Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig var farið að því að hafa samband við huldufólk?

Rósa Þorsteinsdóttir

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:
Eru til þjóðsögur eða heimildir um hvernig fólk hafði samband við eða kallaði fram huldufólk?

Í 22. kafla Kormáks sögu er sagt frá því að álfum er boðið til veislu eða nokkurs konar álfablóts. Maður einn sem hafði særst í bardaga leitar ráða hjá Þórdísi spákonu og hún segir: „Hóll einn er héðan skammt í brott, er álfar búa í. Graðung þann er Kormákur drap skaltu fá og rjóða blóð graðungsins á hólinn utan en gera álfum veislu af slátrinu og mun þér batna.“ Engum sögum fer þó af því hvort álfarnir voru mönnum sýnilegir við veisluna eða því hvort einhver bein samskipti urðu á milli þeirra.

Álfaborg á Borgarfirði eystri. Þar er álfadrottning Íslands sögð búa en til eru margar sögur um álfa, og samskipti álfa við heimamenn.

Í langflestum þjóðsögum sem fjalla um samskipti huldufólks við manneskjur er það huldufólkið sem hefur frumkvæðið. Huldufólk birtist fólki í draumum með alls konar erindi. Það varar fólk við eða beinlínis hótar því ef þeim finnst eitthvað hafa verið gert á sinn hlut, til dæmis vegna rasks á álagablettum, huldukonur biðja um mjólk eða annað matarkyns handa börnunum sínum og huldumenn fá fólk til að koma og veita konum sínum fæðingarhjálp. Huldukonur reyna einnig stundum að stela mennskum börnum eða hylla þau með sér inn í hulduheima og stundum sækist huldufólk eftir ástum mennskra og reyna þá að fá þau sem það leggur ástarhug á til að búa hjá sér. Þá finnast einnig sagnir af fólki sem leggur í vana sinn að heimsækja huldufólk en ekki er alltaf skýrt hvor aðilinn hefur frumkvæði að því. Stundum er þó ljóst að það getur verið eftirsóknarvert fyrir menn að heimsækja álfa og Jón lærði Guðmundsson segir að útskeifir menn séu best „fallnir til að ganga í hóla eður kletta“ (JÁ II xxv), en þeir þurfi einnig að hafa kefli sem galdrastafir hafa verið ristir á í hnésbótunum og eirbryddaðan sprota til að slá á hólinn eða klettinn ásamt því að fara með galdraformúlu. Sumar þessar sögur gefa í skyn að fólk hafi gengið í hóla og kletta til þess að sækja sér galdrakunnáttu en aðrar fjalla um fólk sem fer til álfanna til að njóta ásta.

Það er helst eftirsóknin eftir gulli og gersemum sem fær fólk í þjóðsögum til þess að laða til sín huldufólk. Þessar sögur segja frá svokallaðri „útisetu“ þar sem fólk situr á krossgötum þá nótt sem huldufólk er helst á ferðinni, oftast jólanótt eða nýársnótt. Frá þessu er sagt í þjóðsögum Jóns Árnasonar:

Þegar menn sitja á krossgötum þá koma álfar úr öllum áttum og þyrpast að manni og biðja hann að koma með sér, en maður má engu gegna; þá bera þeir að manni alls konar gersemar, gull og silfur, klæði, mat og drykk. En maður má ekkert þiggja. Þar koma álfakonur í líki móður og systur manns og biðja mann að koma, og allra bragða er leitað. En þegar dagur rennur þá á maður að standa upp og segja: „Guði sé lof, nú er dagur um allt loft.“ Þá hverfa allir álfar, en þessi álfaauður verður eftir og hann á þá maðurinn. – En svari maður eða þiggi boð álfa þá er maður heillaður og verður vitstola og aldrei síðan mönnum sinnandi. Því varð manni sem Fúsi hét og sat úti á jólanótt og stóðst lengi þangað til ein álfakonan kom með stóra flotskildi og bauð honum að bíta í. Þá leit Fúsi við og sagði það sem síðar er að orðtæki haft: „Sjaldan hef ég flotinu neitað;“ beit hann þá bita sinn úr flotskildinum og trylltist og varð vitlaus. (JÁ I 118)

Heimildir og mynd:

  • Kormáks saga. Íslensk fornrit VIII. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag, 1939.
  • Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjvík: Þjóðsaga, 1954–1961.
  • Mynd: Alfaborg - Palace of the Elves - Flickr.com. Höfundur myndar: Amaury Laporte. Birt undir https://creativecommons.org/licenses/by/2.0/ leyfi. (Sótt 8.8.2022).

Höfundur

Rósa Þorsteinsdóttir

rannsóknarlektor á þjóðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

19.8.2022

Spyrjandi

Helga

Tilvísun

Rósa Þorsteinsdóttir. „Hvernig var farið að því að hafa samband við huldufólk?“ Vísindavefurinn, 19. ágúst 2022, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83249.

Rósa Þorsteinsdóttir. (2022, 19. ágúst). Hvernig var farið að því að hafa samband við huldufólk? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83249

Rósa Þorsteinsdóttir. „Hvernig var farið að því að hafa samband við huldufólk?“ Vísindavefurinn. 19. ágú. 2022. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83249>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig var farið að því að hafa samband við huldufólk?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Eru til þjóðsögur eða heimildir um hvernig fólk hafði samband við eða kallaði fram huldufólk?

Í 22. kafla Kormáks sögu er sagt frá því að álfum er boðið til veislu eða nokkurs konar álfablóts. Maður einn sem hafði særst í bardaga leitar ráða hjá Þórdísi spákonu og hún segir: „Hóll einn er héðan skammt í brott, er álfar búa í. Graðung þann er Kormákur drap skaltu fá og rjóða blóð graðungsins á hólinn utan en gera álfum veislu af slátrinu og mun þér batna.“ Engum sögum fer þó af því hvort álfarnir voru mönnum sýnilegir við veisluna eða því hvort einhver bein samskipti urðu á milli þeirra.

Álfaborg á Borgarfirði eystri. Þar er álfadrottning Íslands sögð búa en til eru margar sögur um álfa, og samskipti álfa við heimamenn.

Í langflestum þjóðsögum sem fjalla um samskipti huldufólks við manneskjur er það huldufólkið sem hefur frumkvæðið. Huldufólk birtist fólki í draumum með alls konar erindi. Það varar fólk við eða beinlínis hótar því ef þeim finnst eitthvað hafa verið gert á sinn hlut, til dæmis vegna rasks á álagablettum, huldukonur biðja um mjólk eða annað matarkyns handa börnunum sínum og huldumenn fá fólk til að koma og veita konum sínum fæðingarhjálp. Huldukonur reyna einnig stundum að stela mennskum börnum eða hylla þau með sér inn í hulduheima og stundum sækist huldufólk eftir ástum mennskra og reyna þá að fá þau sem það leggur ástarhug á til að búa hjá sér. Þá finnast einnig sagnir af fólki sem leggur í vana sinn að heimsækja huldufólk en ekki er alltaf skýrt hvor aðilinn hefur frumkvæði að því. Stundum er þó ljóst að það getur verið eftirsóknarvert fyrir menn að heimsækja álfa og Jón lærði Guðmundsson segir að útskeifir menn séu best „fallnir til að ganga í hóla eður kletta“ (JÁ II xxv), en þeir þurfi einnig að hafa kefli sem galdrastafir hafa verið ristir á í hnésbótunum og eirbryddaðan sprota til að slá á hólinn eða klettinn ásamt því að fara með galdraformúlu. Sumar þessar sögur gefa í skyn að fólk hafi gengið í hóla og kletta til þess að sækja sér galdrakunnáttu en aðrar fjalla um fólk sem fer til álfanna til að njóta ásta.

Það er helst eftirsóknin eftir gulli og gersemum sem fær fólk í þjóðsögum til þess að laða til sín huldufólk. Þessar sögur segja frá svokallaðri „útisetu“ þar sem fólk situr á krossgötum þá nótt sem huldufólk er helst á ferðinni, oftast jólanótt eða nýársnótt. Frá þessu er sagt í þjóðsögum Jóns Árnasonar:

Þegar menn sitja á krossgötum þá koma álfar úr öllum áttum og þyrpast að manni og biðja hann að koma með sér, en maður má engu gegna; þá bera þeir að manni alls konar gersemar, gull og silfur, klæði, mat og drykk. En maður má ekkert þiggja. Þar koma álfakonur í líki móður og systur manns og biðja mann að koma, og allra bragða er leitað. En þegar dagur rennur þá á maður að standa upp og segja: „Guði sé lof, nú er dagur um allt loft.“ Þá hverfa allir álfar, en þessi álfaauður verður eftir og hann á þá maðurinn. – En svari maður eða þiggi boð álfa þá er maður heillaður og verður vitstola og aldrei síðan mönnum sinnandi. Því varð manni sem Fúsi hét og sat úti á jólanótt og stóðst lengi þangað til ein álfakonan kom með stóra flotskildi og bauð honum að bíta í. Þá leit Fúsi við og sagði það sem síðar er að orðtæki haft: „Sjaldan hef ég flotinu neitað;“ beit hann þá bita sinn úr flotskildinum og trylltist og varð vitlaus. (JÁ I 118)

Heimildir og mynd:

  • Kormáks saga. Íslensk fornrit VIII. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag, 1939.
  • Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjvík: Þjóðsaga, 1954–1961.
  • Mynd: Alfaborg - Palace of the Elves - Flickr.com. Höfundur myndar: Amaury Laporte. Birt undir https://creativecommons.org/licenses/by/2.0/ leyfi. (Sótt 8.8.2022).

...