Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað hefur verið gert í tóbaksvörnum á Íslandi og hefur það áhrif?

Tómas Guðbjartsson, Lára G. Sigurðardóttir og Karl Andersen

Íslendingar hafa lengi verið í fararbroddi tóbaksvarna en hvergi í Evrópu er hlutfall reykingafólks jafn lágt, eða tæp 6% árið 2023. Þetta er ívið lægra en hjá Svíum sem fylgja þétt á hæla okkar en nota mun meira munntóbak en gert er hérlendis. Hlutfall reyklausra karla og kvenna er nú svipað á Íslandi, en upp úr síðari heimsstyrjöld tóku íslenskar konur að reykja meira en stallstystur þeirra í hinum norrænu löndunum, sem á sinn þátt í að lungnakrabbamein er nú ívið algengara hjá íslenskum konum en körlum.

Tóbaksvarnir á Íslandi má rekja aftur til ársins 1969 þegar samþykkt var frumvarp á Alþingi sem miðaði að því að draga úr neyslu áfengis og tóbaks. Ákveðið var að setja viðvörun á sígarettupakka um skaðsemi reykinga og varð Ísland annað landið í heiminum til að taka upp slíkar merkingar. Tveimur árum síðar voru tóbaksauglýsingar bannaðar í fjölmiðlum og á auglýsingaskiltum utandyra. Árið 1977 var enn víðtækara auglýsingabann sett í lög og ráðherra heimilt að banna reykingar í almennum húsakynnum og farartækjum. Fyrsti reyklausi dagurinn var haldinn árið 1979 og síðan árlega frá árinu 1987.

Reykingar voru bannaðar í atvinnuflugi innanlands 1985, árið 1993 voru reykingar bannaðar í íslenskum flugvélum í Evrópuflugi og 1995 í öllu millilandaflugi íslenskra flugfélaga.

Ný tóbaksvarnalög tóku gildi 1985 og voru reykingar í atvinnuflugi þá bannaðar innanlands og tóbaksreykingar takmarkaðar í afgreiðslu- og þjónustuhúsnæði. Einnig voru settar reglur um tóbaksvarnir á vinnustöðum 1985. Jafnframt varð Ísland fyrsta landið í heiminum til að merkja sígarettupakka með myndrænum viðvörunum og sett var í lög bann við sölu tóbaks til einstaklinga yngri en 16 ára (hækkað í 18 ára 1996).

Banni við reykingum í íslenskum flugvélum í Evrópuflugi og skipum var komið á 1993, í kvikmyndahúsum 1994 og ári síðar í öllu millilandaflugi íslenskra flugfélaga. Á þessum árum voru öflugar herferðir í skólum á vegum Krabbameinsfélagsins og fræðsla til almennings um skaðsemi reykinga efld í fjölmiðlum.

Árið 2001 var bannað að sýna tóbak á sölustöðum og öll umfjöllun um tóbak í fjölmiðlum bönnuð nema þegar greint var frá skaðsemi þess. Í kjölfarið var íslenska ríkið lögsótt af tóbaksfyrirtækjum en hafði sigur. Íslendingar urðu síðan árið 2005 með fyrstu þjóðum heims til að fullgilda rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. WHO) um tóbaksvarnir.

Það var ekki fyrr en 2007 sem reglugerð um bann við reykingum á lokuðum veitingastöðum var sett hér á landi, þremur árum á eftir Írum sem voru fyrstir Evrópuþjóða að innleiða slíka löggjöf. Þetta markaði tímamót enda voru reykingar ekki lengur samfélagslega viðurkenndar, en markmiðið með reglugerðinni var ekki síst að vernda starfsfólk veitingahúsa gegn óbeinum reykingum.

Árið 2007 var reglugerð um bann við reykingum á lokuðum veitingastöðum sett hér á landi.

Beri Íslendingar gæfu til að innleiða enn frekari tóbaksvarnir gæti Ísland á fáeinum árum orðið fyrsta vestræna ríkið til að ná hlutfalli fullorðinna reykingamanna undir 5%, en það er takmark sem mörg ríki hafa sett sér að áeggjan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem skilgreinir slík þjóðfélög sem reyklaus. Þrátt fyrir góðan árangur í reykingavörnum síðastliðna áratugi er full ástæða til að vera á varðbergi því reykingatíðni er mun hærri hjá ört vaxandi hópi nýbúa (allt að 20% karlmanna) sem koma frá löndum þar sem reykingatíðni er há. Einnig eru blikur á lofti hvað varðar aukna nikótínfíkn hjá börnum og ungmennum með aukinni notkun rafsígaretta og nikótínpúða.

Myndir:


Þetta svar er fengið úr bæklingnum Hættu nú alveg (ritstjóri og útgefandi Tómas Guðbjartsson). Reykjavík 2024. Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum og birt með góðfúslegu leyfi höfunda og útgefanda.

Höfundar

Tómas Guðbjartsson

prófessor í skurðlækningum við HÍ

Lára G. Sigurðardóttir

læknir og doktor í lýðheilsuvísindum

Karl Andersen

prófessor í hjartalækningum við HÍ

Útgáfudagur

26.11.2024

Spyrjandi

Szymon Bednarowicz

Tilvísun

Tómas Guðbjartsson, Lára G. Sigurðardóttir og Karl Andersen. „Hvað hefur verið gert í tóbaksvörnum á Íslandi og hefur það áhrif?“ Vísindavefurinn, 26. nóvember 2024, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=87100.

Tómas Guðbjartsson, Lára G. Sigurðardóttir og Karl Andersen. (2024, 26. nóvember). Hvað hefur verið gert í tóbaksvörnum á Íslandi og hefur það áhrif? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87100

Tómas Guðbjartsson, Lára G. Sigurðardóttir og Karl Andersen. „Hvað hefur verið gert í tóbaksvörnum á Íslandi og hefur það áhrif?“ Vísindavefurinn. 26. nóv. 2024. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87100>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað hefur verið gert í tóbaksvörnum á Íslandi og hefur það áhrif?
Íslendingar hafa lengi verið í fararbroddi tóbaksvarna en hvergi í Evrópu er hlutfall reykingafólks jafn lágt, eða tæp 6% árið 2023. Þetta er ívið lægra en hjá Svíum sem fylgja þétt á hæla okkar en nota mun meira munntóbak en gert er hérlendis. Hlutfall reyklausra karla og kvenna er nú svipað á Íslandi, en upp úr síðari heimsstyrjöld tóku íslenskar konur að reykja meira en stallstystur þeirra í hinum norrænu löndunum, sem á sinn þátt í að lungnakrabbamein er nú ívið algengara hjá íslenskum konum en körlum.

Tóbaksvarnir á Íslandi má rekja aftur til ársins 1969 þegar samþykkt var frumvarp á Alþingi sem miðaði að því að draga úr neyslu áfengis og tóbaks. Ákveðið var að setja viðvörun á sígarettupakka um skaðsemi reykinga og varð Ísland annað landið í heiminum til að taka upp slíkar merkingar. Tveimur árum síðar voru tóbaksauglýsingar bannaðar í fjölmiðlum og á auglýsingaskiltum utandyra. Árið 1977 var enn víðtækara auglýsingabann sett í lög og ráðherra heimilt að banna reykingar í almennum húsakynnum og farartækjum. Fyrsti reyklausi dagurinn var haldinn árið 1979 og síðan árlega frá árinu 1987.

Reykingar voru bannaðar í atvinnuflugi innanlands 1985, árið 1993 voru reykingar bannaðar í íslenskum flugvélum í Evrópuflugi og 1995 í öllu millilandaflugi íslenskra flugfélaga.

Ný tóbaksvarnalög tóku gildi 1985 og voru reykingar í atvinnuflugi þá bannaðar innanlands og tóbaksreykingar takmarkaðar í afgreiðslu- og þjónustuhúsnæði. Einnig voru settar reglur um tóbaksvarnir á vinnustöðum 1985. Jafnframt varð Ísland fyrsta landið í heiminum til að merkja sígarettupakka með myndrænum viðvörunum og sett var í lög bann við sölu tóbaks til einstaklinga yngri en 16 ára (hækkað í 18 ára 1996).

Banni við reykingum í íslenskum flugvélum í Evrópuflugi og skipum var komið á 1993, í kvikmyndahúsum 1994 og ári síðar í öllu millilandaflugi íslenskra flugfélaga. Á þessum árum voru öflugar herferðir í skólum á vegum Krabbameinsfélagsins og fræðsla til almennings um skaðsemi reykinga efld í fjölmiðlum.

Árið 2001 var bannað að sýna tóbak á sölustöðum og öll umfjöllun um tóbak í fjölmiðlum bönnuð nema þegar greint var frá skaðsemi þess. Í kjölfarið var íslenska ríkið lögsótt af tóbaksfyrirtækjum en hafði sigur. Íslendingar urðu síðan árið 2005 með fyrstu þjóðum heims til að fullgilda rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. WHO) um tóbaksvarnir.

Það var ekki fyrr en 2007 sem reglugerð um bann við reykingum á lokuðum veitingastöðum var sett hér á landi, þremur árum á eftir Írum sem voru fyrstir Evrópuþjóða að innleiða slíka löggjöf. Þetta markaði tímamót enda voru reykingar ekki lengur samfélagslega viðurkenndar, en markmiðið með reglugerðinni var ekki síst að vernda starfsfólk veitingahúsa gegn óbeinum reykingum.

Árið 2007 var reglugerð um bann við reykingum á lokuðum veitingastöðum sett hér á landi.

Beri Íslendingar gæfu til að innleiða enn frekari tóbaksvarnir gæti Ísland á fáeinum árum orðið fyrsta vestræna ríkið til að ná hlutfalli fullorðinna reykingamanna undir 5%, en það er takmark sem mörg ríki hafa sett sér að áeggjan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem skilgreinir slík þjóðfélög sem reyklaus. Þrátt fyrir góðan árangur í reykingavörnum síðastliðna áratugi er full ástæða til að vera á varðbergi því reykingatíðni er mun hærri hjá ört vaxandi hópi nýbúa (allt að 20% karlmanna) sem koma frá löndum þar sem reykingatíðni er há. Einnig eru blikur á lofti hvað varðar aukna nikótínfíkn hjá börnum og ungmennum með aukinni notkun rafsígaretta og nikótínpúða.

Myndir:


Þetta svar er fengið úr bæklingnum Hættu nú alveg (ritstjóri og útgefandi Tómas Guðbjartsson). Reykjavík 2024. Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum og birt með góðfúslegu leyfi höfunda og útgefanda.

...