Sólin Sólin Rís 03:43 • sest 23:08 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:44 • Síðdegis: 19:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 12:50 í Reykjavík

Hver er Judith Butler og hvert er hennar framlag til fræðanna?

Nanna Hlín Halldórsdóttir

Judith Butler er bandarískur heimspekingur sem hefur haft mikil áhrif á fræði og kenningar innan félags- og hugvísinda. Hún er jafnan talin ein af upphafsmönnum hinsegin fræða (e. queer theory). Rit hennar Kynusli (e. Gender Trouble) markaði straumhvörf í hugmyndasögu femíniskra kenninga vegna þeirrar gagnrýni á sjálfsmyndarpólitík (e. identity politics) sem þar kemur fram. Verk Butler eru lesin í mörgum ólíkum fræðigreinum en sjálf staðsetur hún sig mjög skýrt á sviði meginlandsheimspeki. Heimspeki Butler er markvisst sett fram sem andsvar og íhugun um heimspeki annarra innan þeirrar hefðar. Verk hennar eru oft flokkuð sem póststrúktúralismi og hún leitar víða fanga. Áhrifa fræðafólks á borð við Michel Foucault, G.W.F. Hegel, Jacques Derrida og Simone de Beauvoir gæta víða í textum hennar. Þar að auki eru verk hennar samræða við ótal femínískar fræðikonur.

Judith Butler hefur haft mikil áhrif á fræði og kenningar innan félags- og hugvísinda.

Butler fæddist árið 1956 í Cleveland í Ohio-fylki Bandaríkjanna og voru foreldrar hennar gyðingar. Butler lýsir sjálfri sér sem vandræðabarni sem hafi gengið illa í skóla, hún hlýddi ekki reglum og svaraði kennurunum sínum fullum hálsi. Engu að síður var hún mjög fróðleiksfús og þyrsti í svör við hinum stóru tilvistarspurningum heimspekinnar og leitað í verk Sörens Kierkegaards og Baruchs Spinoza sem hún fann í kjallara forelda sinna. Á unglingsaldri kenndi Butler hræðslu og blygðunar þegar hún uppgötvaði að orðið lesbía næði yfir þær tilfinningar sem hún bar í garð annarra kvenna. Þessi reynsla af því hvernig félagslega ráðandi norm á borð við hið gagnkynhneigða norm gat reynst svo þvingandi og leitt til hræðslu við félagslega útilokun virðist hafa haft afgerandi áhrif á hugsun Butler. Jafnframt því var hún sér meðvituð um hvernig foreldrar sínir reyndu að líkja eftir og taka upp kynímyndir frægra Hollywoodstjarna.

Butler stundaði heimspekinám við Yale-háskóla. Þar sem hún leitaði svara við hinum stóru spurningum lífsins var sú rökgreiningaráhersla sem þar mátti finna henni vonbrigði. Á sama tíma tók hún þátt í femínískum- og LGBT-aktívisma (LGBT stendur fyrir ensku orðin Lesbian-Gay-Bisexual-Transgender) þar sem henni gafst tækifæri til að eiga í lifandi samræðum um réttindabaráttu og samtímamál. Butler hefur alla tíð verið mjög umhugað um samband fræða og framkvæmda og verið virk í alls kyns aktívisma.

Kynusli: Femínismi og niðurrif sjálfsmyndar, sem kom út 1989, er sérstaklega rómuð fyrir tvennt: að sjá kyngervi (e. gender) sem gjörning (e. performance) og að kyn (e. sex) sé alltaf þegar kyngervi. Hugmynd Butler um að kyngervi sé gjörningur gengur út á að þú ert sífellt að gera kyn þitt, kyn verður aldrei fullbúið heldur er í sífelldri verðandi. Það er ekki búningur eða gervi sem þú getur farið í og úr. Það er gjörningur vegna þess að það lærist af sífelldri endurtekningu af sömu gjörð. Að segja að kyn sé ávallt þegar kyngervi merkir að kynjahugtakið er ávallt hugtak, hugmynd. Ávallt þegar þú vísar til líffræðilegs kyns vísar þú til „hugmyndar“ þinnar um það sem er að einhverju leyti mótuð af því samfélagi og samtíð sem þú tilheyrir og er ekki það sama og hinn kynjaði líkami.

Bókin markar uppgang hinsegin fræða með öflugri gagnrýni á hvernig femínísk fræði hneigjast til að viðhalda því sem að kallast á íslensku hið gagnkynhneigða forræði eða hið gagnkynhneigða norm. Þannig er Butler umhugað um að femínísk orðræða búi ekki til ný kynjanorm stigveldis og útilokunar sem gæti reynst þrúgandi fyrir suma.

Butler var í kjölfarið gagnrýnd fyrir að gera ekki nóga góða greinargerð fyrir líkamanum í Kynusla. Þessa gagnrýni, sem loðir við alla póststrúktúralista, svaraði Butler að einhverju leyti með Líkamar sem skipta máli (e. Bodies that Matter) sem kom út árið 1993. Þar leggur hún meiri áherslu á hvernig við hermum eftir og gerum kyn okkar endurtekið líkamlega. Engu að síður er notkun okkar á tungumálinu henni ofarlega í huga, eins og sjá má í Áreitandi tal: Pólitík performansins (e. Excitable Speech: A Politics of the Performative) þar sem hún meðal annars greinir haturstal í Bandaríkjunum.

Butler hefur sjálf sagt að hún vilji ekki reyna að setja verk sín upp í eitthvað ákveðið kerfi þannig að fullkomið samræmi sé á milli ólíkra verka. Það má hins vegar merkja ákveðna þróun í verkum hennar; í fyrri verkum hennar er kynjahugtakið sem og kynferði (e. sexuality) í aðalhlutverkum í samhengi við hugtökin viðurkenningu, norm, þrá, orðræðu og valdasamskipti en í seinni verkum hennar skipta hugtökin viðkvæmni (e. precariousness) og varnarleysi (e. vulnerability) meginmáli. Jafnvel mætti segja að þessi nýlegri verk vinni jafnt á sviði heimspeki, kynjafræði og alþjóðasamskipta. Nýrra áhrifa gætir einnig í tilraun Butler til þess að tala jafnhendis um hið pólitíska og hið siðfræðilega sem að hin gagnrýna hefð meginlandsins hneigist oft til að sjá sem ósamræmanlega iðju. Til þessa verkefnis hefur Butler leitað meira í smiðju hins þýska hugsuðar Theodors Adornos og þá sérstaklega verks hans Minima Moralia. Stjórnmálaheimspeki Hönnu Arent og siðfræði Emmanuel Levinas hafa einnig verið henni hugleikin.

Kynusli finnst víða í bókabúðum.

Rit Butler snúast iðulega um þann ótta okkar að missa félagslega samþykktan stað sem sé skiljanlegur öðrum og gerir okkur kleift að eiga samskipti. Í verkum hennar eftir árið 2000 nálgast hún þessa pælingu út frá annarri hlið og spyr hvernig norm samfélagsins ákveði hvaða líf sé syrgjanlegt og hvaða líf sé ekki syrgt. Með því að benda á dæmi frá 11. september 2001, stríðinu gegn hryðjuverkum og umræðunni um alnæmi í Bandaríkjunum varpar hún ljósi á þau líf sem ekki þótti vert að syrgja opinberlega. Áhersla hennar á sorg og sorgarviðbrögð eru í tengslum við hugleiðingar hennar um viðkvæmni og varnarleysi, en hún telur að réttindabarátta samtímans beinist fyrst og fremst að þessum efnum og að siðferðislegar og pólitískar spurningar um varnarleysi séu til grundvallar hnattrænum stjórnmálum í dag. Butler hefur þó verið gagnrýnt fyrir að gera ekki nægjanlega grein fyrir sögulega skilyrðingu slíks varnarleysis og hvernig því er jafnvel viðhaldið af kapítalískum efnahagstengslum á hnattræna vísu.

Síðustu ár hefur Butler verið mjög umhugað um átökin í Ísrael/Palestínu og komið fram með beitta gagnrýni á Ísraelsríki. Til að mynda neitar hún að koma fram í ísraelskum háskólum og stofnunum þó svo að hún vinni með ísraelskum aktívistum að friðarmálum. Árið 2012 fékk Butler hin virtu Theodor Adorno-verðlaun í Þýskalandi. Sætti það mikilli gagnrýni og mótmælum af þeim sem hliðhollir eru Ísraelsríki. Árið 2010 átti að veita Judith Butler verðlaunin fyrir borgaralegt hugrekki ( þ. Zivilcouragepreis) á gleðigöngunni í Berlín en hún afþakkaði verðlaunin vegna rasisma og and-íslamisma sem finna mátti í aðdraganda göngunnar.

Hægt væri að segja að heimspeki Butler snúist á endanum um hugtakið norm, sem gæti útleggst á íslensku sem venja. Til þess að öðlast einhvers konar skilning eða viðurkenningu annarra er nauðsynlegt að laga sig að normum samfélagsins, að minnsta kosti að einhverju leyti. En hvað gerum við ef einhver okkar eru alltaf þegar útilokuð frá hvers kyns samfélagslegum venjum; þegar líf okkar eru jafnvel ekki viðurkennd sem líf? Slíkar spurningar eru uppistaða í höfundaverki Butler og leggja áherslu á að við erum alltaf þegar í samfélagi við aðra og okkar eigin upplifanir og líf beri að meta út frá því. Jafnframt því eru verk hennar ein allsherjar hugleiðing um virkni valds og ofbeldis.

Heimildir:

  • Butler, Judith, Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity, Routledge, New York and London 2007.
  • Butler, Judith, „Can one lead a good life in a bad life?“in Radical Philosophy 176 nov/dec 2012.
  • Butler, Judith, Braidotti, Rosie, „Out of Bounds: Philosophy in an Age of Transition“ in After Poststructuralism: Transitions and Transformations, ed. Rosie Bradotti, Acumen Publishing, Durham 2010.
  • Lloyd, Moya, Judith Butler, Polity Press, Cambridge og Malden 2007.
  • Judith Butler, Philosophin der Gender, Arte 2012.

Myndir:

Höfundur

Nanna Hlín Halldórsdóttir

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

23.9.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Nanna Hlín Halldórsdóttir. „Hver er Judith Butler og hvert er hennar framlag til fræðanna?“ Vísindavefurinn, 23. september 2013. Sótt 24. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=65469.

Nanna Hlín Halldórsdóttir. (2013, 23. september). Hver er Judith Butler og hvert er hennar framlag til fræðanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65469

Nanna Hlín Halldórsdóttir. „Hver er Judith Butler og hvert er hennar framlag til fræðanna?“ Vísindavefurinn. 23. sep. 2013. Vefsíða. 24. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65469>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er Judith Butler og hvert er hennar framlag til fræðanna?
Judith Butler er bandarískur heimspekingur sem hefur haft mikil áhrif á fræði og kenningar innan félags- og hugvísinda. Hún er jafnan talin ein af upphafsmönnum hinsegin fræða (e. queer theory). Rit hennar Kynusli (e. Gender Trouble) markaði straumhvörf í hugmyndasögu femíniskra kenninga vegna þeirrar gagnrýni á sjálfsmyndarpólitík (e. identity politics) sem þar kemur fram. Verk Butler eru lesin í mörgum ólíkum fræðigreinum en sjálf staðsetur hún sig mjög skýrt á sviði meginlandsheimspeki. Heimspeki Butler er markvisst sett fram sem andsvar og íhugun um heimspeki annarra innan þeirrar hefðar. Verk hennar eru oft flokkuð sem póststrúktúralismi og hún leitar víða fanga. Áhrifa fræðafólks á borð við Michel Foucault, G.W.F. Hegel, Jacques Derrida og Simone de Beauvoir gæta víða í textum hennar. Þar að auki eru verk hennar samræða við ótal femínískar fræðikonur.

Judith Butler hefur haft mikil áhrif á fræði og kenningar innan félags- og hugvísinda.

Butler fæddist árið 1956 í Cleveland í Ohio-fylki Bandaríkjanna og voru foreldrar hennar gyðingar. Butler lýsir sjálfri sér sem vandræðabarni sem hafi gengið illa í skóla, hún hlýddi ekki reglum og svaraði kennurunum sínum fullum hálsi. Engu að síður var hún mjög fróðleiksfús og þyrsti í svör við hinum stóru tilvistarspurningum heimspekinnar og leitað í verk Sörens Kierkegaards og Baruchs Spinoza sem hún fann í kjallara forelda sinna. Á unglingsaldri kenndi Butler hræðslu og blygðunar þegar hún uppgötvaði að orðið lesbía næði yfir þær tilfinningar sem hún bar í garð annarra kvenna. Þessi reynsla af því hvernig félagslega ráðandi norm á borð við hið gagnkynhneigða norm gat reynst svo þvingandi og leitt til hræðslu við félagslega útilokun virðist hafa haft afgerandi áhrif á hugsun Butler. Jafnframt því var hún sér meðvituð um hvernig foreldrar sínir reyndu að líkja eftir og taka upp kynímyndir frægra Hollywoodstjarna.

Butler stundaði heimspekinám við Yale-háskóla. Þar sem hún leitaði svara við hinum stóru spurningum lífsins var sú rökgreiningaráhersla sem þar mátti finna henni vonbrigði. Á sama tíma tók hún þátt í femínískum- og LGBT-aktívisma (LGBT stendur fyrir ensku orðin Lesbian-Gay-Bisexual-Transgender) þar sem henni gafst tækifæri til að eiga í lifandi samræðum um réttindabaráttu og samtímamál. Butler hefur alla tíð verið mjög umhugað um samband fræða og framkvæmda og verið virk í alls kyns aktívisma.

Kynusli: Femínismi og niðurrif sjálfsmyndar, sem kom út 1989, er sérstaklega rómuð fyrir tvennt: að sjá kyngervi (e. gender) sem gjörning (e. performance) og að kyn (e. sex) sé alltaf þegar kyngervi. Hugmynd Butler um að kyngervi sé gjörningur gengur út á að þú ert sífellt að gera kyn þitt, kyn verður aldrei fullbúið heldur er í sífelldri verðandi. Það er ekki búningur eða gervi sem þú getur farið í og úr. Það er gjörningur vegna þess að það lærist af sífelldri endurtekningu af sömu gjörð. Að segja að kyn sé ávallt þegar kyngervi merkir að kynjahugtakið er ávallt hugtak, hugmynd. Ávallt þegar þú vísar til líffræðilegs kyns vísar þú til „hugmyndar“ þinnar um það sem er að einhverju leyti mótuð af því samfélagi og samtíð sem þú tilheyrir og er ekki það sama og hinn kynjaði líkami.

Bókin markar uppgang hinsegin fræða með öflugri gagnrýni á hvernig femínísk fræði hneigjast til að viðhalda því sem að kallast á íslensku hið gagnkynhneigða forræði eða hið gagnkynhneigða norm. Þannig er Butler umhugað um að femínísk orðræða búi ekki til ný kynjanorm stigveldis og útilokunar sem gæti reynst þrúgandi fyrir suma.

Butler var í kjölfarið gagnrýnd fyrir að gera ekki nóga góða greinargerð fyrir líkamanum í Kynusla. Þessa gagnrýni, sem loðir við alla póststrúktúralista, svaraði Butler að einhverju leyti með Líkamar sem skipta máli (e. Bodies that Matter) sem kom út árið 1993. Þar leggur hún meiri áherslu á hvernig við hermum eftir og gerum kyn okkar endurtekið líkamlega. Engu að síður er notkun okkar á tungumálinu henni ofarlega í huga, eins og sjá má í Áreitandi tal: Pólitík performansins (e. Excitable Speech: A Politics of the Performative) þar sem hún meðal annars greinir haturstal í Bandaríkjunum.

Butler hefur sjálf sagt að hún vilji ekki reyna að setja verk sín upp í eitthvað ákveðið kerfi þannig að fullkomið samræmi sé á milli ólíkra verka. Það má hins vegar merkja ákveðna þróun í verkum hennar; í fyrri verkum hennar er kynjahugtakið sem og kynferði (e. sexuality) í aðalhlutverkum í samhengi við hugtökin viðurkenningu, norm, þrá, orðræðu og valdasamskipti en í seinni verkum hennar skipta hugtökin viðkvæmni (e. precariousness) og varnarleysi (e. vulnerability) meginmáli. Jafnvel mætti segja að þessi nýlegri verk vinni jafnt á sviði heimspeki, kynjafræði og alþjóðasamskipta. Nýrra áhrifa gætir einnig í tilraun Butler til þess að tala jafnhendis um hið pólitíska og hið siðfræðilega sem að hin gagnrýna hefð meginlandsins hneigist oft til að sjá sem ósamræmanlega iðju. Til þessa verkefnis hefur Butler leitað meira í smiðju hins þýska hugsuðar Theodors Adornos og þá sérstaklega verks hans Minima Moralia. Stjórnmálaheimspeki Hönnu Arent og siðfræði Emmanuel Levinas hafa einnig verið henni hugleikin.

Kynusli finnst víða í bókabúðum.

Rit Butler snúast iðulega um þann ótta okkar að missa félagslega samþykktan stað sem sé skiljanlegur öðrum og gerir okkur kleift að eiga samskipti. Í verkum hennar eftir árið 2000 nálgast hún þessa pælingu út frá annarri hlið og spyr hvernig norm samfélagsins ákveði hvaða líf sé syrgjanlegt og hvaða líf sé ekki syrgt. Með því að benda á dæmi frá 11. september 2001, stríðinu gegn hryðjuverkum og umræðunni um alnæmi í Bandaríkjunum varpar hún ljósi á þau líf sem ekki þótti vert að syrgja opinberlega. Áhersla hennar á sorg og sorgarviðbrögð eru í tengslum við hugleiðingar hennar um viðkvæmni og varnarleysi, en hún telur að réttindabarátta samtímans beinist fyrst og fremst að þessum efnum og að siðferðislegar og pólitískar spurningar um varnarleysi séu til grundvallar hnattrænum stjórnmálum í dag. Butler hefur þó verið gagnrýnt fyrir að gera ekki nægjanlega grein fyrir sögulega skilyrðingu slíks varnarleysis og hvernig því er jafnvel viðhaldið af kapítalískum efnahagstengslum á hnattræna vísu.

Síðustu ár hefur Butler verið mjög umhugað um átökin í Ísrael/Palestínu og komið fram með beitta gagnrýni á Ísraelsríki. Til að mynda neitar hún að koma fram í ísraelskum háskólum og stofnunum þó svo að hún vinni með ísraelskum aktívistum að friðarmálum. Árið 2012 fékk Butler hin virtu Theodor Adorno-verðlaun í Þýskalandi. Sætti það mikilli gagnrýni og mótmælum af þeim sem hliðhollir eru Ísraelsríki. Árið 2010 átti að veita Judith Butler verðlaunin fyrir borgaralegt hugrekki ( þ. Zivilcouragepreis) á gleðigöngunni í Berlín en hún afþakkaði verðlaunin vegna rasisma og and-íslamisma sem finna mátti í aðdraganda göngunnar.

Hægt væri að segja að heimspeki Butler snúist á endanum um hugtakið norm, sem gæti útleggst á íslensku sem venja. Til þess að öðlast einhvers konar skilning eða viðurkenningu annarra er nauðsynlegt að laga sig að normum samfélagsins, að minnsta kosti að einhverju leyti. En hvað gerum við ef einhver okkar eru alltaf þegar útilokuð frá hvers kyns samfélagslegum venjum; þegar líf okkar eru jafnvel ekki viðurkennd sem líf? Slíkar spurningar eru uppistaða í höfundaverki Butler og leggja áherslu á að við erum alltaf þegar í samfélagi við aðra og okkar eigin upplifanir og líf beri að meta út frá því. Jafnframt því eru verk hennar ein allsherjar hugleiðing um virkni valds og ofbeldis.

Heimildir:

  • Butler, Judith, Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity, Routledge, New York and London 2007.
  • Butler, Judith, „Can one lead a good life in a bad life?“in Radical Philosophy 176 nov/dec 2012.
  • Butler, Judith, Braidotti, Rosie, „Out of Bounds: Philosophy in an Age of Transition“ in After Poststructuralism: Transitions and Transformations, ed. Rosie Bradotti, Acumen Publishing, Durham 2010.
  • Lloyd, Moya, Judith Butler, Polity Press, Cambridge og Malden 2007.
  • Judith Butler, Philosophin der Gender, Arte 2012.

Myndir: