Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvað er randbörkur og hvaða hlutverki gegnir hann?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Randbörkur er sá hluti heilabarkar sem tilheyrir randkerfi heilans. Randkerfið ræður miklu um atferli manna með áhrifum á hvatir og geðhrif.

Randbörkur (e. limbic cortex) er sá hluti heilabarkar sem tilheyrir randkerfi heilans. Randkerfið (e. limbic system) er staðsett miðlægt undir hvelaheila (e. cerebrum), innst í heilanum og liggur í boga í kringum heilastofninn. Randkerfið er að hluta til úr heilaberki og að hluta til úr vefjum undir honum. Helstu hlutar randkerfisins eru undirstúka, dreki og mandla. Reyndar er undirstúkan að hálfu leyti í hægra heilahveli og að hálfu leyti í vinstra heilahveli, drekar eru tveir og möndlur tvær.

Randkerfið gegnir lykilhlutverki í tilfinningum eins og sársauka, ánægju/nautn, reiði, ótta, sorg, kynferðislegum tilfinningum, hlýðni og væntumþykju. Af þeim sökum er það stundum kallað „tilfinningaheilinn“. Þótt atferli sé stjórnað af öllu taugakerfinu stjórnar randkerfið flestum ósjálfráðum hliðum þess, eins og þeim sem snúa að því að lifa af. Tilraunir á dýrum gefa til kynna að það gegni lykilhlutverki í að stjórna atferlismynstrum almennt. Ásamt hlutum af hvelaheila starfar randkerfið einnig í tengslum við minnið; skerðing á minni getur stafað af skaða í randkerfinu.

Undirstúkan (e. hypothalamus) er lítill hluti milliheila sem liggur undir stúkunni en fyrir ofan heildingul sem er yfirkirtill líkamans. Þrátt fyrir smæðina stjórna kjarnar í undirstúku margbreytilegri líkamsstarfsemi, sem tengist í flestum tilfellum samvægi, sem sagt að viðhalda kjöraðstæðum í líkamanum. Undirstúkan stjórnar og tengir saman virkni sjálfvirka taugakerfisins. Hún stýrir hjartslætti, flutningi fæðu eftir meltingarveginum og samdrætti þvagblöðru. Hún stjórnar losun margra hormóna frá heiladingli og starfar því sem tengiliður milli taugakerfis og innkirtlakerfis, en þau eru helstu stjórnkerfi líkamans. Hún stjórnar líkamshitanum og tengist tilfinningum eins og reiði, árásarhneigð, sársauka og ánægju/nautn. Undirstúkan stjórnar áti í gegnum tvær stöðvar, hungurstöð og seddustöð. Hungurstöð vekur hungurtilfinningu, en þegar næg fæða hefur verið borðuð örvast seddustöðin og sendir taugaboð sem hamla hungurstöðina. Í undirstúku er einnig þorstastöð sem stýrir drykkju. Að lokum er undirstúkan einn af þeim heilahlutum sem koma við sögu í vöku- og svefnmynstrum.

Drekinn (e. hippocampus) á þátt í hugsun og hafa tengsl hans við minni einkum verið rannsökuð og þá sérstaklega rúmfræðilegt minni sem er nauðsynlegt til að við getum áttað okkur á nýju umhverfi og hvar við erum stödd í því. Þetta er hluti af skammtímaminni sem er forsenda fyrir þroskun langtímaminnis. Drekinn virðist vera mjög mikilvægur í að breyta því sem maður er að hugsa um núna (það sem er í skammtímaminni) í minningu sem maður varðveitir til lengri tíma (langtímaminni). Ef drekinn verður fyrir skaða myndast ekki nýjar minningar hjá einstaklingnum heldur lifir hann í undarlegri veröld þar sem allar upplifanir dofna smám saman og hverfa, jafnvel þótt minningar sem voru til frá því fyrir skaðann haldast óbreyttar. Drekinn er virkur í námi, þar sem hann er ekki aðeins virkur í að búa til minningar heldur einnig að kalla þær fram.

Mandla (e. amygdala) er einnig virk í alls konar hugarstarfi. Þar er ekki síst um að ræða þátt hennar í minni. Hér er þó ekki aðallega um rúmfræðilegt minni að ræða eins og í dreka, heldur atvikaminni. Í því sambandi er athygli skilgreind sem getan til að einbeita sér að tilteknum áreitum á meðan maður leiðir önnur áreiti hjá sér. Talið er að mandla hjálpi lífveru að skilgreina áreiti og haga sér í samræmi við það. Hún er mikilvæg í að samhæfa viðbrögð taugakerfis, innkirtlakerfis og atferlis við áreiti í umhverfinu, einkum þeim sem varða tilfinningar. Það er mikilvægt fyrir einstaklinga eða tegundir að atferlisviðbrögð við streitu og kvíða séu samhæfð. Einnig tengist mandla áreiti sem tengjast umbun og samfélagslegu atferli eins og mökun. Mandla tengist einnig dreka og örvar hann til að muna smáatriði kringumstæðna.

Í stuttu máli sagt kemur randkerfið við sögu í ýmiss konar starfsemi, til dæmis tilfinningum, atferli, áhuga, minni og enn fremur lyktarskynjun þar sem lyktarklumbar tilheyra því einnig.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

26.11.2013

Spyrjandi

Íris Aníta Eyþórsdóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er randbörkur og hvaða hlutverki gegnir hann?“ Vísindavefurinn, 26. nóvember 2013. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=65843.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2013, 26. nóvember). Hvað er randbörkur og hvaða hlutverki gegnir hann? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65843

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er randbörkur og hvaða hlutverki gegnir hann?“ Vísindavefurinn. 26. nóv. 2013. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65843>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er randbörkur og hvaða hlutverki gegnir hann?

Randbörkur er sá hluti heilabarkar sem tilheyrir randkerfi heilans. Randkerfið ræður miklu um atferli manna með áhrifum á hvatir og geðhrif.

Randbörkur (e. limbic cortex) er sá hluti heilabarkar sem tilheyrir randkerfi heilans. Randkerfið (e. limbic system) er staðsett miðlægt undir hvelaheila (e. cerebrum), innst í heilanum og liggur í boga í kringum heilastofninn. Randkerfið er að hluta til úr heilaberki og að hluta til úr vefjum undir honum. Helstu hlutar randkerfisins eru undirstúka, dreki og mandla. Reyndar er undirstúkan að hálfu leyti í hægra heilahveli og að hálfu leyti í vinstra heilahveli, drekar eru tveir og möndlur tvær.

Randkerfið gegnir lykilhlutverki í tilfinningum eins og sársauka, ánægju/nautn, reiði, ótta, sorg, kynferðislegum tilfinningum, hlýðni og væntumþykju. Af þeim sökum er það stundum kallað „tilfinningaheilinn“. Þótt atferli sé stjórnað af öllu taugakerfinu stjórnar randkerfið flestum ósjálfráðum hliðum þess, eins og þeim sem snúa að því að lifa af. Tilraunir á dýrum gefa til kynna að það gegni lykilhlutverki í að stjórna atferlismynstrum almennt. Ásamt hlutum af hvelaheila starfar randkerfið einnig í tengslum við minnið; skerðing á minni getur stafað af skaða í randkerfinu.

Undirstúkan (e. hypothalamus) er lítill hluti milliheila sem liggur undir stúkunni en fyrir ofan heildingul sem er yfirkirtill líkamans. Þrátt fyrir smæðina stjórna kjarnar í undirstúku margbreytilegri líkamsstarfsemi, sem tengist í flestum tilfellum samvægi, sem sagt að viðhalda kjöraðstæðum í líkamanum. Undirstúkan stjórnar og tengir saman virkni sjálfvirka taugakerfisins. Hún stýrir hjartslætti, flutningi fæðu eftir meltingarveginum og samdrætti þvagblöðru. Hún stjórnar losun margra hormóna frá heiladingli og starfar því sem tengiliður milli taugakerfis og innkirtlakerfis, en þau eru helstu stjórnkerfi líkamans. Hún stjórnar líkamshitanum og tengist tilfinningum eins og reiði, árásarhneigð, sársauka og ánægju/nautn. Undirstúkan stjórnar áti í gegnum tvær stöðvar, hungurstöð og seddustöð. Hungurstöð vekur hungurtilfinningu, en þegar næg fæða hefur verið borðuð örvast seddustöðin og sendir taugaboð sem hamla hungurstöðina. Í undirstúku er einnig þorstastöð sem stýrir drykkju. Að lokum er undirstúkan einn af þeim heilahlutum sem koma við sögu í vöku- og svefnmynstrum.

Drekinn (e. hippocampus) á þátt í hugsun og hafa tengsl hans við minni einkum verið rannsökuð og þá sérstaklega rúmfræðilegt minni sem er nauðsynlegt til að við getum áttað okkur á nýju umhverfi og hvar við erum stödd í því. Þetta er hluti af skammtímaminni sem er forsenda fyrir þroskun langtímaminnis. Drekinn virðist vera mjög mikilvægur í að breyta því sem maður er að hugsa um núna (það sem er í skammtímaminni) í minningu sem maður varðveitir til lengri tíma (langtímaminni). Ef drekinn verður fyrir skaða myndast ekki nýjar minningar hjá einstaklingnum heldur lifir hann í undarlegri veröld þar sem allar upplifanir dofna smám saman og hverfa, jafnvel þótt minningar sem voru til frá því fyrir skaðann haldast óbreyttar. Drekinn er virkur í námi, þar sem hann er ekki aðeins virkur í að búa til minningar heldur einnig að kalla þær fram.

Mandla (e. amygdala) er einnig virk í alls konar hugarstarfi. Þar er ekki síst um að ræða þátt hennar í minni. Hér er þó ekki aðallega um rúmfræðilegt minni að ræða eins og í dreka, heldur atvikaminni. Í því sambandi er athygli skilgreind sem getan til að einbeita sér að tilteknum áreitum á meðan maður leiðir önnur áreiti hjá sér. Talið er að mandla hjálpi lífveru að skilgreina áreiti og haga sér í samræmi við það. Hún er mikilvæg í að samhæfa viðbrögð taugakerfis, innkirtlakerfis og atferlis við áreiti í umhverfinu, einkum þeim sem varða tilfinningar. Það er mikilvægt fyrir einstaklinga eða tegundir að atferlisviðbrögð við streitu og kvíða séu samhæfð. Einnig tengist mandla áreiti sem tengjast umbun og samfélagslegu atferli eins og mökun. Mandla tengist einnig dreka og örvar hann til að muna smáatriði kringumstæðna.

Í stuttu máli sagt kemur randkerfið við sögu í ýmiss konar starfsemi, til dæmis tilfinningum, atferli, áhuga, minni og enn fremur lyktarskynjun þar sem lyktarklumbar tilheyra því einnig.

Heimildir og mynd:

...