Sólin Sólin Rís 06:02 • sest 20:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:49 • Sest 22:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:14 • Síðdegis: 19:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík

Hver var Clifford Geertz og hvert var framlag hans til vísindanna?

Helga Björnsdóttir

Frá upphafi hefur mannfræði lagt áherslu á hugtakið menningu (e. culture) sem huglægt greiningartæki og rannsakað merkingu þess og hinar ýmsu birtingarmyndir. Bandaríski mannfræðingurinn Clifford Geertz er hvað þekktastur fyrir hugmyndir sínar, umfjallanir og útskýringar á þessu hugtaki, en hann leit svo á að menning væri kerfi eða munstur merkingarbærra tákna. Þetta kerfi eða munstur væri sá grunnur sem gerði mönnum kleift að skilja veruleikann og aðlaga gjörðir sínar að honum. Vitræn hugsun, sagði Geertz, er sammannleg en þau tákn sem fólk notar til samskipta eru breytileg eftir umhverfi.

Clifford Geertz (1926-2006).

Clifford James Geertz fæddist 23. ágúst 1926 í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann útskrifaðist frá Antioch College í Ohio-fylki með ensku sem aðalgrein en hugur hans stóð til þess að verða rithöfundur og blaðamaður. Hann hvarf þó frá þeirri ætlan sinni og innritaðist í Department of Social Relations í Harvard, þaðan sem hann lauk prófi í mannfræði árið 1956. Meðal kennara hans þar voru þeir Clyde Kluckhohn (1905-1960) og Talcott Parsons (1902-1979). Í deildinni var lögð meiri áhersla á skyldleika mannfræðinnar við fög eins og félags- og sálfræði en fornleifafræði og líffræðilega mannfræði sem víðast var gert á þessum tíma. Geertz bjó alla tíð að þeim húmaníska grunni sem þar var lagður og hafði mikil áhrif á skrif hans og rannsóknir.

Geertz var og er enn einn af áhrifamestu fræðimönnum mannfræðinnar en áhrifa af hugmyndum hans og kenningum gætir einnig innan annarra fræðigreina svo sem landfræði, vistfræði, sagnfræði og stjórnmálafræði. Hann er af mörgum talinn vera upphafsmaður þess sem kallað hefur verið ‘symbolic anthropology’ sem þýða má sem táknræna mannfræði. Þetta heiti var í raun notað sem nokkurs konar regnhlífarhugtak fyrir ýmsar kenningarlegar nálganir um og upp úr 1960 sem voru umbrotaár innan mannfræði.

Geertz, sem var undir kenningarlegum áhrifum frá bæði Max Weber (1864-1920) og Ludwig Wittgenstein (1889-1951), lagði áherslu á að skoða menningu út frá sjónarhorni einstaklingsins sem geranda en það var fráhvarf frá ríkjandi áherslum innan mannfræði og annarra fræðigreina þar sem samfélagslegur strúktúr hafði verið í forgrunni. Eitt meginviðfangsefni þessa sjónarhorns mannfræðinnar hefur ætíð verið glíman við spurninguna um á hvern hátt þessi tákn móta einstaklinginn og viðbrögð hans við umheiminum.

Að mati Geertz er menning sameiginleg og samanstendur af táknum af ýmsu tagi sem fólk notar til að miðla viðhorfum sínum, skoðunum og gildum um samfélag og umheiminn hvert til annars, til kynslóða framtíðarinnar og einnig til mannfræðinga sem rýna í þessi tákn. Menning er afurð þess sem fólk, sem félagslega mótaðar verur, gerir þegar það reynir að öðlast skilning á veruleikanum og því umhverfi sem það hrærist í. Fræg er setning Geertz þar sem hann lýsir menningu sem nokkurs konar vef sem maðurinn sjálfur hefur spunnið og er fastur í og með því að skoða þennan vef sé ekki verið að leita að lögmálum heldur túlkunum á merkingu hans: “Believing, with Max Weber, that man is an animal suspended in webs of significance he himself has spun, I take culture to be those webs, and the analysis of it to be not an experimental science in search of law but an interpretative in search of meaning” (Geertz, 1973).

Þó menning hafi ætíð verið aðalumfjöllunarefni rannsókna Clifford Geertz þá skoðaði hann líka félagslega strúktúra sem að hans mati samanstanda af hagfræðilegum, félagslegum og pólitískum tengslum á milli einstaklinga og hópa (Geertz, 1973). Geertz fjallaði einnig um vettvanginn og vettvangsrannsóknir (e. ethnography), tilgang þeirra, möguleika og takmarkanir. Hann líkti því að gera vettvangsrannsókn við að reyna að lesa gamalt handrit sem er framandi, máð og slitið, fullt af mótsögnum og að auki á torkennilegu máli. Að hans mati eru vettvangsrannsóknir ætíð túlkanir og jafnvel mistúlkanir á því sem fólk gerir og/eða heldur að það geri. Það þýðir þó ekki að etnógrafískir textar séu lítils virði eða hafi takmarkað fræðilegt gildi því góð etnógrafía er túlkun sem kafar djúpt í aðra menningu eða hluta hennar, í ákveðnu samhengi og á ákveðnu tímabili.

Clifford Geertz stundaði rannsóknir á eyjunni Jövu en hann beindi sjónum sínum meðal annars að trú á eyjunni.

Etnógrafíur eru því eins og Geertz sagði „margbrotin æfing í þykkri lýsingu“ (Geertz, 1973) en hugtakið ‘þykk lýsing’ eða thick description fékk hann að láni frá breska heimspekingnum Gilbert Ryle (1900-1976), sem líkt og Geertz var undir áhrifum frá Wittgenstein. Geertz útskýrði þykka lýsingu með muninum á blikki og kippi í auga þar sem kippurinn er ósjálfráður á meðan að blikkið er félagslegur atbeini og samskiptaform þar sem að baki liggur ákveðin merking og ætlun. Þykk lýsing útskýrir ekki bara ákveðna hegðun heldur einnig samhengi hennar og þannig verður hegðunin merkingarbær fyrir þann sem sér hana. Að mati Geertz er það hlutverk mannfræðinnar að nota þykka lýsingu/etnógrafíu til að túlka merkingarbær tákn tilverunnar með því að skoða á hvern hátt þau eru notuð.

Geertz var afkastamikill rannsakandi og stundaði rannsóknir bæði í Asíu og Afríku; annars vegar á Balí, Jövu og Súmötru en hins vegar í Marokkó. Árið 1960 kom út fyrsta stóra etnógrafíska rannsóknin hans sem bar heitið The Religion of Java en þar beinir hann sjónum að trú á eyjunni. Þremur árum síðar kom svo út bókin Agricultural Involution þar sem viðfangsefnið er framfarir og efnahagsleg þróun á eyjunni við upphaf sjálfstæðis Indónesíu. Árið 1975 kom út bókin Kinship in Bali sem Geertz skrifaði ásamt þáverandi konu sinni Hildred Storey sem einnig var mannfræðingur og fylgdi manni sínum á milli rannsóknarstaða. Einna frægust bóka Geertz er þó ritgerðarsafnið The Interpretation of Cultures (1973) en þar má meðal annars finna ritgerðina Deep Play: Notes on the Balinese Cockfight.

Árið 1988 hlaut Geertz hin virtu verðlaun The National Book Critic Circle fyrir bókina Works and Lives: The Anthropologist as Author en í henni stílgreinir hann skrif mannfræðinganna Ruth Benedict (1887-1948), Claude Lévi-Strauss (1908-2009), Edward Evans-Pritchard (1902-1973) og Bronislaw Malinowski (1884-1942). Árið 1995 kom svo út sjálfsævisagan After the Fact: Two Countries, Four Decades, One Anthropologist. Geertz skrifaði reglulega í tímaritið The New York Review of Books ásamt því að rita bækur og greinar og ritstýra. Hann starfaði lengst af við háskólann í Chicago.

Geertz lést þann 30. október 2006 og í minningarorðum sem birtust um hann á heimasíðu AHA Today (American History Association) segir: „Að segja að Clifford Geertz hafi bara verið mannfræðingur er eins og að segja að Leonardo da Vinci hafi bara verið málari.“

Heimildir:
 • Geertz, Clifford. (1973). Thick description: Towards and interpretive theory of culture. Í Henrietta L. Moore og Todd Sanders (ritstj.), Anthropology in theory. Issues in epistemology, bls. 236-244. Malden, MA: Blackwell Publishing.
 • Institute for Advanced Study. (2006, október). Clifford Geertz 1926-2006 [“Remembering Clifford Geertz”]. Sótt af: Institute for Advanced Study.
 • Ortner, Sherry. (1984). Theory in anthropology since the sixties. Comparative Studies in Society and History, 26(1), bls. 126-166.
 • Yarrow, Andrew L. (2006, nóvember). Clifford Geertz, Cultural Anthropologist, is Dead at 80. The New York Times, Obituaries. Sótt af: The New York Times.

Myndir:

Bækur:
 • 1960 - The Religion of Java, Glencoe. Illinois: The Free Press.
 • 1963 - Agricultural Involution, the Processes of Ecological Change in Indonesia. Berkeley: University of California Press.
 • 1963 - Peddlers and Princes. Chicago: University of Chicago Press.
 • 1966 - Person, Time and Conduct in Bali: An Essay in Cultural Analysis. Yale Southeast Asia Program Cultural Report Series, No. 14.
 • 1968 - Islam Observed: Religious Development in Morocco and Indonesia. New Haven: Yale University Press.
 • 1973/2000 - The Interpretation of Cultures: Selected Essays. New York: Basic Book.
 • 1974 - ásamt Hildred Geertz: Myth, Symbol and Culture. New York: Norton.
 • 1975 - ásamt Hildred Geertz: Kinship in Bali. Chicago: University of Chicago Press.
 • 1979 - ásamt Hildred Geertz og Lawrence Rosen: Meaning and Order in Moroccan Society. New York: Cambridge University Press.
 • 1980 - Negara: The Theatre State in Nineteenth Century Bali. Princeton: Princeton University Press.
 • 1983/2000 - Local Knowledge: Further Essays in Interpretive Anthropology. New York: Basic Books.
 • 1995 - After the Fact: Two Countries, Four Decades, One Anthropologist. Harvard University Press.
 • 2000 - Available Light: Anthropological Reflections on Philosophical Topics. Princeton University Press.

Höfundur

doktorsnemi í mannfræði

Útgáfudagur

3.7.2012

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Helga Björnsdóttir. „Hver var Clifford Geertz og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 3. júlí 2012. Sótt 13. apríl 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=62831.

Helga Björnsdóttir. (2012, 3. júlí). Hver var Clifford Geertz og hvert var framlag hans til vísindanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62831

Helga Björnsdóttir. „Hver var Clifford Geertz og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 3. júl. 2012. Vefsíða. 13. apr. 2021. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62831>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Clifford Geertz og hvert var framlag hans til vísindanna?
Frá upphafi hefur mannfræði lagt áherslu á hugtakið menningu (e. culture) sem huglægt greiningartæki og rannsakað merkingu þess og hinar ýmsu birtingarmyndir. Bandaríski mannfræðingurinn Clifford Geertz er hvað þekktastur fyrir hugmyndir sínar, umfjallanir og útskýringar á þessu hugtaki, en hann leit svo á að menning væri kerfi eða munstur merkingarbærra tákna. Þetta kerfi eða munstur væri sá grunnur sem gerði mönnum kleift að skilja veruleikann og aðlaga gjörðir sínar að honum. Vitræn hugsun, sagði Geertz, er sammannleg en þau tákn sem fólk notar til samskipta eru breytileg eftir umhverfi.

Clifford Geertz (1926-2006).

Clifford James Geertz fæddist 23. ágúst 1926 í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann útskrifaðist frá Antioch College í Ohio-fylki með ensku sem aðalgrein en hugur hans stóð til þess að verða rithöfundur og blaðamaður. Hann hvarf þó frá þeirri ætlan sinni og innritaðist í Department of Social Relations í Harvard, þaðan sem hann lauk prófi í mannfræði árið 1956. Meðal kennara hans þar voru þeir Clyde Kluckhohn (1905-1960) og Talcott Parsons (1902-1979). Í deildinni var lögð meiri áhersla á skyldleika mannfræðinnar við fög eins og félags- og sálfræði en fornleifafræði og líffræðilega mannfræði sem víðast var gert á þessum tíma. Geertz bjó alla tíð að þeim húmaníska grunni sem þar var lagður og hafði mikil áhrif á skrif hans og rannsóknir.

Geertz var og er enn einn af áhrifamestu fræðimönnum mannfræðinnar en áhrifa af hugmyndum hans og kenningum gætir einnig innan annarra fræðigreina svo sem landfræði, vistfræði, sagnfræði og stjórnmálafræði. Hann er af mörgum talinn vera upphafsmaður þess sem kallað hefur verið ‘symbolic anthropology’ sem þýða má sem táknræna mannfræði. Þetta heiti var í raun notað sem nokkurs konar regnhlífarhugtak fyrir ýmsar kenningarlegar nálganir um og upp úr 1960 sem voru umbrotaár innan mannfræði.

Geertz, sem var undir kenningarlegum áhrifum frá bæði Max Weber (1864-1920) og Ludwig Wittgenstein (1889-1951), lagði áherslu á að skoða menningu út frá sjónarhorni einstaklingsins sem geranda en það var fráhvarf frá ríkjandi áherslum innan mannfræði og annarra fræðigreina þar sem samfélagslegur strúktúr hafði verið í forgrunni. Eitt meginviðfangsefni þessa sjónarhorns mannfræðinnar hefur ætíð verið glíman við spurninguna um á hvern hátt þessi tákn móta einstaklinginn og viðbrögð hans við umheiminum.

Að mati Geertz er menning sameiginleg og samanstendur af táknum af ýmsu tagi sem fólk notar til að miðla viðhorfum sínum, skoðunum og gildum um samfélag og umheiminn hvert til annars, til kynslóða framtíðarinnar og einnig til mannfræðinga sem rýna í þessi tákn. Menning er afurð þess sem fólk, sem félagslega mótaðar verur, gerir þegar það reynir að öðlast skilning á veruleikanum og því umhverfi sem það hrærist í. Fræg er setning Geertz þar sem hann lýsir menningu sem nokkurs konar vef sem maðurinn sjálfur hefur spunnið og er fastur í og með því að skoða þennan vef sé ekki verið að leita að lögmálum heldur túlkunum á merkingu hans: “Believing, with Max Weber, that man is an animal suspended in webs of significance he himself has spun, I take culture to be those webs, and the analysis of it to be not an experimental science in search of law but an interpretative in search of meaning” (Geertz, 1973).

Þó menning hafi ætíð verið aðalumfjöllunarefni rannsókna Clifford Geertz þá skoðaði hann líka félagslega strúktúra sem að hans mati samanstanda af hagfræðilegum, félagslegum og pólitískum tengslum á milli einstaklinga og hópa (Geertz, 1973). Geertz fjallaði einnig um vettvanginn og vettvangsrannsóknir (e. ethnography), tilgang þeirra, möguleika og takmarkanir. Hann líkti því að gera vettvangsrannsókn við að reyna að lesa gamalt handrit sem er framandi, máð og slitið, fullt af mótsögnum og að auki á torkennilegu máli. Að hans mati eru vettvangsrannsóknir ætíð túlkanir og jafnvel mistúlkanir á því sem fólk gerir og/eða heldur að það geri. Það þýðir þó ekki að etnógrafískir textar séu lítils virði eða hafi takmarkað fræðilegt gildi því góð etnógrafía er túlkun sem kafar djúpt í aðra menningu eða hluta hennar, í ákveðnu samhengi og á ákveðnu tímabili.

Clifford Geertz stundaði rannsóknir á eyjunni Jövu en hann beindi sjónum sínum meðal annars að trú á eyjunni.

Etnógrafíur eru því eins og Geertz sagði „margbrotin æfing í þykkri lýsingu“ (Geertz, 1973) en hugtakið ‘þykk lýsing’ eða thick description fékk hann að láni frá breska heimspekingnum Gilbert Ryle (1900-1976), sem líkt og Geertz var undir áhrifum frá Wittgenstein. Geertz útskýrði þykka lýsingu með muninum á blikki og kippi í auga þar sem kippurinn er ósjálfráður á meðan að blikkið er félagslegur atbeini og samskiptaform þar sem að baki liggur ákveðin merking og ætlun. Þykk lýsing útskýrir ekki bara ákveðna hegðun heldur einnig samhengi hennar og þannig verður hegðunin merkingarbær fyrir þann sem sér hana. Að mati Geertz er það hlutverk mannfræðinnar að nota þykka lýsingu/etnógrafíu til að túlka merkingarbær tákn tilverunnar með því að skoða á hvern hátt þau eru notuð.

Geertz var afkastamikill rannsakandi og stundaði rannsóknir bæði í Asíu og Afríku; annars vegar á Balí, Jövu og Súmötru en hins vegar í Marokkó. Árið 1960 kom út fyrsta stóra etnógrafíska rannsóknin hans sem bar heitið The Religion of Java en þar beinir hann sjónum að trú á eyjunni. Þremur árum síðar kom svo út bókin Agricultural Involution þar sem viðfangsefnið er framfarir og efnahagsleg þróun á eyjunni við upphaf sjálfstæðis Indónesíu. Árið 1975 kom út bókin Kinship in Bali sem Geertz skrifaði ásamt þáverandi konu sinni Hildred Storey sem einnig var mannfræðingur og fylgdi manni sínum á milli rannsóknarstaða. Einna frægust bóka Geertz er þó ritgerðarsafnið The Interpretation of Cultures (1973) en þar má meðal annars finna ritgerðina Deep Play: Notes on the Balinese Cockfight.

Árið 1988 hlaut Geertz hin virtu verðlaun The National Book Critic Circle fyrir bókina Works and Lives: The Anthropologist as Author en í henni stílgreinir hann skrif mannfræðinganna Ruth Benedict (1887-1948), Claude Lévi-Strauss (1908-2009), Edward Evans-Pritchard (1902-1973) og Bronislaw Malinowski (1884-1942). Árið 1995 kom svo út sjálfsævisagan After the Fact: Two Countries, Four Decades, One Anthropologist. Geertz skrifaði reglulega í tímaritið The New York Review of Books ásamt því að rita bækur og greinar og ritstýra. Hann starfaði lengst af við háskólann í Chicago.

Geertz lést þann 30. október 2006 og í minningarorðum sem birtust um hann á heimasíðu AHA Today (American History Association) segir: „Að segja að Clifford Geertz hafi bara verið mannfræðingur er eins og að segja að Leonardo da Vinci hafi bara verið málari.“

Heimildir:
 • Geertz, Clifford. (1973). Thick description: Towards and interpretive theory of culture. Í Henrietta L. Moore og Todd Sanders (ritstj.), Anthropology in theory. Issues in epistemology, bls. 236-244. Malden, MA: Blackwell Publishing.
 • Institute for Advanced Study. (2006, október). Clifford Geertz 1926-2006 [“Remembering Clifford Geertz”]. Sótt af: Institute for Advanced Study.
 • Ortner, Sherry. (1984). Theory in anthropology since the sixties. Comparative Studies in Society and History, 26(1), bls. 126-166.
 • Yarrow, Andrew L. (2006, nóvember). Clifford Geertz, Cultural Anthropologist, is Dead at 80. The New York Times, Obituaries. Sótt af: The New York Times.

Myndir:

Bækur:
 • 1960 - The Religion of Java, Glencoe. Illinois: The Free Press.
 • 1963 - Agricultural Involution, the Processes of Ecological Change in Indonesia. Berkeley: University of California Press.
 • 1963 - Peddlers and Princes. Chicago: University of Chicago Press.
 • 1966 - Person, Time and Conduct in Bali: An Essay in Cultural Analysis. Yale Southeast Asia Program Cultural Report Series, No. 14.
 • 1968 - Islam Observed: Religious Development in Morocco and Indonesia. New Haven: Yale University Press.
 • 1973/2000 - The Interpretation of Cultures: Selected Essays. New York: Basic Book.
 • 1974 - ásamt Hildred Geertz: Myth, Symbol and Culture. New York: Norton.
 • 1975 - ásamt Hildred Geertz: Kinship in Bali. Chicago: University of Chicago Press.
 • 1979 - ásamt Hildred Geertz og Lawrence Rosen: Meaning and Order in Moroccan Society. New York: Cambridge University Press.
 • 1980 - Negara: The Theatre State in Nineteenth Century Bali. Princeton: Princeton University Press.
 • 1983/2000 - Local Knowledge: Further Essays in Interpretive Anthropology. New York: Basic Books.
 • 1995 - After the Fact: Two Countries, Four Decades, One Anthropologist. Harvard University Press.
 • 2000 - Available Light: Anthropological Reflections on Philosophical Topics. Princeton University Press.
...