Hvað er sjúkdómurinn gula? Hvernig smitast maður af honum?Gula (e. jaundice) dregur nafn sitt af því að húð, slímhúðir og augnhvíta verða gulleit. Strangt til tekið er gula ekki sjúkdómur heldur greinilegt merki um að sjúkdómur er að þróast. Gula stafar af hækkun á styrk gallrauða (e. bilirubin) í blóði (e. hyperbilirubinemia) og sést sem einkenni þegar blóðstyrkur gallrauða er kominn yfir 2,5 mg/dl. Til samanburðar er styrkur gallrauða í blóði oftast undir 1,2 mg/dl. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að fullorðnir fá gulu og eru sumar þeirra alvarlegar og geta jafnvel reynst lífshættulegar. Gallrauði er úrgangsefni sem líkaminn þarf að losna við (þveita). Hann er myndaður úr blóðrauða (e. hemoglobin), sameind í rauðkornum sem flytur súrefni um líkamann og gefur blóðinu lit sinn. Rauðkorn endast í um 120 daga og að þeim tíma loknum, eða fyrr ef þau verða fyrir skaða, eru frumuhimnur þeirra orðnar mjög viðkvæmar og slitna og rofna þá auðveldlega. Efni í umfrymi rauðkorna, þar á meðal blóðrauði, leka þá út í blóðið. Átfrumur (e. phagocytes) í blóði sundra sameindinni í glóbínhluta (prótín úr amínósýrum) og hemhluta sem inniheldur járn. Hemhlutinn er ummyndaður í gallrauða sem berst svo til lifrar þar sem honum er breytt í vatnsleysanlegra form í galli sem er þveitt í gallblöðruna og geymt í henni þar til það er losað út í skeifugörnina, efsta hluta smáþarma. Gallsölt í galli taka þátt í fitumeltingu og berst gall síðan með fæðumaukinu niður eftir meltingarveginum þar sem gallrauði á þátt í að lita hægðir sem við losum okkur við um lokastöð meltingarvegarins, endaþarmsopið. Við gulu hefur orðið truflun á eðlilegum efnaskiptum eða þveiti gallrauða sem fer fram á mismunandi stigum á mismunandi stöðum. Því er þægilegt að flokka orsakir gulu á grundvelli þess hvar truflunin verður. Oftast er flokkað í orsakir sem verða:
- áður en gallrauða er seytt til lifrar (e. pre-hepatic)
- vegna truflana í lifur (e. hepatic)
- eftir að galli er seytt frá lifur (e. post-hepatic).
- malaría
- arfgengir blóðsjúkdómar sem lýsa sér allir í óeðlilegri lögun rauðkorna sem endast óvenjustuttan tíma, svo sem sigðkornablóðleysi, hnattrauðkornakvilli (e. spherocytosis) og marblæði (e. thalassemia)
- skortur á ensíminu glúkósa-6-fosfat dehýdrógenasa
- lyf eða eiturefni
- sjálfsofnæmissjúkdómar
- bráð eða þrálát lifrarbólga
- skorpulifur
- lyf eða eiturefni
- Crigler-Najjar-heilkenni
- sjálfsofnæmissjúkdómar
- Gilbertheilkenni
- lifrarkrabbamein
- gallsteinar
- krabbamein í briskirtli, gallblöðru og gallgöngum
- þrengingar í gallgöngum
- gallblöðrubólga
- brisbólga
- sníkjudýr, til dæmis lifrarögður
- Bilirubin - WebMD. (Skoðað 7. 6. 2016).
- Jaundice in Adults: Get the Facts on Signs and Symptoms - MedicineNet.com. (Skoðað 7. 6. 2016).
- Bilirubin - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 7. 6. 2016).
- Jaundice - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 7. 6. 2016).
- Mynd: Jaundice08.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 8. 6. 2016).