin)
 • Mesoplodon perrini (e. Perrin's Beaked Whale)
 • Inia geoffrensis – gárahöfrungur eða amasón-höfrungur (e. Amazon River Dolphin)
 • Sousa plumbea (e. Indian Ocean Humpback Dolphin)
 • Eubalaena japonica (e. North Pacific Right Whale)
 • Neophocaena asiaeorientalis (e. Narrow-ridged Finless Porpoise)

Þess má að lokum geta að nokkrar deilitegundir hvala eru í mikilli útrýmingarhættu meðal annars deilitegundir sem finnast í stórfljótum Asíu.

Tilvísun:
 1. ^ Íslensk heiti sem notuð eru í þessu svari eru fengin úr Dýra- og plöntuorðabókinni og greininni Íslensk hvalanöfn (sjá heimildaskrá). Þegar ritunum ber ekki saman eru teknar upplýsingar úr þeim báðum. Í sumum tilfellum fundustu ekki íslensk heiti.

Heimildir og myndir:...