Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Áður fyrr þöktu skógar um 80-90% af Danmörku og dýrafána landsins einkenndist þess vegna af skógardýrum. Nú er stundaður mjög umfangsmikill landbúnaður í landinu og hafa skógar verið ruddir auk þess sem 95-98% af upprunalegu votlendi hefur verið þurrkað upp á með tilheyrandi fækkun votlendisdýra, svo sem froskdýra og fugla. Notkun á skordýraeitri og tilbúnum áburði í landbúnaði veldur einnig mikilli mengun. Enn finnast þó upprunalegir skógar með fjölskrúðugu vistkerfi, sérstaklega á Jótlandi og Fjóni. Líklega standa enn um 10% af upprunalegum skógum Danmerkur.
Krónhjörturinn lifir í dönskum skógum og er vinsælt veiðidýr sportveiðimanna.
Rannsóknir á fjölda villtra hryggdýra í Danmörku eru ekki nákvæmar en Umhverfisstofnun landsins hefur þó gert tilraun til að meta fjöldann. Talið er að 49 tegundir spendýra lifi í Danmörku, 209 tegundir fugla, 5 tegundir skriðdýra, 14 tegundir froskdýra og 37 tegundir ferskvatnsfiska. Talning á hryggleysingjum er ekki nákvæm en áætlað er að um 21 þúsund tegund lifi í Danmörku, þar af 18 þúsund skordýrategundir.
Margar tegundir hafa aðlagst vel umfangsmiklum breytingum sem hafa orðið á náttúru landsins. Hérum líkar vel að lifa á engjum og öðrum ræktuðum svæðum og hefur hérastofninn margfaldast á undanförnum áratugum. Aðrar tegundir eins og akurhænur og lævirkjar hafa einnig dafnað vel á ræktuðum svæðum.
Helstu spendýrin í danskri dýrafánu eru þessi:
krónhjörtur (Cervus elaphus)
evrópskur héri (Lepus europaeus)
evrópskt dádýr (Dama dama)
rádýr (Capreolus capreolus)
rauðrefur (Vulpes vulpes)
villisvín (Sus scofa)
Bjórar (Castor fiber) hafa að nýju numið land í Danmörku en þeir höfðu ekki sést þar síðastliðin 3.000 ár. Einstaka sinnum hafa elgir synt yfir sundið frá Svíþjóð til Sjálands en yfirleitt hafa þeir verið skotnir þar sem þeir geta valdið hættu í umferð. Fyrir fáeinum árum synti elgur yfir sundið og var leyft að lifa í skóglendi Sjálands en hann drapst nýlega þegar hann gekk í veg fyrir járnbrautarlest. Otrum (Lutra lutra) hefur vegnað vel á síðastliðnum áratugum eftir að þeir voru friðaðir og er tegundin í mikilli sókn.
Kolstorkur.
Álftin (Cygnus cygnus) er þjóðarfugl Danmerkur. Tvær aðrar svanategundir verpa í þar, hnúðsvanur (Cygnus olor) og túndrusvanur (Cygnus columbianus). Grágæsin (Anser anser) er tiltölulega algeng í Danmörku ásamt nokkrum öðrum gæsategundum og fjölda andategunda af Anas- og Aythya-ættkvíslunum. Ólíkt íslenskri fuglafánu þá eru í Danmörk margir skógarfuglar, eins og spætur (Dendrocopos spp. ), fashanar (Phasianus colchicus), krákur (Corvus spp. ) og gauktítur (Jynx torquilla) en þær hafa þann kæk að vinda upp á hálsinn!
Hvítstorkum (Ciconia ciconia) hefur fækkað mjög í Danmörku og á árinu 2000 verptu þar aðeins þrjú pör. Menn telja að tegundin sé hætt að verpa þar í landi. Kolstorkinum Ciconia nigra hefur hins vegar fjölgað mjög á undanförnum áratugum. Í fyrsta skipti á sögulegum tíma verpti gullörn Aquila chrysaetos í Danmörku, nánar tiltekið á Jótlandi. Haförnum (Haliaeetus albicilla) hefur eitthvað fjölgað í Danmörku og árið 1999 verptu þar 6 pör. Hins vegar eru um 2.000 hafarnarpör í Noregi.
Hér er hægt að leita frekari upplýsinga um dýralíf og náttúrufar í Danmörku:
Jón Már Halldórsson. „Hvernig er dýralíf í Danmörku?“ Vísindavefurinn, 17. desember 2003, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3919.
Jón Már Halldórsson. (2003, 17. desember). Hvernig er dýralíf í Danmörku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3919
Jón Már Halldórsson. „Hvernig er dýralíf í Danmörku?“ Vísindavefurinn. 17. des. 2003. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3919>.