Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Getið þið sagt mér eitthvað um hugmyndir Forngrikkja um líf eftir dauðann?

Geir Þ. Þórarinsson

Ilíonskviða Hómers hefst á þessum orðum:
Kveð þú, gyðja, um hina fársfullu heiftarreiði Akkils Peleifssonar, þá er olli Akkeum ótölulegra mannrauna, og sendi til Hadesarheims margar hraustar kappasálir, en lét sjálfa þá verða hundum og alls konar hræfuglum að herfangi. (Hóm., Il. 1.1-5. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar)
Tvennt vekur athygli sem okkur varðar um hér. Í fyrsta lagi að reiði Akkillesar sendi kappasálir til Hadesarheims og í öðru lagi að þeir sjálfir urðu hundum og hræfuglum að bráð. Orðin sem þýdd eru „kappasálir“ eru psykkas heroon (ψυχὰς ἡρώων). Þegar kapparnir létu lífið urðu þeir sjálfir, það er væntanlega líkamar þeirra, eftir á vígvellinum en sálin (psykke, ψυχή) yfirgaf líkamann við andlátið og hélt til Hadesarheims. Hvaða staður er þá Hadesarheimur og hvers konar tilvist ætli sálin eigi sér þar?

Sisýfos þurfti að þola refsivist í Hadesarheimi.

Grikkir ímynduðu sér Hadesarheim annaðhvort sem undirheim – undir jörðinni – eða einhvern ótilgreindan stað lengst í vestri. Þar réð guðinn Hades ríkjum ásamt konu sinni Persefónu. Til að komast þangað varð að fara yfir ána Styx eða ána Akkeron og því varð að greiða ferjumanninum Karoni fyrir flutninginn. Frá þessu er sagt víða í grískum bókmenntum. Frá undirheimum átti maður ekki afturkvæmt nema í algerum undantekningartilvikum. Fræg er sagan af Orfeifi sem fékk að fara til undirheima að sækja konu sína Evrydíku. Hann fékk að leiða hana aftur upp í ljósið gegn því skilyrði að hann liti ekki til baka fyrr en hann væri kominn alla leið. En þegar hann stóðst ekki freistinguna að líta um öxl til að sjá hvort Evrydíka fylgdi honum í raun lést hún öðru sinni. Önnur fræg saga segir frá því þegar hetjan Herakles fékk það verkefni að sækja hinn ógnvænlega hund Hadesar, sem hét Kerberos, og færa hann upp til jarðar. Það fékk Herakles leyfi til að gera. Þá má minnast á elleftu bók Ódysseifskviðu en þar er sagt frá því er Ódysseifur hélt til undirheima og ræddi við fjölmarga dauða.

Veran í Hadesarheimi virðist umfram allt hafa verið ömurleg vegna einhvers konar eilífðar tilbreytingarleysis og leiðinda. Þar hírðust vofur fjörlausra manna án líkamlegs styrks síns og liðu hvorki kvalir né nutu ánægju en áttu við tómleikann að stríða. Í elleftu bók Ódysseifskviðu segir Akkilles við Ódysseif:
Gerðu það fyrir mig, frægi Ódysseifur, nefndu ekki dauðann við mig. Heldur mundi ég kjósa að lifa í sveit og vera kaupmaður hjá einhverjum fátæklingi sem ekki hefði stórt fyrir sig að leggja en að ráða yfir öllum dauðu draugunum. (Hóm., Ód. 11.488-91. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar, endursk. Svavars Hrafns Svavarssonar)
Stundum virðast Grikkir þó hafa ímyndað sér að misgóðir og -slæmir staðir væru í handanheimi að lífi loknu. Í Elysíon (eða á Sæluvelli) var fámennur hópur útvalinna sem verðskulduðu betri vist að lífi loknu. Hómer virðist að vísu ímynda sér þann stað ofanjarðar í vestri handan úthafsstraumsins Ókeanosar. Hann segir í fjórðu bók Ódysseifskviðu:
En þér, seifborni Menelás, er það ekki ákveðið að deyja og bana bíða í hinu hestauðuga Argverjalandi. Heldur munu hinir ódauðlegu guðir flytja þig til Elysíonsvallar og endimarka jarðarinnar, þar er hinn bleikhári Hradamanþys býr; þar lifa menn mesta hóglífi. Þar er ekki snjór og ekki óveður og aldrei steypiregn, heldur sendir útsjárinn Ókeanos sífellt frá sér hinn þjótandi vestangust Zefýros til að svala mönnum. (Hóm., Ód. 4.561-8. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar, endursk. Svavars Hrafns Svavarssonar)
Stundum var sælureiturinn í vestri talinn vera eyjaklasi og var um síðir jafnvel talinn vera Madeiraeyjar eða Kanaríeyjar. Á hinn bóginn var þeim sem verðskulduðu sérstaka refsingu varpað í Tartaros, sem Hómer lýsir þannig:
Ég skal taka hann og fleygja honum ofan í hinn myrkva Ógnarheim [það er Tartaros], mjög langt héðan, þar sem geimurinn er dýpstur undir jörðinni; þar eru fyrir járngrindur og eirþröskuldur; það er svo langt fyrir neðan Myrkheim [það er Hadesarheim], sem himinhvolfið er langt upp frá jörðunni. (Hóm., Il. 8.13-16. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar)
Þangað hafði Seifur varpað frændum sínum Títönunum samkvæmt kvæði Hesíódosar Goðakyni. Menn gátu einnig hlotið eilífa refsivist í Hadesarheimi fyrir að misbjóða guðunum og sögurnar af Tantalosi og Sisýfosi eru ef til vill frægastar. Í Ódysseifskviðu segir Ódysseifur frá hlutskipti þeirra í undirheimum:
Ég sá og Tantalos; hann þoldi harðar raunir; hann stóð í tjörn nokkurri og tók vatnið honum í höku. Þesslega lét hann sem hann mundi þyrstur vera, en gat þó engu náð handa sér að drekka; því í hvert sinn sem hinn gamli maður laut niður og vildi drekka, sogaðist vatnið niður aftur og hvarf, en fyrir fótum hans sást í svarta moldina, því einhver óhamingja þurrkaði jafnótt vatnið upp. Uppi yfir höfði hans héngu ávextir niður af hálflaufguðum trjám, voru það perutré, kjarneplatré og apaldrar með fögru aldini; sæt fíkjutré og blómlegur viðsmjörsviður; en er hinn aldraði maður seildist eftir ávöxtunum, svipaði vindurinn þeim upp að hinum dimmu skýjum. Ég sá og Sisýfos; hann átti við rammar raunir að stríða; hann var að roga við geysistóran stein með báðum höndum; hann streittist við með knúum og knjám, og velti steininum upp eftir einum hól; en í hvert sinn sem hann ætlaði að koma honum upp á brúnina, spennti þunginn hann niður á við aftur og valt þá hinn ofsalegi steinn ofan á jafnsléttu. Þá tók hann aftur til að velta honum og herti sig af öllu afli, svitinn bogaði af honum öllum og rykmökkinn lagði upp yfir höfuð hans. (Hóm., Ód. 11.582-600. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar, endursk. Svavars Hrafns Svavarssonar)

Elysíon var sælureitur þangað sem fámennur hópur útvalinna hvarf til að lífi loknu.

Dæmin, sem nefnd hafa verið hér að ofan, eru goðsagnir úr elstu bókmenntum Grikkja. Ýmis afbrigði eru til af öllum helstu goðsögunum og taka mætti dæmi úr ýmsum öðrum bókmenntaverkum. Oft stangast sögurnar á. Til dæmis virðast kappasálirnar sem reiði Akkillesar sendi til Hadesarheims komast leiðar sinnar þótt mennirnir sjálfir, það er líkin, verði hundum og hræfuglum að bráð. En oftast var talið að einhvers konar útför væri nauðsynleg til þess að dauðir kæmust leiðar sinnar og ef lík manns lá ógrafið fékk hann ekki inngöngu í undirheima. Enda segir vofa Patróklosar við Akkilles:
Jarða mig sem skjótast; ég vil komast inn um Hadesarhlið. Vofurnar, svipir dauðra manna, bægja mér langt í burt frá sér, og banna mér að komast til sín yfir fljótið; ráfa ég því svo búinn um hinn víðhliða Hadesarheim. Og rétt mér nú hönd þína, ég grátbæni þig. Þá er þér hafið brennt lík mitt, mun ég aldrei hverfa hingað framar aftur úr Hadesarheimi. (Hóm., Il. 23.71-6. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar)
Greftrunarsiðir voru reyndar með ýmsu móti. Stundum var algengara að brenna lík en stundum algengara að grafa þau, annaðhvort í líkkistu úr viði eða leir eða steinkistu. Grafhýsi voru algeng og misstór og raunar var ekki óalgengt að menn tryðu að hinir látnu lifðu (í einhverjum skilningi) áfram í gröf sinni og dveldu þar eftir dauðann. Alls konar munir, svo sem skartgripir eða vopn, voru gjarnan lagðir í gröfina svo hinn látni gæti notað þá í eftirlífinu. Mikilvægast var að hinn látni hefði með sér pening til að greiða Karoni ferjumanni en einnig var mikilvægt að strá svolítilli moldu yfir líkið svo það kæmist á leiðarenda.

En Grikkir áttu líka til að efast um framhaldslíf og handanheima. Í Málsvörn Sókratesar eftir Platon kemst Sókrates svo að orði:
Dauðinn hlýtur að vera annað af tvennu, annaðhvort að hinn dauði sé ekki neitt og viti ekki til sín – eða, eins og almennt er haldið, að hann sé eins konar færsla eða flutningur sálar úr einum dvalarstað í annan. Sé nú engin meðvitund, heldur eins og svefn og hann draumlaus, þá væri dauðinn dásamlegur ávinningur […] En sé dauðinn aftur á móti eins og burtför héðan á annan stað, og sé það satt, sem sagt er, að þar séu vissulega allir, sem dánir eru, hvert hnoss, dómarar, getur þá verið meira en þetta? (Platon, Málsvörn Sókratesar 40C-E. Þýð. Sigurðar Nordal)
Hér er gert ráð fyrir að ef hinn látni fari til Hadesar, þá hljóti það að vera góður staður enda mætti búast við að finna þar bæði Hómer og Hesíódos og Ódysseif og önnur stórmenni. Vistin ætti ekki að vera slæm ef menn geta haft félagsskap hver af öðrum. Auk þess bætir Sókrates við „að góðum manni geti ekkert grandað, hvorki lífs né liðnum“ (41D) En það er látið liggja milli hluta hvort dauðinn er slík færsla eða ekki. Af öðrum ritum Platons er ljóst að Platon trúði á einhvers konar sálnaflakk. Í samræðunni Fædoni gerir hann tilraun til að rökstyðja ódauðleika sálarinnar og í tíundu bók Ríkisins er sögð sagan af Er Armeníossyni sem fékk að skyggnast inn í örlög sálna að lífi loknu eftir að hafa látið lífið í orrustu en lifnað við á bálkestinum tólf dögum síðar. Hann komst að því að sálirnar hljóta dóm fyrir frammistöðu sína í lífinu og annaðhvort laun eða refsingu. Að svo búnu fá þær að velja sér nýtt hlutskipti og endurfæðast. Sumar velja skynsamlega en aðrar ekki, eins og gengur: sumar velja að fæðast á ný sem harðstjórar, aðrar verða dýr, til dæmis ljón eða ernir og svo framvegis. En áður en þær fæðast í heiminn á nýjan leik þurfa þær að drekka úr Leþu, fljóti gleymskunnar.

Tantalos reynir að ná ávöxtunum.

Sams konar hugmyndir um líf eftir dauðann og endurfæðingar þekktust frá 5. öld fyrir okkar tímatal úr ýmsum dulhyggjukenningum eins og pýþagórisma og orfeifsku og trúarreglum eins og launhelgunum í Elevsis. Heimspekingurinn Empedókles þóttist meira að segja vita að hann hefði fæðst áður bæði sem piltur og stúlka, jurt, fugl og fiskur. (DK31B117)

Aðrir heimspekingar voru á öðru máli og héldu að sálin tortímdist við dauðann. Þar af leiðandi þyrfti engar sérstakar áhyggjur að hafa af dauðanum og handanheimum, eins og þegar Sókrates gerir í Málsvörninni ráð fyrir þeim möguleika að dauðinn sé ekki neitt líkt og draumlaus svefn. Meðal þeirra sem töldu að sálin tortímdist við dauðann voru Aristóteles og Epikúros. Epikúros hafði fengið í arf eindakenninguna frá Demókrítosi og taldi því að sálin væri – eins og allt annað – gerð úr örsmáum ódeilanlegum ögnum og sundraðist í parta sína þegar maður létist. Þess vegna segir hann að dauðinn sé okkur ekkert því þegar við erum til er dauðinn okkur fjarri og þegar dauðinn kemur hættum við að vera til og getum því ekki upplifað nein óþægindi af völdum dauðans. En Epikúros hélt að óttinn við dauðann væri uppspretta mikillar vansældar og því væri brýnt að losna við hann.

Að lokum má minnast stutt á stóumenn, sem trúðu reyndar ekki á líf eftir dauðann í neinum venjulegum skilningi en héldu þó að heimurinn allur færist reglulega í eldi og yrði svo til aftur og þá endurtækju sig allir atburðir nákvæmlega eins og þeir gerðust áður. Í einhverjum skilningi lifir maður því sama lífinu aftur og aftur samkvæmt kenningu þeirra.

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

10.11.2011

Spyrjandi

Heiða Pálmadóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um hugmyndir Forngrikkja um líf eftir dauðann?“ Vísindavefurinn, 10. nóvember 2011. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60967.

Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 10. nóvember). Getið þið sagt mér eitthvað um hugmyndir Forngrikkja um líf eftir dauðann? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60967

Geir Þ. Þórarinsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um hugmyndir Forngrikkja um líf eftir dauðann?“ Vísindavefurinn. 10. nóv. 2011. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60967>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér eitthvað um hugmyndir Forngrikkja um líf eftir dauðann?
Ilíonskviða Hómers hefst á þessum orðum:

Kveð þú, gyðja, um hina fársfullu heiftarreiði Akkils Peleifssonar, þá er olli Akkeum ótölulegra mannrauna, og sendi til Hadesarheims margar hraustar kappasálir, en lét sjálfa þá verða hundum og alls konar hræfuglum að herfangi. (Hóm., Il. 1.1-5. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar)
Tvennt vekur athygli sem okkur varðar um hér. Í fyrsta lagi að reiði Akkillesar sendi kappasálir til Hadesarheims og í öðru lagi að þeir sjálfir urðu hundum og hræfuglum að bráð. Orðin sem þýdd eru „kappasálir“ eru psykkas heroon (ψυχὰς ἡρώων). Þegar kapparnir létu lífið urðu þeir sjálfir, það er væntanlega líkamar þeirra, eftir á vígvellinum en sálin (psykke, ψυχή) yfirgaf líkamann við andlátið og hélt til Hadesarheims. Hvaða staður er þá Hadesarheimur og hvers konar tilvist ætli sálin eigi sér þar?

Sisýfos þurfti að þola refsivist í Hadesarheimi.

Grikkir ímynduðu sér Hadesarheim annaðhvort sem undirheim – undir jörðinni – eða einhvern ótilgreindan stað lengst í vestri. Þar réð guðinn Hades ríkjum ásamt konu sinni Persefónu. Til að komast þangað varð að fara yfir ána Styx eða ána Akkeron og því varð að greiða ferjumanninum Karoni fyrir flutninginn. Frá þessu er sagt víða í grískum bókmenntum. Frá undirheimum átti maður ekki afturkvæmt nema í algerum undantekningartilvikum. Fræg er sagan af Orfeifi sem fékk að fara til undirheima að sækja konu sína Evrydíku. Hann fékk að leiða hana aftur upp í ljósið gegn því skilyrði að hann liti ekki til baka fyrr en hann væri kominn alla leið. En þegar hann stóðst ekki freistinguna að líta um öxl til að sjá hvort Evrydíka fylgdi honum í raun lést hún öðru sinni. Önnur fræg saga segir frá því þegar hetjan Herakles fékk það verkefni að sækja hinn ógnvænlega hund Hadesar, sem hét Kerberos, og færa hann upp til jarðar. Það fékk Herakles leyfi til að gera. Þá má minnast á elleftu bók Ódysseifskviðu en þar er sagt frá því er Ódysseifur hélt til undirheima og ræddi við fjölmarga dauða.

Veran í Hadesarheimi virðist umfram allt hafa verið ömurleg vegna einhvers konar eilífðar tilbreytingarleysis og leiðinda. Þar hírðust vofur fjörlausra manna án líkamlegs styrks síns og liðu hvorki kvalir né nutu ánægju en áttu við tómleikann að stríða. Í elleftu bók Ódysseifskviðu segir Akkilles við Ódysseif:
Gerðu það fyrir mig, frægi Ódysseifur, nefndu ekki dauðann við mig. Heldur mundi ég kjósa að lifa í sveit og vera kaupmaður hjá einhverjum fátæklingi sem ekki hefði stórt fyrir sig að leggja en að ráða yfir öllum dauðu draugunum. (Hóm., Ód. 11.488-91. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar, endursk. Svavars Hrafns Svavarssonar)
Stundum virðast Grikkir þó hafa ímyndað sér að misgóðir og -slæmir staðir væru í handanheimi að lífi loknu. Í Elysíon (eða á Sæluvelli) var fámennur hópur útvalinna sem verðskulduðu betri vist að lífi loknu. Hómer virðist að vísu ímynda sér þann stað ofanjarðar í vestri handan úthafsstraumsins Ókeanosar. Hann segir í fjórðu bók Ódysseifskviðu:
En þér, seifborni Menelás, er það ekki ákveðið að deyja og bana bíða í hinu hestauðuga Argverjalandi. Heldur munu hinir ódauðlegu guðir flytja þig til Elysíonsvallar og endimarka jarðarinnar, þar er hinn bleikhári Hradamanþys býr; þar lifa menn mesta hóglífi. Þar er ekki snjór og ekki óveður og aldrei steypiregn, heldur sendir útsjárinn Ókeanos sífellt frá sér hinn þjótandi vestangust Zefýros til að svala mönnum. (Hóm., Ód. 4.561-8. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar, endursk. Svavars Hrafns Svavarssonar)
Stundum var sælureiturinn í vestri talinn vera eyjaklasi og var um síðir jafnvel talinn vera Madeiraeyjar eða Kanaríeyjar. Á hinn bóginn var þeim sem verðskulduðu sérstaka refsingu varpað í Tartaros, sem Hómer lýsir þannig:
Ég skal taka hann og fleygja honum ofan í hinn myrkva Ógnarheim [það er Tartaros], mjög langt héðan, þar sem geimurinn er dýpstur undir jörðinni; þar eru fyrir járngrindur og eirþröskuldur; það er svo langt fyrir neðan Myrkheim [það er Hadesarheim], sem himinhvolfið er langt upp frá jörðunni. (Hóm., Il. 8.13-16. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar)
Þangað hafði Seifur varpað frændum sínum Títönunum samkvæmt kvæði Hesíódosar Goðakyni. Menn gátu einnig hlotið eilífa refsivist í Hadesarheimi fyrir að misbjóða guðunum og sögurnar af Tantalosi og Sisýfosi eru ef til vill frægastar. Í Ódysseifskviðu segir Ódysseifur frá hlutskipti þeirra í undirheimum:
Ég sá og Tantalos; hann þoldi harðar raunir; hann stóð í tjörn nokkurri og tók vatnið honum í höku. Þesslega lét hann sem hann mundi þyrstur vera, en gat þó engu náð handa sér að drekka; því í hvert sinn sem hinn gamli maður laut niður og vildi drekka, sogaðist vatnið niður aftur og hvarf, en fyrir fótum hans sást í svarta moldina, því einhver óhamingja þurrkaði jafnótt vatnið upp. Uppi yfir höfði hans héngu ávextir niður af hálflaufguðum trjám, voru það perutré, kjarneplatré og apaldrar með fögru aldini; sæt fíkjutré og blómlegur viðsmjörsviður; en er hinn aldraði maður seildist eftir ávöxtunum, svipaði vindurinn þeim upp að hinum dimmu skýjum. Ég sá og Sisýfos; hann átti við rammar raunir að stríða; hann var að roga við geysistóran stein með báðum höndum; hann streittist við með knúum og knjám, og velti steininum upp eftir einum hól; en í hvert sinn sem hann ætlaði að koma honum upp á brúnina, spennti þunginn hann niður á við aftur og valt þá hinn ofsalegi steinn ofan á jafnsléttu. Þá tók hann aftur til að velta honum og herti sig af öllu afli, svitinn bogaði af honum öllum og rykmökkinn lagði upp yfir höfuð hans. (Hóm., Ód. 11.582-600. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar, endursk. Svavars Hrafns Svavarssonar)

Elysíon var sælureitur þangað sem fámennur hópur útvalinna hvarf til að lífi loknu.

Dæmin, sem nefnd hafa verið hér að ofan, eru goðsagnir úr elstu bókmenntum Grikkja. Ýmis afbrigði eru til af öllum helstu goðsögunum og taka mætti dæmi úr ýmsum öðrum bókmenntaverkum. Oft stangast sögurnar á. Til dæmis virðast kappasálirnar sem reiði Akkillesar sendi til Hadesarheims komast leiðar sinnar þótt mennirnir sjálfir, það er líkin, verði hundum og hræfuglum að bráð. En oftast var talið að einhvers konar útför væri nauðsynleg til þess að dauðir kæmust leiðar sinnar og ef lík manns lá ógrafið fékk hann ekki inngöngu í undirheima. Enda segir vofa Patróklosar við Akkilles:
Jarða mig sem skjótast; ég vil komast inn um Hadesarhlið. Vofurnar, svipir dauðra manna, bægja mér langt í burt frá sér, og banna mér að komast til sín yfir fljótið; ráfa ég því svo búinn um hinn víðhliða Hadesarheim. Og rétt mér nú hönd þína, ég grátbæni þig. Þá er þér hafið brennt lík mitt, mun ég aldrei hverfa hingað framar aftur úr Hadesarheimi. (Hóm., Il. 23.71-6. Þýð. Sveinbjarnar Egilssonar)
Greftrunarsiðir voru reyndar með ýmsu móti. Stundum var algengara að brenna lík en stundum algengara að grafa þau, annaðhvort í líkkistu úr viði eða leir eða steinkistu. Grafhýsi voru algeng og misstór og raunar var ekki óalgengt að menn tryðu að hinir látnu lifðu (í einhverjum skilningi) áfram í gröf sinni og dveldu þar eftir dauðann. Alls konar munir, svo sem skartgripir eða vopn, voru gjarnan lagðir í gröfina svo hinn látni gæti notað þá í eftirlífinu. Mikilvægast var að hinn látni hefði með sér pening til að greiða Karoni ferjumanni en einnig var mikilvægt að strá svolítilli moldu yfir líkið svo það kæmist á leiðarenda.

En Grikkir áttu líka til að efast um framhaldslíf og handanheima. Í Málsvörn Sókratesar eftir Platon kemst Sókrates svo að orði:
Dauðinn hlýtur að vera annað af tvennu, annaðhvort að hinn dauði sé ekki neitt og viti ekki til sín – eða, eins og almennt er haldið, að hann sé eins konar færsla eða flutningur sálar úr einum dvalarstað í annan. Sé nú engin meðvitund, heldur eins og svefn og hann draumlaus, þá væri dauðinn dásamlegur ávinningur […] En sé dauðinn aftur á móti eins og burtför héðan á annan stað, og sé það satt, sem sagt er, að þar séu vissulega allir, sem dánir eru, hvert hnoss, dómarar, getur þá verið meira en þetta? (Platon, Málsvörn Sókratesar 40C-E. Þýð. Sigurðar Nordal)
Hér er gert ráð fyrir að ef hinn látni fari til Hadesar, þá hljóti það að vera góður staður enda mætti búast við að finna þar bæði Hómer og Hesíódos og Ódysseif og önnur stórmenni. Vistin ætti ekki að vera slæm ef menn geta haft félagsskap hver af öðrum. Auk þess bætir Sókrates við „að góðum manni geti ekkert grandað, hvorki lífs né liðnum“ (41D) En það er látið liggja milli hluta hvort dauðinn er slík færsla eða ekki. Af öðrum ritum Platons er ljóst að Platon trúði á einhvers konar sálnaflakk. Í samræðunni Fædoni gerir hann tilraun til að rökstyðja ódauðleika sálarinnar og í tíundu bók Ríkisins er sögð sagan af Er Armeníossyni sem fékk að skyggnast inn í örlög sálna að lífi loknu eftir að hafa látið lífið í orrustu en lifnað við á bálkestinum tólf dögum síðar. Hann komst að því að sálirnar hljóta dóm fyrir frammistöðu sína í lífinu og annaðhvort laun eða refsingu. Að svo búnu fá þær að velja sér nýtt hlutskipti og endurfæðast. Sumar velja skynsamlega en aðrar ekki, eins og gengur: sumar velja að fæðast á ný sem harðstjórar, aðrar verða dýr, til dæmis ljón eða ernir og svo framvegis. En áður en þær fæðast í heiminn á nýjan leik þurfa þær að drekka úr Leþu, fljóti gleymskunnar.

Tantalos reynir að ná ávöxtunum.

Sams konar hugmyndir um líf eftir dauðann og endurfæðingar þekktust frá 5. öld fyrir okkar tímatal úr ýmsum dulhyggjukenningum eins og pýþagórisma og orfeifsku og trúarreglum eins og launhelgunum í Elevsis. Heimspekingurinn Empedókles þóttist meira að segja vita að hann hefði fæðst áður bæði sem piltur og stúlka, jurt, fugl og fiskur. (DK31B117)

Aðrir heimspekingar voru á öðru máli og héldu að sálin tortímdist við dauðann. Þar af leiðandi þyrfti engar sérstakar áhyggjur að hafa af dauðanum og handanheimum, eins og þegar Sókrates gerir í Málsvörninni ráð fyrir þeim möguleika að dauðinn sé ekki neitt líkt og draumlaus svefn. Meðal þeirra sem töldu að sálin tortímdist við dauðann voru Aristóteles og Epikúros. Epikúros hafði fengið í arf eindakenninguna frá Demókrítosi og taldi því að sálin væri – eins og allt annað – gerð úr örsmáum ódeilanlegum ögnum og sundraðist í parta sína þegar maður létist. Þess vegna segir hann að dauðinn sé okkur ekkert því þegar við erum til er dauðinn okkur fjarri og þegar dauðinn kemur hættum við að vera til og getum því ekki upplifað nein óþægindi af völdum dauðans. En Epikúros hélt að óttinn við dauðann væri uppspretta mikillar vansældar og því væri brýnt að losna við hann.

Að lokum má minnast stutt á stóumenn, sem trúðu reyndar ekki á líf eftir dauðann í neinum venjulegum skilningi en héldu þó að heimurinn allur færist reglulega í eldi og yrði svo til aftur og þá endurtækju sig allir atburðir nákvæmlega eins og þeir gerðust áður. Í einhverjum skilningi lifir maður því sama lífinu aftur og aftur samkvæmt kenningu þeirra.

Myndir: