Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvar eru Hveravellir og hver er jarðfræðisaga svæðisins?

Snæbjörn Guðmundsson

Hveravellir eru einn af magnaðri stöðum hálendisins. Þeir liggja í um 600 metra hæð, mitt á milli tveggja af stærstu jökulhvelum landsins, Hofsjökuls til austurs og Langjökuls til vesturs. Í þessari hæð er gróður af skornum skammti og er svæðið heldur eyðilegt yfir að líta. Hverasvæðið sjálft er ekki mikið um sig en hverirnir eru afar fjölbreyttir og á síðkvöldum seinni hluta sumars gefa þeir svæðinu drungalegan og hálfskuggalegan blæ.

Saga svæðisins er áhugaverð en það liggur mitt á milli byggða norðan og sunnan lands og hefur þjóðleið legið þar um aldir. Frægustu íbúar svæðisins eru án efa Fjalla-Eyvindur og Halla, sem þar höfðust við á síðari hluta 18. aldar. Nokkru sunnan við hverasvæðið má sjá leifar af bústað þeirra en þau suðu mat sinn í hver einum nálægt hreysinu. Sæluhús hafa að öllum líkindum staðið á Hveravöllum um aldir en árið 1922 var þar reist nýtt hús á grunni eldri húss. Árið 1937 reisti svo Ferðafélag Íslands þar skála, einn af þremur elstu skálum félagsins, og hefur svæðið því verið áfangastaður ferðamanna um langa hríð. Hveravellir eru hins vegar viðkvæmir og þarf að búa vel um svæðið eigi það að njóta sín sem ferðamannastaður til frambúðar.

Hveravellir liggja í um 600 metra hæð, mitt á milli tveggja af stærstu jökulhvelum landsins, Hofsjökuls til austurs og Langjökuls til vesturs. Í þessari hæð er gróður af skornum skammti og er svæðið heldur eyðilegt yfir að líta.

Segja má að Hveravellir séu nokkurs konar krúnudjásn hálendissvæðisins á milli Hofsjökuls og Langjökuls, sem nefnist einu nafni Kjölur. Til suðurs afmarkast Kjölur af Hvítá og Jökulfalli en Seyðisá og Svörtukvísl í norðri. Svæðið er afar áhugavert vegna fjölbreyttrar jarðfræði en þar má finna margs konar gosmyndanir, jökla og jökulmenjar ísaldarjökulsins ásamt fallegum lindasvæðum. Til austurs liggja stórar megineldstöðvar í Kerlingarfjöllum og undir Hofsjökli en við Hveravelli er eystri jaðar þriðju megineldstöðvarinnar. Sú eldstöð er oftast kennd við Þjófadali en stundum einfaldlega við sjálfa Hveravelli. Eldstöðvakerfi Þjófadalaeldstöðvarinnar hverfist um norðurhluta Langjökuls þar sem megineldstöð virðist liggja hálfgrafin undir jöklinum, en illu heilli hefur kerfið verið ákaflega lítið kannað.

Austur af Hveravöllum, rétt norður af sjálfum Þjófadölum, liggja bogadregin Þjófadalafjöll og er talið að þau séu brot af öskju megineldstöðvarinnar undir jöklinum. Í Þjófadalafjöllum má finna töluvert af líparíti, sem er eitt aðaleinkenni megineldstöðva, og virðast aldursgreiningar benda til þess að líparítið sé gamalt, að miklu leyti um 500-700 þúsund ára. Nokkrum sinnum hefur gosið í og við Þjófadalaeldstöðina eftir að ísaldarjökla leysti fyrir um tíu þúsund árum, en flest gosin hafa verið minni háttar fyrir utan það sem skóp Kjalhraun fyrir um 8000 árum. Yngsta gosið í kerfinu er líklegast það sem myndaði Krákshraun norður á Stórasandi, en það er talið um 4500 ára gamalt.

Hveravellir liggja í norðurjaðri Kjalhrauns, beint norður af eldstöðvunum sem gátu af sér hraunið. Kjalhraun varð til í miklu dyngjugosi, snemma eftir að ísaldarjökullinn hvarf af landinu, og hefur rúmmál hraunsins verið talið liggja á bilinu sex til ellefu rúmkílómetrar. Það er því með stærstu hraunum sem runnið hafa á landinu eftir ísöld. Kjalhraun er gott dæmi um marflatt helluhraun, sem hefur verið mjög þunnfljótandi er það rann. Er það eitt einkenna dyngjuhrauna eins og Kjalhrauns að kvikan sem kemur upp er mjög heit, en hátt hitastig ásamt efnasamsetningu dyngjuhraunanna veldur því að hraunin eru þunnfljótandi og mynda slétt helluhraun.

Kjalhraun er því greitt yfirferðar og er tilvalið að ganga frá Hveravöllum suður að Strýtum, toppgígunum í kolli Kjalhraunsdyngjunnar. Frá Hveravöllum að gígnum er um fimm til sex kílómetra gangur en dyngjan er aflíðandi og því er heildarhækkun aðeins um 200 metrar á þessari leið. Strýturnar fá nafn sitt af fallegum hraunstrýtum sem raða sér umhverfis toppgíginn sjálfann, sem er um hálfur kílómetri í þvermál og því stórfenglegt náttúrufyrirbrigði.

Á Hveravöllum má finna fjölbreytta flóru hvera, svo sem bæði gufu- og leirhveri þótt vatnshverir séu algengastir.

Hveravellir eru sjálfir háhitasvæði og má finna þar fjölbreytta flóru hvera, svo sem bæði gufu- og leirhveri þótt vatnshverir séu algengastir. Umhverfis hverina hefur áberandi fallegt og fjölskrúðugt hverahrúður byggst upp. Hverahrúður eins og sjá má við hverina á Hveravöllum myndast við útfellingu uppleystra efna úr hveravatninu þegar vatnið kólnar við yfirborð þeirra. Útfellingarnar samanstanda að mestu af kísli en kísilinnihald hveravatnsins á Hveravöllum er með því hæsta sem finnst á Íslandi. Skýrir það hinar tilkomumiklu hveraútfellingar á svæðinu en einnig þykir litadýrðin óvenjumikil á Hveravöllum.

Af þekktum hverum á svæðinu má nefna gufuaugað Öskurhól en áður fyrr blístraði hann og er nafn hans dregið af því. Skammt frá Öskurhól eru Eyvindarhver og Rauðihver, en þessir þrír hverir eru með þeim elstu á svæðinu. Nokkru nær skála Ferðafélagins eru Bláhver og Grænihver, en sá síðari gýs af og til smáum gosum. Handan við göngustíginn eru tveir hverir, sem nefnast Fagrihver og Meyjarauga, en þeir hafa raunar báðir „stolið“ sínum nöfnum því áður fyrr áttu nöfn þeirra við aðra hveri á svæðinu.

Þegar eldri rannsóknir á Hveravöllum eru skoðaðar sést hins vegar að hverasvæðið breytist hratt og hverir á svæðinu kvikna og kulna nokkuð ört. Þannig færast þekkt nöfn á milli hvera, þegar eldri hverfa og nýrri sækja í sig veðrið. Meginhluti hverasvæðisins á Hveravöllum liggur rétt norðan við sjálft Kjalhraunið en þar suður af liggur annað hverasvæði í sjálfu hrauninu, sem einnig er vert að kanna ef tími gefst.

Heimildir:
  • Árni Hjartarson og Magnús Ólafsson. 2005. Hveravellir. Könnun og kortlagning háhitasvæðis. Orkustofnun, Reykjavík.
  • Guðmundur Kjartansson. 1964. Ísaldarlok og eldfjöll á Kili. Náttúrufræðingurinn 34 (1), 9-38.
  • Helgi Torfason. 1997. Jarðhitarannsóknir á Hveravöllum 1996
  • . Orkustofnun, Reykjavík.
  • Sigurður Pétursson. 1961. Frá Hveravöllum. Náttúrufræðingurinn 31 (3), 117-126.
  • Sinton, J. Karl Grönvold og Kristján Sæmundsson. 2005. Postglacial eruptive history of the Western Volcanic Zone, Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems 6 (12).

Myndir:

Upprunalega spurningin var:
Hver er jarðfræðisaga Hveravalla? Hver er tilurð hverasvæðis, hrauns, fjalla og vatna í nágrenni? Hvernig er dýra- og jurtalíf?


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Höfundur

Snæbjörn Guðmundsson

jarðfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands

Útgáfudagur

22.6.2018

Spyrjandi

Sigurður Skagfjörð Steingrímsson

Tilvísun

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvar eru Hveravellir og hver er jarðfræðisaga svæðisins?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2018, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=30707.

Snæbjörn Guðmundsson. (2018, 22. júní). Hvar eru Hveravellir og hver er jarðfræðisaga svæðisins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30707

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvar eru Hveravellir og hver er jarðfræðisaga svæðisins?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2018. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30707>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvar eru Hveravellir og hver er jarðfræðisaga svæðisins?
Hveravellir eru einn af magnaðri stöðum hálendisins. Þeir liggja í um 600 metra hæð, mitt á milli tveggja af stærstu jökulhvelum landsins, Hofsjökuls til austurs og Langjökuls til vesturs. Í þessari hæð er gróður af skornum skammti og er svæðið heldur eyðilegt yfir að líta. Hverasvæðið sjálft er ekki mikið um sig en hverirnir eru afar fjölbreyttir og á síðkvöldum seinni hluta sumars gefa þeir svæðinu drungalegan og hálfskuggalegan blæ.

Saga svæðisins er áhugaverð en það liggur mitt á milli byggða norðan og sunnan lands og hefur þjóðleið legið þar um aldir. Frægustu íbúar svæðisins eru án efa Fjalla-Eyvindur og Halla, sem þar höfðust við á síðari hluta 18. aldar. Nokkru sunnan við hverasvæðið má sjá leifar af bústað þeirra en þau suðu mat sinn í hver einum nálægt hreysinu. Sæluhús hafa að öllum líkindum staðið á Hveravöllum um aldir en árið 1922 var þar reist nýtt hús á grunni eldri húss. Árið 1937 reisti svo Ferðafélag Íslands þar skála, einn af þremur elstu skálum félagsins, og hefur svæðið því verið áfangastaður ferðamanna um langa hríð. Hveravellir eru hins vegar viðkvæmir og þarf að búa vel um svæðið eigi það að njóta sín sem ferðamannastaður til frambúðar.

Hveravellir liggja í um 600 metra hæð, mitt á milli tveggja af stærstu jökulhvelum landsins, Hofsjökuls til austurs og Langjökuls til vesturs. Í þessari hæð er gróður af skornum skammti og er svæðið heldur eyðilegt yfir að líta.

Segja má að Hveravellir séu nokkurs konar krúnudjásn hálendissvæðisins á milli Hofsjökuls og Langjökuls, sem nefnist einu nafni Kjölur. Til suðurs afmarkast Kjölur af Hvítá og Jökulfalli en Seyðisá og Svörtukvísl í norðri. Svæðið er afar áhugavert vegna fjölbreyttrar jarðfræði en þar má finna margs konar gosmyndanir, jökla og jökulmenjar ísaldarjökulsins ásamt fallegum lindasvæðum. Til austurs liggja stórar megineldstöðvar í Kerlingarfjöllum og undir Hofsjökli en við Hveravelli er eystri jaðar þriðju megineldstöðvarinnar. Sú eldstöð er oftast kennd við Þjófadali en stundum einfaldlega við sjálfa Hveravelli. Eldstöðvakerfi Þjófadalaeldstöðvarinnar hverfist um norðurhluta Langjökuls þar sem megineldstöð virðist liggja hálfgrafin undir jöklinum, en illu heilli hefur kerfið verið ákaflega lítið kannað.

Austur af Hveravöllum, rétt norður af sjálfum Þjófadölum, liggja bogadregin Þjófadalafjöll og er talið að þau séu brot af öskju megineldstöðvarinnar undir jöklinum. Í Þjófadalafjöllum má finna töluvert af líparíti, sem er eitt aðaleinkenni megineldstöðva, og virðast aldursgreiningar benda til þess að líparítið sé gamalt, að miklu leyti um 500-700 þúsund ára. Nokkrum sinnum hefur gosið í og við Þjófadalaeldstöðina eftir að ísaldarjökla leysti fyrir um tíu þúsund árum, en flest gosin hafa verið minni háttar fyrir utan það sem skóp Kjalhraun fyrir um 8000 árum. Yngsta gosið í kerfinu er líklegast það sem myndaði Krákshraun norður á Stórasandi, en það er talið um 4500 ára gamalt.

Hveravellir liggja í norðurjaðri Kjalhrauns, beint norður af eldstöðvunum sem gátu af sér hraunið. Kjalhraun varð til í miklu dyngjugosi, snemma eftir að ísaldarjökullinn hvarf af landinu, og hefur rúmmál hraunsins verið talið liggja á bilinu sex til ellefu rúmkílómetrar. Það er því með stærstu hraunum sem runnið hafa á landinu eftir ísöld. Kjalhraun er gott dæmi um marflatt helluhraun, sem hefur verið mjög þunnfljótandi er það rann. Er það eitt einkenna dyngjuhrauna eins og Kjalhrauns að kvikan sem kemur upp er mjög heit, en hátt hitastig ásamt efnasamsetningu dyngjuhraunanna veldur því að hraunin eru þunnfljótandi og mynda slétt helluhraun.

Kjalhraun er því greitt yfirferðar og er tilvalið að ganga frá Hveravöllum suður að Strýtum, toppgígunum í kolli Kjalhraunsdyngjunnar. Frá Hveravöllum að gígnum er um fimm til sex kílómetra gangur en dyngjan er aflíðandi og því er heildarhækkun aðeins um 200 metrar á þessari leið. Strýturnar fá nafn sitt af fallegum hraunstrýtum sem raða sér umhverfis toppgíginn sjálfann, sem er um hálfur kílómetri í þvermál og því stórfenglegt náttúrufyrirbrigði.

Á Hveravöllum má finna fjölbreytta flóru hvera, svo sem bæði gufu- og leirhveri þótt vatnshverir séu algengastir.

Hveravellir eru sjálfir háhitasvæði og má finna þar fjölbreytta flóru hvera, svo sem bæði gufu- og leirhveri þótt vatnshverir séu algengastir. Umhverfis hverina hefur áberandi fallegt og fjölskrúðugt hverahrúður byggst upp. Hverahrúður eins og sjá má við hverina á Hveravöllum myndast við útfellingu uppleystra efna úr hveravatninu þegar vatnið kólnar við yfirborð þeirra. Útfellingarnar samanstanda að mestu af kísli en kísilinnihald hveravatnsins á Hveravöllum er með því hæsta sem finnst á Íslandi. Skýrir það hinar tilkomumiklu hveraútfellingar á svæðinu en einnig þykir litadýrðin óvenjumikil á Hveravöllum.

Af þekktum hverum á svæðinu má nefna gufuaugað Öskurhól en áður fyrr blístraði hann og er nafn hans dregið af því. Skammt frá Öskurhól eru Eyvindarhver og Rauðihver, en þessir þrír hverir eru með þeim elstu á svæðinu. Nokkru nær skála Ferðafélagins eru Bláhver og Grænihver, en sá síðari gýs af og til smáum gosum. Handan við göngustíginn eru tveir hverir, sem nefnast Fagrihver og Meyjarauga, en þeir hafa raunar báðir „stolið“ sínum nöfnum því áður fyrr áttu nöfn þeirra við aðra hveri á svæðinu.

Þegar eldri rannsóknir á Hveravöllum eru skoðaðar sést hins vegar að hverasvæðið breytist hratt og hverir á svæðinu kvikna og kulna nokkuð ört. Þannig færast þekkt nöfn á milli hvera, þegar eldri hverfa og nýrri sækja í sig veðrið. Meginhluti hverasvæðisins á Hveravöllum liggur rétt norðan við sjálft Kjalhraunið en þar suður af liggur annað hverasvæði í sjálfu hrauninu, sem einnig er vert að kanna ef tími gefst.

Heimildir:
  • Árni Hjartarson og Magnús Ólafsson. 2005. Hveravellir. Könnun og kortlagning háhitasvæðis. Orkustofnun, Reykjavík.
  • Guðmundur Kjartansson. 1964. Ísaldarlok og eldfjöll á Kili. Náttúrufræðingurinn 34 (1), 9-38.
  • Helgi Torfason. 1997. Jarðhitarannsóknir á Hveravöllum 1996
  • . Orkustofnun, Reykjavík.
  • Sigurður Pétursson. 1961. Frá Hveravöllum. Náttúrufræðingurinn 31 (3), 117-126.
  • Sinton, J. Karl Grönvold og Kristján Sæmundsson. 2005. Postglacial eruptive history of the Western Volcanic Zone, Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems 6 (12).

Myndir:

Upprunalega spurningin var:
Hver er jarðfræðisaga Hveravalla? Hver er tilurð hverasvæðis, hrauns, fjalla og vatna í nágrenni? Hvernig er dýra- og jurtalíf?


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda....