Sólin Sólin Rís 03:33 • sest 23:32 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:38 • Sest 00:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:35 • Síðdegis: 22:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:26 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:33 • sest 23:32 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:38 • Sest 00:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:35 • Síðdegis: 22:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:26 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er annar hluti Almannagjár virkilega Norður-Ameríkuflekinn og hinn Evrasíuflekinn?

Snæbjörn Guðmundsson

Jarðskorpa jarðar skiptist upp í fjölda brota, sem kallaðir eru jarðskorpuflekar. Nokkrir þeirra eru gríðarstórir og ná jafnvel yfir heilu heimsálfurnar. Þannig liggur heimsálfan Norður-Ameríka á Norður-Ameríkuflekanum en Evrópa og Asía eru saman á hinum víðáttumikla Evrasíufleka.

Jarðskorpuflekar jarðar mætast á flekaskilum sem eru í grófum dráttum þrenns konar, flokkuð eftir hreyfingu flekanna við flekaskilin. Fyrst má nefna flekaskil þar sem tveir jarðskorpuflekar færast saman og þrýstast þannig upp á móti hvor öðrum, og er talað um samrek á slíkum flekaskilum. Á samreksflekaskilum myndast bæði fellingafjöll og djúprennur. Næst má nefna flekaskil þar sem jarðskorpuflekar færast meðfram hvor öðrum og er þar talað um hjárek. San Andreas sprungan í Kaliforníu liggur á slíku belti. Að lokum eru svo flekaskil þar sem tveir jarðskorpuflekar færast í sundur hvor frá öðrum og kallast það frárek. Sú tegund flekaskila finnst yfirleitt aðeins á miklu dýpi í úthöfum jarðar, á hinum svo kölluðu úthafshryggjum. Um mitt Atlantshafið liggur Atlantshafshryggurinn og situr Ísland á norðurhluta hans. Á Íslandi eru því flekaskil Norður-Ameríkuflekans annars vegar og Evrasíuflekans hins vegar, og færast flekarnir í sundur um tæpa tvo sentimetra á ári.

Margir telja að á Þingvöllum megi sjá flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans en svo er raunar alls ekki. Á Þingvöllum má sjá flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Hreppaflekans, en Evrasíuflekinn er hins vegar töluvert lengra til austurs og ekki hluti af Þingvalladældinni.

Nokkurs misskilnings hefur stundum gætt um flekaskilin á Þingvöllum. Margir eða jafnvel flestir ganga til að mynda út frá því að á Þingvöllum megi sjá flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans en svo er raunar alls ekki. Flekaskilin á Íslandi eru nokkuð flókin, sérstaklega á sunnanverðu landinu því þar eru skilin á milli stóru jarðskorpuflekanna tveggja tvískipt. Þannig liggja flekaskilin annars vegar um svo kallað vesturgosbelti, frá Henglinum norður í gegnum Þingvelli upp í Langjökul og þaðan þvert um Hofsjökul yfir að austurgosbeltinu. Hins vegar eru flekaskil um þverbrotabelti sunnanlands, þar sem stærstu Suðurlandsskjálftarnir verða, og liggja flekaskilin þar yfir að austurgosbeltinu í Torfajökli, þaðan sem rekbeltið liggur áfram norður í land. Það sem flækir myndina enn frekar er mismikil gliðnun á rekbeltunum tveimur á suðurhluta landsins. Austurgosbeltið er þannig miklu mikilvirkara heldur en vesturgosbeltið og er gliðnunin 14-18 mm á ári á austurgosbeltinu, og eykst eftir því sem farið er lengra til norðurs. Gliðnunin á vesturgosbeltinu er hins vegar aðeins um 1-5 mm á ári, mest syðst við Hengilinn en minnkar til norðurs. Jarðskjálfta á Íslandi og flekaskilin má sjá á meðfylgjandi kortum.

Yfirlitskort sem sýnir staðsetningu jarðskjálfta á Íslandi í gögnum Veðurstofunnar yfir 20 ára tímabil, frá 1995 til 2014. Á kortinu sést vel hvernig jarðskjálftar dreifast eftir flekaskilunum, svo nánast má draga línu eftir þeim. Stórar megineldstöðvar eru einnig þekkt upptakasvæði jarðskjálfta og eru nokkrar af þeim helstu merktar inn á kortið.

Sama kort og að ofan, en flekaskilin hafa verið dregin inn á kortið og sýnir þykkt línunnar hinn mismikla hraða gliðnunarinnar á flekaskilunum. Mesta gliðnunin á suðurhluta landsins er á austurgosbeltinu milli Torfajökuls og Vatnajökuls á meðan gliðnunin er miklu minni á vestugosbeltinu frá Hengli norður í Langjökul. Heiti jarðskorpuflekanna eru merkt inn á kortið auk örva sem gefa til kynna rekstefnu flekanna.

Á milli þessara flekaskila verður þannig til lítill jarðskorpubútur sem afmarkast af Suðurlandsbrotabeltinu í suðri, vesturgosbeltinu í vestri, Hofsjökulseldstöðvakerfinu í norðri og eystra gosbeltinu í austri. Þessi bútur tilheyrir hvorki Norður-Ameríkuflekanum né Evrasíuflekanum heldur er litið á hann sem sjálfstæðan jarðskorpufleka, nokkurs konar míkróplötu eða örfleka. Þessi fleki hefur verið nefndur Hreppaflekinn og hreyfist hann sjálfstætt miðað við stóru flekana sitt hvoru megin. Á Þingvöllum má því með réttu sjá flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Hreppaflekans, en Evrasíuflekinn er hins vegar töluvert lengra til austurs og ekki hluti af Þingvalladældinni. Auðvelt er hins vegar að fara um flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans, til að mynda bæði á Reykjanesi og á svæðinu norður af Vatnajökli.

Annað atriði tengt flekaskilunum á Þingvöllum, sem stundum gætir misskilnings um, er hvar nákvæmlega flekaskilin liggja. Svarið er að flekaskilin eru ekki mjó lína heldur nokkuð breitt svæði. Við Almannagjá vestan megin Þingvallavatns má sjá nokkurs konar brún Norður-Ameríkuflekans, en samsvarandi brún Hreppaflekans er hinum megin vatnsins og er Hrafnagjá helsta gjáin þeim megin. Á milli þessara tveggja gjáa er um fimm kílómetra breitt svæði, sem ekki er hægt að segja að tilheyri öðrum flekanum frekar en hinum. En myndin er jafnvel ekki svo einföld, því ef horft er á landið í stærra samhengi má sjá stórgerð misgengi í landinu sitt hvoru megin við Þingvallasvæðið. Kristján Sæmundsson, sem ritað hefur mikið um jarðfræði Þingvallasvæðisins, bendir á að misgengi í austurhlíðum Botnssúla og við vestanvert Laugarvatnsfjall myndi ystu brúnir Þingvallasigdældarinnar og sýnir það enn frekar að flekabrúnirnar eru alls ekki afmarkaðar línur heldur breið svæði.

Kort:
  • Snæbjörn Guðmundsson.

Mynd:

Höfundur

Snæbjörn Guðmundsson

jarðfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands

Útgáfudagur

12.6.2015

Síðast uppfært

25.9.2020

Spyrjandi

Bjarki, Steinunn Atladóttir

Tilvísun

Snæbjörn Guðmundsson. „Er annar hluti Almannagjár virkilega Norður-Ameríkuflekinn og hinn Evrasíuflekinn?“ Vísindavefurinn, 12. júní 2015, sótt 12. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=69081.

Snæbjörn Guðmundsson. (2015, 12. júní). Er annar hluti Almannagjár virkilega Norður-Ameríkuflekinn og hinn Evrasíuflekinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=69081

Snæbjörn Guðmundsson. „Er annar hluti Almannagjár virkilega Norður-Ameríkuflekinn og hinn Evrasíuflekinn?“ Vísindavefurinn. 12. jún. 2015. Vefsíða. 12. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=69081>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er annar hluti Almannagjár virkilega Norður-Ameríkuflekinn og hinn Evrasíuflekinn?
Jarðskorpa jarðar skiptist upp í fjölda brota, sem kallaðir eru jarðskorpuflekar. Nokkrir þeirra eru gríðarstórir og ná jafnvel yfir heilu heimsálfurnar. Þannig liggur heimsálfan Norður-Ameríka á Norður-Ameríkuflekanum en Evrópa og Asía eru saman á hinum víðáttumikla Evrasíufleka.

Jarðskorpuflekar jarðar mætast á flekaskilum sem eru í grófum dráttum þrenns konar, flokkuð eftir hreyfingu flekanna við flekaskilin. Fyrst má nefna flekaskil þar sem tveir jarðskorpuflekar færast saman og þrýstast þannig upp á móti hvor öðrum, og er talað um samrek á slíkum flekaskilum. Á samreksflekaskilum myndast bæði fellingafjöll og djúprennur. Næst má nefna flekaskil þar sem jarðskorpuflekar færast meðfram hvor öðrum og er þar talað um hjárek. San Andreas sprungan í Kaliforníu liggur á slíku belti. Að lokum eru svo flekaskil þar sem tveir jarðskorpuflekar færast í sundur hvor frá öðrum og kallast það frárek. Sú tegund flekaskila finnst yfirleitt aðeins á miklu dýpi í úthöfum jarðar, á hinum svo kölluðu úthafshryggjum. Um mitt Atlantshafið liggur Atlantshafshryggurinn og situr Ísland á norðurhluta hans. Á Íslandi eru því flekaskil Norður-Ameríkuflekans annars vegar og Evrasíuflekans hins vegar, og færast flekarnir í sundur um tæpa tvo sentimetra á ári.

Margir telja að á Þingvöllum megi sjá flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans en svo er raunar alls ekki. Á Þingvöllum má sjá flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Hreppaflekans, en Evrasíuflekinn er hins vegar töluvert lengra til austurs og ekki hluti af Þingvalladældinni.

Nokkurs misskilnings hefur stundum gætt um flekaskilin á Þingvöllum. Margir eða jafnvel flestir ganga til að mynda út frá því að á Þingvöllum megi sjá flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans en svo er raunar alls ekki. Flekaskilin á Íslandi eru nokkuð flókin, sérstaklega á sunnanverðu landinu því þar eru skilin á milli stóru jarðskorpuflekanna tveggja tvískipt. Þannig liggja flekaskilin annars vegar um svo kallað vesturgosbelti, frá Henglinum norður í gegnum Þingvelli upp í Langjökul og þaðan þvert um Hofsjökul yfir að austurgosbeltinu. Hins vegar eru flekaskil um þverbrotabelti sunnanlands, þar sem stærstu Suðurlandsskjálftarnir verða, og liggja flekaskilin þar yfir að austurgosbeltinu í Torfajökli, þaðan sem rekbeltið liggur áfram norður í land. Það sem flækir myndina enn frekar er mismikil gliðnun á rekbeltunum tveimur á suðurhluta landsins. Austurgosbeltið er þannig miklu mikilvirkara heldur en vesturgosbeltið og er gliðnunin 14-18 mm á ári á austurgosbeltinu, og eykst eftir því sem farið er lengra til norðurs. Gliðnunin á vesturgosbeltinu er hins vegar aðeins um 1-5 mm á ári, mest syðst við Hengilinn en minnkar til norðurs. Jarðskjálfta á Íslandi og flekaskilin má sjá á meðfylgjandi kortum.

Yfirlitskort sem sýnir staðsetningu jarðskjálfta á Íslandi í gögnum Veðurstofunnar yfir 20 ára tímabil, frá 1995 til 2014. Á kortinu sést vel hvernig jarðskjálftar dreifast eftir flekaskilunum, svo nánast má draga línu eftir þeim. Stórar megineldstöðvar eru einnig þekkt upptakasvæði jarðskjálfta og eru nokkrar af þeim helstu merktar inn á kortið.

Sama kort og að ofan, en flekaskilin hafa verið dregin inn á kortið og sýnir þykkt línunnar hinn mismikla hraða gliðnunarinnar á flekaskilunum. Mesta gliðnunin á suðurhluta landsins er á austurgosbeltinu milli Torfajökuls og Vatnajökuls á meðan gliðnunin er miklu minni á vestugosbeltinu frá Hengli norður í Langjökul. Heiti jarðskorpuflekanna eru merkt inn á kortið auk örva sem gefa til kynna rekstefnu flekanna.

Á milli þessara flekaskila verður þannig til lítill jarðskorpubútur sem afmarkast af Suðurlandsbrotabeltinu í suðri, vesturgosbeltinu í vestri, Hofsjökulseldstöðvakerfinu í norðri og eystra gosbeltinu í austri. Þessi bútur tilheyrir hvorki Norður-Ameríkuflekanum né Evrasíuflekanum heldur er litið á hann sem sjálfstæðan jarðskorpufleka, nokkurs konar míkróplötu eða örfleka. Þessi fleki hefur verið nefndur Hreppaflekinn og hreyfist hann sjálfstætt miðað við stóru flekana sitt hvoru megin. Á Þingvöllum má því með réttu sjá flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Hreppaflekans, en Evrasíuflekinn er hins vegar töluvert lengra til austurs og ekki hluti af Þingvalladældinni. Auðvelt er hins vegar að fara um flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans, til að mynda bæði á Reykjanesi og á svæðinu norður af Vatnajökli.

Annað atriði tengt flekaskilunum á Þingvöllum, sem stundum gætir misskilnings um, er hvar nákvæmlega flekaskilin liggja. Svarið er að flekaskilin eru ekki mjó lína heldur nokkuð breitt svæði. Við Almannagjá vestan megin Þingvallavatns má sjá nokkurs konar brún Norður-Ameríkuflekans, en samsvarandi brún Hreppaflekans er hinum megin vatnsins og er Hrafnagjá helsta gjáin þeim megin. Á milli þessara tveggja gjáa er um fimm kílómetra breitt svæði, sem ekki er hægt að segja að tilheyri öðrum flekanum frekar en hinum. En myndin er jafnvel ekki svo einföld, því ef horft er á landið í stærra samhengi má sjá stórgerð misgengi í landinu sitt hvoru megin við Þingvallasvæðið. Kristján Sæmundsson, sem ritað hefur mikið um jarðfræði Þingvallasvæðisins, bendir á að misgengi í austurhlíðum Botnssúla og við vestanvert Laugarvatnsfjall myndi ystu brúnir Þingvallasigdældarinnar og sýnir það enn frekar að flekabrúnirnar eru alls ekki afmarkaðar línur heldur breið svæði.

Kort:
  • Snæbjörn Guðmundsson.

Mynd:

...