Í hvaða fæði er fosfór öðru en mjólkuvörum, er ekki nauðsynlegt að fá fosfór úr fæðu?Fosfór (e. phosphorus=P) er frumefni í flokki málmleysingja. Það er mjög algengt í náttúrunni en kemur þó ekki fyrir þar sem hreint efni vegna þess hversu hvarfgjarnt það er. Það finnst aftur á móti bæði í ólífrænum fosfatsteinum og í öllum lifandi frumum þar sem það er hluti af mikilvægum lífrænum sameindum, oftast á formi fosfathóps (PO43-). Fosfór er öllum lífverum nauðsynlegur og gegnir mörgum hlutverkum. Fosfór er eitt frumefnanna í mörgum af nauðsynlegustu lífrænum sameindum, til dæmis í kjarnsýrum eins og erfðaefninu DNA, fosfólípíðum, sérstakri gerð af fituefnum sem mynda meginuppistöðu allra frumuhimna og svo í ATP sem er hinn eini sanni orkumiðill í frumum. Dýr þurfa að fá fosfór úr fæðunni. Fosfór er í flestum fæðutegundum þótt í mismiklum mæli sé eftir tegundum. Til dæmis er magn þess í flestum plöntuafurðum minna en í dýraafurðum og prótínríkum fæðutegundum, en hnetur, fræ og grænmeti eru dæmi um jurtafæði sem getur innihaldið mikinn fosfór. Fosfór í mat er ýmist hluti af náttúrulegum innihaldsefnunum (e. ingredients) og/eða hluti af aukefnum (e. food-additives) sem bætt er í matvæli í ýmsum tilgangi við vinnslu þeirra, til dæmis til að fá fram æskilega eiginleika eins og tiltekinn lit eða tiltekna áferð. Mjólkurvörur eru dæmi um matvörur sem innihalda mikinn fosfór sem innihaldsefni en gosdrykkir, einkum kóladrykkir, eru dæmi um matvöru þar sem fosfórsýra er aukefni til að gera þá súra og frískandi.

Fosfór finnst í flestum fæðutegundum. Magnið er yfirleitt meira í afurðum úr dýraríkinu en jurtaríkinu.
- Phosphorus | Linus Pauling Institute | Oregon State University.
- Phosphorus - Wikipedia, the free encyclopedia.
- Top 10 Foods Highest in Phosphorus.
- Phosphorus: Essential Nutrition for All Body Cells - For Dummies.
- Fosfór - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið.
- Mynd: Top 15 Foods High in Phosphorus. (Sótt 18. 4. 2016).