Sólin Sólin Rís 06:37 • sest 20:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:16 • Síðdegis: 22:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:58 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:37 • sest 20:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:16 • Síðdegis: 22:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:58 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er æskilegt að urða lífrænan heimilisúrgang eins og matarúrgang?

Stefán Gíslason

„Nei“ er stutta svarið við þessari spurningu. Frá umhverfislegu sjónarmiði er urðun lífræns heimilisúrgangs (lífúrgangs) aldrei æskileg og reyndar ekki urðun annarra úrgangsflokka heldur. Fyrir þessu eru í aðalatriðum tvenns konar rök:

1. Auðlindarök

Þegar efni er urðað er verið að taka úr umferð allar þær auðlindir sem felast í efninu og koma í veg fyrir frekari nýtingu þeirra. Með öðrum orðum tapast þessar auðlindir úr hringrásinni, hvort sem við tölum um náttúrulega hringrás eða hringrás hagkerfisins. Þegar um lífúrgang er að ræða eru þessar auðlindir einkum næringarefni sem hefðu getað nýst sem fæða fyrir fólk, fóður fyrir önnur dýr eða næring (áburður) fyrir plöntur. Þessi næringarefni eru að vissu marki endurnýjanleg, því að ljóstillífandi plöntur framleiða lífræna efnið að mestu leyti úr vatni og koltvíoxíði andrúmsloftsins. En þar þarf fleira til. Til dæmis inniheldur lífrænt efni alla jafna fosfór sem plönturnar hafa fengið úr jarðveginum þar sem þær uxu (eða í sjónum ef við erum til dæmis að tala um þörunga). Fosfór er frumefni, sem gengur í sjálfu sér aldrei til þurrðar, en samt vofir fosfórskortur yfir mannkyninu. Fosfór sem búið er að grafa í jörðu verður ekki auðveldlega aðgengilegur á nýjan leik.

Matarleifar eru stór hluti þess lífúrgangs sem til fellur.

Matarleifar eru stór hluti þess lífúrgangs sem til fellur. Auðlindirnar sem liggja í einum matarbita eru ekki bara næringarefnin sjálf, heldur líka meðal annars öll sú orka sem notuð var til að plægja akurinn, rækta kornið, þurrka það, mala það, flytja það á vinnslustað, framleiða úr því vöru, geyma vöruna (til dæmis í frysti), flytja hana á markað, matreiða hana og svo framvegis. Í flestum tilvikum hefur líka verið notað heilmikið af vatni í öllu þessu ferli, tilbúinn áburður, varnarefni og ýmis aukaefni (viðbættur sykur, salt, krydd, rotvarnarefni og þar fram eftir götunum). Ef vara fer til spillis (til dæmis í urðun) þarf væntanlega að endurtaka allt ferlið til að búa til nýja vöru, sem annars hefði mátt sleppa að búa til eða alla vega fresta. Með urðun er sem sagt ekki bara verið að sóa matarbitanum sjálfum, heldur líka allri orkunni, öllu vatninu og öllum hjálparefnunum sem voru notuð til að búa hann til.

Metangasi sem losnar frá urðunarstöðum (sjá síðar) er víða safnað og jafnvel nýtt sem eldsneyti í staðinn fyrir bensín eða dísilolíu. Þar er vissulega verið að nýta hluta af auðlindunum sem liggja í þessu efni. En orkan úr metaninu, ein og sér, er samt bara örlítið brot af þeim auðlindum sem úrgangurinn tekur með sér í gröfina.

Þessu öllu til viðbótar er gott að hafa í huga að Ísland er eina landið í Vestur-Evrópu þar sem eyðimerkurmyndun er verulegt vandamál. Á hverju ári missum við ótrúlegt magn af jarðvegi vegna rofs af völdum vatns og vinda og vegna ógætilegrar umgengni okkar um landið (ofbeitar, framræslu votlendis, verklegra framkvæmda og svo framvegis). Allan lífúrgang sem til fellur í landinu væri hægt að nýta til að leggja drög að nýjum jarðvegi í stað þess sem tapast. Það má til dæmis gera með jarðgerð.

Lífúrgang sem til fellur er hægt að nýta til að leggja drög að nýjum jarðvegi, til dæmis með jarðgerð.

Loks má minna á að land er líka auðlind. Með því að nýta land til að urða þar úrgang er verið að takmarka nýtingarmöguleika þessa sama lands til langrar framtíðar.

2. Mengunarrök

Nánast allri urðun fylgir mengun. Þegar lífúrgangur er urðaður myndast til að mynda sigvatn sem inniheldur mikið magn næringarefna sem geta borist í grunnvatn og yfirborðsvatn í næsta umhverfi og breytt lífríkinu sem þar þrífst. Rotnun lífúrgangsins fylgir líka mikil og óþægileg lykt, sem gerir það meðal annars að verkum að fæstir hafa áhuga á að búa í nágrenni urðunarstaða. Lyktin laðar auk heldur að sér ýmis dýr sem við tölum oftast um sem meindýr, til dæmis mýs, rottur, máva, hrafna og jafnvel refi, sem oft ná að dreifa úrganginum enn frekar með tilheyrandi óþrifum og sýkingarhættu. Og þegar rotnunin á sér stað undir yfirborðinu, þar sem súrefni loftsins kemst ekki að, myndast metangas sem er mjög öflug gróðurhúsalofttegund og eykur enn á loftslagsvandann sem steðjar að okkur öllum. Við rotnunina myndast líka töluverður hiti sem í nokkrum tilvikum hefur leitt til eldsvoða á urðunarstöðum.

Lífúrgangur virðist kannski frekar sakleysislegur við fyrstu sýn, þar sem að í þessum úrgangi er oftast lítið af eiturefnum. En þegar á urðunarstaðinn er komið er það samt lífræni úrgangurinn sem veldur hvað mestum vanda. Án hans væru sigvatnið, lyktin, meindýrin, metanlosunin og eldhættan miklu minni vandamál.

Myndir:

Höfundur

Stefán Gíslason

umhverfisstjórnunarfræðingur MSc

Útgáfudagur

29.3.2023

Spyrjandi

Sigrún Ágústsdóttir

Tilvísun

Stefán Gíslason. „Er æskilegt að urða lífrænan heimilisúrgang eins og matarúrgang?“ Vísindavefurinn, 29. mars 2023, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83987.

Stefán Gíslason. (2023, 29. mars). Er æskilegt að urða lífrænan heimilisúrgang eins og matarúrgang? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83987

Stefán Gíslason. „Er æskilegt að urða lífrænan heimilisúrgang eins og matarúrgang?“ Vísindavefurinn. 29. mar. 2023. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83987>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er æskilegt að urða lífrænan heimilisúrgang eins og matarúrgang?
„Nei“ er stutta svarið við þessari spurningu. Frá umhverfislegu sjónarmiði er urðun lífræns heimilisúrgangs (lífúrgangs) aldrei æskileg og reyndar ekki urðun annarra úrgangsflokka heldur. Fyrir þessu eru í aðalatriðum tvenns konar rök:

1. Auðlindarök

Þegar efni er urðað er verið að taka úr umferð allar þær auðlindir sem felast í efninu og koma í veg fyrir frekari nýtingu þeirra. Með öðrum orðum tapast þessar auðlindir úr hringrásinni, hvort sem við tölum um náttúrulega hringrás eða hringrás hagkerfisins. Þegar um lífúrgang er að ræða eru þessar auðlindir einkum næringarefni sem hefðu getað nýst sem fæða fyrir fólk, fóður fyrir önnur dýr eða næring (áburður) fyrir plöntur. Þessi næringarefni eru að vissu marki endurnýjanleg, því að ljóstillífandi plöntur framleiða lífræna efnið að mestu leyti úr vatni og koltvíoxíði andrúmsloftsins. En þar þarf fleira til. Til dæmis inniheldur lífrænt efni alla jafna fosfór sem plönturnar hafa fengið úr jarðveginum þar sem þær uxu (eða í sjónum ef við erum til dæmis að tala um þörunga). Fosfór er frumefni, sem gengur í sjálfu sér aldrei til þurrðar, en samt vofir fosfórskortur yfir mannkyninu. Fosfór sem búið er að grafa í jörðu verður ekki auðveldlega aðgengilegur á nýjan leik.

Matarleifar eru stór hluti þess lífúrgangs sem til fellur.

Matarleifar eru stór hluti þess lífúrgangs sem til fellur. Auðlindirnar sem liggja í einum matarbita eru ekki bara næringarefnin sjálf, heldur líka meðal annars öll sú orka sem notuð var til að plægja akurinn, rækta kornið, þurrka það, mala það, flytja það á vinnslustað, framleiða úr því vöru, geyma vöruna (til dæmis í frysti), flytja hana á markað, matreiða hana og svo framvegis. Í flestum tilvikum hefur líka verið notað heilmikið af vatni í öllu þessu ferli, tilbúinn áburður, varnarefni og ýmis aukaefni (viðbættur sykur, salt, krydd, rotvarnarefni og þar fram eftir götunum). Ef vara fer til spillis (til dæmis í urðun) þarf væntanlega að endurtaka allt ferlið til að búa til nýja vöru, sem annars hefði mátt sleppa að búa til eða alla vega fresta. Með urðun er sem sagt ekki bara verið að sóa matarbitanum sjálfum, heldur líka allri orkunni, öllu vatninu og öllum hjálparefnunum sem voru notuð til að búa hann til.

Metangasi sem losnar frá urðunarstöðum (sjá síðar) er víða safnað og jafnvel nýtt sem eldsneyti í staðinn fyrir bensín eða dísilolíu. Þar er vissulega verið að nýta hluta af auðlindunum sem liggja í þessu efni. En orkan úr metaninu, ein og sér, er samt bara örlítið brot af þeim auðlindum sem úrgangurinn tekur með sér í gröfina.

Þessu öllu til viðbótar er gott að hafa í huga að Ísland er eina landið í Vestur-Evrópu þar sem eyðimerkurmyndun er verulegt vandamál. Á hverju ári missum við ótrúlegt magn af jarðvegi vegna rofs af völdum vatns og vinda og vegna ógætilegrar umgengni okkar um landið (ofbeitar, framræslu votlendis, verklegra framkvæmda og svo framvegis). Allan lífúrgang sem til fellur í landinu væri hægt að nýta til að leggja drög að nýjum jarðvegi í stað þess sem tapast. Það má til dæmis gera með jarðgerð.

Lífúrgang sem til fellur er hægt að nýta til að leggja drög að nýjum jarðvegi, til dæmis með jarðgerð.

Loks má minna á að land er líka auðlind. Með því að nýta land til að urða þar úrgang er verið að takmarka nýtingarmöguleika þessa sama lands til langrar framtíðar.

2. Mengunarrök

Nánast allri urðun fylgir mengun. Þegar lífúrgangur er urðaður myndast til að mynda sigvatn sem inniheldur mikið magn næringarefna sem geta borist í grunnvatn og yfirborðsvatn í næsta umhverfi og breytt lífríkinu sem þar þrífst. Rotnun lífúrgangsins fylgir líka mikil og óþægileg lykt, sem gerir það meðal annars að verkum að fæstir hafa áhuga á að búa í nágrenni urðunarstaða. Lyktin laðar auk heldur að sér ýmis dýr sem við tölum oftast um sem meindýr, til dæmis mýs, rottur, máva, hrafna og jafnvel refi, sem oft ná að dreifa úrganginum enn frekar með tilheyrandi óþrifum og sýkingarhættu. Og þegar rotnunin á sér stað undir yfirborðinu, þar sem súrefni loftsins kemst ekki að, myndast metangas sem er mjög öflug gróðurhúsalofttegund og eykur enn á loftslagsvandann sem steðjar að okkur öllum. Við rotnunina myndast líka töluverður hiti sem í nokkrum tilvikum hefur leitt til eldsvoða á urðunarstöðum.

Lífúrgangur virðist kannski frekar sakleysislegur við fyrstu sýn, þar sem að í þessum úrgangi er oftast lítið af eiturefnum. En þegar á urðunarstaðinn er komið er það samt lífræni úrgangurinn sem veldur hvað mestum vanda. Án hans væru sigvatnið, lyktin, meindýrin, metanlosunin og eldhættan miklu minni vandamál.

Myndir:...