Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hvað eru eðlisfræðilegir og efnafræðilegir eiginleikar efna?

Emelía Eiríksdóttir

Eiginleikar efna eru notaðir til að bera kennsl á efnin og lýsa þeim. Þessum eiginleikum má skipta í eðlisfræðilega eiginleika (e. physical properties) og efnafræðilega eiginleika (e. chemical properties).

Eðlisfræðilegir eiginleikar efna lýsa ástandi þeirra. Mælingar á eðlisfræðilegum eiginleikum breyta ekki samsetningu efnanna, það er að segja ekkert nýtt efni myndast þegar eðlisfræðilegir eiginleikar efnis eru mældir. Eðlisfræðilegum eiginleikum má skipta frekar í eðlisbundna (e. intensive) og magnbundna (e. extensive) eiginleika.

Bræðslumark efna er dæmi um eðlisbundinn efnafræðilegan eiginleika. Bræðslumark vatns er ávallt 0°C við eina loftþyngd og er óháð magni vatnsins.

Eðlisbundinn eiginleiki byggist á eðli efnisins, það er hann er algjörlega óháður stærð eða magni efnisins. Suðumark vatns er til dæmis alltaf 100°C við eina loftþyngd (1 atm) og frostmark þess er 0°C sama hversu mikið rúmmál af vatni við höfum.

Magnbundinn eiginleiki er hins vegar, eins og nafnið gefur til kynna, háður magni efnisins. Þá skiptir máli hvort við séum með einn lítra eða tvo lítra af vatni þegar við lýsum þessum eiginleikum vatns. Fjölmörg dæmi um eðlisbundna og magnbundna eðlisfræðilega eiginleika má finna í töflu 1.

Tafla 1. Dæmi um eðlisfræðilega eiginleika.

Eðlisbundnir eiginleikar:Magnbundnir eiginleikar:
liturmassi
lyktorka
bragðlengd
gljái (e. luster)rúmmál
seigja (e. viscosity)hitastig
leysni (e. solubility)lögun (e. shape)
harka (e. hardness)óreiða (e. entropy)
eðlismassi (e. density)vermi (e. enthalpy)
seglun (e. magnetization)mólfjöldi eða mólmagn (e. number of moles)
suðumark (e. boiling point)þrýstingur (e. pressure)
mótanleiki (e. malleability) 
bræðslumark (e. melting point) 
mólmassi (e. molecular weight) 
rafleiðni (e. electrical conductivity) 
varmaleiðni (e. thermal conductivity) 
eðlisvarmarýmd (e. specific heat capacity) 
hamur eða fasi (e. phase, það er fast efni, vökvi eða gas)

Efnafræðilegir eiginleikar efnis lúta að þeim eiginleikum sem koma fram þegar efnið tekur þátt í efnahvarfi (sjá töflu 2), það er þegar efnið breytist í annað efni. Samsetning efnisins verður að breytast til að við getum mælt þessa eiginleika, ekki er nóg að horfa á efnið eða koma við það til að fá fram þá vitneskju. Eftir efnahvörf hafa myndefnin nýja eðlisfræðilega og efnafræðilega eiginleika.

Tafla 2. Dæmi um efnafræðilega eiginleika.

oxun (e. oxidation)
eituráhrif (e. toxicity)
hvarfgirni (e. reactivity)
eldfimi (e. flammability)
hvarfavarmi (e. heat of reaction)
oxunarástand (e. oxidation state)
myndunarvarmi (e. heat of formation)
brennsluvarmi (e. heat of combustion)

Eðlisfræðilegir og efnafræðilegir eiginleikar hinna mismunandi frumefna eru mismunandi. Svipaðra efnafræðilegra eiginleika gætir þó hjá frumefnum í sama flokki í lotukerfinu enda hafa þau frumefni sama fjölda gildisrafeinda (e. valence electrons) en þær ráða mestu um hegðun frumefnanna gagnvart öðrum efnum. Sumir eðlisfræðilegir eiginleikar frumefna í sama dálki geta einnig verið svipaðir.

Geislavirkni er hvorki eðlisfræðilegur né efnafræðilegur eiginleiki efnis heldur kjarnaeiginleiki þar sem innri eiginleikar geislavirkra frumeinda valda því að þær hnigna.

Athygli skal vakin á því að geislavirkni (e. radioactivity) er hvorki skilgreind sem eðlisfræðilegur né efnafræðilegur eiginleiki. Geislavirkni er sögð vera kjarnaeiginleiki enda hefur hún með kjarna frumeinda að gera. Innri eiginleikar frumeindanna valda því að geislavirkar frumeindir hnigna af sjálfu sér án utanaðkomandi áhrifa; helmingunartími geislavirkra efna breytist til dæmis ekki með hitastigi (ef það er innan venjulegra marka) eins og sjá má í svarinu Breytist helmingunartími geislavirkra efna eftir hitastigi? Geislavirkni gerist ekki í venjulegum efnahvörfum en hægt er framkvæma sundrun kjarna og kallast það ferli kjarnahvarf. Aðrir kjarnaeiginleikar eru til dæmis massatala (e. mass number), hnignunarmátar (e. decay modes), bindiorka (e. nuclear binding energy) og kjarnakljúfanleiki (e. fissionability).

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Emelía Eiríksdóttir

efnafræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

2.7.2014

Spyrjandi

Þórdís Jóhannsdóttir

Tilvísun

Emelía Eiríksdóttir. „Hvað eru eðlisfræðilegir og efnafræðilegir eiginleikar efna?“ Vísindavefurinn, 2. júlí 2014. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=23538.

Emelía Eiríksdóttir. (2014, 2. júlí). Hvað eru eðlisfræðilegir og efnafræðilegir eiginleikar efna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=23538

Emelía Eiríksdóttir. „Hvað eru eðlisfræðilegir og efnafræðilegir eiginleikar efna?“ Vísindavefurinn. 2. júl. 2014. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=23538>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru eðlisfræðilegir og efnafræðilegir eiginleikar efna?
Eiginleikar efna eru notaðir til að bera kennsl á efnin og lýsa þeim. Þessum eiginleikum má skipta í eðlisfræðilega eiginleika (e. physical properties) og efnafræðilega eiginleika (e. chemical properties).

Eðlisfræðilegir eiginleikar efna lýsa ástandi þeirra. Mælingar á eðlisfræðilegum eiginleikum breyta ekki samsetningu efnanna, það er að segja ekkert nýtt efni myndast þegar eðlisfræðilegir eiginleikar efnis eru mældir. Eðlisfræðilegum eiginleikum má skipta frekar í eðlisbundna (e. intensive) og magnbundna (e. extensive) eiginleika.

Bræðslumark efna er dæmi um eðlisbundinn efnafræðilegan eiginleika. Bræðslumark vatns er ávallt 0°C við eina loftþyngd og er óháð magni vatnsins.

Eðlisbundinn eiginleiki byggist á eðli efnisins, það er hann er algjörlega óháður stærð eða magni efnisins. Suðumark vatns er til dæmis alltaf 100°C við eina loftþyngd (1 atm) og frostmark þess er 0°C sama hversu mikið rúmmál af vatni við höfum.

Magnbundinn eiginleiki er hins vegar, eins og nafnið gefur til kynna, háður magni efnisins. Þá skiptir máli hvort við séum með einn lítra eða tvo lítra af vatni þegar við lýsum þessum eiginleikum vatns. Fjölmörg dæmi um eðlisbundna og magnbundna eðlisfræðilega eiginleika má finna í töflu 1.

Tafla 1. Dæmi um eðlisfræðilega eiginleika.

Eðlisbundnir eiginleikar:Magnbundnir eiginleikar:
liturmassi
lyktorka
bragðlengd
gljái (e. luster)rúmmál
seigja (e. viscosity)hitastig
leysni (e. solubility)lögun (e. shape)
harka (e. hardness)óreiða (e. entropy)
eðlismassi (e. density)vermi (e. enthalpy)
seglun (e. magnetization)mólfjöldi eða mólmagn (e. number of moles)
suðumark (e. boiling point)þrýstingur (e. pressure)
mótanleiki (e. malleability) 
bræðslumark (e. melting point) 
mólmassi (e. molecular weight) 
rafleiðni (e. electrical conductivity) 
varmaleiðni (e. thermal conductivity) 
eðlisvarmarýmd (e. specific heat capacity) 
hamur eða fasi (e. phase, það er fast efni, vökvi eða gas)

Efnafræðilegir eiginleikar efnis lúta að þeim eiginleikum sem koma fram þegar efnið tekur þátt í efnahvarfi (sjá töflu 2), það er þegar efnið breytist í annað efni. Samsetning efnisins verður að breytast til að við getum mælt þessa eiginleika, ekki er nóg að horfa á efnið eða koma við það til að fá fram þá vitneskju. Eftir efnahvörf hafa myndefnin nýja eðlisfræðilega og efnafræðilega eiginleika.

Tafla 2. Dæmi um efnafræðilega eiginleika.

oxun (e. oxidation)
eituráhrif (e. toxicity)
hvarfgirni (e. reactivity)
eldfimi (e. flammability)
hvarfavarmi (e. heat of reaction)
oxunarástand (e. oxidation state)
myndunarvarmi (e. heat of formation)
brennsluvarmi (e. heat of combustion)

Eðlisfræðilegir og efnafræðilegir eiginleikar hinna mismunandi frumefna eru mismunandi. Svipaðra efnafræðilegra eiginleika gætir þó hjá frumefnum í sama flokki í lotukerfinu enda hafa þau frumefni sama fjölda gildisrafeinda (e. valence electrons) en þær ráða mestu um hegðun frumefnanna gagnvart öðrum efnum. Sumir eðlisfræðilegir eiginleikar frumefna í sama dálki geta einnig verið svipaðir.

Geislavirkni er hvorki eðlisfræðilegur né efnafræðilegur eiginleiki efnis heldur kjarnaeiginleiki þar sem innri eiginleikar geislavirkra frumeinda valda því að þær hnigna.

Athygli skal vakin á því að geislavirkni (e. radioactivity) er hvorki skilgreind sem eðlisfræðilegur né efnafræðilegur eiginleiki. Geislavirkni er sögð vera kjarnaeiginleiki enda hefur hún með kjarna frumeinda að gera. Innri eiginleikar frumeindanna valda því að geislavirkar frumeindir hnigna af sjálfu sér án utanaðkomandi áhrifa; helmingunartími geislavirkra efna breytist til dæmis ekki með hitastigi (ef það er innan venjulegra marka) eins og sjá má í svarinu Breytist helmingunartími geislavirkra efna eftir hitastigi? Geislavirkni gerist ekki í venjulegum efnahvörfum en hægt er framkvæma sundrun kjarna og kallast það ferli kjarnahvarf. Aðrir kjarnaeiginleikar eru til dæmis massatala (e. mass number), hnignunarmátar (e. decay modes), bindiorka (e. nuclear binding energy) og kjarnakljúfanleiki (e. fissionability).

Heimildir:

Myndir:...