Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Fyrir hvað voru Nóbelsverðlaunin í hagfræði veitt árið 2020?

Þórólfur Matthíasson

Þann 12. október 2020 tilkynnti Konunglega sænska vísindaakademían að hún hefði ákveðið að veita bandarísku hagfræðingunum Paul R. Milgrom (f. 1948) og Robert B. Wilson (f. 1937) við Stanford-háskóla, minningarverðlaun Sænska Seðlabankans um Alfred Nobel. Verðlaunin fá þeir fyrir framlag sitt til aukins skilnings á virkni uppboðsaðferða og fyrir að endurbæta slíkar aðferðir þannig að þær auðveldi að ákvarða verð á vöru eða þjónustu sem erfitt er að gera með öðrum hætti.

Uppboð

Á tímum Rómaveldis var algengt að lánveitendur seldu eignir lántaka sem ekki stóðu í skilum á uppboðum. Elsta uppboðshús heims, Stockholms Auktionsverk var stofnað árið 1674 einmitt í þeim tilgangi að koma veðsettum eignum skuldseigra lántaka í verð. Uppboð eru einnig vel þekkt í seinni tíma sögu okkar Íslendinga. Ekki er fjallað sérstaklega um fyrirkomulag uppboða í elstu lögbókum en lög um uppboð eru formlega sett árið 1818 og giltu fyrir alla þegna Friðriks 6.[1] Þar er meðal annars kveðið á um að uppboðsgjald skuli að hámarki vera 4% af andvirði hins selda.

Arnheiður Steinþórsdóttir, meistaranemi í sagnfræði, hefur kannað uppboðsbækur sýslumanna frá 19. öld. Bækurnar gefa mynd af fjölbreyttum uppboðsstörfum sýslumanna sem buðu upp hvalreka, fasteignir, góss úr strönduðu skipum og trjávirki þeirra. Þá eru dæmi um uppboð á eignum sakamanna. Sýslumenn eða hreppstjórar buðu einnig upp eigur fólks til lúkningar gjaldfallinni skuld.

Uppboðsbækur frá 19. öld gefa mynd af fjölbreyttum uppboðsstörfum sýslumanna sem buðu upp hvalreka, fasteignir, góss úr strönduðu skipum og trjávirki þeirra.

Samgöngur og flutningar voru löngum erfiðir á Íslandi. Því gripu bændur stundum til þess ráðs að láta bjóða búsmala og innanstokksmuni til sölu á uppboði flyttu þeir milli staða. Þannig losnuðu þeir við erfiðan flutning og fengu skotsilfur til að kaupa nýjan bústofn og innanstokksmuni á nýjum stað. Svartasti bletturinn í sögu uppboða (eða réttara sagt niðurboða) er uppboð á framfærslu „ómaga“, það er að segja fólks sem ekki hafði þrek eða getu til að sjá sér farborða. Framfærsluskyldan hvíldi þá á sveitarfélaginu (hreppnum) þar sem „ómaginn“ átti heimilisfestu. Framfærslan var einn stærsti póstur í útgjöldum hvers hrepps og mikil áhersla lögð á að lágmarka þau útgjöld. Var það meðal annars gert með því að vista „ómaga“ hjá þeim sem bauðst til að gera það fyrir lægst gjald. Voru matarskammtar og annar viðurgjörningur við hina þurfandi oft lakari en við annað heimilisfólk. Niðurboð þessi voru á hendi hreppstjóra en ekki sýslumanna.

Enn eru fasteignir, verðbréf, tæki og tól seld á nauðungaruppboðum. En annars konar uppboð eru miklu algengari. Fjölmiðlar fjalla gjarnan um listaverkauppboð eða uppboð á persónulegum munum þekktra einstaklinga. Seðlabankar bjóða ríkisskuldabréf á uppboði, Póst og fjarskiptastofnun selur afnot af fjarskiptatíðnum á uppboði, Google notar uppboð til að selja auglýsingarpláss á leitarsíðum sínum, og þannig mætti lengi telja. Uppboð eru nú notuð til að finna verð á vöru og þjónustu í mun ríkari mæli og við mun flóknari aðstæður en áður var. Sú staðreynd er ekki síst að þakka rannsóknum og tilraunum þeirra Milgrom og Wilsons.

Fjölbreytt flóra uppboða

Þegar listaverk eru seld á uppboð er gjarnan notast við svokallað enskt uppboð. Þá byrjar uppboðshaldari á að tilkynna lágmarksboð. Vilji einhver kaupa verkið á því verði gefur viðkomandi það til kynna með fyrirfram ákveðnum hætti. Aðrir viðstaddir geta svo hækkað boðið innan ákveðinna tímamarka uns aðeins einn kaupandi stendur eftir. Einnig eru dæmi um að stuðst sé við svokallað niðurtalningaruppboð. Þá er upphafstalan há og síðan talið niður uns varan er seld. Þessi aðferð er einnig kölluð hollenskt uppboð og meðal annars notuð við sölu á blómum á blómamarkaði í Amsterdam og við sölu á ferskum fiski á íslenskum ferskfiskmörkuðum.[2]

Í niðurtalningaruppboði er upphafstalan há og síðan talið niður uns varan er seld. Þessi aðferð er einnig kölluð hollenskt uppboð.

Ensk og hollensk uppboð eru bæði opin í þeim skilningi að allir viðstaddir vita hvert upphafsboðið er og hvað hefur þegar verið boðið. Það er ekki einhlítt að svo sé farið að. Í útboðum þar sem verkkaupar fá tilboð frá verktökum í vegagerð eða byggingar er algengt að tilboðin séu lokuð þannig að einn tilboðsgjafi veit ekki hvað annar býður.

Ef sá sem hlýtur hnossið í uppboði borgar það verð sem hann bauð eða tekst verk á hendur fyrir þá upphæð sem hann bauð er talað um „bestaverðs-uppboð“ (e. first price auction). Ef sá sem á hæsta boð borgar þá upphæð sem sá sem næst hæst bauð er talað um „markaverðs-uppboð“ (e. second price auction).

Séu margar einingar sömu vöru, þjónustu eða réttinda boðnar út samtímis er hægt að beita bæði opnu og lokuðu uppboði. Sé uppboð opið er hægt að beita bæði ensku og hollensku uppboði. Ef um enskt uppboð er að ræða heldur uppboðshaldari áfram að hækka verð uns eftirspurn mætir framboði. Allir fá vöruna á sama verði. Sé uppboð lokað getur uppboðshaldari ákveðið að allir fái vöruna á sama verði eða að hver bjóðandi sem bauð nægjanlega hátt verð borgi það verð sem hann bauð (e. „pay as bid“). Þessari síðustu aðferð var beitt við uppboð á tollkvótum á landbúnaðarafurðum þar til fyrir skemmstu að horfið var til þeirrar aðferðar að allir fá tollkvóta á nautalundum eða mygluosti á sama verði. Einnig er hægt að beita hollensku uppboði þegar margar einingar sömu vöru eru seldar samkvæmt „borgað-samkvæmt-boði“ aðferðafræðinni. Enn er fátt vitað um eiginleika „borgað-samkvæmt-boði“ uppboða, til dæmis er ekki vitað hvort slík uppboð skila uppboðshaldara meiri eða minni tekjum en uppboð þar sem allir greiða sama verð.[3]

Hvað skal bjóða? Persónulegt virði og almennt virði

Persónulegt virði: Hvað viltu borga fyrir kvöldverð með þekktri kvikmyndastjörnu eða frægum vísindamanni? Greiðsluvilji fer eftir persónulegu mati bjóðenda og nánast engu öðru. William Vickery, Nóbelsverðlaunahafi frá 1996, sýndi fram á að þegar slíkt er í boði gefur hollenskt og enskt uppboð nánast sömu niðurstöðu. Sá sem metur kvöldstund með öflugum vísindamanni á segjum 100.000 krónur er engu nær um hvort aðrir sem bjóða meta þessi gæði með sama eða öðrum hætti. Hann sýndi líka að í markaverðs-uppboði borgar sig ávallt fyrir bjóðendur að bjóða í samræmi við greiðsluvilja þó svo það þurfi ekki að vera leikáætlunin í bestaverðs-uppboði (e. first price auction).

Almennt virði: Vinnslufyrirtæki sem bjóða í afla eða olíu á uppboðsmarkaði, hafa sömu upplýsingar um eiginleika hráefnisins, en óvissa getur ríkt um verðlag á mörkuðum þegar hráefni hefur verið unnið frekar. Sumir bjóðendur á fiskmarkaði kunna að hafa unnið heimavinnu varðandi markaðsaðstæður betur en aðrir. Sá bjóðandi sem hæst býður kynni að hafa boðið lægra verð hefði hann verið betur upplýstur. Hann er þá fórnarlamb bölvunar sigurvegarans (e. winners curse). Robert Wilson greindi atferli bjóðenda við ofangreindar aðstæður í nokkrum greinum á á árunum 1960-1980. Wilson sýndi að bjóðendur í bestaverðs-uppboðum (e. first price auction) setji fram tilboð undir verðmati einmitt til að forðast bölvun sigurvegarans. Munur á verðmati og boði eykst með aukinni óvissu. Og öfugt við það sem ætla mætti stoðar lítt þó sumir bjóðendur séu miklu betur upplýstir en aðrir. Þeir minna upplýstu lækka boð eða draga sig algjörlega í hlé.

Blandað virði: Einstaklingur sem undirbýr tilboð í húseign byggir á almennum upplýsingum (fermetraverð við nýlegar sölur á notuðu eða nýju húsnæði í viðkomandi hverfi eða í viðkomandi götu) auk upplýsinga sem skipta hann sérstaklega máli og aðrir þekkja ekki til (fjarlægð frá vinnustað eða skóla eða uppáhalds afþreyingu, útsýni sem viðkomandi þykir eftirsóknarvert). Það reyndist mun erfiðara að greina atferli bjóðenda þar sem virði uppboðshlutar er samsett af almennu virði og persónulegu virði. Ástæðan er sú að mótbjóðendur vita ekki í hvaða mæli síðasta boð litast af persónulegu verðmati bjóðandans annars vegar og almennu verðmati hins vegar. Þetta þekkja allir sem hafa verið yfirboðnir á fasteignamarkaði: Var síðasta boð yfir mínu boði vegna þess að ég vanmat gæði húss og staðsetningar? Eða er ég að bjóða á móti einhverjum sem er bundinn húsinu eða hverfinu sérstökum böndum?

Í þessum tilvikum er hætta á að bjóðandi verði fórnarlamb bölvunar sigurvegarans (e. winners curse). Milgrom og Weber sýndu að skilvirkni mismunandi tegunda uppboða ræðst af því hvernig bölvun sigurvegarans hefur áhrif á niðurstöðuna. Þeim mun betri sem tengsl eru milli sértækra atriða sem skipta bjóðandann einan máli og þess boðs sem hann leggur inn þeim mun skilvirkari er uppboðsaðferðin í þeim skilningi að uppboðsverðið víkur minnst frá þjóðhagslega réttu verði.

Í ensku uppboði felast mikilvægar upplýsingar fyrir mögulegan kaupanda í því að fylgjast með hvernig mögulegum bjóðendum fækkar eftir því sem verðið hækkar. Þar með hefur hann upplýsingar um greiðsluvilja flestra viðstaddra áður en hann gerir upp við sig hvort hann vilji hækka boð. Slíkar upplýsingar eru ekki til staðar í hollensku uppboði. Sá sem býður fyrstur veit ekki hversu margir aðrir væru til með að borga aðeins lægri upphæð fyrir verkið. Því er meiri hætta á „bölvun sigurvegarans“ (e. winners curse) í hollensku en ensku uppboði. Þeir Wilson og Vickery drógu þá ályktun að enskt uppboð gæfi að jafnaði hærra verð en hollenskt uppboð þar sem bjóðendur væru varkárari í boðum sínum ef um hollenskt uppboð væri að ræða, einmitt til að forðast umrædda bölvun.

Hvernig á að úthluta tíðnisviðum? Nóbelsverðlaunahafanir Milgrom og Wilson þróuðu nýja útboðstækni til þess sem nefnist samhliða fjölþrepa uppboðsaðferð.

Nýjungar og endurbætur

Opinberir aðilar hafa um áratuga skeið úthlutað almannagæðum til einstaklinga og fyrirtækja. Stundum fá fyrirtæki þannig mikil verðmæti sem þau fénýta. Oft voru umrædd almannagæði lítt verðmæt í upphafi. Útsendingartíðnir fyrir útvarpsstöðvar eru dæmi um það. Í áradaga útvarpssendinga var eftirspurn eftir útsendingartíðnibili lítið. Engu að síður var það í höndum opinbers aðila (Póst- og fjarskiptastofnunar á Íslandi) að úthluta útsendingartíðni. Eftirspurn jókst og ný notkunarsvið opnuðust eftir því sem tíminn leið. Sprenging varð með tilkomu farsímanna. Þegar 3. kynslóð farsíma kom til sögunnar áttaði bandaríska fjarskiptastofnunin (FCC) sig á því að ókeypis úthlutun svo verðmætra réttinda sem fjarskiptatíðnir voru að verða, kæmi ekki til greina. Ekki kom heldur til greina að beita úthlutunaraðferðum á borð við „fegurðarsamkeppni“ þar sem símafyrirtæki sem byði besta þjónustu hreppti fjarskiptatíðnina. Hvernig ætti að bera saman boð um niðurgreiðslu símtækja annars vegar og boð um ókeypis langlínusamtöl hins vegar?

Þá var gripið til happdrættisúthlutunar. Það gaf ekki góða raun: Fyrirtæki sem vildi fá senditíðnir í Kaliforníu fékk hugsanlega tíðni úthlutað í Texas. Verðmæti örbylgjusenditíðni á ákveðnu landfræðilegu svæði fyrir fyrirtæki á vesturströnd Bandaríkjanna fer eftir því hversu nálægt starfssvæði fyrirtækisins þjónustusvæðið er. Myndi samfellt þjónustusvæði fyrirtækisins aukast? Þá er verðmæti stækkaðs þjónustusvæðis mikið. Ef aukið þjónustusvæðið er fjarri þá er það nánast verðlaust fyrir fyrirtækið.

Milgrom og Wilson, í samstarfi við bandaríska hagfræðinginn Preston McAfee (f. 1956), þróuðu nýja útboðstækni til að takast á við það vandamál sem þarna skapaðist. Sú tækni nefnist samhliða fjölþrepa uppboð (e. simultaneous multiple round auction (SMRA)). Uppboðshaldari býður upp fjölda tíðnisviða samtímis. Upphafsboð er haft svo lágt að tryggt sé að boð berist í öll tíðnisviðin. Hver þátttakandi þarf að hækka boð í að minnsta kosti eitt af uppboðsviðföngum í hverri umferð. Haldið er áfram uns enginn er eftir og uppboðsviðföngum úthlutað til hæstbjóðanda.

Bandaríska fjarskiptastofnunin beitti aðferðinni fyrst 1994 og seldi 10 leyfi fyrir 617 milljónir dollara. Þarna kom fé til bandarísku alríkisstjórnarinnar sem ella hefði runnið beint til fyrirtækjanna sjálfra. Endurbættri útgáfu þessarar aðferðar hefur verið beitt víða um heim. Nóbelsverðlaunanefndin telur að á 20 ára tímabili hafa tekjur Bandarísku fjarskiptastofnunarinnar af sölu tíðnisviðsréttinda numið 120 milljörðum dollara og að á heimsvísu hafi verðmæti slíkra sölu numið um 200 milljörðum dollara. Samhliða fjölþrepa uppboðsaðferðin hefur verið þróuð og þroskuð frá því að hún var fyrst notuð.

Lokaorð

Á Íslandi úthlugar Póst- og fjarskiptastofnun tíðnisviðum til fjarskiptafyrirtækja. Lýsingu á úthlutunaraðferðum má finna á heimasíðu stofnunarinnar.[4] Tíðnisviðum er úthlutað samkvæmt umsóknum, að undangengnu samráði, með útboði og uppboði. Tíðniheimildir tengdar 4G farnetinu voru boðnar upp í fjölþrepa uppboði 23. maí 2017. Það uppboð skilaði fjarskiptasjóði tæplega 160 milljónum króna.[5] Reynsla annarra þjóða bendir til að ríkissjóður geti haft verulegar tekjur af að þróa uppboðsaðferðina á þessu sviði frekar.

Færeyingar hafa gert tilraunir með að bjóða upp veiðikvóta.[6] Þær tilraunir voru að mestu leyti stöðvaðar við stjórnarskipti í Færeyjum árið 2019 en þá tóku fulltrúar Sambandsflokksins, Fólkaflokksins og Miðflokksins við af stjórn Þjóðveldisins og Jafnaðarflokksins.[7] Uppboðshugmyndin hafði farið nokkuð fyrir brjóstið á útgerðarmönnum sem börðust hatrammlega gegn henni í kosningunum 2019. Nánar má lesa um færeyska uppboðið og reynsluna af því í doktorsritgerð Sönnu Laksá, Distributing Resources: An Exploration of Auction and Other Allocation Mechanisms.

Ekki er að efa að tekjur af uppboði á fiskikvótum, af tíðnisviðsréttindum og öðrum afnotum af auðlindum í þjóðareign gætu styrkt tekjuhlið ríkissjóðs verulega. Vinna Nóbelsverðlaunahafanna í ár og samstarfsfólks þeirra, hefur varðað leið sem eykur notagildi uppboðsaðferðarinnar, bæði fyrir kaupendur og seljendur, og skilar aukinni hagkvæmni fyrir hagkerfið í heild.

Um heimildir

Stuðst var við efni af heimasíðu Nóbelsnefndarinnar (Improvements to Auction Theory and Inventions of New Auction Formats) auk munnlegra og skriflegra upplýsinga frá Má Jónssyni prófessor, Arnheiði Steinþórsdóttur, meistaranema í sagnfræði, Þorleifi Jónssyni hjá Póst- og fjarskiptastofnun og Sæmundi E. Þorsteinssyni hjá Háskóla Íslands.

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá: Lovsamling for Island. (Sótt 27.10.2020).
  2. ^ Sjá: Uppboðskerfi fiskmarkaða: Þarfagreining uppboðskerfis og gerð spálíkans fyrir uppboðsverð. (Sótt 27.10.2020).
  3. ^ Sjá: Pay-As-Bid Auctions in Theory and Practice. (Sótt 27.10.2020).
  4. ^ Sjá: https://pfs.is/fjarskipti/tidnir-og-taekni/tidnimal/adferdir-vid-tidniuthlutanir/. (Sótt 27.10.2020).
  5. ^ Sjá: https://pfs.is/um-pfs/frettir/frett/2017/05/24/Uppbodi-PFS-a-tidniheimildum-fyrir-hahrada-farnet-lokid/. (Sótt 27.10.2020).
  6. ^ Sjá: Uppboð á kvóta í Færeyjum - RÚV. (Sótt 27.10.2020).
  7. ^ Sjá: Fiskifréttir - Hætta að bjóða upp kvóta. (Sótt 27.10.2020).

Myndir:

Höfundur

Þórólfur Matthíasson

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

28.10.2020

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þórólfur Matthíasson. „Fyrir hvað voru Nóbelsverðlaunin í hagfræði veitt árið 2020?“ Vísindavefurinn, 28. október 2020. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=80285.

Þórólfur Matthíasson. (2020, 28. október). Fyrir hvað voru Nóbelsverðlaunin í hagfræði veitt árið 2020? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=80285

Þórólfur Matthíasson. „Fyrir hvað voru Nóbelsverðlaunin í hagfræði veitt árið 2020?“ Vísindavefurinn. 28. okt. 2020. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=80285>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Fyrir hvað voru Nóbelsverðlaunin í hagfræði veitt árið 2020?
Þann 12. október 2020 tilkynnti Konunglega sænska vísindaakademían að hún hefði ákveðið að veita bandarísku hagfræðingunum Paul R. Milgrom (f. 1948) og Robert B. Wilson (f. 1937) við Stanford-háskóla, minningarverðlaun Sænska Seðlabankans um Alfred Nobel. Verðlaunin fá þeir fyrir framlag sitt til aukins skilnings á virkni uppboðsaðferða og fyrir að endurbæta slíkar aðferðir þannig að þær auðveldi að ákvarða verð á vöru eða þjónustu sem erfitt er að gera með öðrum hætti.

Uppboð

Á tímum Rómaveldis var algengt að lánveitendur seldu eignir lántaka sem ekki stóðu í skilum á uppboðum. Elsta uppboðshús heims, Stockholms Auktionsverk var stofnað árið 1674 einmitt í þeim tilgangi að koma veðsettum eignum skuldseigra lántaka í verð. Uppboð eru einnig vel þekkt í seinni tíma sögu okkar Íslendinga. Ekki er fjallað sérstaklega um fyrirkomulag uppboða í elstu lögbókum en lög um uppboð eru formlega sett árið 1818 og giltu fyrir alla þegna Friðriks 6.[1] Þar er meðal annars kveðið á um að uppboðsgjald skuli að hámarki vera 4% af andvirði hins selda.

Arnheiður Steinþórsdóttir, meistaranemi í sagnfræði, hefur kannað uppboðsbækur sýslumanna frá 19. öld. Bækurnar gefa mynd af fjölbreyttum uppboðsstörfum sýslumanna sem buðu upp hvalreka, fasteignir, góss úr strönduðu skipum og trjávirki þeirra. Þá eru dæmi um uppboð á eignum sakamanna. Sýslumenn eða hreppstjórar buðu einnig upp eigur fólks til lúkningar gjaldfallinni skuld.

Uppboðsbækur frá 19. öld gefa mynd af fjölbreyttum uppboðsstörfum sýslumanna sem buðu upp hvalreka, fasteignir, góss úr strönduðu skipum og trjávirki þeirra.

Samgöngur og flutningar voru löngum erfiðir á Íslandi. Því gripu bændur stundum til þess ráðs að láta bjóða búsmala og innanstokksmuni til sölu á uppboði flyttu þeir milli staða. Þannig losnuðu þeir við erfiðan flutning og fengu skotsilfur til að kaupa nýjan bústofn og innanstokksmuni á nýjum stað. Svartasti bletturinn í sögu uppboða (eða réttara sagt niðurboða) er uppboð á framfærslu „ómaga“, það er að segja fólks sem ekki hafði þrek eða getu til að sjá sér farborða. Framfærsluskyldan hvíldi þá á sveitarfélaginu (hreppnum) þar sem „ómaginn“ átti heimilisfestu. Framfærslan var einn stærsti póstur í útgjöldum hvers hrepps og mikil áhersla lögð á að lágmarka þau útgjöld. Var það meðal annars gert með því að vista „ómaga“ hjá þeim sem bauðst til að gera það fyrir lægst gjald. Voru matarskammtar og annar viðurgjörningur við hina þurfandi oft lakari en við annað heimilisfólk. Niðurboð þessi voru á hendi hreppstjóra en ekki sýslumanna.

Enn eru fasteignir, verðbréf, tæki og tól seld á nauðungaruppboðum. En annars konar uppboð eru miklu algengari. Fjölmiðlar fjalla gjarnan um listaverkauppboð eða uppboð á persónulegum munum þekktra einstaklinga. Seðlabankar bjóða ríkisskuldabréf á uppboði, Póst og fjarskiptastofnun selur afnot af fjarskiptatíðnum á uppboði, Google notar uppboð til að selja auglýsingarpláss á leitarsíðum sínum, og þannig mætti lengi telja. Uppboð eru nú notuð til að finna verð á vöru og þjónustu í mun ríkari mæli og við mun flóknari aðstæður en áður var. Sú staðreynd er ekki síst að þakka rannsóknum og tilraunum þeirra Milgrom og Wilsons.

Fjölbreytt flóra uppboða

Þegar listaverk eru seld á uppboð er gjarnan notast við svokallað enskt uppboð. Þá byrjar uppboðshaldari á að tilkynna lágmarksboð. Vilji einhver kaupa verkið á því verði gefur viðkomandi það til kynna með fyrirfram ákveðnum hætti. Aðrir viðstaddir geta svo hækkað boðið innan ákveðinna tímamarka uns aðeins einn kaupandi stendur eftir. Einnig eru dæmi um að stuðst sé við svokallað niðurtalningaruppboð. Þá er upphafstalan há og síðan talið niður uns varan er seld. Þessi aðferð er einnig kölluð hollenskt uppboð og meðal annars notuð við sölu á blómum á blómamarkaði í Amsterdam og við sölu á ferskum fiski á íslenskum ferskfiskmörkuðum.[2]

Í niðurtalningaruppboði er upphafstalan há og síðan talið niður uns varan er seld. Þessi aðferð er einnig kölluð hollenskt uppboð.

Ensk og hollensk uppboð eru bæði opin í þeim skilningi að allir viðstaddir vita hvert upphafsboðið er og hvað hefur þegar verið boðið. Það er ekki einhlítt að svo sé farið að. Í útboðum þar sem verkkaupar fá tilboð frá verktökum í vegagerð eða byggingar er algengt að tilboðin séu lokuð þannig að einn tilboðsgjafi veit ekki hvað annar býður.

Ef sá sem hlýtur hnossið í uppboði borgar það verð sem hann bauð eða tekst verk á hendur fyrir þá upphæð sem hann bauð er talað um „bestaverðs-uppboð“ (e. first price auction). Ef sá sem á hæsta boð borgar þá upphæð sem sá sem næst hæst bauð er talað um „markaverðs-uppboð“ (e. second price auction).

Séu margar einingar sömu vöru, þjónustu eða réttinda boðnar út samtímis er hægt að beita bæði opnu og lokuðu uppboði. Sé uppboð opið er hægt að beita bæði ensku og hollensku uppboði. Ef um enskt uppboð er að ræða heldur uppboðshaldari áfram að hækka verð uns eftirspurn mætir framboði. Allir fá vöruna á sama verði. Sé uppboð lokað getur uppboðshaldari ákveðið að allir fái vöruna á sama verði eða að hver bjóðandi sem bauð nægjanlega hátt verð borgi það verð sem hann bauð (e. „pay as bid“). Þessari síðustu aðferð var beitt við uppboð á tollkvótum á landbúnaðarafurðum þar til fyrir skemmstu að horfið var til þeirrar aðferðar að allir fá tollkvóta á nautalundum eða mygluosti á sama verði. Einnig er hægt að beita hollensku uppboði þegar margar einingar sömu vöru eru seldar samkvæmt „borgað-samkvæmt-boði“ aðferðafræðinni. Enn er fátt vitað um eiginleika „borgað-samkvæmt-boði“ uppboða, til dæmis er ekki vitað hvort slík uppboð skila uppboðshaldara meiri eða minni tekjum en uppboð þar sem allir greiða sama verð.[3]

Hvað skal bjóða? Persónulegt virði og almennt virði

Persónulegt virði: Hvað viltu borga fyrir kvöldverð með þekktri kvikmyndastjörnu eða frægum vísindamanni? Greiðsluvilji fer eftir persónulegu mati bjóðenda og nánast engu öðru. William Vickery, Nóbelsverðlaunahafi frá 1996, sýndi fram á að þegar slíkt er í boði gefur hollenskt og enskt uppboð nánast sömu niðurstöðu. Sá sem metur kvöldstund með öflugum vísindamanni á segjum 100.000 krónur er engu nær um hvort aðrir sem bjóða meta þessi gæði með sama eða öðrum hætti. Hann sýndi líka að í markaverðs-uppboði borgar sig ávallt fyrir bjóðendur að bjóða í samræmi við greiðsluvilja þó svo það þurfi ekki að vera leikáætlunin í bestaverðs-uppboði (e. first price auction).

Almennt virði: Vinnslufyrirtæki sem bjóða í afla eða olíu á uppboðsmarkaði, hafa sömu upplýsingar um eiginleika hráefnisins, en óvissa getur ríkt um verðlag á mörkuðum þegar hráefni hefur verið unnið frekar. Sumir bjóðendur á fiskmarkaði kunna að hafa unnið heimavinnu varðandi markaðsaðstæður betur en aðrir. Sá bjóðandi sem hæst býður kynni að hafa boðið lægra verð hefði hann verið betur upplýstur. Hann er þá fórnarlamb bölvunar sigurvegarans (e. winners curse). Robert Wilson greindi atferli bjóðenda við ofangreindar aðstæður í nokkrum greinum á á árunum 1960-1980. Wilson sýndi að bjóðendur í bestaverðs-uppboðum (e. first price auction) setji fram tilboð undir verðmati einmitt til að forðast bölvun sigurvegarans. Munur á verðmati og boði eykst með aukinni óvissu. Og öfugt við það sem ætla mætti stoðar lítt þó sumir bjóðendur séu miklu betur upplýstir en aðrir. Þeir minna upplýstu lækka boð eða draga sig algjörlega í hlé.

Blandað virði: Einstaklingur sem undirbýr tilboð í húseign byggir á almennum upplýsingum (fermetraverð við nýlegar sölur á notuðu eða nýju húsnæði í viðkomandi hverfi eða í viðkomandi götu) auk upplýsinga sem skipta hann sérstaklega máli og aðrir þekkja ekki til (fjarlægð frá vinnustað eða skóla eða uppáhalds afþreyingu, útsýni sem viðkomandi þykir eftirsóknarvert). Það reyndist mun erfiðara að greina atferli bjóðenda þar sem virði uppboðshlutar er samsett af almennu virði og persónulegu virði. Ástæðan er sú að mótbjóðendur vita ekki í hvaða mæli síðasta boð litast af persónulegu verðmati bjóðandans annars vegar og almennu verðmati hins vegar. Þetta þekkja allir sem hafa verið yfirboðnir á fasteignamarkaði: Var síðasta boð yfir mínu boði vegna þess að ég vanmat gæði húss og staðsetningar? Eða er ég að bjóða á móti einhverjum sem er bundinn húsinu eða hverfinu sérstökum böndum?

Í þessum tilvikum er hætta á að bjóðandi verði fórnarlamb bölvunar sigurvegarans (e. winners curse). Milgrom og Weber sýndu að skilvirkni mismunandi tegunda uppboða ræðst af því hvernig bölvun sigurvegarans hefur áhrif á niðurstöðuna. Þeim mun betri sem tengsl eru milli sértækra atriða sem skipta bjóðandann einan máli og þess boðs sem hann leggur inn þeim mun skilvirkari er uppboðsaðferðin í þeim skilningi að uppboðsverðið víkur minnst frá þjóðhagslega réttu verði.

Í ensku uppboði felast mikilvægar upplýsingar fyrir mögulegan kaupanda í því að fylgjast með hvernig mögulegum bjóðendum fækkar eftir því sem verðið hækkar. Þar með hefur hann upplýsingar um greiðsluvilja flestra viðstaddra áður en hann gerir upp við sig hvort hann vilji hækka boð. Slíkar upplýsingar eru ekki til staðar í hollensku uppboði. Sá sem býður fyrstur veit ekki hversu margir aðrir væru til með að borga aðeins lægri upphæð fyrir verkið. Því er meiri hætta á „bölvun sigurvegarans“ (e. winners curse) í hollensku en ensku uppboði. Þeir Wilson og Vickery drógu þá ályktun að enskt uppboð gæfi að jafnaði hærra verð en hollenskt uppboð þar sem bjóðendur væru varkárari í boðum sínum ef um hollenskt uppboð væri að ræða, einmitt til að forðast umrædda bölvun.

Hvernig á að úthluta tíðnisviðum? Nóbelsverðlaunahafanir Milgrom og Wilson þróuðu nýja útboðstækni til þess sem nefnist samhliða fjölþrepa uppboðsaðferð.

Nýjungar og endurbætur

Opinberir aðilar hafa um áratuga skeið úthlutað almannagæðum til einstaklinga og fyrirtækja. Stundum fá fyrirtæki þannig mikil verðmæti sem þau fénýta. Oft voru umrædd almannagæði lítt verðmæt í upphafi. Útsendingartíðnir fyrir útvarpsstöðvar eru dæmi um það. Í áradaga útvarpssendinga var eftirspurn eftir útsendingartíðnibili lítið. Engu að síður var það í höndum opinbers aðila (Póst- og fjarskiptastofnunar á Íslandi) að úthluta útsendingartíðni. Eftirspurn jókst og ný notkunarsvið opnuðust eftir því sem tíminn leið. Sprenging varð með tilkomu farsímanna. Þegar 3. kynslóð farsíma kom til sögunnar áttaði bandaríska fjarskiptastofnunin (FCC) sig á því að ókeypis úthlutun svo verðmætra réttinda sem fjarskiptatíðnir voru að verða, kæmi ekki til greina. Ekki kom heldur til greina að beita úthlutunaraðferðum á borð við „fegurðarsamkeppni“ þar sem símafyrirtæki sem byði besta þjónustu hreppti fjarskiptatíðnina. Hvernig ætti að bera saman boð um niðurgreiðslu símtækja annars vegar og boð um ókeypis langlínusamtöl hins vegar?

Þá var gripið til happdrættisúthlutunar. Það gaf ekki góða raun: Fyrirtæki sem vildi fá senditíðnir í Kaliforníu fékk hugsanlega tíðni úthlutað í Texas. Verðmæti örbylgjusenditíðni á ákveðnu landfræðilegu svæði fyrir fyrirtæki á vesturströnd Bandaríkjanna fer eftir því hversu nálægt starfssvæði fyrirtækisins þjónustusvæðið er. Myndi samfellt þjónustusvæði fyrirtækisins aukast? Þá er verðmæti stækkaðs þjónustusvæðis mikið. Ef aukið þjónustusvæðið er fjarri þá er það nánast verðlaust fyrir fyrirtækið.

Milgrom og Wilson, í samstarfi við bandaríska hagfræðinginn Preston McAfee (f. 1956), þróuðu nýja útboðstækni til að takast á við það vandamál sem þarna skapaðist. Sú tækni nefnist samhliða fjölþrepa uppboð (e. simultaneous multiple round auction (SMRA)). Uppboðshaldari býður upp fjölda tíðnisviða samtímis. Upphafsboð er haft svo lágt að tryggt sé að boð berist í öll tíðnisviðin. Hver þátttakandi þarf að hækka boð í að minnsta kosti eitt af uppboðsviðföngum í hverri umferð. Haldið er áfram uns enginn er eftir og uppboðsviðföngum úthlutað til hæstbjóðanda.

Bandaríska fjarskiptastofnunin beitti aðferðinni fyrst 1994 og seldi 10 leyfi fyrir 617 milljónir dollara. Þarna kom fé til bandarísku alríkisstjórnarinnar sem ella hefði runnið beint til fyrirtækjanna sjálfra. Endurbættri útgáfu þessarar aðferðar hefur verið beitt víða um heim. Nóbelsverðlaunanefndin telur að á 20 ára tímabili hafa tekjur Bandarísku fjarskiptastofnunarinnar af sölu tíðnisviðsréttinda numið 120 milljörðum dollara og að á heimsvísu hafi verðmæti slíkra sölu numið um 200 milljörðum dollara. Samhliða fjölþrepa uppboðsaðferðin hefur verið þróuð og þroskuð frá því að hún var fyrst notuð.

Lokaorð

Á Íslandi úthlugar Póst- og fjarskiptastofnun tíðnisviðum til fjarskiptafyrirtækja. Lýsingu á úthlutunaraðferðum má finna á heimasíðu stofnunarinnar.[4] Tíðnisviðum er úthlutað samkvæmt umsóknum, að undangengnu samráði, með útboði og uppboði. Tíðniheimildir tengdar 4G farnetinu voru boðnar upp í fjölþrepa uppboði 23. maí 2017. Það uppboð skilaði fjarskiptasjóði tæplega 160 milljónum króna.[5] Reynsla annarra þjóða bendir til að ríkissjóður geti haft verulegar tekjur af að þróa uppboðsaðferðina á þessu sviði frekar.

Færeyingar hafa gert tilraunir með að bjóða upp veiðikvóta.[6] Þær tilraunir voru að mestu leyti stöðvaðar við stjórnarskipti í Færeyjum árið 2019 en þá tóku fulltrúar Sambandsflokksins, Fólkaflokksins og Miðflokksins við af stjórn Þjóðveldisins og Jafnaðarflokksins.[7] Uppboðshugmyndin hafði farið nokkuð fyrir brjóstið á útgerðarmönnum sem börðust hatrammlega gegn henni í kosningunum 2019. Nánar má lesa um færeyska uppboðið og reynsluna af því í doktorsritgerð Sönnu Laksá, Distributing Resources: An Exploration of Auction and Other Allocation Mechanisms.

Ekki er að efa að tekjur af uppboði á fiskikvótum, af tíðnisviðsréttindum og öðrum afnotum af auðlindum í þjóðareign gætu styrkt tekjuhlið ríkissjóðs verulega. Vinna Nóbelsverðlaunahafanna í ár og samstarfsfólks þeirra, hefur varðað leið sem eykur notagildi uppboðsaðferðarinnar, bæði fyrir kaupendur og seljendur, og skilar aukinni hagkvæmni fyrir hagkerfið í heild.

Um heimildir

Stuðst var við efni af heimasíðu Nóbelsnefndarinnar (Improvements to Auction Theory and Inventions of New Auction Formats) auk munnlegra og skriflegra upplýsinga frá Má Jónssyni prófessor, Arnheiði Steinþórsdóttur, meistaranema í sagnfræði, Þorleifi Jónssyni hjá Póst- og fjarskiptastofnun og Sæmundi E. Þorsteinssyni hjá Háskóla Íslands.

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá: Lovsamling for Island. (Sótt 27.10.2020).
  2. ^ Sjá: Uppboðskerfi fiskmarkaða: Þarfagreining uppboðskerfis og gerð spálíkans fyrir uppboðsverð. (Sótt 27.10.2020).
  3. ^ Sjá: Pay-As-Bid Auctions in Theory and Practice. (Sótt 27.10.2020).
  4. ^ Sjá: https://pfs.is/fjarskipti/tidnir-og-taekni/tidnimal/adferdir-vid-tidniuthlutanir/. (Sótt 27.10.2020).
  5. ^ Sjá: https://pfs.is/um-pfs/frettir/frett/2017/05/24/Uppbodi-PFS-a-tidniheimildum-fyrir-hahrada-farnet-lokid/. (Sótt 27.10.2020).
  6. ^ Sjá: Uppboð á kvóta í Færeyjum - RÚV. (Sótt 27.10.2020).
  7. ^ Sjá: Fiskifréttir - Hætta að bjóða upp kvóta. (Sótt 27.10.2020).

Myndir:...