Sólin Sólin Rís 03:48 • sest 23:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:45 • Síðdegis: 15:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:55 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:48 • sest 23:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:45 • Síðdegis: 15:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:55 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Friðþjófur Nansen og hvert var hans framlag til vísindanna?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Friðþjófur Nansen (1861-1930).

Friðþjófur Nansen fæddist 10. október 1861 í Frøen skammt frá Osló, sem þá hét Kristíanía. Hann var annað barn lögfræðingsins Baldurs Nansens og seinni konu hans Adelaide og eignaðist síðar yngri bróður. Ungur að árum kynntist Nansen útivist og íþróttaiðkun og var snemma góður íþróttamaður hvort sem var í sundi, á skautum eða skíðum en skíðaiðkunin átti eftir að gagnast honum vel seinna meir. Árið 1881 hóf hann nám í dýrafræði við háskólann í Osló. Árið eftir fór Nansen í sína fyrstu könnunarferð á norðurslóðir, í fimm mánaða ferð með selveiðiskipinu Vikingi að austurströnd Grænlands. Að ferðinni lokinni gerðist Nansen umsjónarmaður sjávarlíffræðisafnsins í Bergen. Þar var hann í sex ár og stundaði rannsóknir, meðal annars á taugakerfi hryggleysingja. Árið 1887 varði hann doktorsritgerð sína á því sviði og var hann brautryðjandi taugafrumukenningarinnar, það er að hver taugafruma sé eining, aðskilin frá öðrum taugafrumum.

Í leiðangrinum með Vikingi hafði kviknað sú hugmynd að ganga þvert yfir Grænlandsjökul. Eftir að hafa lokið doktorsritgerð sinni hóf Nansen að skipuleggja Grænlandsferðina og snemma sumars árið 1888 lagði hann í þá för ásamt fimm öðrum, og komust færri með en vildu. Ferðin gekk ekki alveg þrautalaust fyrir sig en 3. október, nákvæmlega fjórum mánuðum eftir að þeir fóru um borð í selveiðiskipið Jason á Ísafirði, sem flutti þá yfir til Grænlands, náði Nansen til Nuuk (sem þá kallaðist Godthaab) og var þar með fyrstur manna, ásamt félögum sínum fimm, til þess að ganga yfir Grænlandsjökul.

Nansen var tekið sem þjóðhetju þegar hann sneri aftur úr Grænlandsleiðangrinum og barst hróður hans víða um lönd. Áhuga hans á könnun norðurslóða var þó engan veginn fullnægt, norðurpóllinn heillaði. Árið 1881 hafði bandaríska könnunarskipið Jeannette farist við Nýju-Síberíueyjar en þremur árum síðar fundust munir við strönd Grænlands sem augljóslega voru úr Jeanette og hafði þá rekið með ís. Skýringin á þessu hlaut að vera sú að hafstraumur lægi frá Síberíu yfir norðurheimskautið, eða alla vega nálægt því, og til Grænlands. Nansen fannst því liggja beinast við að sigla á þær slóðir þar sem Jeannette hafði farist, láta skipið frjósa í ísnum og nýta svo hafstrauminn til þess að fleyta sér á norðurpólinn og síðan til Grænlands.

Lykillinn að leiðangri Nansens var að fá skip sem gæti þolað þrýsting íssins. Lét hann hanna fyrir sig skip sem var gert egglaga og sérstaklega styrkt þannig að það lyftist upp en brotnaði ekki þegar ísinn þrýstist upp að því. Skipið, sem hlaut nafnið Fram, lagði úr höfn í Osló 24. júní 1893. Í áhöfn voru 12 manns auk Nansens. Siglt var norður með Noregi, meðfram strönd Síberíu og í átt að Nýju-Síberíueyjum. Þann 21. september var skipið orðið fast í ís og rek þess í átt til norðurpólsins hófst, en þá var Fram statt á 78°49´N.

Þann 14. mars 1895 yfirgáfu Nansen og Johansen Fram sem sat fast í ísnum og freistuðu þess að komast gangandi á norðurpólinn.

Rekið gekk hægar en Nansen hafði gert ráð fyrir og smám saman komst hann að þeirri niðurstöðu að pólnum yrði ekki náð með þessari aðferð. Þegar leið á árið 1894 tók Nansen þá ákvörðun að þegar 83°N væri náð mundi hann ásamt einum öðrum yfirgefa skipið og freista þess að ná takmarkinu gangandi. Hugmyndin var sú að þegar pólnum væri náð mundu þeir koma sér til Frans Jósefslands og síðan til Svalbarða þar sem þeir kæmust í skip, en Fram sigla heim þegar skipið losnaði úr ísnum. Nansen valdi Hjalmar Johansen til þess að fylgja sér og þann 14. mars 1895, eftir 18 mánaða rek í ísnum, lögðu þeir félagar af stað með 28 hunda, sleða, kajaka og vistir til 100 daga. Þá voru þeir staddir á 84°4′N.

Ísinn var erfiður yfirferðar og ferðin sóttist of seint. Þann 9. apríl ákvað Nansen að snúa við, vistirnar mundu ekki duga þeim alla leið á pólinn og til baka. Þá voru þeir staddir á 86°13'N, norðar en nokkur maður annar hafði komið. Heimferðin tók sinn tíma. Um miðjan ágúst náðu þeir til Frans Jósefslands og höfðu þá fast land undir fótum í fyrsta skipti í tvö ár. Þar höfðu þeir vetursetu, byggðu sér lítinn kofa úr grjóti og lifðu einkum á ísbjarnarkjöti og brenndu rostungslýsi. Síðla maí 1895 héldu þeir af stað á kajökum í suðurátt en hugðust svo stefna á Svalbarða þar sem þeir vonuðust eftir að komast í skip. Þeir þurftu þó ekki að fara alla þá leið því mánuði síðar rákust þeir á breskan leiðangur á Florahöfða á Frans Jósefslandi og komust þar í skip sem sigldi með þá til Noregs. Þeir komu til hafnar í Tromsø 21. ágúst 1896 eftir meira en þriggja ára fjarveru. Skipið Fram losnaði út úr ísnum á sama tíma og komst heilu og höldnu til Noregs. Nansen var ákaft fagnað við komuna aftur til Noregs og hafi hann verið þjóðþekktur áður var hann heimsþekktur nú.Nansen er án efa best þekktur sem heimskautafari, enda afrek hans á því sviði mikið, en hann átti þó eftir að sinna ýmsum mikilvægum verkefnum á öðrum sviðum. Hann blandaðist inn í baráttu Norðmanna fyrir fullu sjálfstæði frá Svíum og gegndi meðal annars mikilvægu hlutverki í að sannfæra Karl Danaprins (síðar Hákon VII Noregskonungur) um að taka við norsku krúnunni. Nansen varð auk þess fyrsti sendiherra Noregs í Bretlandi 1906-1908.

Í um tvo áratugi eftir heimskautaleiðangurinn helgaði Nansen þó tíma sinn að miklu leyti vísindastörfum. Fyrst fékk hann stöðu sem prófessor í dýrafræði við háskólann í Osló en áhugi hans beindist meira í átt að haffræði og árið 1908 varð hann prófessor á því sviði. Framlag hans til haffræðinnar er um margt merkilegt. Í heimskautaleiðangrinum voru gerðar ýmiss konar mælingar og var mikið verk að vinna úr þeim gögnum sem safnað var. Fór svo að lokum að niðurstöðurnar voru gefnar út í sex bindum. Nansen tók þátt í nokkrum rannsóknarleiðöngrum á Norður-Atlantshafi, rannsakaði hafstrauma og áhrif vinda, seltu og fleira. Hann þróaði líka mælitæki til notkunar við hafrannsóknir, eitt þekktast þeirra er svokölluð Nansen-flaska sem, í endurbættri mynd, hefur verið notuð til sýnatöku á rúmsjó allt fram á þessa öld.

Á efri árum beindust áhugi og kraftar Nansens í átt að mannúðarmálum. Hann var fyrstur manna settur í embætti flóttamannafulltrúa árið 1921 af Þjóðabandalaginu, fyrirrennara Sameinuðu þjóðanna. Eftir heimsstyrjöldina fyrri sat hann í ráði á vegum Þjóðabandalagsins, sem sá um fangaskipti stríðsaðilanna og gegndi lykilhlutverki í því að leysa mál rúmlega 400.000 fanga sem voru innlyksa í ýmsum löndum eftir stríðið. Í kjölfar rússnesku byltingarinnar og borgarastyrjaldarinnar sem henni fylgdi var fjöldi flóttamanna í Rússlandi sem koma þurfti til aðstoðar og var Nansen fenginn til þeirra starfa. Á sama tíma var mikil hungursneyð í Rússlandi og fékk Rauði krossinn Nansen til að skipuleggja hjálparstarfsemina en milljónir manna sultu þá heilu hungri. Nansen starfaði áfram að málefnum flóttamanna á meðan honum entist aldur, meðal annars í Armeníu, Tyrklandi og Grikklandi. Eitt af því sem hann kom á voru svokölluð Nansen-vegabréf, sérstök vegabréf eða skilríki fyrir flóttamenn sem voru án viðurkenndra persónuskilríkja og því ófærir um að ferðast til annarra landa.

Seinni hluta ævinnar vann Nansen að mannúðarmálum, meðal annars málefnum stríðsfanga og flóttamanna. Hér má sjá hann snæða með munaðarlausum drengjum í Armeníu 1925.

Nansen var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Eva Sars (1858-1907) sem var þekkt óperusöngkona í Noregi. Þau eignuðust fimm börn. Síðari kona Nansens var Sigrun Munthe.

Friðþjófur Nansen lést úr hjartaáfalli 13. maí 1930. Hann var goðsögn í lifanda lífi og hefur verið sýndur margs konar sómi. Árið 1922 hlaut Nansen friðarverðlaun Nóbels fyrir vinnu sína fyrir fórnarlömb fyrri heimsstyrjaldarinnar og vinnu með flóttamönnum. Eftir að hann lést var komið á fót flóttamannastofnun á vegum Þjóðabandalagsins sem kennd var við Nansen. Sú stofnun hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1938. Frá árinu 1954 hafa Sameinuðu þjóðirnar árlega veitt svokölluð Nansen-verðlaun sem koma í hlut einstaklings eða hóps fyrir framúrskarandi þjónustu í þágu flóttamanna.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

23.1.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver var Friðþjófur Nansen og hvert var hans framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2013, sótt 17. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64027.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2013, 23. janúar). Hver var Friðþjófur Nansen og hvert var hans framlag til vísindanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64027

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver var Friðþjófur Nansen og hvert var hans framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2013. Vefsíða. 17. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64027>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Friðþjófur Nansen og hvert var hans framlag til vísindanna?

Friðþjófur Nansen (1861-1930).

Friðþjófur Nansen fæddist 10. október 1861 í Frøen skammt frá Osló, sem þá hét Kristíanía. Hann var annað barn lögfræðingsins Baldurs Nansens og seinni konu hans Adelaide og eignaðist síðar yngri bróður. Ungur að árum kynntist Nansen útivist og íþróttaiðkun og var snemma góður íþróttamaður hvort sem var í sundi, á skautum eða skíðum en skíðaiðkunin átti eftir að gagnast honum vel seinna meir. Árið 1881 hóf hann nám í dýrafræði við háskólann í Osló. Árið eftir fór Nansen í sína fyrstu könnunarferð á norðurslóðir, í fimm mánaða ferð með selveiðiskipinu Vikingi að austurströnd Grænlands. Að ferðinni lokinni gerðist Nansen umsjónarmaður sjávarlíffræðisafnsins í Bergen. Þar var hann í sex ár og stundaði rannsóknir, meðal annars á taugakerfi hryggleysingja. Árið 1887 varði hann doktorsritgerð sína á því sviði og var hann brautryðjandi taugafrumukenningarinnar, það er að hver taugafruma sé eining, aðskilin frá öðrum taugafrumum.

Í leiðangrinum með Vikingi hafði kviknað sú hugmynd að ganga þvert yfir Grænlandsjökul. Eftir að hafa lokið doktorsritgerð sinni hóf Nansen að skipuleggja Grænlandsferðina og snemma sumars árið 1888 lagði hann í þá för ásamt fimm öðrum, og komust færri með en vildu. Ferðin gekk ekki alveg þrautalaust fyrir sig en 3. október, nákvæmlega fjórum mánuðum eftir að þeir fóru um borð í selveiðiskipið Jason á Ísafirði, sem flutti þá yfir til Grænlands, náði Nansen til Nuuk (sem þá kallaðist Godthaab) og var þar með fyrstur manna, ásamt félögum sínum fimm, til þess að ganga yfir Grænlandsjökul.

Nansen var tekið sem þjóðhetju þegar hann sneri aftur úr Grænlandsleiðangrinum og barst hróður hans víða um lönd. Áhuga hans á könnun norðurslóða var þó engan veginn fullnægt, norðurpóllinn heillaði. Árið 1881 hafði bandaríska könnunarskipið Jeannette farist við Nýju-Síberíueyjar en þremur árum síðar fundust munir við strönd Grænlands sem augljóslega voru úr Jeanette og hafði þá rekið með ís. Skýringin á þessu hlaut að vera sú að hafstraumur lægi frá Síberíu yfir norðurheimskautið, eða alla vega nálægt því, og til Grænlands. Nansen fannst því liggja beinast við að sigla á þær slóðir þar sem Jeannette hafði farist, láta skipið frjósa í ísnum og nýta svo hafstrauminn til þess að fleyta sér á norðurpólinn og síðan til Grænlands.

Lykillinn að leiðangri Nansens var að fá skip sem gæti þolað þrýsting íssins. Lét hann hanna fyrir sig skip sem var gert egglaga og sérstaklega styrkt þannig að það lyftist upp en brotnaði ekki þegar ísinn þrýstist upp að því. Skipið, sem hlaut nafnið Fram, lagði úr höfn í Osló 24. júní 1893. Í áhöfn voru 12 manns auk Nansens. Siglt var norður með Noregi, meðfram strönd Síberíu og í átt að Nýju-Síberíueyjum. Þann 21. september var skipið orðið fast í ís og rek þess í átt til norðurpólsins hófst, en þá var Fram statt á 78°49´N.

Þann 14. mars 1895 yfirgáfu Nansen og Johansen Fram sem sat fast í ísnum og freistuðu þess að komast gangandi á norðurpólinn.

Rekið gekk hægar en Nansen hafði gert ráð fyrir og smám saman komst hann að þeirri niðurstöðu að pólnum yrði ekki náð með þessari aðferð. Þegar leið á árið 1894 tók Nansen þá ákvörðun að þegar 83°N væri náð mundi hann ásamt einum öðrum yfirgefa skipið og freista þess að ná takmarkinu gangandi. Hugmyndin var sú að þegar pólnum væri náð mundu þeir koma sér til Frans Jósefslands og síðan til Svalbarða þar sem þeir kæmust í skip, en Fram sigla heim þegar skipið losnaði úr ísnum. Nansen valdi Hjalmar Johansen til þess að fylgja sér og þann 14. mars 1895, eftir 18 mánaða rek í ísnum, lögðu þeir félagar af stað með 28 hunda, sleða, kajaka og vistir til 100 daga. Þá voru þeir staddir á 84°4′N.

Ísinn var erfiður yfirferðar og ferðin sóttist of seint. Þann 9. apríl ákvað Nansen að snúa við, vistirnar mundu ekki duga þeim alla leið á pólinn og til baka. Þá voru þeir staddir á 86°13'N, norðar en nokkur maður annar hafði komið. Heimferðin tók sinn tíma. Um miðjan ágúst náðu þeir til Frans Jósefslands og höfðu þá fast land undir fótum í fyrsta skipti í tvö ár. Þar höfðu þeir vetursetu, byggðu sér lítinn kofa úr grjóti og lifðu einkum á ísbjarnarkjöti og brenndu rostungslýsi. Síðla maí 1895 héldu þeir af stað á kajökum í suðurátt en hugðust svo stefna á Svalbarða þar sem þeir vonuðust eftir að komast í skip. Þeir þurftu þó ekki að fara alla þá leið því mánuði síðar rákust þeir á breskan leiðangur á Florahöfða á Frans Jósefslandi og komust þar í skip sem sigldi með þá til Noregs. Þeir komu til hafnar í Tromsø 21. ágúst 1896 eftir meira en þriggja ára fjarveru. Skipið Fram losnaði út úr ísnum á sama tíma og komst heilu og höldnu til Noregs. Nansen var ákaft fagnað við komuna aftur til Noregs og hafi hann verið þjóðþekktur áður var hann heimsþekktur nú.Nansen er án efa best þekktur sem heimskautafari, enda afrek hans á því sviði mikið, en hann átti þó eftir að sinna ýmsum mikilvægum verkefnum á öðrum sviðum. Hann blandaðist inn í baráttu Norðmanna fyrir fullu sjálfstæði frá Svíum og gegndi meðal annars mikilvægu hlutverki í að sannfæra Karl Danaprins (síðar Hákon VII Noregskonungur) um að taka við norsku krúnunni. Nansen varð auk þess fyrsti sendiherra Noregs í Bretlandi 1906-1908.

Í um tvo áratugi eftir heimskautaleiðangurinn helgaði Nansen þó tíma sinn að miklu leyti vísindastörfum. Fyrst fékk hann stöðu sem prófessor í dýrafræði við háskólann í Osló en áhugi hans beindist meira í átt að haffræði og árið 1908 varð hann prófessor á því sviði. Framlag hans til haffræðinnar er um margt merkilegt. Í heimskautaleiðangrinum voru gerðar ýmiss konar mælingar og var mikið verk að vinna úr þeim gögnum sem safnað var. Fór svo að lokum að niðurstöðurnar voru gefnar út í sex bindum. Nansen tók þátt í nokkrum rannsóknarleiðöngrum á Norður-Atlantshafi, rannsakaði hafstrauma og áhrif vinda, seltu og fleira. Hann þróaði líka mælitæki til notkunar við hafrannsóknir, eitt þekktast þeirra er svokölluð Nansen-flaska sem, í endurbættri mynd, hefur verið notuð til sýnatöku á rúmsjó allt fram á þessa öld.

Á efri árum beindust áhugi og kraftar Nansens í átt að mannúðarmálum. Hann var fyrstur manna settur í embætti flóttamannafulltrúa árið 1921 af Þjóðabandalaginu, fyrirrennara Sameinuðu þjóðanna. Eftir heimsstyrjöldina fyrri sat hann í ráði á vegum Þjóðabandalagsins, sem sá um fangaskipti stríðsaðilanna og gegndi lykilhlutverki í því að leysa mál rúmlega 400.000 fanga sem voru innlyksa í ýmsum löndum eftir stríðið. Í kjölfar rússnesku byltingarinnar og borgarastyrjaldarinnar sem henni fylgdi var fjöldi flóttamanna í Rússlandi sem koma þurfti til aðstoðar og var Nansen fenginn til þeirra starfa. Á sama tíma var mikil hungursneyð í Rússlandi og fékk Rauði krossinn Nansen til að skipuleggja hjálparstarfsemina en milljónir manna sultu þá heilu hungri. Nansen starfaði áfram að málefnum flóttamanna á meðan honum entist aldur, meðal annars í Armeníu, Tyrklandi og Grikklandi. Eitt af því sem hann kom á voru svokölluð Nansen-vegabréf, sérstök vegabréf eða skilríki fyrir flóttamenn sem voru án viðurkenndra persónuskilríkja og því ófærir um að ferðast til annarra landa.

Seinni hluta ævinnar vann Nansen að mannúðarmálum, meðal annars málefnum stríðsfanga og flóttamanna. Hér má sjá hann snæða með munaðarlausum drengjum í Armeníu 1925.

Nansen var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Eva Sars (1858-1907) sem var þekkt óperusöngkona í Noregi. Þau eignuðust fimm börn. Síðari kona Nansens var Sigrun Munthe.

Friðþjófur Nansen lést úr hjartaáfalli 13. maí 1930. Hann var goðsögn í lifanda lífi og hefur verið sýndur margs konar sómi. Árið 1922 hlaut Nansen friðarverðlaun Nóbels fyrir vinnu sína fyrir fórnarlömb fyrri heimsstyrjaldarinnar og vinnu með flóttamönnum. Eftir að hann lést var komið á fót flóttamannastofnun á vegum Þjóðabandalagsins sem kennd var við Nansen. Sú stofnun hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1938. Frá árinu 1954 hafa Sameinuðu þjóðirnar árlega veitt svokölluð Nansen-verðlaun sem koma í hlut einstaklings eða hóps fyrir framúrskarandi þjónustu í þágu flóttamanna.

Heimildir og myndir:

...