Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er hægt að svelta líkamann lengi um kolvetni?

Hér er einnig svarað spurningu Þuríðar Jóhannsdóttur: Hvað er ketósa og hvers vegna er kolvetnissnautt mataræði talið skaðlegt?

Líkaminn geymir kolvetni á formi glýkógens í lifur og vöðvum, auk þess sem einhvern glúkósa eða þrúgusykur er alltaf að finna í blóðinu. Frumur líkamans nýta kolvetni sem orkugjafa, bæði á formi glúkósa og fitu, en við eðlilegar kringumstæður notar miðtaugakerfið, og þar með talinn heilinn, eingöngu glúkósa. Glúkósi er sú sykurtegund sem er mikilvægust í lífverum.

Við (kolvetna)svelti brotna glýkógenbirgðirnar hratt niður til að sjá miðtaugakerfinu fyrir orku. Eftir tveggja til þriggja daga föstu án líkamlegrar áreynslu, eru glýkógenbirgðir lifrarinnar uppurnar, og helmingur vöðvaglýkógensins einnig. Þá hefst sykurnýmyndun úr glýseróli, sem er örlítill hluti forðafitusameindanna, og úr glúkógenískum amínósýrum, sem eru byggingarefni prótína. Við þetta eykst endurvinnsla glúkósa í mjólkursýruhringnum.

Sykurnýmyndunin getur aldrei séð miðtaugakerfinu fyrir allri þeirri orku sem það þarf. Við (kolvetna)svelti eykst myndun ketónkroppa (asetóasetats, beta-hydroxybutyrats og asetóns, sem eru rokgjörn efni og gefa frá sér sæta lykt) úr fitu. Miðtaugakerfið getur nýtt sér sér þessi efni að hluta, fái það glúkósa með. Við það hækkar ketónkroppastyrkur í blóði og nær hann hámarki eftir um þrjár vikur.

Notkun miðtaugakerfisins á ketónkroppum eykst um leið og glúkósi er sparaður. Um 40% þess glúkósa sem heilinn notar eftir þriggja til fimm vikna föstu eru endurunnin í mjólkursýruhringnum. Aðrar frumur líkamans nota einnig ketónkroppa, en eftir tveggja vikna föstu minnkar notkun vöðva á ketónkroppum og fituoxun vöðvanna eykst. Þetta nefnist ketósa. Ketósa getur orðið alvarlegt ástand ef einstaklingurinn missir mikinn vökva eða blóð og/eða við alvarlega sýkingu, lost eða meiriháttar skurðaðgerð. Ketósa móður á meðgöngu getur skert þroska fósturs.

Það er því hægt að svelta líkamann býsna lengi um kolvetni, en í ketósu má lítið út af bera til að alvarlegt ástand skapist.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Útgáfudagur

9.3.2002

Spyrjandi

Sigríður Kristjánsdóttir

Höfundur

Anna Ragna Magnúsardóttir

næringarfræðingur, doktor í heilbrigðisvísindum

Tilvísun

Anna Ragna Magnúsardóttir. „Hvað er hægt að svelta líkamann lengi um kolvetni?“ Vísindavefurinn, 9. mars 2002. Sótt 20. febrúar 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=2170.

Anna Ragna Magnúsardóttir. (2002, 9. mars). Hvað er hægt að svelta líkamann lengi um kolvetni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2170

Anna Ragna Magnúsardóttir. „Hvað er hægt að svelta líkamann lengi um kolvetni?“ Vísindavefurinn. 9. mar. 2002. Vefsíða. 20. feb. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2170>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Ólafur Páll Jónsson

1969

Ólafur Páll Jónsson er prófessor í heimspeki á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa einkum verið á sviði menntunarheimspeki, heimspeki náttúrunnar, stjórnmálaheimspeki og frumspeki.