Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Dýralíf á Írlandi er sæmilega fjölskrúðugt þó tegundafjöldinn sé talsvert minni en á öðrum svæðum á svipaðri breiddargráðu vegna einangrunar eyjunnar. Umfjöllunin hér á eftir er bundin við hryggdýrafánu Írlands til þess að svarið verði ekki allt of langt.
Fyrst ber að nefna spendýrin en um 30 spendýrategundir finnast á Írlandi og eru nokkrar þeirra aðfluttar, svo sem sitka hjörturinn, kanínan, minkurinn og rottur.
Greifingi (Meles meles) er náttúrulegt spendýr á Írlandi. Hann er nokkuð algengur og finnst í öllum sýslum eyjunnar. Kjörlendi hans er skóglendi þar sem jarðvegur er tiltölulega þurr.
Hreysiköttur (Mustela erminae) er minnst írskra rándýra. Lengi vel var haldið að hreysikötturinn væri vísla (mörður) og var það ekki fyrr en á 18. öld að menn áttuðu sig á að svo var ekki. Enn er þó algengt að almenningur kalli hreysiköttinn víslu. Írsku hreysikettirnir eru dekkri og eitthvað minni en frændur þeirra á Englandi og meginlandi Evrópu. Írskir bændur eru ekki á einu máli um ágæti þessa smáa rándýrs. Hreysikettir eiga það til að drepa hænur bænda en að sama skapi eru þeir duglegir að halda rottu- og músastofnum niðri og því nytsemdarskepnur. Þeir veiða aðallega á nóttunni en geta þó einnig verið á ferli á daginn.
Rauðrefir (Vulpes vulpes) eru meðal algengustu spendýra á Írlandi og finnast um alla eyjuna, bæði í óbyggðum og nærri bæjum þar sem þeir hafa komist upp á lag með að éta afganga frá manninn.
Önnur rándýr sem finnast á Írlandi eru hinn innflutti ameríski minkur (Mustela vison) og otur (Lutra lutra).
Tvær tegundir héra lifa á Írlandi, gráhéri (Lepus europeus) og snæhéri eða írski hérinn (Lepus timidus) en greining þar á milli getur verið erfið fyrir óvana. Gráhérinn, sem oft er kallaður breski héri eða evrópski héri, er aðfluttur og mun sjaldséðari en sá írski.
Sitkahjörtur (Cervus nippon) er innflutt tegund en árið 1860 voru fjögur slík dýr flutt til landsins frá Japan. Hjörðin stækkaði smám saman og eins og oft gerist sluppu einhver dýr frá því svæði sem tekið hafði verið frá fyrir þau. Þessi dýr tóku sér bólfestu í nærliggjandi skógum í Wiclowsýslu og eru nú allir sitkahirtir á Írlandi komnir af þessum strokugemlingum. Útbreiðsla sitkahjarta er einungis bundin við skóglendið í Wicklowsýslu og tveimur öðrum sýslum, Kerry og Fermanagh.
Sitkahjörturinn er innflutt tegund víða í skóglendi á Bretlandseyjum.
Rauðhjörtur (Cervus elaphus) sem er stærstur þeirra þriggja dádýrategunda sem lifa á Írlandi, var áður mjög útbreiddur um alla eyjuna. Hungursneyðin sem geisaði á Írlandi á árunum 1845-47 olli því að rauðhirtir hurfu endanlega af stórum svæðum en má þó enn finna þá í Killarney og í Kerrysýslu. Því til viðbótar hefur aukinn landbúnaður og vöxtur þéttbýlis gengið á landsvæði hans og valdið því að stofnstærðin er nú aðeins brot af því sem hún var fyrr á öldum.
Líkt og hérlendis þá hafa fundist tvær tegundir af rottum á Írlandi, brúnrotta (Rattus norvegicus) og svartrotta (Rattus rattus) og hafa báðar þessar tegundir borist þangað með mönnum. Ekki er ljóst hvenær svartrottan nam land á Írlandi en hún er algeng á þeim svæðum þar sem brúnrottuna er ekki að finna. Talið er að brúnrottan hafi borist til Írlands upp úr 1700 með bátum frá Bretlandi.
Minnsta spendýr Írlands er dvergsnjáldran (Sorex minutus) sem mælist aðeins örfáir cm á lengd og finnst um allt landið. Af öðrum spendýrategundum má nefna að sjö tegundir leðurblaka lifa á Írlandi og undan ströndinni er nokkuð um seli. Langalgengustu selategundirnar eru landselur (Phoca vitulina) og útselur (Halichoerus gripus).
Aðeins ein skriðdýrategund finnst í írskri náttúru en það er skógarskriðlan (Lacerta vivipara). Hins vegar eru þrjár tegundir froskdýra, litla mandra (Triturus vulgaris), norræni froskurinn (Rana temporaria) og strandkarta (Bufo calamita).
Skógarskriðla (Lacerta vivipara).
Fuglalíf Írlands er fjölskrúðugt en alls verpa þar reglulega rúmlega 150 tegundir fugla á fjölbreyttum búsvæðum, sjávarhömrum, votlendi, skóglendi og heiðum svo dæmi séu tekin. Margar þessara tegunda finnast einnig hér á landi, svo sem kría (Sterna paradisaea), en auk hennar verpa nokkrar aðrar tegundir af þessari ættkvísl á Írlandi.
Af ránfuglum eru fjórar tegundir fálka, meðal annars smyrillinn (Falco columbiaris) og förufálki (Falco peregrinus) en ekki hinn stórvaxni Íslandsfálki (Falco rusticulus) þar sem Írland er fyrir sunnan útbreiðslusvæði hans. Hins vegar verpir sparrhaukur (Accipiter nisus) á Írlandi en það er ránfuglategund sem oft flækist hingað til lands.
Þrjár tegundir hröfnunga verpa á Írlandi, hrafninn (Corvus corax), bláhrafn (Corvus frugilegus) og dvergkráka (Corvus monedula). Fjöldi annarra spörfugla verpir víðsvegar um landið svo sem sex tegundir af Turdus ættkvíslinni þar með talinn skógarþröstur (Turdus iliacus), og stari er víða í borgum og bæjum líkt og í Reykjavík.
Á vefsíðu Nature World Wide - World Institute for Conservation & Environment má sjá lista yfir varpfugla og spendýr sem finnast á og við Írlandi.
Heimildir og myndir:
Corbett, G.B. & Harris, S. (1991). The Handbook of British Mammals. Blackwell Scientific Publications, Oxford, UK.
Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr lifa villt á Írlandi?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2005, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5070.
Jón Már Halldórsson. (2005, 21. júní). Hvaða dýr lifa villt á Írlandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5070
Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr lifa villt á Írlandi?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2005. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5070>.