Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Allir heilbrigðir einstaklingar verða kynþroska en það er mjög einstaklingsbundið hvenær kynþroski hefst og hvernig hann þróast. Því er varhugavert að bera sig saman við aðra, þótt slíkt sé ofureðlilegt.
Sum heilkenni hafa það hins vegar í för með sér að einstaklingar með þau verða ekki kynþroska eða að minnsta kosti ekki eins og eðlilegt er. Ástæðan fyrir því er kynkirtlavanseyting (e. hypogonadism), sem lýsir sér í því að kynkirtlarnir, eggjastokkar eða eistu, seyta litlu eða engu af kynhormónum. Í kjölfarið gerist það oft að kynfrumur myndast ekki og þar með er viðkomandi einstaklingur ófrjór. Kynkirtlavanseyting getur verið tvenns konar, fyrsta og annars stigs.
Það kallast fyrsta stigs kynkirtlavanseyting þegar kynkirtlarnir sjálfir eru gallaðir og starfa ekki rétt. Orsakir þess geta verið skurðaðgerð, geislun, erfðagallar og þroskunargallar, lifrar- og nýrnasjúkdómar, sýking og ýmsir sjálfsofnæmissjúkdómar.
Algengustu erfðagallarnir sem valda fyrsta stigs kynkirtlavanseytingu eru Turner-heilkenni hjá konum (tíðni þess er eitt tilfelli af hverjum 2.500-10.000 lifandi fæddum börnum í heiminum) og Klinefelter-heilkenni hjá körlum (með tíðnina eitt tilfelli af hverjum 500-1000 lifandi fæddum börnum).
Annars stigs kynkirtlavanseyting er hins vegar vegna galla í miðtaugakerfinu, það er að segja þeim hlutum þess sem stjórna seyti kynkirtlanna, undirstúku og kirtildingli (en svo kallast fremri hluti heiladingulsins). Orsakir slíkrar kynkirtlavanseytingar geta verið æxli, skurðaðgerð, geislun, sýkingar, áföll, blæðingar, næringarefnaskortur (til dæmis vegna lystarstols) og ofurmagn af járni (e. hemochromatism).
Ef kynkirtlavanseyting hjá körlum er fyrsta stigs þá er eitthvað að eistunum sjálfum og þau verða ekki fyrir áhrifum af kynstýrihormónum (LH og FSH) frá kirtildingli (heiladingli). Styrkur kynstýrihormóna í blóði er þá hár vegna þess að eistun taka þau ekki inn með þeim afleiðingum að testósterón í blóði verður lágt. Heilinn nemur þetta lága testósterónmagn og kirtildingull bregst við með því að auka magnið af kynstýrihormónum til að örva eistun betur en allt verður það til einskis. Við annars stigs ástand er eitthvað að stýrikerfinu í heilanum, það er undirstúku eða kirtildingli og myndun kynstýrihormóna frá kirtildingli eða losunarhormóna þeirra (GnRH) er lítil. Eistun fá því ekki rétta örvun.
Erfðagalli sem leiðir til þessarar gerðar af kynkirtlavanseytingu er svonefnt Kallman-heilkenni i körlum. Það einkennist einnig af skertu eða engu lyktarskyni.
Algengasta æxlisgerðin á kirtildingulssvæðinu í börnum sem hefur í för með sér kynkirtlavanseytingu kallast craniopharyngioma, en höfundi er ekki kunnugt um íslenskt heiti hennar. Þessi æxlisgerð er algengust í börnum á aldrinum fimm til tíu ára og veldur ofvirkni kirtildinguls. Hún er þó mjög sjaldgæf eða innan við 5% af heilaæxlum í börnum.
Einkenni kynkirtlavanseytingar í stelpum eru að þær hafa ekki tíðir, brjóst þroskast ekki og þær eru lágvaxnar. Hjá strákum eru einkennin skortur á vöðva- og skeggvexti og almennar vaxtartruflanir. Ef orsök ástandsins er heilaæxli geta höfuðverkur, sjónskerðing eða aðrar hormónatruflanir bæst við einkennin.
Til að greina kynkirtlavanseytingu eru teknar blóðprufur og styrkur kynhormóna (frá kynkirtlum) og stýrikynhormóna (frá kirtildingli) í blóði mældur. Stundum eru kynkirtlar ómskoðaðir og framkvæmd segulómun eða sneiðmyndun heila.
Margar gerðir af kynkirtlavanseytingu má meðhöndla með hormónalyfjum, þótt ekki sé hægt að tala um lækningu. Heilaskurðaðgerðir eru oft gerðar í þeim tilfellum þar sem um æxli er að ræða og ef vel tekst til má segja að lækning fáist.
Þótt hér sé lögð áhersla á kynkirtlavanseytingu í börnum getur hún einnig orðið seinna á ævinni eins og orsakirnar sem taldar eru upp hér að ofan gefa til kynna.
Á Vísindavefnum eru fleiri svör um kynþroska eftir sama höfund:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Verða allar manneskjur kynþroska?“ Vísindavefurinn, 15. janúar 2008, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7004.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2008, 15. janúar). Verða allar manneskjur kynþroska? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7004