Ef maður borðar of mikið af vítamíni sem maður setur í vatn getur eitthvað gerst, er það vont fyrir mann?Þó að vítamín og steinefni séu nauðsynleg er ekki þar með sagt að margfaldur dagskammtur sé margfalt hollari. Í svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Er hættulegt að taka of mikið af vítamínum? má lesa um einkenni vítamínofneyslu. Á Íslandi voru teknir upp norrænir ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir vítamín og steinefni að undangenginni vinnu faghóps á vegum Embættis landlæknis. Við bendum lesendum á að kynna sér þessar upplýsingar um ráðlagða dagskammta. Vítamín finnast meðal annars í ávöxtum og grænmeti en svo er einnig hægt að sækja sér viðbót með alls kyns vítamínstöflum og bætiefnum, þar á meðal með vítamínbættu drykkjarvatni og vítamíntöflum sem leystar eru upp í kranavatni. Vítamín skiptast í tvo flokka; vatnsleysanleg og fituleysanleg. Munurinn á þeim er fyrst og fremst sá að við losum okkur á einfaldan hátt við umframmagn þeirra vatnsleysanlegu með þvagi, en fituleysanlegu vítamínin geta hins vegar safnast upp í líkamanum. Þar sem óþarfa birgðir af vatnsleysanlegu vítamínunum skiljast út þegar við pissum, þurfum við einnig að gæta þess að endurnýja vítamínbirgðir af þeim reglulega. Hægt er að lesa meira um þetta í svari við spurningunni Hvað eru vítamín og til hvers þurfum við þau? Fituleysanlegu vítamínin geymir líkaminn einkum í lifur og fituvef og hann hefur því varabirgðir til að ganga á. Þess vegna er ekki eins nauðsynlegt að neyta þeirra vítamína daglega. Ef of mikið safnast upp af fituleysanlegu vítamínunum getur það hinsvegar valdið skaða. Vatnsleysanleg vítamín eru:
- Þíamín (B1-vítamín)
- Ríbóflavín (B2-vítamín)
- Níasín (B3-vítamín)
- Pýridoxín (B6-vítamín)
- Kóbalamín (B12-vítamín)
- Fólat (fólínsýra/fólasín)
- C-vítamín (askorbínsýra)
- Bíótín
- Pantóþensýra

Vítamín-freyðitöflur innihalda margar blöndu af vatnsleysanlegum og fituleysanlegum vítamínum auk steinefna. Ofneysla þeirra getur verið varasöm.
- Vitamin B effervescent tablet (sótt 4.6.2018). Myndin er birt undir leyfi Creative Commons CC0.