Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru táknmál eins uppbyggð og önnur mál?

Rannveig Sverrisdóttir

Hér er þessum spurningum svarað:
Eru táknmál eins uppbyggð og önnur mál? Eru fallbeygingar í táknmáli?

Samkvæmt vefsíðunni Ethnologue sem hefur að geyma skrá yfir tungumál heimsins eru til 142 táknmál[1] en líklegt má telja að þau séu töluvert fleiri. Rannsóknir á táknmálum hófust ekki fyrr en eftir miðja tuttugustu öldina og án efa eru mörg táknmál sem málvísindamenn þekkja ekki til og eru því ekki skráð í Ethnologue. Efasemdir um að táknmál séu fullgild tungumál eru sem betur fer á undanhaldi en grundvallarmunurinn á táknmálum og raddmálum er miðlunarhátturinn, táknmál eru tjáð með höndum og líkama og numin með sjón á meðan raddmál eru tjáð með röddu og numin með heyrn (mörg raddmál hafa svo líka ritmál sem þá er tjáð í skrift og numið með sjón).

Táknmál eru náttúrleg mál sem spretta upp í samfélögum fólks sem ekki heyrir. Máltaka táknmála fer fram á sama hátt og máltaka raddmála, börn sem sjá málið í umhverfi sínu og fá nægt ílag læra viðkomandi táknmál án formlegrar kennslu. Börn sem læra táknmál sem sitt fyrsta mál hjala með höndunum og einnig benda rannsóknir til þess að börn geti myndað merkingarbær tákn fyrr en þau ná að mynda orð. Það skýrist af því að talfærin sem raddmál nota þroskast seinna en talfæri táknmála.[2]

Flestum táknum fylgir ákveðin munnhreyfing sem getur greint á milli merkinga tveggja tákna, til dæmis eru táknin fyrir SYSTIR og BRÓÐIR eins hvað varðar alla aðra þætti en munnhreyfingar.

Í grundvallaratriðum má segja að uppbygging táknmála sé eins og raddmála en miðlunarhátturinn er annar og það hefur áhrif á málfræðina. Það skal þó tekið fram að raddmál eru líka ólíkrar gerðar og uppbygging ólíkra raddmála á margan hátt ólík, þó grundvallaratriðin séu þau sömu. Táknin, „orð“ í táknmálum, eru sett saman af merkingarlausum einingum sem mynda merkingarbærar einingar, alveg eins og orð raddmála. Táknmál hafa því „hljóðkerfi“ en það hugtak er notað þótt ekki sé um hljóð að ræða því kerfið sem um er rætt er sambærilegt.[3] Í stað hljóða og aðgreinandi þátta þeirra hafa tákn svokallaðar grunnbreytur en hvert tákn er sett saman af handformi (lögun og myndun handarinnar), hreyfingu og myndunarstað. Þetta benti „fyrsti táknmálsmálfræðingurinn“, William Stokoe, á í grein sem hann birti árið 1960.[4] Flestum táknum fylgir líka ákveðin munnhreyfing sem getur greint á milli merkinga tveggja tákna, til dæmis eru táknin fyrir SYSTIR og BRÓÐIR[5] eins hvað varðar alla aðra þætti en munnhreyfingar.[6] Tákn raðast svo saman og mynda setningar og setningaliði alveg eins og í raddmálum en þar koma svokölluð látbrigði (e. non-manuals) við sögu. Látbrigðin eru mynduð í andliti og með líkama, til dæmis eru spurnarsetningar merktar með því að lyfta augabrúnum og neitun gefin til kynna með því að hrista höfuðið.

Ýmis smáorð sem við þekkjum úr íslensku, eins og til dæmis samtengingar og forsetningar eru talin óþörf í táknmálum en í stað þess að nota samtengingar má færa líkamann í rýminu.[7] Forsetningar standa með öðrum orðum og gefa til kynna málfræðilegar upplýsingar, til dæmis um afstöðu hluta og staðsetningu (til/frá/að og svo framvegis), en sökum þess að táknmál eru þrívíð mál mynduð í rýminu þá er þessi afstaða gefin til kynna með staðsetningum og afstöðu hluta til annarra hluta. Dæmi um setningu þar sem forsetning er óþörf væri til dæmis „bókin er á borðinu“ þar sem forsetningin „á“ er gefin til kynna með því að staðsetja bókina á ímynduðu borði sem hefur verið gefin staðsetning. Annað dæmi væri til dæmis „maðurinn gekk að húsinu“, þá er húsinu gefinn staður í rými og svo táknið fyrir manninn hreyft í átt að þeim stað en stöðvað áður en að húsinu kemur, óþarfi er að mynda tákn fyrir „að“ því hreyfing táknsins og staðsetningar eru nægilegar til að merkingin verði skýr.

Táknmál er ekki eingöngu byggt upp á táknum heldur eru líka mynduð látbrigði í andliti og með líkama.

Í íslensku stýra forsetningar falli nafnorðanna sem þær standa með og hér liggur því beint við að svara þeirri spurningu hvort það séu fallbeygingar í táknmáli. Því er auðsvarað, nei, ekkert táknmál sem rannsakað hefur verið beygir nafnorð í föllum. Þeim upplýsingum sem föllin fela í sér er komið til skila á annan hátt, með orðaröð eða staðsetningum og beygingum í rými eins og dæmin hér að framan sýna.

Auk miðlunarháttarins má segja að það sem helst greini uppbyggingu táknmála frá uppbyggingu raddmála sé svokölluð sammyndun. Sammyndun er mjög algeng í táknmálum, bæði í myndun setninga, þar sem höfuð er hrist á meðan táknin STELPA HEIMA eru mynduð í merkingunni „stelpan er ekki heima“, og í myndun tákna, á meðan hljóð í raddmálsorðum raðast saman í hljóðastreng þá eru breyturnar í tákni myndaðar samtímis. Sammyndun er þó líka til í raddmálum, til dæmis í tónamálum og hljómfall má líka telja sammyndun, um leið og orð er myndað er hægt að leggja áherslu á það með tónfalli.

Svarið við spurningunni „eru táknmál eins uppbyggð og önnur mál?“ er því bæði já og nei. Tungumál, þar með talin táknmál eru í grundvallaratriðum eins uppbyggð en mál eru af ýmsum gerðum og mál ólíkra ætta eru gjarnan ólík. Miðlunarháttur táknmála er annar en raddmála og það gerir uppbyggingu málanna ólíka.

Tilvísanir:
 1. ^ Sjá Ethnologue. Languages of the World. Sótt 2. febrúar 2019.
 2. ^ Chen Pichler 2012, bls. 661.
 3. ^ Sandler og Lillo-Martin 2006, bls. 113, sjá einnig Baker o.fl. 2016.
 4. ^ Sjá Stokoe 1960 og Sandler og Lillo-Martin 2006, bls. 113-114.
 5. ^ Táknmál hafa ekki ritmál en venja er að skrá/glósa tákn með hástöfum, þá er merking táknsins skráð en glósan segir ekkert til um myndun táknsins.
 6. ^ Táknin má sjá á vefsíðunni SignWiki.
 7. ^ Elísa G. Brynjólfsdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir 2014.

Heimildir og myndir:
 • Baker, Anne, Beppie van den Bogaerde, Roland Pfau og Trude Schermer (ritstj.). 2016. The Linguistics of Sign Languages. An Introduction. John Benjamins Publishing Company, Amsterdam/Philadelphia.
 • Chen Pichler, Deborah. 2012. Acquisition. Roland Pfau, Markus Steinbach og Bencie Woll (ritstj.): Sign Language. An International Handbook, bls. 647-686. De Gruyter Mouton, Berlin/Boston.
 • Elísa G. Brynjólfsdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir. 2014. Að tengja saman epli og appelsínur. Aðaltengingar í íslenska táknmálinu. Íslenskt mál og almenn málfræði 36, 127-137.
 • Ethnologue. Languages of the World. Vefslóð: https://www.ethnologue.com/
 • Sandler, Wendy og Diane Lillo-Martin. 2006. Sign Language and Linguistics Universals. Cambridge University Press, New York.
 • Stokoe, William C. 1960. Sign Language Structure: An Outline of the Visual Communication Systems of the American Deaf. Studies in Linguistics Occasional Papers 8. University of Buffalo Press, Buffalo. [Endurútgefið 2005 í Journal of Deaf Studies and Deaf Education 10,1:3-37. [Rafræn útgáfa.] Sótt 2. febrúar 2019 af http://jdsde.oxfordjournals.org/content/10/1/3.full.pdf.]
 • Systir - SignWiki. (Sótt 6.02.2019).
 • Úr safni RS.

Höfundur

Rannveig Sverrisdóttir

lektor í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við HÍ

Útgáfudagur

11.2.2019

Spyrjandi

Arnþór, ritstjórn

Tilvísun

Rannveig Sverrisdóttir. „Eru táknmál eins uppbyggð og önnur mál?“ Vísindavefurinn, 11. febrúar 2019, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77098.

Rannveig Sverrisdóttir. (2019, 11. febrúar). Eru táknmál eins uppbyggð og önnur mál? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77098

Rannveig Sverrisdóttir. „Eru táknmál eins uppbyggð og önnur mál?“ Vísindavefurinn. 11. feb. 2019. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77098>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru táknmál eins uppbyggð og önnur mál?
Hér er þessum spurningum svarað:

Eru táknmál eins uppbyggð og önnur mál? Eru fallbeygingar í táknmáli?

Samkvæmt vefsíðunni Ethnologue sem hefur að geyma skrá yfir tungumál heimsins eru til 142 táknmál[1] en líklegt má telja að þau séu töluvert fleiri. Rannsóknir á táknmálum hófust ekki fyrr en eftir miðja tuttugustu öldina og án efa eru mörg táknmál sem málvísindamenn þekkja ekki til og eru því ekki skráð í Ethnologue. Efasemdir um að táknmál séu fullgild tungumál eru sem betur fer á undanhaldi en grundvallarmunurinn á táknmálum og raddmálum er miðlunarhátturinn, táknmál eru tjáð með höndum og líkama og numin með sjón á meðan raddmál eru tjáð með röddu og numin með heyrn (mörg raddmál hafa svo líka ritmál sem þá er tjáð í skrift og numið með sjón).

Táknmál eru náttúrleg mál sem spretta upp í samfélögum fólks sem ekki heyrir. Máltaka táknmála fer fram á sama hátt og máltaka raddmála, börn sem sjá málið í umhverfi sínu og fá nægt ílag læra viðkomandi táknmál án formlegrar kennslu. Börn sem læra táknmál sem sitt fyrsta mál hjala með höndunum og einnig benda rannsóknir til þess að börn geti myndað merkingarbær tákn fyrr en þau ná að mynda orð. Það skýrist af því að talfærin sem raddmál nota þroskast seinna en talfæri táknmála.[2]

Flestum táknum fylgir ákveðin munnhreyfing sem getur greint á milli merkinga tveggja tákna, til dæmis eru táknin fyrir SYSTIR og BRÓÐIR eins hvað varðar alla aðra þætti en munnhreyfingar.

Í grundvallaratriðum má segja að uppbygging táknmála sé eins og raddmála en miðlunarhátturinn er annar og það hefur áhrif á málfræðina. Það skal þó tekið fram að raddmál eru líka ólíkrar gerðar og uppbygging ólíkra raddmála á margan hátt ólík, þó grundvallaratriðin séu þau sömu. Táknin, „orð“ í táknmálum, eru sett saman af merkingarlausum einingum sem mynda merkingarbærar einingar, alveg eins og orð raddmála. Táknmál hafa því „hljóðkerfi“ en það hugtak er notað þótt ekki sé um hljóð að ræða því kerfið sem um er rætt er sambærilegt.[3] Í stað hljóða og aðgreinandi þátta þeirra hafa tákn svokallaðar grunnbreytur en hvert tákn er sett saman af handformi (lögun og myndun handarinnar), hreyfingu og myndunarstað. Þetta benti „fyrsti táknmálsmálfræðingurinn“, William Stokoe, á í grein sem hann birti árið 1960.[4] Flestum táknum fylgir líka ákveðin munnhreyfing sem getur greint á milli merkinga tveggja tákna, til dæmis eru táknin fyrir SYSTIR og BRÓÐIR[5] eins hvað varðar alla aðra þætti en munnhreyfingar.[6] Tákn raðast svo saman og mynda setningar og setningaliði alveg eins og í raddmálum en þar koma svokölluð látbrigði (e. non-manuals) við sögu. Látbrigðin eru mynduð í andliti og með líkama, til dæmis eru spurnarsetningar merktar með því að lyfta augabrúnum og neitun gefin til kynna með því að hrista höfuðið.

Ýmis smáorð sem við þekkjum úr íslensku, eins og til dæmis samtengingar og forsetningar eru talin óþörf í táknmálum en í stað þess að nota samtengingar má færa líkamann í rýminu.[7] Forsetningar standa með öðrum orðum og gefa til kynna málfræðilegar upplýsingar, til dæmis um afstöðu hluta og staðsetningu (til/frá/að og svo framvegis), en sökum þess að táknmál eru þrívíð mál mynduð í rýminu þá er þessi afstaða gefin til kynna með staðsetningum og afstöðu hluta til annarra hluta. Dæmi um setningu þar sem forsetning er óþörf væri til dæmis „bókin er á borðinu“ þar sem forsetningin „á“ er gefin til kynna með því að staðsetja bókina á ímynduðu borði sem hefur verið gefin staðsetning. Annað dæmi væri til dæmis „maðurinn gekk að húsinu“, þá er húsinu gefinn staður í rými og svo táknið fyrir manninn hreyft í átt að þeim stað en stöðvað áður en að húsinu kemur, óþarfi er að mynda tákn fyrir „að“ því hreyfing táknsins og staðsetningar eru nægilegar til að merkingin verði skýr.

Táknmál er ekki eingöngu byggt upp á táknum heldur eru líka mynduð látbrigði í andliti og með líkama.

Í íslensku stýra forsetningar falli nafnorðanna sem þær standa með og hér liggur því beint við að svara þeirri spurningu hvort það séu fallbeygingar í táknmáli. Því er auðsvarað, nei, ekkert táknmál sem rannsakað hefur verið beygir nafnorð í föllum. Þeim upplýsingum sem föllin fela í sér er komið til skila á annan hátt, með orðaröð eða staðsetningum og beygingum í rými eins og dæmin hér að framan sýna.

Auk miðlunarháttarins má segja að það sem helst greini uppbyggingu táknmála frá uppbyggingu raddmála sé svokölluð sammyndun. Sammyndun er mjög algeng í táknmálum, bæði í myndun setninga, þar sem höfuð er hrist á meðan táknin STELPA HEIMA eru mynduð í merkingunni „stelpan er ekki heima“, og í myndun tákna, á meðan hljóð í raddmálsorðum raðast saman í hljóðastreng þá eru breyturnar í tákni myndaðar samtímis. Sammyndun er þó líka til í raddmálum, til dæmis í tónamálum og hljómfall má líka telja sammyndun, um leið og orð er myndað er hægt að leggja áherslu á það með tónfalli.

Svarið við spurningunni „eru táknmál eins uppbyggð og önnur mál?“ er því bæði já og nei. Tungumál, þar með talin táknmál eru í grundvallaratriðum eins uppbyggð en mál eru af ýmsum gerðum og mál ólíkra ætta eru gjarnan ólík. Miðlunarháttur táknmála er annar en raddmála og það gerir uppbyggingu málanna ólíka.

Tilvísanir:
 1. ^ Sjá Ethnologue. Languages of the World. Sótt 2. febrúar 2019.
 2. ^ Chen Pichler 2012, bls. 661.
 3. ^ Sandler og Lillo-Martin 2006, bls. 113, sjá einnig Baker o.fl. 2016.
 4. ^ Sjá Stokoe 1960 og Sandler og Lillo-Martin 2006, bls. 113-114.
 5. ^ Táknmál hafa ekki ritmál en venja er að skrá/glósa tákn með hástöfum, þá er merking táknsins skráð en glósan segir ekkert til um myndun táknsins.
 6. ^ Táknin má sjá á vefsíðunni SignWiki.
 7. ^ Elísa G. Brynjólfsdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir 2014.

Heimildir og myndir:
 • Baker, Anne, Beppie van den Bogaerde, Roland Pfau og Trude Schermer (ritstj.). 2016. The Linguistics of Sign Languages. An Introduction. John Benjamins Publishing Company, Amsterdam/Philadelphia.
 • Chen Pichler, Deborah. 2012. Acquisition. Roland Pfau, Markus Steinbach og Bencie Woll (ritstj.): Sign Language. An International Handbook, bls. 647-686. De Gruyter Mouton, Berlin/Boston.
 • Elísa G. Brynjólfsdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir. 2014. Að tengja saman epli og appelsínur. Aðaltengingar í íslenska táknmálinu. Íslenskt mál og almenn málfræði 36, 127-137.
 • Ethnologue. Languages of the World. Vefslóð: https://www.ethnologue.com/
 • Sandler, Wendy og Diane Lillo-Martin. 2006. Sign Language and Linguistics Universals. Cambridge University Press, New York.
 • Stokoe, William C. 1960. Sign Language Structure: An Outline of the Visual Communication Systems of the American Deaf. Studies in Linguistics Occasional Papers 8. University of Buffalo Press, Buffalo. [Endurútgefið 2005 í Journal of Deaf Studies and Deaf Education 10,1:3-37. [Rafræn útgáfa.] Sótt 2. febrúar 2019 af http://jdsde.oxfordjournals.org/content/10/1/3.full.pdf.]
 • Systir - SignWiki. (Sótt 6.02.2019).
 • Úr safni RS.

...