Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers lenskur var Tarzan og hvar gerast ævintýrin um hann?

Henry Alexander Henrysson

John Clayton, sem við flest þekkjum undir nafninu Tarzan, er enskur greifi kenndur við Graystoke. Eftir að hann missti foreldra sína barnungur ólst hann upp meðal apa af óræðri tegund í skógum Afríku. Enginn veit nákvæmlega í hvaða landi foreldrar hans voru skilin eftir af uppreisnarmönnum sem tóku yfir skip þeirra þar sem það sigldi með vesturströnd Afríku. Staðhættir margra landa á svæðinu falla illa að lýsingum á því hvernig hæðótt landslag er vaxið þykkum frumskógi allt fram að strönd. Lönd sem hafa verið nefnd í ljósi lýsinganna eru Kamerún, Gabon, Lýðveldið Kongó og Lýðstjórnarlýðveldið Kongó. Eftir að Tarzan komst á legg er erfiðara að staðsetja þær uppákomur sem hafa einkennt líf hans. Þar sem nú er Lýðstjórnarlýðveldið Kongó er þó líklega það landsvæði sem helst kemur til greina. Kann skýringin að vera stærð landsins og fjölbreytni náttúrunnar. Flest það sem Afríku prýðir rúmast innan landamæra þess mikla ríkis.

Ljósmynd sem sýnir þorpsbúa í Kongó einhvern tíma á árunum 1900-1915.

Hér verður þó að taka það fram að Tarzan er sögupersóna skáldverks eftir bandaríska rithöfundinn Edgar Rice Burroughs (1875–1950). Fyrsta skáldsagan kom út um ævintýri þessa unga enska aðalsmanns árið 1914 en sagan hafði birst tveimur árum fyrr í tímaritinu All-Story Magazine. Höfundurinn hefur haft mjög takmarkaða þekkingu á Afríku og verið án almennilegs myndefnis og staðháttalýsinga. Á þeim tíma var Afríka enn þá hin myrka heimsálfa. Þó er furðumargt í þeim sögum sem Burroughs sjálfur skráði af ævintýrum Tarzans án alvarlegra missagna og má til dæmis segja að það hafi verið sérstök framsýni að láta barnið ekki alast upp af górillum eða öðrum þekktum tegundum mannapa, eins og reyndar stundum fólk virðist standa í trú um. Er þar kannski helst um að kenna vinsælli teiknimynd Disney sem lætur vesturgórillur annast munaðarleysingjann John Clayton.

Tarzan hefur auðgað ímyndunarafl okkar áratugum saman vegna þess að í honum koma saman margir þeir eiginleikar sem vekja aðdáun og von. Líkamlega er hann hinn fullkomni karlmaður og siðferðisáttavitinn ávallt hárrétt stilltur. Myndin sýnir stillu úr kvikmyndinni Tarzan the Fearless frá árinu 1933.

Hér er það nefnt sem ákveðin framsýni hjá Burroughs þar sem þekking okkar á lifnaðarháttum mismunandi tegunda górilluapa er fremur nýtilkomin. Fram að því mátti nokkurn veginn halda hverju sem var fram um hegðun ólíkra tegunda apa. Það hefði getað reynst Burroughs einfalt mál að setja alls konar staðhæfingar um lífshætti þessara dýra, górilla eða simpansa, í bækur sínar. Hann ákvað hins vegar að láta þá manngervingu apana sem kemur fram í sögunum af Tarzan eiga við óþekkta tegund. Á Vesturlöndum þurftum við að bíða eftir frumkvöðlastarfi rannsakenda á borð við Dian Fossey (1932–1985) og Jane Goodall (f. 1934) til að kynnast þeim dýrategundum sem deila með okkur hæstu hlutfalli DNA. Og enn er mikið verk óunnið.

Vísindavefurinn getur hins vegar ekki látið hér staðar numið í að ræða tilveru Tarzans. Spurningin varpar ljósi á þann einkennilega hlut að við getum sagt bæði sannar og ósannar setningar um einhvern sem er bara alls ekki til. Setningin „Tarzan var sænskur“ er augljóslega ósönn. Það sama má segja um setninguna „Tarzan eyddi mestum hluta unglingsáranna á Madagaskar“. Vissulega er það svo að einhver gæti sagt að það sé alveg á hreinu að Tarzan sé einn af þessum hlutum sem við vitum af en sem eru ekki til. En þá vandast málið. Erum við ekki þar með að halda því fram að eitthvað sé bæði til og ekki til? Það hljómar sérkennilega. Get ég haldið því fram að setningin „Tarzan er ekki til“ sé sönn setning ef Tarzan er ekki til? Er ekki grundvallarforsenda þess að eitthvað sé satt að það vísi til einhvers sem er til?

Tarzan ólst hann upp meðal apa af óræðri tegund í skógum Afríku. Það þykir merki um framsýni höfundar að láta barnið ekki alast upp af górillum eða öðrum þekktum tegundum mannapa, eins og reyndar stundum fólk virðist standa í trú um. Er þar kannski helst um að kenna vinsælli teiknimynd Disney sem lætur vesturgórillur, eins og myndin sýnir, annast munaðarleysingjann John Clayton.

Í þessu stutta svari gefst ekkert ráðrúm til að fara nákvæmlega ofan í hvernig heimspekingar hafa reynt að leysa þennan vanda um hluti sem hafa þann kost helstan að vera ekki til. Svör við vandanum eru af tvennu tagi. Annars vegar er um geysilega spennandi og skemmtilegt frumspekilegt vandamál að ræða sem fólk er ekki sammála um hvernig á að leysa. Sumum finnst lausnin leynast í því að horfa til persónunnar sem sköpunarverks höfundar síns og það útskýri allt sem útskýra þarf. Aðrir sætta sig ekki við þá lausn og benda á að eiginleikarnir sem eignaðir eru Tarzan eigi sér annan uppruna og að í þeim uppruna liggi hið raunverulega vandamál. Að síðustu má finna frumspekinga sem sjá Tarzan og ævintýri hans fyrir sér sem ákveðinn veruleika en bara í mögulegum heimi.

Seinna svarið er heimspekilegt á annan máta en það væri eitthvað á þá leið að benda á mikilvægi þess að hafa aðgang að áhrifamiklum og vel útfærðum sögupersónum í gegnum ólíka miðla. Tarzan hefur auðgað ímyndunarafl okkar áratugum saman vegna þess að í honum koma saman margir þeir eiginleikar sem vekja aðdáun og von. Okkur finnst að Tarzan ætti að vera til. Líkamlega er hann hinn fullkomni karlmaður og siðferðisáttavitinn ávallt hárrétt stilltur. Hann getur synt, klifrað og kafað, jafnvel betur en þær dýrategundir sem hafa sérhæft sig í slíkum athöfnum. Hver veit nema Tarzan sé til vegna þess að hann þarf að vera til. Hugmyndin um að hið mannlega muni ekki að lokum sigra í ríki náttúrunnar er líklega of sár til að við leyfum okkur að ígrunda hana.

Myndir:

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

24.4.2017

Spyrjandi

Olga Eleonora Egonsdóttir

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Hvers lenskur var Tarzan og hvar gerast ævintýrin um hann?“ Vísindavefurinn, 24. apríl 2017, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=22186.

Henry Alexander Henrysson. (2017, 24. apríl). Hvers lenskur var Tarzan og hvar gerast ævintýrin um hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=22186

Henry Alexander Henrysson. „Hvers lenskur var Tarzan og hvar gerast ævintýrin um hann?“ Vísindavefurinn. 24. apr. 2017. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=22186>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers lenskur var Tarzan og hvar gerast ævintýrin um hann?
John Clayton, sem við flest þekkjum undir nafninu Tarzan, er enskur greifi kenndur við Graystoke. Eftir að hann missti foreldra sína barnungur ólst hann upp meðal apa af óræðri tegund í skógum Afríku. Enginn veit nákvæmlega í hvaða landi foreldrar hans voru skilin eftir af uppreisnarmönnum sem tóku yfir skip þeirra þar sem það sigldi með vesturströnd Afríku. Staðhættir margra landa á svæðinu falla illa að lýsingum á því hvernig hæðótt landslag er vaxið þykkum frumskógi allt fram að strönd. Lönd sem hafa verið nefnd í ljósi lýsinganna eru Kamerún, Gabon, Lýðveldið Kongó og Lýðstjórnarlýðveldið Kongó. Eftir að Tarzan komst á legg er erfiðara að staðsetja þær uppákomur sem hafa einkennt líf hans. Þar sem nú er Lýðstjórnarlýðveldið Kongó er þó líklega það landsvæði sem helst kemur til greina. Kann skýringin að vera stærð landsins og fjölbreytni náttúrunnar. Flest það sem Afríku prýðir rúmast innan landamæra þess mikla ríkis.

Ljósmynd sem sýnir þorpsbúa í Kongó einhvern tíma á árunum 1900-1915.

Hér verður þó að taka það fram að Tarzan er sögupersóna skáldverks eftir bandaríska rithöfundinn Edgar Rice Burroughs (1875–1950). Fyrsta skáldsagan kom út um ævintýri þessa unga enska aðalsmanns árið 1914 en sagan hafði birst tveimur árum fyrr í tímaritinu All-Story Magazine. Höfundurinn hefur haft mjög takmarkaða þekkingu á Afríku og verið án almennilegs myndefnis og staðháttalýsinga. Á þeim tíma var Afríka enn þá hin myrka heimsálfa. Þó er furðumargt í þeim sögum sem Burroughs sjálfur skráði af ævintýrum Tarzans án alvarlegra missagna og má til dæmis segja að það hafi verið sérstök framsýni að láta barnið ekki alast upp af górillum eða öðrum þekktum tegundum mannapa, eins og reyndar stundum fólk virðist standa í trú um. Er þar kannski helst um að kenna vinsælli teiknimynd Disney sem lætur vesturgórillur annast munaðarleysingjann John Clayton.

Tarzan hefur auðgað ímyndunarafl okkar áratugum saman vegna þess að í honum koma saman margir þeir eiginleikar sem vekja aðdáun og von. Líkamlega er hann hinn fullkomni karlmaður og siðferðisáttavitinn ávallt hárrétt stilltur. Myndin sýnir stillu úr kvikmyndinni Tarzan the Fearless frá árinu 1933.

Hér er það nefnt sem ákveðin framsýni hjá Burroughs þar sem þekking okkar á lifnaðarháttum mismunandi tegunda górilluapa er fremur nýtilkomin. Fram að því mátti nokkurn veginn halda hverju sem var fram um hegðun ólíkra tegunda apa. Það hefði getað reynst Burroughs einfalt mál að setja alls konar staðhæfingar um lífshætti þessara dýra, górilla eða simpansa, í bækur sínar. Hann ákvað hins vegar að láta þá manngervingu apana sem kemur fram í sögunum af Tarzan eiga við óþekkta tegund. Á Vesturlöndum þurftum við að bíða eftir frumkvöðlastarfi rannsakenda á borð við Dian Fossey (1932–1985) og Jane Goodall (f. 1934) til að kynnast þeim dýrategundum sem deila með okkur hæstu hlutfalli DNA. Og enn er mikið verk óunnið.

Vísindavefurinn getur hins vegar ekki látið hér staðar numið í að ræða tilveru Tarzans. Spurningin varpar ljósi á þann einkennilega hlut að við getum sagt bæði sannar og ósannar setningar um einhvern sem er bara alls ekki til. Setningin „Tarzan var sænskur“ er augljóslega ósönn. Það sama má segja um setninguna „Tarzan eyddi mestum hluta unglingsáranna á Madagaskar“. Vissulega er það svo að einhver gæti sagt að það sé alveg á hreinu að Tarzan sé einn af þessum hlutum sem við vitum af en sem eru ekki til. En þá vandast málið. Erum við ekki þar með að halda því fram að eitthvað sé bæði til og ekki til? Það hljómar sérkennilega. Get ég haldið því fram að setningin „Tarzan er ekki til“ sé sönn setning ef Tarzan er ekki til? Er ekki grundvallarforsenda þess að eitthvað sé satt að það vísi til einhvers sem er til?

Tarzan ólst hann upp meðal apa af óræðri tegund í skógum Afríku. Það þykir merki um framsýni höfundar að láta barnið ekki alast upp af górillum eða öðrum þekktum tegundum mannapa, eins og reyndar stundum fólk virðist standa í trú um. Er þar kannski helst um að kenna vinsælli teiknimynd Disney sem lætur vesturgórillur, eins og myndin sýnir, annast munaðarleysingjann John Clayton.

Í þessu stutta svari gefst ekkert ráðrúm til að fara nákvæmlega ofan í hvernig heimspekingar hafa reynt að leysa þennan vanda um hluti sem hafa þann kost helstan að vera ekki til. Svör við vandanum eru af tvennu tagi. Annars vegar er um geysilega spennandi og skemmtilegt frumspekilegt vandamál að ræða sem fólk er ekki sammála um hvernig á að leysa. Sumum finnst lausnin leynast í því að horfa til persónunnar sem sköpunarverks höfundar síns og það útskýri allt sem útskýra þarf. Aðrir sætta sig ekki við þá lausn og benda á að eiginleikarnir sem eignaðir eru Tarzan eigi sér annan uppruna og að í þeim uppruna liggi hið raunverulega vandamál. Að síðustu má finna frumspekinga sem sjá Tarzan og ævintýri hans fyrir sér sem ákveðinn veruleika en bara í mögulegum heimi.

Seinna svarið er heimspekilegt á annan máta en það væri eitthvað á þá leið að benda á mikilvægi þess að hafa aðgang að áhrifamiklum og vel útfærðum sögupersónum í gegnum ólíka miðla. Tarzan hefur auðgað ímyndunarafl okkar áratugum saman vegna þess að í honum koma saman margir þeir eiginleikar sem vekja aðdáun og von. Okkur finnst að Tarzan ætti að vera til. Líkamlega er hann hinn fullkomni karlmaður og siðferðisáttavitinn ávallt hárrétt stilltur. Hann getur synt, klifrað og kafað, jafnvel betur en þær dýrategundir sem hafa sérhæft sig í slíkum athöfnum. Hver veit nema Tarzan sé til vegna þess að hann þarf að vera til. Hugmyndin um að hið mannlega muni ekki að lokum sigra í ríki náttúrunnar er líklega of sár til að við leyfum okkur að ígrunda hana.

Myndir:

...