Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvenær voru vörður lagðar á Íslandi. Það er furðulega lítið af upplýsingum fáanlegar á netinu um vörður. Og ég er að velta því fyrir mér hversu gamlar elstu vörðunar eru. Hvenær við fórum að leggja þær og bara almennilega sögu tengd þeim.
Aðrar spurningar um vörður:
Vörður eiga sér langa sögu hér á landi, en hvert var táknmál varða?
Var mikið af fjallvegum merkt með vörðum áður en Fjallvegafélagið hóf að varða fjallvegi um 1830? Eru vörður algengar í öðrum löndum?
Vörður munu aldrei taldar til stórvirkja í byggingarlist, en engu að síður eiga þær sér afar langan aldur. Giskað hefur verið á að þær séu meðal þess fyrsta sem fjarlægir forfeður okkar á steinöld tóku sér fyrir hendur í mannvirkjagerð. Síðan hafa menn verið að hlaða vörður á öllum tímum sögunnar og notað þær sem viðmiðun í margvíslegum tilgangi. Á fyrri öldum voru vörður nýttar í nálægum löndum til að merkja leiðir um fjöll og óbyggðir, sýna landamæri og skil á milli bújarða, benda á siglingaleiðir með ströndum fram og til að vísa á fengsæl fiskimið, svo að eitthvað sé nefnt. Þessar venjur við vörðuhleðslu fluttu landnámsmenn með sér hingað, þegar þeir komu siglandi frá Noregi, Bretlandseyjum og víðar að á 9. og 10. öld og settust hér að.
Vörður voru af margvíslegum stærðum og gerðum. Í fyrstu hafa þær verið einfaldar og helst gerðar með þeim hætti að setja einn stein upp á annan og síðan koll af kolli. En brátt hefur mönnum lærst að vanda meira til verksins, raða mörgum steinum saman í þyrpingu, helst hellusteinum, og hlaða síðan hverju steinalaginu ofan á annað, þar til komin var myndarleg varða, jafnvel meira en mannhæðar há. Slíkar vandlega hlaðnar vörður gátu staðið um tugi ára, án þess að haggast, og jafnvel öld fram af öld, svo sem dæmin sanna.
Það hefur þekkst í aldir og árþúsundir að hlaða vörður (e. crain) í einhverjum tilgangi og nær sá siður til allra heimsálfa. Þessi myndarlega varða er á toppi fjallsins High Spy í Vatnahéraðinu á Englandi.
Það má eiginlega slá því föstu að vörðuhleðsla sé nokkuð jafngömul mannabyggð í landinu. Frásagnir af hálendisferðum manna ná aftur til landnámsaldar og fyrsti nafngetni fjallvegurinn var Kjalvegur sem er leiðin frá Norðurlandi til Suðurlands, milli Hofsjökuls og Langjökuls. Í þessum sögum er þess getið að landkönnuðirnir merktu leiðir sínar með því að hlaða vörður. Elstu heimild um mannaferðir á Sprengisandsleið er að finna í Njálu. Ekki er þó getið um vörður, en gera má ráð fyrir að snemma hafi slík leiðarmerki komið til þar á hálendinu. Í lýsingu Eiríks Hafliðasonar frá því um 1740 eru að minnsta kosti nefndar vörður á Sprengisandi. Leifar af ævagömlum vörðum við hálendisleiðir hafa og fundist á Vatnahjalla og við Eyfirðingaveg, norðan Hofsjökuls, og einnig hér og þar í Ódáðahrauni, þar sem Skálholtsbiskupar og aðrir embættismenn fóru um til Austurlands eftir hinni fornu Sámsleið eða Austfirðingar á leið til Alþingis og annarra erinda.
En frá elstu tímum voru vörður ekki aðeins hlaðnar upp til að auðkenna leiðir eða til að sýna landamerki. Þær voru líka settar upp á viðeigandi stöðum sem eyktarmörk til að sýna hvað tímanum leið, því að klukkur komu ekki til sögunnar hér á landi fyrr en á síðustu öldum. Af þessum sökum finnast því víða um land á fjöllum og fellum vörður eða vörðubrot sem bera hinni fornu þriggja stunda skiptingu dagsins glöggt vitni, en þrjár stundir heita eykt hjá fyrri tíðar fólki. Ef vel er leitað munum við því geta fundið dagmálavörður, hádegisvörður, nónvörður, miðaftansvöður og fleira í líkum dúr víða um land. Ef til vill eru margar þeirra orðnar lágreistar eða jafnvel hrundar af því að þær gegna ekki lengur neinu hlutverki og því er ekkert um þær skeytt, en víða munu örnefnin enn vera á sínum stað.
Á öllum tímum hafa menn líka hlaðið vörður sem minnismerki um tiltekna atburði, svo að þeir féllu síður í gleymsku. Eitt gleggsta dæmið um slíkt eru, til dæmis, Hallbjarnarvörður sem standa við Kaldadalsleið, nokkru norðar en Biskupsbrekka. Vörður þessar eru hinar stæðilegustu, þótt aldnar séu. Í Landnámu segir frá uppruna varðanna og kemur þá við sögu Hallbjörn Oddsson frá Kiðjabergi í Grímsnesi. Af frásögn Landnámu má vera augljóst að Hallbjarnarvörður voru hlaðnar sem bautasteinar yfir Hallbjörn og sjö aðra sem féllu í bardaga.
Þannig hlóðu menn vörður til minningar um vígaferli og aðra válega atburði og hefur svo trúlega verið á öllum tímum. En menn minntust líka merkra og gleðilegra atburða með því að hlaða vörður. Nægir í því sambandi að benda á Konungsvörðuna á Holtavörðuheiði sem hlaðin var til að minnast Norðurlandsferðar Kristjáns konungs X. og föruneytis hans árið 1936. Einnig má minna á vörðuþyrpingu sem stendur við veginn milli ánna Skálmar og Hólmsár á austanverðum Mýrdalssandi. Staðurinn heitir Laufskálavarða og fyrrum var það venja að allir sem þar færu um í fyrsta skipti skyldu hlaða vörðu sér til fararheilla.
Konungsvarða við gömlu leiðina yfir Holtavörðuheiðivar var hlaðin til að minnast Norðurlandsferðar Kristjáns konungs X. og föruneytis hans árið 1936.
En þótt vörður væru víða hlaðnar til minningar um menn og atburði, þá fer það ekki milli mála að oftast voru þær settar upp sem vegvísar á hálendisleiðum og annars staðar, þar sem slík mannvirki voru talin gagnleg. Fornmenn ferðuðust um hálendið milli landshluta og lengi fram eftir öldum þeystu þar um biskupar og aðrir höfðingjar og embættismenn með flokka sína og fylgdarmenn. Margir aðrir eins og vermenn, skreiðarflutningamenn, kaupafólk og fleiri fóru líka um fjöllin sinna erinda og hélst svo lengi. En þegar kemur fram á 18. öld virðist tekið að draga mjög úr slíkum hálendisferðum, því að eitt af því sem Landsnefndin 1770 leggur áherslu á til viðreisnar með þjóðinni er að lagfærðir verði sem flestir fjallvegir ásamt með ýmsum öðrum samgöngubótum. Lítið varð þó úr slíkum framkvæmdum, en víst er að farið var um Sprengisand árið 1772 í tilraunarskyni og þá hafði sú leið ekki verið farin um 30 ára skeið.
Með 19. öld breyttist margt til batnaðar í landinu og fóru menn þá líka að ferðast um fjöllin í auknum mæli. Hófst þá talsverð vakning með mönnum í því skyni að lagfæra og merkja fjallvegi með vörðum. Árið 1831 var stofnað svonefnt Fjallvegafélag að frumkvæði Bjarna Thorarensen, síðar amtmanns. Fékk hann til liðs við sig ýmsa málsmetandi menn. Eitthvert fjármagn fékk félagið úr opinberum sjóðum, en félagsmenn lögðu líka mikið fram sjálfir. Markmið félagsins var að auðvelda ferðalög og flutninga milli héraða og landshluta með því að ryðja reiðgötur, byggja sæluhús og hlaða vörður. Fór þetta vel af stað og þegar um sumarið 1831 var reist sæluhús í Fornahvammi og hlaðnar um 100 vörður á leiðinni yfir Holtavörðuheiði. Á næstu árum var rudd leið um Vatnahjalla og merkt með vörðum. Með þessari framkvæmd á Vatnahjalla var mönnum auðvelduð leiðin suður á Sprengisand sem og á Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og af honum suður á Kjalveg. Félagið lét einnig lagfæra vegi og hlaða vörður á Kaldadal, Grímstunguheiði og Stórasandi sem og á Arnarvatnsheiði og víðar. En fljótlega dofnaði yfir félaginu og hafði það fyrir nokkru lagt upp laupana, þegar Bjarni skáld féll frá árið 1841.
Enn er víða að finna varðaðar leiðir. Þessi varða er á leiðinni yfir Svartaskarð, á milli Furufjarðar og Þarlátursfjarðar á Hornströndum.
En hreyfing komst aftur á þessi mál undir aldamótin 1900. Árið 1897 kom hingað til lands danskur vísindamaður, Daniel Bruun að nafni, og ferðaðist víða í því skyni að rannsaka eyðibýli og fleira. Páll Briem, amtmaður að norðan og austan, kynntist Daniel þessum og fékk hann til að kanna vegastæði á nokkrum hálendisleiðum í ferðum sínum. Í framhaldi af því var Kjalvegur merktur og varðaður sumrin 1898 og 99. Svo kom að Sprengisandi, en leiðin úr Bárðardal og suður fyrir Kiðagil var vörðuð sumarið 1901. Á næstu árum var verkinu haldið áfram og lokið við það um sumarið 1906.
Í framhaldi af þessum samgöngubótum á helstu hálendisvegunum tóku menn víða að lagfæra vegi um fjöll og heiðar milli byggða og þá jafnframt að hressa við gamlar vörður og hlaða upp nýjar. Má í því sambandi benda á leiðina um Mývatns- og Möðrudalsöræfi sem og Jökuldalsheiði og marga aðra fjallvegi úti um allt land. Síðasta skipulagða stórátakið sem gert var í því að hlaða vörður á hálendisleiðum var árið 1922. Þá var reist sæluhús á Hveravöllum og Kjalvegur varðaður að nýju.
Að endingu skal nefnd sérstök tegund af vörðum sem kallaðar voru beinakerlingar. Voru þær margar hverjar stórar og stæðilegar. Slíkar vörður urðu í umræðu ferðamanna eins konar persónugervingar kvenna og þá einkum gleðikvenna. Ferðamennirnir gerðu gjarnan klúrar vísur í orðastað þessara beinakerlinga, settu í hrosslegg eða sauðarlegg og stungu síðan milli steina í vörðurnar. Slíkar vísur voru sem sé stílaðar frá beinakerlingu til þeirra sem síðar fóru um veginn. Var þetta gert til skemmtunar í fásinni þeirra sem fóru um fjöllin.
Myndir:
Þetta svar er töluvert stytt útgáfa af greininni Vörður og varðaðar leiðir sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. ágúst 1995 og birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.
Jón R. Hjálmarsson (1922-2018). „Hvenær fóru menn að leggja vörður á Íslandi og til hvers?“ Vísindavefurinn, 16. apríl 2019, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75570.
Jón R. Hjálmarsson (1922-2018). (2019, 16. apríl). Hvenær fóru menn að leggja vörður á Íslandi og til hvers? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75570
Jón R. Hjálmarsson (1922-2018). „Hvenær fóru menn að leggja vörður á Íslandi og til hvers?“ Vísindavefurinn. 16. apr. 2019. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75570>.