Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Er Loch Ness skrímslið til?

Arngrímur Vídalín

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Er búið að sanna með óyggjandi hætti að Loch Ness skrímslið sé ekki til?

Skrímslið í Loch Ness er svonefnt duldýr (e. cryptid) af óþekktri tegund sem sagt er að búi í stöðuvatninu Ness við bæinn Inverness í Skotlandi. Jafnan er talið að Nessie, líkt og heimamenn kalla dýrið, sé síðasti afkomandi sjávarrisaeðlu af tegundinni Plesiosauria sem dó út fyrir um 66 milljónum ára undir lok krítartímabilsins.

Talið er að fyrst hafi orðið vart við Nessie árið 1802 en fáar sögusagnir voru þó til um hana fyrir árið 1933 og engar nákvæmar. Bent hefur verið á að ókennilegt sjávarskrímsli birtist í ánni Ness, vel að merkja ekki í vatninu sjálfu, í ævi dýrlingsins Kólumkilla (Vita Columbae) eftir Adomnán, sem skrifuð var um 640 eða tæpum hundrað árum eftir að Kólumkilli kljáðist við „vatnadýrið“ (lat. aquatilis bestia) eins og það er nefnt þar. Um þessi tengsl er þó efast þar sem engar eða fáar sögusagnir voru uppi um skrímsli í vatninu þar til á 20. öld sem áður er nefnt auk þess að sjávarskrímsli eru algengt minni í dýrlingasögum, svo sem í ferðasögu heilags Brendans (Navigatio sancti Brendani) frá því um 900.

Þetta er hin fræga ljósmynd sem hefur verið kölluð „ljósmynd skurðlæknisins“ eftir Robert Wilson. Það kom í ljós árið 1994 að myndin er fölsun, hún sýnir leikfangakafbát með áföstu höfði.

Upp úr 1933, sem áður er nefnt, hefjast sögusagnir af dýri í Loch Ness fyrir alvöru og ýmsar falsanir líta dagsins ljós. Fyrstur var veiðimaðurinn Marmaduke Wetherell sem falsaði fótspor dýrsins með því að nota flóðhestsfót af þeirri gerð sem vinsælt var að hafa fyrir regnhlífastanda á þeim tíma. Skömmu síðar birti skurðlæknirinn Robert Wilson frægustu mynd sem náðst hefur af dýrinu og hefur síðar verið nefnd „ljósmynd skurðlæknisins“ (e. surgeon's photo). Sú mynd reyndist einnig vera fölsun en það kom raunar ekki í ljós fyrr en árið 1994, þegar Christian nokkur Spurling játaði níræður aðkomu sína að fölsun myndarinnar með einmitt þeim Marmaduke Wetherell og Robert Wilson, í hefndarskyni fyrir niðurlægingu þess fyrrnefnda nokkrum mánuðum áður. Segja má að grikkurinn hafi heppnast dálaglega en myndin sýnir leikfangakafbát með áföstu höfði.

Margt mælir á móti því að Nessie sé eða hafi nokkru sinni verið til. Til að mynda er Loch Ness aðeins um tíuþúsund ára gömul jarðmyndun og einhvern veginn hefðu ættingjar Nessie frá fyrri tíð þurft að príla langa leið inn í land til að setjast að í vatninu, nema þeir hafi á einhvern hátt synt á móti straumnum upp í sextán metra hæð yfir sjávarmáli. Vatnið er auk þess of smátt til að halda uppi lágmarkshjörð svo stórra dýra og jafnvel þótt gengið sé út frá því að dýrið sé og hafi ætíð aðeins verið eitt. Eftir sem áður þarf hjörð slíkra dýra að hafa hafst við í hafinu óséð nógu lengi til að síðasta afkvæmið hafi einhvern veginn getað komið sér óséð fyrir í vatninu fram á 20. öld.

Væri skrímslið til gæti það auk þess ómögulega verið risaeðla þar sem vatnið er bæði of kalt fyrir skriðdýr og auk þess er það ferskt en nánast engar líkur eru á að sjávarrisaeðla á við Plesiosaurus geti aðlagast ferskvatni vegna himnuflæðis (e. osmoregulation) eða saltbúskapar, sem hefur að gera með flæði vatns um himnu (til dæmis frumuhimnu) sem er ógegndræp fyrir salti en gegndræp fyrir vatni; vatnið flæðir alltaf þangað sem saltstyrkurinn er hærri og sé dýrið aðlagað saltvatni bólgnar það út og deyr við flutning í ferskvatn. Jafnvel þótt dýrinu hefði tekist það þá sæist það sennilega oft á dag því það þyrfti reglulega að synda upp á yfirborð til að anda.

Síðan myndir tóku að birtast af skepnunni með sveigðan háls hefur steingervingafræðinni fleygt fram og nú er vitað að sjávareðlur höfðu þráðbeinan og ósveigjanlegan háls. Gríðarlega margar tilraunir hafa verið gerðar til að mæla vatnið með hljóðbylgjum og ýmiss konar háþróuðum tækjabúnaði en þrátt fyrir áratugatilraunir til að hafa uppi á Nessie hefur aldrei fundist tangur né tetur af henni. Hafi einhvern tíma verið skrímsli í Loch Ness, hvort sem það hefur verið á sjöttu öld eða þeirri tuttugustu, þá er næsta öruggt að það skrímsli er löngu horfið.

Á kortavef Google fann hinn 26 ára gamli Andrew Dixon þessa mynd sem hann taldi vera af Nessie.

Jafn öruggt er að trúmenn munu halda áfram að trúa og leita nýrra sönnunargagna um tilvist Nessie. Nýverið bárust fréttir af því að hinn 26 ára Andrew Dixon hefði óvænt fundið dýrið á kortavef Google. Þótti sumum ótvírætt að þar væri skepnan á ferðinni. Forseti aðdáendafélags Loch Ness skrímslisins, Gary Campbell, sagði að við fyrstu sýn líktist myndin kjölfari skips en taldi líklegt að myndin sýndi Nessie. Í umræðuna vantaði þá staðreynd að Google máir út áberandi farartæki af gervihnattamyndum sínum. Á vefsíðunni Sploid var bent á þetta og á notandinn DaveWood111 heiður af meðfylgjandi gif-mynd sem sýnir svo ekki verður um villst að straumfarið liggur aftan úr skipi, ekki skepnu.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Arngrímur Vídalín

doktor í íslenskum bókmenntum frá HÍ

Útgáfudagur

20.6.2014

Spyrjandi

Lilja Sif Þorsteinsdóttir, Hlynur Guðmundsson

Tilvísun

Arngrímur Vídalín. „Er Loch Ness skrímslið til?“ Vísindavefurinn, 20. júní 2014. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=21142.

Arngrímur Vídalín. (2014, 20. júní). Er Loch Ness skrímslið til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=21142

Arngrímur Vídalín. „Er Loch Ness skrímslið til?“ Vísindavefurinn. 20. jún. 2014. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=21142>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er Loch Ness skrímslið til?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Er búið að sanna með óyggjandi hætti að Loch Ness skrímslið sé ekki til?

Skrímslið í Loch Ness er svonefnt duldýr (e. cryptid) af óþekktri tegund sem sagt er að búi í stöðuvatninu Ness við bæinn Inverness í Skotlandi. Jafnan er talið að Nessie, líkt og heimamenn kalla dýrið, sé síðasti afkomandi sjávarrisaeðlu af tegundinni Plesiosauria sem dó út fyrir um 66 milljónum ára undir lok krítartímabilsins.

Talið er að fyrst hafi orðið vart við Nessie árið 1802 en fáar sögusagnir voru þó til um hana fyrir árið 1933 og engar nákvæmar. Bent hefur verið á að ókennilegt sjávarskrímsli birtist í ánni Ness, vel að merkja ekki í vatninu sjálfu, í ævi dýrlingsins Kólumkilla (Vita Columbae) eftir Adomnán, sem skrifuð var um 640 eða tæpum hundrað árum eftir að Kólumkilli kljáðist við „vatnadýrið“ (lat. aquatilis bestia) eins og það er nefnt þar. Um þessi tengsl er þó efast þar sem engar eða fáar sögusagnir voru uppi um skrímsli í vatninu þar til á 20. öld sem áður er nefnt auk þess að sjávarskrímsli eru algengt minni í dýrlingasögum, svo sem í ferðasögu heilags Brendans (Navigatio sancti Brendani) frá því um 900.

Þetta er hin fræga ljósmynd sem hefur verið kölluð „ljósmynd skurðlæknisins“ eftir Robert Wilson. Það kom í ljós árið 1994 að myndin er fölsun, hún sýnir leikfangakafbát með áföstu höfði.

Upp úr 1933, sem áður er nefnt, hefjast sögusagnir af dýri í Loch Ness fyrir alvöru og ýmsar falsanir líta dagsins ljós. Fyrstur var veiðimaðurinn Marmaduke Wetherell sem falsaði fótspor dýrsins með því að nota flóðhestsfót af þeirri gerð sem vinsælt var að hafa fyrir regnhlífastanda á þeim tíma. Skömmu síðar birti skurðlæknirinn Robert Wilson frægustu mynd sem náðst hefur af dýrinu og hefur síðar verið nefnd „ljósmynd skurðlæknisins“ (e. surgeon's photo). Sú mynd reyndist einnig vera fölsun en það kom raunar ekki í ljós fyrr en árið 1994, þegar Christian nokkur Spurling játaði níræður aðkomu sína að fölsun myndarinnar með einmitt þeim Marmaduke Wetherell og Robert Wilson, í hefndarskyni fyrir niðurlægingu þess fyrrnefnda nokkrum mánuðum áður. Segja má að grikkurinn hafi heppnast dálaglega en myndin sýnir leikfangakafbát með áföstu höfði.

Margt mælir á móti því að Nessie sé eða hafi nokkru sinni verið til. Til að mynda er Loch Ness aðeins um tíuþúsund ára gömul jarðmyndun og einhvern veginn hefðu ættingjar Nessie frá fyrri tíð þurft að príla langa leið inn í land til að setjast að í vatninu, nema þeir hafi á einhvern hátt synt á móti straumnum upp í sextán metra hæð yfir sjávarmáli. Vatnið er auk þess of smátt til að halda uppi lágmarkshjörð svo stórra dýra og jafnvel þótt gengið sé út frá því að dýrið sé og hafi ætíð aðeins verið eitt. Eftir sem áður þarf hjörð slíkra dýra að hafa hafst við í hafinu óséð nógu lengi til að síðasta afkvæmið hafi einhvern veginn getað komið sér óséð fyrir í vatninu fram á 20. öld.

Væri skrímslið til gæti það auk þess ómögulega verið risaeðla þar sem vatnið er bæði of kalt fyrir skriðdýr og auk þess er það ferskt en nánast engar líkur eru á að sjávarrisaeðla á við Plesiosaurus geti aðlagast ferskvatni vegna himnuflæðis (e. osmoregulation) eða saltbúskapar, sem hefur að gera með flæði vatns um himnu (til dæmis frumuhimnu) sem er ógegndræp fyrir salti en gegndræp fyrir vatni; vatnið flæðir alltaf þangað sem saltstyrkurinn er hærri og sé dýrið aðlagað saltvatni bólgnar það út og deyr við flutning í ferskvatn. Jafnvel þótt dýrinu hefði tekist það þá sæist það sennilega oft á dag því það þyrfti reglulega að synda upp á yfirborð til að anda.

Síðan myndir tóku að birtast af skepnunni með sveigðan háls hefur steingervingafræðinni fleygt fram og nú er vitað að sjávareðlur höfðu þráðbeinan og ósveigjanlegan háls. Gríðarlega margar tilraunir hafa verið gerðar til að mæla vatnið með hljóðbylgjum og ýmiss konar háþróuðum tækjabúnaði en þrátt fyrir áratugatilraunir til að hafa uppi á Nessie hefur aldrei fundist tangur né tetur af henni. Hafi einhvern tíma verið skrímsli í Loch Ness, hvort sem það hefur verið á sjöttu öld eða þeirri tuttugustu, þá er næsta öruggt að það skrímsli er löngu horfið.

Á kortavef Google fann hinn 26 ára gamli Andrew Dixon þessa mynd sem hann taldi vera af Nessie.

Jafn öruggt er að trúmenn munu halda áfram að trúa og leita nýrra sönnunargagna um tilvist Nessie. Nýverið bárust fréttir af því að hinn 26 ára Andrew Dixon hefði óvænt fundið dýrið á kortavef Google. Þótti sumum ótvírætt að þar væri skepnan á ferðinni. Forseti aðdáendafélags Loch Ness skrímslisins, Gary Campbell, sagði að við fyrstu sýn líktist myndin kjölfari skips en taldi líklegt að myndin sýndi Nessie. Í umræðuna vantaði þá staðreynd að Google máir út áberandi farartæki af gervihnattamyndum sínum. Á vefsíðunni Sploid var bent á þetta og á notandinn DaveWood111 heiður af meðfylgjandi gif-mynd sem sýnir svo ekki verður um villst að straumfarið liggur aftan úr skipi, ekki skepnu.

Heimildir:

Myndir:

...