Hvernig skilgreinir hagfræðin hugtakið „arður“? Getur fyrirtæki tekið út arð ef það skuldar? Þá ekki lögfræðilega, heldur samkvæmt skilgreiningunni á orðinu.Arður er íslensk þýðing á alþjóðlega hugtakinu dividend. Með arði er átt við greiðslur fyrirtækis í atvinnurekstri til eigenda sinna. Fyrirtæki getur því aðeins greitt arð að það hafi verið rekið með hagnaði á einhverju tímabili frá því það var stofnað.
Fyrirtæki sem skráð eru í kauphöll
Allur gangur er á hvort fyrirtæki sem eru skráð í kauphöll greiði arð eða ekki. Þannig hefur fyrirtæki Warren Buffetts, Berkshire Hathaway, þá stefnu að greiða ekki út arð.[1] Hins vegar hefur tölvuframleiðandinn IBM greitt arð árlega í ríflega 100 ár og dæmi eru um að fyrirtækið hafi aukið arðgreiðslur í ljósi lækkandi hagnaðar.[2] Arðstefna Warrens Buffetts undirstrikar þá trú hans að það sé hagkvæmara fyrir eigendur hlutafjár í fyrirtæki hans að fela Berkshire Hathaway (BH) ávöxtun hagnaðar sem myndast í fyrirtækinu en að þeir reyni að endurfjárfesta útgreiddan arð sjálfir. Eigendur hlutafjár í BH geta leyst til sín hagnað með því að selja hluta af hlutabréfaeign sinni. Arðstefna IBM fellur á hinn bóginn ágætlega að þörfum lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta sem þurfa að losa fé til að standa straum af lífeyrisskuldbindingum svo dæmi sé nefnt.
Fyrirtæki Warren Buffetts, Berkshire Hathaway, hefur þá stefnu að greiða ekki út arð. Á myndinni má sjá Buffett á tali við þáverandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama.
Fyrirtæki sem ekki eru skráð í kauphöll
Sé fyrirtæki ekki skráð í kauphöll eru arðgreiðslur auðveldasta leið eigenda til að hafa tekjur af eign sinni. Óskráð fyrirtæki þurfa ekki að gefa jafnýtarlegar upplýsingar um efnahagslega stöðu sína og skráð fyrirtæki. Því er markaður með hlutabréf þeirra ógagnsærri og eigendur hlutabréfa geta þurft að sæta því að fá ekki sannvirði fyrir bréf sín þurfi þeir að selja þau með hraði.Geta arðgreiðslur skaðað fyrirtækið sem greiðir hann út?
Nákvæm skilgreining hagnaðar er vandaverk. Stefán Svavarson telur í grein í Morgunblaðinu 27. ágúst 2009[3] að minnsta kosti þrenn hagnaðarhugtök sem í notkun voru á þeim tíma í reikningshaldi íslenskra fyrirtækja. Þarna eru hagnaðarhugtök ársreikningslaga, bókhaldslaga og staðals alþjóðlega reikningsskilaráðsins. Þá nefnir hann að stundum sé miðað við innleysta afkomu (e. realized income) en að einnig sé hægt að miða við óinnleysta afkomu (e. unrealized income). Í fyrra tilvikinu er því aðeins tekið tillit til virðisaukningar eða virðisrýrnunar eigna í rekstri að viðkomandi eign hafi verið seld og virðisaukningin þannig raungerð. Í seinna tilvikinu er áætlaður afkomubati vegna áætlaðrar virðisaukningar húseignar færð til eignar svo dæmi sé tekið. Mörg dæmi eru um að fyrirtæki hafi búið yfir óinnleystri afkomu sem ekki kom fram í bókum þess. Þá er talað um dulið eigið fé. Í grein sinni rekur Stefán Svavarsson hvernig óprúttnir aðilar léku sér að göllum í skilgreiningum laga og staðla á hagnaði til að greiða arð út úr fyrirtækjum að tilefnislausu. Áhugasömum lesanda er vísað á þá umfjöllun.
Fyrirtækið Thames Water greiddi eigendum sínum 1,16 milljarð punda í arð á tímabilinu 2006 til 2015. Þessar arðgreiðslur eru settar í samhengi við þá staðreynd að í mars síðastliðnum var Thames Water dæmt til að greiða mjög háar sektir fyrir sinn þátt í alvarlegri mengun frá frárennsliskerfum (skolpræsum) sem komu fram í ánni Thames.
Samantekt
Það er því hægt að svara spurningu fyrirspyrjandi þannig að fyrirtæki geta greitt út arð þó þau skuldi. Þess eru einnig dæmi að meirihlutaeigendur fyrirtækja hafi notað sér gloppur í lögum og reglum til að greiða út arð jafnvel þó slíkar arðgreiðslur hafi unnið gegn markmiðum fyrirtækisins, gegn markmiðum minnihlutaeigenda og gegn hagsmunum lánardrottna þess. Tilvísanir:- ^ Warren Buffett's Best High Dividend Stocks - February 2017. (Skoðað 10.05.2017).
- ^ A Close Look at IBM's Dividend Potential -- The Motley Fool. (Skoðað 10.05.2017).
- ^ Stefán Svavarsson. Hvenær má greiða arð? Morgunblaðið, 27. ágúst 2009. (Skoðað 10.05.2017).
- ^ Financial Times - Thames Water: the murky structure of a utility company. (Skoðað 10.05.2017).
- Warren Buffett - Wikipedia. (Sótt 10.05.2017).
- River Thames - Wikipedia. Myndrétthafi er David Iliff. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 10.05.2017).