Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eru Lakagígar enn virkir og hvenær geta þeir gosið næst? Eru einhverjar líkur á að móðuharðindin endurtaki sig?
Til að svara því hvort Lakagígar séu enn virkir er gott að átta sig á einum þætti í eðli íslenskra eldstöðva. Á gosbeltunum á Íslandi liggja með nokkuð jöfnu millibili svokallaðar megineldstöðvar, stór og mikil eldfjöll þar sem oft má finna háhitasvæði og líparít. Meðal íslenskra megineldstöðva má nefna Heklu, Eyjafjallajökul, Grímsvötn og Öskju. Eitt einkenni megineldstöðva er að þær gjósa aftur og aftur. Hekla hefur til að mynda gosið minnst 18 sinnum frá landnámi. Megineldstöðvar eru sagðar virkar ef þær hafa gosið í náinni fortíð eða búist er við því að þær muni geta gosið aftur, en allar megineldstöðvar kulna út um síðir og nýjar myndast í þeirra stað. Víða um land má þannig sjá leifar fornra og útkulnaðra megineldstöðva.
Lakagígar eru 27 kílómetra löng sprunguþyrping greypt í landslagið sem röð af 140 klepra- og gjallkeilum/gígum.
Út frá megineldstöðvunum liggja svo ílöng svæði, svokallaðar sprungureinar, og saman mynda megineldstöð og sprungurein eldstöðvakerfi. Eldstöðvakerfi geta verið tugi eða hundruð kílómetra löng og getur gosið víða innan þeirra. Það skiptir hins vegar máli hvort gosin verða í megineldstöðvunum eða utan þeirra. Megineldstöðvarnar gjósa nefnilega endurtekið, eins og komið hefur fram, en eldstöðvar sem myndast á sprungureinunum utan megineldstöðvanna gjósa yfirleitt aðeins einu sinni. Lakagígar eru dæmi um það síðarnefnda, en þeir eru innan eldstöðvakerfis Grímsvatna.
Eldgosið í Lakagígum hófst í júní 1783 og stóð yfir í um átta mánuði. Þar gaus á um 27 kílómetra langri gossprungu, langt suðvestur af Grímsvötnum. Að gosi loknu stóðu gígarnir eftir sem órækur minnisvarði um stórgosið, en þeir munu hins vegar ekki nýtast aftur í öðru eldgosi á sama stað. Þannig eru Lakagígar ekki dæmi um það sem við köllum virkt eldfjall, enda eru þeir ekki megineldstöð og gjósa því ekki endurtekið. Svæðið umhverfis Lakagíga er samt sem áður enn hluti af eldstöðvakerfi Grímsvatna og þar er eldvirkni. Þess vegna getur hæglega gosið aftur í nágrenni gíganna þótt kvikan mundi að öllum líkindum finna sér einhverja aðra leið en nákvæmlega í gegnum Lakagíga. Stundum gerist það þó að það gýs aftur nánast nákvæmlega á sömu sprungu og áður, og eru eldsumbrotin í Holuhrauni norðan við Dyngjujökul haustið 2014 dæmi um það. Þar gaus á sömu sprungu og hafði áður gosið fyrir 150-200 árum. Þetta er þó líklegast frekar sjaldgæft
Norður af Lakagígum eru einnig sprungureinar tveggja annarra eldstöðvakerfa, Kötlu og Bárðarbungu. Innan beggja þeirra hafa orðið stórgos á síðustu öldum og árþúsundum og allt svæðið á milli Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls einkennist raunar af leifum gríðarstórra, tugkílómetra langra sprungugosa, sem gosið hafa bæði á ísöld og eftir að ísaldarjökullinn hvarf. Í eldstöðvakerfi Kötlu varð til að mynda gos í Eldgjá á árunum 934-940 og í eldstöðvakerfi Bárðarbungu má nefna þrjú stórgos á síðustu árþúsundum, það sem myndaði Þjórsárhraun fyrir um 8600 árum, gos í Vatnaöldum árið 871 og gosið sem myndaði Veiðivötn árið 1477.
Mynd af eldstöðvakerfum Grímsvatna, Kötlu og Bárðarbungu. Hvert eldstöðvarkerfi samanstendur af megineldstöð (óbrotin lína) og sprungurein (brotin lína). Einnig eru fjórar af stærstu gígaröðum svæðisins sýndar, Lakagígar, Eldgjá, Veiðivötn og Vatnaöldur, en þessi eldgos komu öll upp í tugkílómetra löngum sprungugosum.
Þar með komum við að síðari hluta spurningarinnar, en sá sneri að því hvort að móðuharðindin gætu endurtekið sig. Það er ágæt regla að ganga út frá því að það sem einu sinni hefur gerst getur hæglega gerst aftur, og því geta móðuharðindin vissulega endurtekið sig. Stórkostlegir jarðfræðiatburðir eins og gosið í Lakagígum eru hins vegar fátíðir og erfitt að átta sig á því hve langt líður að meðaltali milli slíkra stórgosa. Eldgjárgosið sem talið er hafa staðið yfir á árunum 934-940, eða um 850 árum fyrir gosið í Lakagígum, var að öllum líkindum á svipuðum mælikvarða og Lakagígagosið og sumir telja því að slík stórgos eigi sér stað með nokkur hundruð ára millibili. Út frá jarðsögu svæðisins milli Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls getum við nánast gengið út frá því að á einhverjum tímapunkti eigi eftir að gjósa stóru sprungugosi þar, hvort sem það verður innan eldstöðvakerfis Grímsvatna, Kötlu eða Bárðarbungu, en erfitt er hins vegar að spá fyrir um hvenær það muni gerast. Það gæti í raun gerst í mjög náinni framtíð en það gætu líka hæglega verið margar aldir í næsta slíkan atburð.
Þar með er þó ekki alveg búið að svara spurningunni, því einnig er hægt að spyrja sig hvort móðuharðindin muni geta endurtekið sig í nokkurs konar samfélagsfræðilegri merkingu, það er að segja hvort þau geigvænlegu samfélagslegu áhrif sem Lakagígagosið hafði á líf og þrek landsmanna muni aftur geta átt sér stað. Ef horft er á muninn á íslensku nútímasamfélagi, sem hefur hvers konar tækni og tól til að takast á við gríðarleg áföll, og bændasamfélagi 18. aldar, sem réð ekkert við hamfarirnar og taldi þær jafnvel boða heimsendi, þá er erfitt að sjá að atburður á við Lakagígagosið muni hafa svipuð áhrif núna og fyrir tveimur öldum. Þær vangaveltur eru hins vegar komnar heldur langt frá sviði jarðfræðinnar og líklegast betra að leita til sérfræðinga á sviði félags- og hugvísinda til að svara þeim, svo sem landfræðinga, hagfræðinga, félagsfræðinga eða sagnfræðinga.
Myndir:
Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar, bls. 460.
Snæbjörn Guðmundsson. „Eru Lakagígar enn virkir og gætu önnur móðuharðindi dunið yfir okkur?“ Vísindavefurinn, 4. september 2014, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=55722.
Snæbjörn Guðmundsson. (2014, 4. september). Eru Lakagígar enn virkir og gætu önnur móðuharðindi dunið yfir okkur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=55722
Snæbjörn Guðmundsson. „Eru Lakagígar enn virkir og gætu önnur móðuharðindi dunið yfir okkur?“ Vísindavefurinn. 4. sep. 2014. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=55722>.