Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvernig fer danski seðlabankinn að því að láta dönsku krónuna fylgja gengi evrunnar?

Gylfi Magnússon

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvernig framkvæmir danski seðlabankinn það frá degi til dags að halda krónunni (DKK) fasttengdri við evruna?

Þótt Danir séu í Evrópusambandinu hafa þeir ekki tekið upp evruna að öllu leyti. Þeir hafa í þess stað fest gengi dönsku krónunnar við gengi evrunnar. Nánar tiltekið stefna þeir að því að halda genginu þannig að hver evra kosti 7,46038 danskar krónur. Þeir leyfa sér ákveðin vikmörk, þannig að gengið má sveiflast um allt að 2,25% í aðra hvora áttina frá þessu gengi. Sveiflurnar hafa þó sögulega verið mun minni en það. Frá ársbyrjun 2004 hefur danska krónan mest verið 0,42% yfir þessu gengi þegar hún var sterkust og minnst 0,17% undir þessu gengi þegar hún var veikust.

Danski seðlabankinn tekur þátt í svokölluðu ERM 2 (e. Exchange Rate Mechanism) samstarfi innan Evrópusambandsins en það er kerfi til að halda gjaldmiðlum ríkja sem eru í ESB en ekki með evru tiltölulega stöðugum gagnvart evru. Auk Dana taka nú Króatar og Búlgarir þátt í samstarfinu, auk evrópska seðlabankans (ECB). Evrópski seðlabankinn styður því danska seðlabankann í viðleitni hans til að halda genginu stöðugu.

Til að halda gengi dönsku krónunnar stöðugu þarf danski seðlabankinn að hafa stýrivexti sína þá sömu eða mjög svipaða og stýrivexti evrópska seðlabankans. Myndin sýnir höfuðstöðvar evrópska seðlabankans í Frankfurt.

Danski seðlabankinn verður að hafa stýrivexti sína þá sömu eða mjög svipaða og stýrivexti evrópska seðlabankans til að halda genginu stöðugu. Ef vextir væru hærri í Danmörku væri hætt við að gengi dönsku krónunnar hækkaði of mikið og öfugt ef vextir væru lægri í Danmörku. Einnig getur danski seðlabankinn keypt evrur fyrir danskar krónur ef hann telur að gengi dönsku krónunnar sé að styrkjast um of og selt evrur fyrir danskar krónur ef gengið er í veikari kantinum. Hið sama getur evrópski seðlabankinn gert. Vegna þess að danski seðlabankinn getur búið til danskar krónur að vild og sá evrópski búið til evrur geta þeir í sameiningu alltaf átt í nægum viðskiptum með danskar krónur fyrir evrur til að halda genginu stöðugu.

Í reynd þýðir þetta fyrirkomulag að Danir gætu allt eins tekið upp evru. Efnahagsáhrifin eru nánast þau sömu, fyrir utan smáumstang við að skipta seðlum úr einni mynt í aðra. Það er líka auðvitað auðveldara að nota evrur en danskar krónur utan Danmerkur þannig að Danir fara á mis við það hagræði af því að nota mynt sem hefur sterka alþjóðlega stöðu. Notkunin á eigin seðlum og mynt er bara táknræn. Þó gæti skipt máli að ef Danir vilja einhvern tíma í framtíðinni hætta að nota þessa dönsku evru þá væri einfaldara að hætta við fastgengið en það væri fyrir land sem notar evru að hætta því og taka upp sjálfstæða mynt.

Mynd:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

13.10.2022

Spyrjandi

Heimir

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvernig fer danski seðlabankinn að því að láta dönsku krónuna fylgja gengi evrunnar?“ Vísindavefurinn, 13. október 2022. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84184.

Gylfi Magnússon. (2022, 13. október). Hvernig fer danski seðlabankinn að því að láta dönsku krónuna fylgja gengi evrunnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84184

Gylfi Magnússon. „Hvernig fer danski seðlabankinn að því að láta dönsku krónuna fylgja gengi evrunnar?“ Vísindavefurinn. 13. okt. 2022. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84184>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig fer danski seðlabankinn að því að láta dönsku krónuna fylgja gengi evrunnar?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvernig framkvæmir danski seðlabankinn það frá degi til dags að halda krónunni (DKK) fasttengdri við evruna?

Þótt Danir séu í Evrópusambandinu hafa þeir ekki tekið upp evruna að öllu leyti. Þeir hafa í þess stað fest gengi dönsku krónunnar við gengi evrunnar. Nánar tiltekið stefna þeir að því að halda genginu þannig að hver evra kosti 7,46038 danskar krónur. Þeir leyfa sér ákveðin vikmörk, þannig að gengið má sveiflast um allt að 2,25% í aðra hvora áttina frá þessu gengi. Sveiflurnar hafa þó sögulega verið mun minni en það. Frá ársbyrjun 2004 hefur danska krónan mest verið 0,42% yfir þessu gengi þegar hún var sterkust og minnst 0,17% undir þessu gengi þegar hún var veikust.

Danski seðlabankinn tekur þátt í svokölluðu ERM 2 (e. Exchange Rate Mechanism) samstarfi innan Evrópusambandsins en það er kerfi til að halda gjaldmiðlum ríkja sem eru í ESB en ekki með evru tiltölulega stöðugum gagnvart evru. Auk Dana taka nú Króatar og Búlgarir þátt í samstarfinu, auk evrópska seðlabankans (ECB). Evrópski seðlabankinn styður því danska seðlabankann í viðleitni hans til að halda genginu stöðugu.

Til að halda gengi dönsku krónunnar stöðugu þarf danski seðlabankinn að hafa stýrivexti sína þá sömu eða mjög svipaða og stýrivexti evrópska seðlabankans. Myndin sýnir höfuðstöðvar evrópska seðlabankans í Frankfurt.

Danski seðlabankinn verður að hafa stýrivexti sína þá sömu eða mjög svipaða og stýrivexti evrópska seðlabankans til að halda genginu stöðugu. Ef vextir væru hærri í Danmörku væri hætt við að gengi dönsku krónunnar hækkaði of mikið og öfugt ef vextir væru lægri í Danmörku. Einnig getur danski seðlabankinn keypt evrur fyrir danskar krónur ef hann telur að gengi dönsku krónunnar sé að styrkjast um of og selt evrur fyrir danskar krónur ef gengið er í veikari kantinum. Hið sama getur evrópski seðlabankinn gert. Vegna þess að danski seðlabankinn getur búið til danskar krónur að vild og sá evrópski búið til evrur geta þeir í sameiningu alltaf átt í nægum viðskiptum með danskar krónur fyrir evrur til að halda genginu stöðugu.

Í reynd þýðir þetta fyrirkomulag að Danir gætu allt eins tekið upp evru. Efnahagsáhrifin eru nánast þau sömu, fyrir utan smáumstang við að skipta seðlum úr einni mynt í aðra. Það er líka auðvitað auðveldara að nota evrur en danskar krónur utan Danmerkur þannig að Danir fara á mis við það hagræði af því að nota mynt sem hefur sterka alþjóðlega stöðu. Notkunin á eigin seðlum og mynt er bara táknræn. Þó gæti skipt máli að ef Danir vilja einhvern tíma í framtíðinni hætta að nota þessa dönsku evru þá væri einfaldara að hætta við fastgengið en það væri fyrir land sem notar evru að hætta því og taka upp sjálfstæða mynt.

Mynd:...