Sólin Sólin Rís 07:11 • sest 19:58 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 07:25 • Sest 01:04 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:46 • Síðdegis: 21:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:37 • Síðdegis: 14:53 í Reykjavík

Hvernig lítur stjörnumerkið Tvíburarnir út?

Stjörnufræðivefurinn

Tvíburarnir eru eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Merkið er áberandi því björtustu stjörnurnar, Kastor og Pollux, eru í hópi 50 skærustu stjarna á næturhimninum. Tvíburamerkið er nokkuð stórt um sig þótt stutt sé á milli tveggja björtustu stjarnanna og lendir það í 17. sæti þegar stjörnumerkjunum er raðað eftir stærð.

Tvíburarnir er norðan við miðbaug himins og markast af stjörnumerkjunum Krabbanum í austri, Litlahundi í suðaustri og Einhyrningnum í suðri. Óríon og Nautið eru vestan við Tvíburana en norðan við þá eru Ökumaðurinn og Gaupan. Tvíburarnir eru eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Tvíburana og eru þeir nyrsta stjörnumerkið í dýrahringnum og sjást vel frá Íslandi. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Tvíburamerkisins frá 21. júní til 20. júlí (en ekki frá 22. maí til 23. júní eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himninum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Tvíburunum.

Loftsteinadrífan geminítar er kennd við Tvíburana sem nefnast Gemini á latínu. Geminítar eiga rætur að rekja til hnattarins 3200 Phaethon sem er talinn vera gömul og óvirk halastjarna. Drífan nær hámarki 13.-14. desember og virðist geislapunktur stjörnuhrapanna vera í Tvíburamerkinu en ljósrákirnar geta birst víða á himninum.

Tvíburarnir fara að sjást að kvöldlagi rétt fyrir áramót og sjást fram í apríl. Þeir eru í suðri klukkan tíu að kvöldi í mars.Stjörnumerkið Tvíburarnir á íslenska næturhimninum síðari hluta vetur (1. mars) klukkan 21:00. Horft er í suður. Í austri er Krabbinn, Ökumaðurinn í norðvestri, Óríon í suðvestri og Litlihundur í suðri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Sem fyrr segir mynda björtustu stjörnurnar í Tvíburunum áberandi tvíeyki á himninum. Það er þó auðvelt að rugla þeim saman við stjörnur Litlahunds sem er sunnan við Tvíburana um miðbik vetrar. Þægilegt er að láta stjörnumerkið Óríon vísa sér veginn til Tvíburanna en þeir eru nokkru ofar á himninum í norðausturátt frá Óríon. Einnig er hægt að finna Tvíburana út frá Sjöstirninu í Nautsmerkinu sem er talsvert vestar á himninum.

Samkvæmt goðsögninni voru Kastor og Pollux tvíburasynir en átt hvor sinn föðurinn. Pollux var af guðlegum uppruna og ódauðlegur en Kastor ekki. Þegar Kastor var drepinn setti guðinn Seifur þá upp á stjörnuhimininn.

Stjörnumerkið Tvíburarnir kemur einnig fyrir í Snorra-Eddu undir nafninu „Augu Þjassa“. Jötuninn Þjassi rænir Loka sem lofar honum Iðunni og æskueplum hennar. Loka er gert að endurheimta Iðunni og eplin en síðan upphefst mikill eltingarleikur í Ásgarð sem endar með því að æsir drepa Þjassa. Dóttir hans, Skaði, kemur í Ásgarð og vill hefna föður síns. Æsir bjóða henni föðurbætur en hluti þeirra fólst í því að Óðinn setti augu föður hennar upp á himininn sem stjörnurnar í Tvíburamerkinu (Kastor og Pollux).

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Þetta svar er stytt útgáfa af pistli um Tvíburana á Stjörnufræðivefnum www.stjornuskodun.is og birt með góðfúslegu leyfi. Á Stjörnufræðivefnum er að finna fleiri kort sem sýna Tvíburana og stjörnumerkin umhvefis þá.


Hér er einnig svarað spurningunni:
Er bara hægt að sjá stjörnumerkið Tvíburana á einhverjum ákveðnum tíma?

Útgáfudagur

11.3.2010

Spyrjandi

Kristinn Anton, Bára Dís Benediktsdóttir

Tilvísun

Stjörnufræðivefurinn. „Hvernig lítur stjörnumerkið Tvíburarnir út?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2010. Sótt 25. mars 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=15650.

Stjörnufræðivefurinn. (2010, 11. mars). Hvernig lítur stjörnumerkið Tvíburarnir út? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=15650

Stjörnufræðivefurinn. „Hvernig lítur stjörnumerkið Tvíburarnir út?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2010. Vefsíða. 25. mar. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=15650>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig lítur stjörnumerkið Tvíburarnir út?
Tvíburarnir eru eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Merkið er áberandi því björtustu stjörnurnar, Kastor og Pollux, eru í hópi 50 skærustu stjarna á næturhimninum. Tvíburamerkið er nokkuð stórt um sig þótt stutt sé á milli tveggja björtustu stjarnanna og lendir það í 17. sæti þegar stjörnumerkjunum er raðað eftir stærð.

Tvíburarnir er norðan við miðbaug himins og markast af stjörnumerkjunum Krabbanum í austri, Litlahundi í suðaustri og Einhyrningnum í suðri. Óríon og Nautið eru vestan við Tvíburana en norðan við þá eru Ökumaðurinn og Gaupan. Tvíburarnir eru eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Tvíburana og eru þeir nyrsta stjörnumerkið í dýrahringnum og sjást vel frá Íslandi. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Tvíburamerkisins frá 21. júní til 20. júlí (en ekki frá 22. maí til 23. júní eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himninum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Tvíburunum.

Loftsteinadrífan geminítar er kennd við Tvíburana sem nefnast Gemini á latínu. Geminítar eiga rætur að rekja til hnattarins 3200 Phaethon sem er talinn vera gömul og óvirk halastjarna. Drífan nær hámarki 13.-14. desember og virðist geislapunktur stjörnuhrapanna vera í Tvíburamerkinu en ljósrákirnar geta birst víða á himninum.

Tvíburarnir fara að sjást að kvöldlagi rétt fyrir áramót og sjást fram í apríl. Þeir eru í suðri klukkan tíu að kvöldi í mars.Stjörnumerkið Tvíburarnir á íslenska næturhimninum síðari hluta vetur (1. mars) klukkan 21:00. Horft er í suður. Í austri er Krabbinn, Ökumaðurinn í norðvestri, Óríon í suðvestri og Litlihundur í suðri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Sem fyrr segir mynda björtustu stjörnurnar í Tvíburunum áberandi tvíeyki á himninum. Það er þó auðvelt að rugla þeim saman við stjörnur Litlahunds sem er sunnan við Tvíburana um miðbik vetrar. Þægilegt er að láta stjörnumerkið Óríon vísa sér veginn til Tvíburanna en þeir eru nokkru ofar á himninum í norðausturátt frá Óríon. Einnig er hægt að finna Tvíburana út frá Sjöstirninu í Nautsmerkinu sem er talsvert vestar á himninum.

Samkvæmt goðsögninni voru Kastor og Pollux tvíburasynir en átt hvor sinn föðurinn. Pollux var af guðlegum uppruna og ódauðlegur en Kastor ekki. Þegar Kastor var drepinn setti guðinn Seifur þá upp á stjörnuhimininn.

Stjörnumerkið Tvíburarnir kemur einnig fyrir í Snorra-Eddu undir nafninu „Augu Þjassa“. Jötuninn Þjassi rænir Loka sem lofar honum Iðunni og æskueplum hennar. Loka er gert að endurheimta Iðunni og eplin en síðan upphefst mikill eltingarleikur í Ásgarð sem endar með því að æsir drepa Þjassa. Dóttir hans, Skaði, kemur í Ásgarð og vill hefna föður síns. Æsir bjóða henni föðurbætur en hluti þeirra fólst í því að Óðinn setti augu föður hennar upp á himininn sem stjörnurnar í Tvíburamerkinu (Kastor og Pollux).

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Þetta svar er stytt útgáfa af pistli um Tvíburana á Stjörnufræðivefnum www.stjornuskodun.is og birt með góðfúslegu leyfi. Á Stjörnufræðivefnum er að finna fleiri kort sem sýna Tvíburana og stjörnumerkin umhvefis þá.


Hér er einnig svarað spurningunni:
Er bara hægt að sjá stjörnumerkið Tvíburana á einhverjum ákveðnum tíma?
...