Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Er munur á góðri og skemmtilegri tónlist?

Arnar Eggert Thoroddsen

Höfundur þessa svars er mikill aðdáandi Bítlanna. Besta plata þeirra að hans mati er meistaraverkið Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band (1967). Plata sem breytti tónlistarlandslaginu á sínum tíma og er krúnudjásn sveitarinnar, verk sem verður ekki toppað, hvorki af Bítlum né öðrum. En höfundur á líka uppáhalds Bítlaplötu, sem er ekki sama plata. Það er hún sem stendur hjarta hans næst, þegar allt kemur til alls. Þetta er samnefnd plata sveitarinnar, The Beatles, sem út kom ári síðar, oftast kölluð Hvíta platan. Hún er góð, fjölbreytt, skemmtileg og algert þrekvirki. Hún skákar ekki fyrrnefndu plötunni hvað menningarlegt skurk varðar en engu að síður myndi höfundur taka Hvítu plötuna með sér á eyðieyju, fremur en Sgt. Pepper, væri hann tilneyddur.

Ein áhrifamesta plata rokksögunnar er <em>Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band</em> með Bítlunum (1967). Hvort er hún góð eða skemmtileg? Getur hún verið þetta tvennt – eða ekki?

Þetta dæmi sýnir okkur, að það er munur á góðri tónlist og skemmtilegri. Eitt útilokar að vísu ekki annað, en það sem er gott, þarf ekki nauðsynlega að vera skemmtilegt og ekki eru skemmtilegir hlutir endilega góðir. Og það sem manni finnst best þarf ekki endilega að vera það sem manni finnst vænst um. En hver er munurinn á „gæðum“ og „skemmtilegheitum“ og hvað ræður eiginlega tónlistarsmekki fólks?

Orðið gott („good“ á ensku) er ansi víðfemt merkingarlega séð, en orðið vísar til gæða, einhvers sem styrkir fólk og fyllir líf þess tilgangi og velsæld. Heimspekingar og siðfræðingar hafa glímt við hugtakið árþúsundum saman. Orðið skemmtilegt („fun“ á ensku) stendur ekki langt frá „gott“, en munurinn er að það felur í sér afþreyingu, jafnvel græskuleysi, nokkurs konar upplyftingu frá þungum niði hversdagsins og þeim skyldum sem við þurfum að framfylgja, eins „góðar“ og gegnar og þær kunna að vera. Munurinn á þessu tvennur er býsna djúpstæður. Ekki þarf að leita lengra en til eins af grundvallarritum Max Weber, eins mikilhæfasta frumkvöðuls félagsfræðanna, en í ritinu Siðfræði mótmælenda og andi auðhyggjunnar (Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus) (1905) er morgunljóst að eitthvað „skemmtilegt“ er beinlínis af hinu illa á meðan að eitthvað „gott“ vísar rækilega til þess hvernig Guði almáttugum er best þjónað.

Hvað tónlistina áhærir er mikilvægt að líta til tvískiptingarinnar sem litar tónlistarmenningu Vesturlanda, það er klassísk tónlist annars vegar og dægurtónlist (popp og rokk) hins vegar. Þessi skipting, sem er síst eitthvað náttúrulögmál og hefur breyst og hliðrast til í tíma, gerir ráð fyrir því að sígild tónlist, það er skrifuð tónlist, leikin af menntuðu tónlistarfólki sé góð, eða hafi að minnsta kosti burði til að að vera það. Tónlistinni sé ætlað að lyfta andanum upp og næra sálina. Dægurtónlistin hins vegar sé fyrst og síðast ætluð til afþreyingar og skemmtunar. Listrænt gildi hennar sé því lítið, hún sé þannig í eðli sínu ómerkilegri og tilheyri í raun iðnaði sem höfði til lægstu hvata. Hún er því í eðli sínu ekki „góð“ og getur í raun aldrei orðið það.

Ekkja og eiginkona djassrisans John Coltrane hefur verið mikið lofuð að undanförnu fyrir djúphugula tónlist sína. Hún þykir afar „góð“ en gæti hún talist „skemmtileg“ líka?

Theodor Adorno, einn helsti fræðimaður Frankfurtarskólans svokallaða, hélt þessu sjónarmiði í garð poppsins hátt á lofti um miðja síðustu öld. Adorno var marxisti og í hans huga var (og er) popptónlist fyrst og fremst tæki hinna ráðandi stétta til að halda lýðnum undirokuðum. Hún sé í raun einslags svefnlyf, sem heldur fólki í móki og kemur þar með í veg fyrir að það hugsi. Skemmtilegheitin sem í henni felist hafi það beinlínis að markmiði að afvegaleiða okkur. Adorno beindi spjótum sínum að Ameríku, sem gekk einna lengst í að staðla popptónlist að hans mati, með fyrrgreindum afleiðingum fyrir hlustendur. „Alvarleg“ tónlist, eins og Adorno kallaði hana, væri hins vegar laus við þessa meðvituðu yfirborðskennd og iðnvæðingu. Innra samhengi klassískra verka væri með þeim hætti, að allt lyti þar ákveðnum tónlistarlegum tilgangi, á meðan hlutar og uppbygging popplaganna (vers, viðlag, vers, viðlag, viðlag og svo framvegis) væri með þeim hætti, að í raun skipti engu hvort að þetta viðlag væri í þessu lagi eða öðru. Adorno setti þessar hugleiðingar sínar niður í seinni heimsstyrjöld, og hafa þær verið gagnrýndar, þó að margt sé enn nýtilegt í þeim.

Franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu er með allra áhrifamestu fræðimönnum þess sviðs. Kenningar hans gengu út á að greina samfélög og skýra hvernig formgerðum innan þeirra er viðhaldið. Hvernig félagsleg staða fólks og stéttaskipting skilyrðir samskipti þeirra og þann menningarheim sem umlykur það. Á sjöunda áratugnum rannsakaði hann menningarheim Frakklands (rannsóknirnar voru skrifaðar upp í bókinni La Distinction: Une critique sociale du goût) og komst að því að ráðandi stéttir hafa skilgreiningarvald sem snýr meðal annars að tónlist. Með öðrum orðum, valdastéttin ákveður hvað er góð tónlist og hvað ekki, eitthvað sem lægri stéttir gangast svo undir sem „sannleika“. Þetta skýrir meðal annars af hverju flestir ganga að því sem vísu að Beethoven sé alvöru list á meðan Rihanna er léttvæg fundin. Samkvæmt Bourdieu og félagsfræðilega skilninginum er ekkert í tónlistinni sjálfri sem gerir hana góða eða slæma, heldur er það dómur ráðandi stétta hverju sinni sem sker úr um slíkt. Bourdieu sagði til dæmis smekk yfirstéttarinnar einkennast af áherslu á mikilvægi fagurfræða og stíls, sem væri þá í andstæðu við smekk þeirra sem teldust innan alþýðustéttar. Þar einkenndist smekkurinn af notagildi og hagnýti. Þessi kenning Bourdieu telst sígild, en ýmsir hlutar hennar hafa þó komist á skrið á undanförnum árum, einfaldlega vegna breyttrar samfélagsskipunar. Í dag er ekki jafn skýrt að þeir ríku hlusti bara á klassík og verkamennirnir popp; „stefnurnar“ ganga bæði upp samfélagsstigann og niður.

Franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu færði rök fyrir því að tónlistarsmekkur fólks væri fyrst og síðast runnin frá þeim samfélagshópum sem það tilheyrir.

Annar félagsfræðingur, hinn breski Simon Frith, hefur meðal annars rætt um gildi „slæmrar“ tónlistar, að hún setji það sem er gott í skýrara samhengi, því að smekkur og gildismat byggir venjulega á samanburði. Þessi plata er betri en þessi en verri en hin. Fagurfræðilegt mat á tónlist er hins vegar æði flókið. Það er hægt að skemmta sér yfir lélegri tónlist (og góðri að sjálfsögðu), það er hægt að sjá gildi í „slæmri“ tónlist alveg eins og í þeirri sem samþykkt er og svo framvegis. Í meðförum Frith verður munurinn á skemmtilegri tónlist og góðri jafnvel enn óskýrari en hingað til!

Við höfum einbeitt okkur að skýringum félagsfræðanna hvað upprunalegu spurninguna varðar. Ég vil hins vegar ljúka svarinu á því að fara aftur um nokkrar aldir og líta til tímamótaritgerðar skoska heimspekingsins David Hume, Of the Standard of Taste (1757). Hume segir í stuttu máli að í raun sé ekki hægt að útbúa reglur um hvað telst gott og hvað ekki, hvað telst góður smekkur og hvað ekki. Hann sættir sig hins vegar ekki við það, því að hvað er það þá sem aðgreinir góða list frá slæmri? Því að við erum öll sammála um að það séu til góð listaverk og slæm. Hume trúir því þess vegna að sumt sé sannarlega betra en eitthvað annað. Hann fellst síðan á það að smekksdómar séu huglægir og byggist á reynslu. Þeir lýsa tilfinningalegri afstöðu einstaklingsins en ekki raunverulegum eiginleikum hluta. Fegurðin býr ekki í hlutunum, heldur í eyrum þeirra sem á hlýða. Þessi niðurstaða er ekki fjarri þeirri sem Bourdieu tiltekur rúmlega 200 árum síðar, þó að forsendur séu ekki alveg með sama sniði. Hume telur einnig að fólk geti orðið sammála um að sum verk séu fallegri en önnur og að reynslan/sagan, sýni að sum verk búi yfir meira fegurðargildi en önnur. Spurning hvað Hume myndi segja um Bítlana, en tónlist þeirra hefur á vissan hátt „sannað“ sig. Hume tekur líka upp hanskann fyrir okkur gagnrýnendur, að vaskir meðlimir úr þeim hópi eigi að geta metið fegurð og ljótleika, að því gefnu að þeir séu hlutlausir, skynsamir, fordómalausir – og reynsluríkir.

Hinn mikli hugsuður og upplýsingaraldarmaður, David Hume, skrifaði ritgerð árið 1757, þar sem hann reyndi að komast til botns í því, hvað það er sem mótar smekk manna.

Kenning Hume hefur hins vegar legið undir ámæli um margt, eins og flest það sem ég hef tiltekið. En er þá einhver munur á góðri tónlist og skemmtilegri tónlist? Að því sem fram hefur komið er svarið já, undir vissum kringumstæðum og nei, undir öðrum kringumstæðum.

Heimildir og ítarefni
  • Adorno, Theodor W. 2001. Essays on Music. Richard Leppert (ed.) Berkeley: University of California Press, 2002.
  • Bourdieu, Pierre. 1979. Distinction: a social critique of the judgement of taste. London: Routledge & Kegan Paul.
  • Frith, Simon. 1996. Performing rites: on the value of popular music. Cambridge, Mass: Harvard University Press.
  • Hume, David, and John W. Lenz. 1964. Of the standard of taste and other essays. Indianapolis: Bobbs-Merrill Co.
  • Washburne, Christopher, and Maiken Derno. 2004. Bad music: The music we love to hate. New York: Routledge.
  • Weber, Max. 1958. The Protestant Ethic and the Spirit of Capitalism. New York: Scribner.

Myndir:

Höfundur

Arnar Eggert Thoroddsen

aðjúnkt á Félagsvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

17.5.2019

Spyrjandi

Ásþór Loki Rúnarsson

Tilvísun

Arnar Eggert Thoroddsen. „Er munur á góðri og skemmtilegri tónlist?“ Vísindavefurinn, 17. maí 2019. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69242.

Arnar Eggert Thoroddsen. (2019, 17. maí). Er munur á góðri og skemmtilegri tónlist? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69242

Arnar Eggert Thoroddsen. „Er munur á góðri og skemmtilegri tónlist?“ Vísindavefurinn. 17. maí. 2019. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69242>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er munur á góðri og skemmtilegri tónlist?
Höfundur þessa svars er mikill aðdáandi Bítlanna. Besta plata þeirra að hans mati er meistaraverkið Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band (1967). Plata sem breytti tónlistarlandslaginu á sínum tíma og er krúnudjásn sveitarinnar, verk sem verður ekki toppað, hvorki af Bítlum né öðrum. En höfundur á líka uppáhalds Bítlaplötu, sem er ekki sama plata. Það er hún sem stendur hjarta hans næst, þegar allt kemur til alls. Þetta er samnefnd plata sveitarinnar, The Beatles, sem út kom ári síðar, oftast kölluð Hvíta platan. Hún er góð, fjölbreytt, skemmtileg og algert þrekvirki. Hún skákar ekki fyrrnefndu plötunni hvað menningarlegt skurk varðar en engu að síður myndi höfundur taka Hvítu plötuna með sér á eyðieyju, fremur en Sgt. Pepper, væri hann tilneyddur.

Ein áhrifamesta plata rokksögunnar er <em>Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band</em> með Bítlunum (1967). Hvort er hún góð eða skemmtileg? Getur hún verið þetta tvennt – eða ekki?

Þetta dæmi sýnir okkur, að það er munur á góðri tónlist og skemmtilegri. Eitt útilokar að vísu ekki annað, en það sem er gott, þarf ekki nauðsynlega að vera skemmtilegt og ekki eru skemmtilegir hlutir endilega góðir. Og það sem manni finnst best þarf ekki endilega að vera það sem manni finnst vænst um. En hver er munurinn á „gæðum“ og „skemmtilegheitum“ og hvað ræður eiginlega tónlistarsmekki fólks?

Orðið gott („good“ á ensku) er ansi víðfemt merkingarlega séð, en orðið vísar til gæða, einhvers sem styrkir fólk og fyllir líf þess tilgangi og velsæld. Heimspekingar og siðfræðingar hafa glímt við hugtakið árþúsundum saman. Orðið skemmtilegt („fun“ á ensku) stendur ekki langt frá „gott“, en munurinn er að það felur í sér afþreyingu, jafnvel græskuleysi, nokkurs konar upplyftingu frá þungum niði hversdagsins og þeim skyldum sem við þurfum að framfylgja, eins „góðar“ og gegnar og þær kunna að vera. Munurinn á þessu tvennur er býsna djúpstæður. Ekki þarf að leita lengra en til eins af grundvallarritum Max Weber, eins mikilhæfasta frumkvöðuls félagsfræðanna, en í ritinu Siðfræði mótmælenda og andi auðhyggjunnar (Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus) (1905) er morgunljóst að eitthvað „skemmtilegt“ er beinlínis af hinu illa á meðan að eitthvað „gott“ vísar rækilega til þess hvernig Guði almáttugum er best þjónað.

Hvað tónlistina áhærir er mikilvægt að líta til tvískiptingarinnar sem litar tónlistarmenningu Vesturlanda, það er klassísk tónlist annars vegar og dægurtónlist (popp og rokk) hins vegar. Þessi skipting, sem er síst eitthvað náttúrulögmál og hefur breyst og hliðrast til í tíma, gerir ráð fyrir því að sígild tónlist, það er skrifuð tónlist, leikin af menntuðu tónlistarfólki sé góð, eða hafi að minnsta kosti burði til að að vera það. Tónlistinni sé ætlað að lyfta andanum upp og næra sálina. Dægurtónlistin hins vegar sé fyrst og síðast ætluð til afþreyingar og skemmtunar. Listrænt gildi hennar sé því lítið, hún sé þannig í eðli sínu ómerkilegri og tilheyri í raun iðnaði sem höfði til lægstu hvata. Hún er því í eðli sínu ekki „góð“ og getur í raun aldrei orðið það.

Ekkja og eiginkona djassrisans John Coltrane hefur verið mikið lofuð að undanförnu fyrir djúphugula tónlist sína. Hún þykir afar „góð“ en gæti hún talist „skemmtileg“ líka?

Theodor Adorno, einn helsti fræðimaður Frankfurtarskólans svokallaða, hélt þessu sjónarmiði í garð poppsins hátt á lofti um miðja síðustu öld. Adorno var marxisti og í hans huga var (og er) popptónlist fyrst og fremst tæki hinna ráðandi stétta til að halda lýðnum undirokuðum. Hún sé í raun einslags svefnlyf, sem heldur fólki í móki og kemur þar með í veg fyrir að það hugsi. Skemmtilegheitin sem í henni felist hafi það beinlínis að markmiði að afvegaleiða okkur. Adorno beindi spjótum sínum að Ameríku, sem gekk einna lengst í að staðla popptónlist að hans mati, með fyrrgreindum afleiðingum fyrir hlustendur. „Alvarleg“ tónlist, eins og Adorno kallaði hana, væri hins vegar laus við þessa meðvituðu yfirborðskennd og iðnvæðingu. Innra samhengi klassískra verka væri með þeim hætti, að allt lyti þar ákveðnum tónlistarlegum tilgangi, á meðan hlutar og uppbygging popplaganna (vers, viðlag, vers, viðlag, viðlag og svo framvegis) væri með þeim hætti, að í raun skipti engu hvort að þetta viðlag væri í þessu lagi eða öðru. Adorno setti þessar hugleiðingar sínar niður í seinni heimsstyrjöld, og hafa þær verið gagnrýndar, þó að margt sé enn nýtilegt í þeim.

Franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu er með allra áhrifamestu fræðimönnum þess sviðs. Kenningar hans gengu út á að greina samfélög og skýra hvernig formgerðum innan þeirra er viðhaldið. Hvernig félagsleg staða fólks og stéttaskipting skilyrðir samskipti þeirra og þann menningarheim sem umlykur það. Á sjöunda áratugnum rannsakaði hann menningarheim Frakklands (rannsóknirnar voru skrifaðar upp í bókinni La Distinction: Une critique sociale du goût) og komst að því að ráðandi stéttir hafa skilgreiningarvald sem snýr meðal annars að tónlist. Með öðrum orðum, valdastéttin ákveður hvað er góð tónlist og hvað ekki, eitthvað sem lægri stéttir gangast svo undir sem „sannleika“. Þetta skýrir meðal annars af hverju flestir ganga að því sem vísu að Beethoven sé alvöru list á meðan Rihanna er léttvæg fundin. Samkvæmt Bourdieu og félagsfræðilega skilninginum er ekkert í tónlistinni sjálfri sem gerir hana góða eða slæma, heldur er það dómur ráðandi stétta hverju sinni sem sker úr um slíkt. Bourdieu sagði til dæmis smekk yfirstéttarinnar einkennast af áherslu á mikilvægi fagurfræða og stíls, sem væri þá í andstæðu við smekk þeirra sem teldust innan alþýðustéttar. Þar einkenndist smekkurinn af notagildi og hagnýti. Þessi kenning Bourdieu telst sígild, en ýmsir hlutar hennar hafa þó komist á skrið á undanförnum árum, einfaldlega vegna breyttrar samfélagsskipunar. Í dag er ekki jafn skýrt að þeir ríku hlusti bara á klassík og verkamennirnir popp; „stefnurnar“ ganga bæði upp samfélagsstigann og niður.

Franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu færði rök fyrir því að tónlistarsmekkur fólks væri fyrst og síðast runnin frá þeim samfélagshópum sem það tilheyrir.

Annar félagsfræðingur, hinn breski Simon Frith, hefur meðal annars rætt um gildi „slæmrar“ tónlistar, að hún setji það sem er gott í skýrara samhengi, því að smekkur og gildismat byggir venjulega á samanburði. Þessi plata er betri en þessi en verri en hin. Fagurfræðilegt mat á tónlist er hins vegar æði flókið. Það er hægt að skemmta sér yfir lélegri tónlist (og góðri að sjálfsögðu), það er hægt að sjá gildi í „slæmri“ tónlist alveg eins og í þeirri sem samþykkt er og svo framvegis. Í meðförum Frith verður munurinn á skemmtilegri tónlist og góðri jafnvel enn óskýrari en hingað til!

Við höfum einbeitt okkur að skýringum félagsfræðanna hvað upprunalegu spurninguna varðar. Ég vil hins vegar ljúka svarinu á því að fara aftur um nokkrar aldir og líta til tímamótaritgerðar skoska heimspekingsins David Hume, Of the Standard of Taste (1757). Hume segir í stuttu máli að í raun sé ekki hægt að útbúa reglur um hvað telst gott og hvað ekki, hvað telst góður smekkur og hvað ekki. Hann sættir sig hins vegar ekki við það, því að hvað er það þá sem aðgreinir góða list frá slæmri? Því að við erum öll sammála um að það séu til góð listaverk og slæm. Hume trúir því þess vegna að sumt sé sannarlega betra en eitthvað annað. Hann fellst síðan á það að smekksdómar séu huglægir og byggist á reynslu. Þeir lýsa tilfinningalegri afstöðu einstaklingsins en ekki raunverulegum eiginleikum hluta. Fegurðin býr ekki í hlutunum, heldur í eyrum þeirra sem á hlýða. Þessi niðurstaða er ekki fjarri þeirri sem Bourdieu tiltekur rúmlega 200 árum síðar, þó að forsendur séu ekki alveg með sama sniði. Hume telur einnig að fólk geti orðið sammála um að sum verk séu fallegri en önnur og að reynslan/sagan, sýni að sum verk búi yfir meira fegurðargildi en önnur. Spurning hvað Hume myndi segja um Bítlana, en tónlist þeirra hefur á vissan hátt „sannað“ sig. Hume tekur líka upp hanskann fyrir okkur gagnrýnendur, að vaskir meðlimir úr þeim hópi eigi að geta metið fegurð og ljótleika, að því gefnu að þeir séu hlutlausir, skynsamir, fordómalausir – og reynsluríkir.

Hinn mikli hugsuður og upplýsingaraldarmaður, David Hume, skrifaði ritgerð árið 1757, þar sem hann reyndi að komast til botns í því, hvað það er sem mótar smekk manna.

Kenning Hume hefur hins vegar legið undir ámæli um margt, eins og flest það sem ég hef tiltekið. En er þá einhver munur á góðri tónlist og skemmtilegri tónlist? Að því sem fram hefur komið er svarið já, undir vissum kringumstæðum og nei, undir öðrum kringumstæðum.

Heimildir og ítarefni
  • Adorno, Theodor W. 2001. Essays on Music. Richard Leppert (ed.) Berkeley: University of California Press, 2002.
  • Bourdieu, Pierre. 1979. Distinction: a social critique of the judgement of taste. London: Routledge & Kegan Paul.
  • Frith, Simon. 1996. Performing rites: on the value of popular music. Cambridge, Mass: Harvard University Press.
  • Hume, David, and John W. Lenz. 1964. Of the standard of taste and other essays. Indianapolis: Bobbs-Merrill Co.
  • Washburne, Christopher, and Maiken Derno. 2004. Bad music: The music we love to hate. New York: Routledge.
  • Weber, Max. 1958. The Protestant Ethic and the Spirit of Capitalism. New York: Scribner.

Myndir:...